Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 399/2006

Nr. 399/2006 9. maí 2006
SAMÞYKKT
fyrir búfjárhald í Djúpavogshreppi.

1. gr.

Samþykkt þessi er sett til að tryggja skipulag, stjórnun og eftirlit með búfjárhaldi í lögsagnarumdæmi Djúpavogshrepps, m.a. til að koma í veg fyrir óeðlilegan ágang búfjár á landareignir og lóðir. Sveitarstjórn, í samráði við landbúnaðarnefnd Djúpavogshrepps, fer með framkvæmd þessarar samþykktar.

2. gr.

Með búfjárhaldi í samþykkt þessari er átt við nautgripa-, hrossa-, sauðfjár-, svína-, kanínu-, loðdýra-, geita- og alifuglahald, sbr. 2. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl. Búfjárhald er óheimilt án leyfis sveitarstjórnar Djúpavogshrepps.

3. gr.

Þeir, sem halda búfé og hafa tilkynnt það og fengið heimsókn búfjáreftirlitsmanns vorið 2006, hafa leyfi til búfjárhalds í Djúpavogshreppi við gildistöku samþykktar þessarar. Sá sem hyggst sækja um leyfi til búfjárhalds samkvæmt 2. gr. skal senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar Djúpavogshrepps. Í umsókninni skal tilgreina tegund búfjár, fjölda þess, húsakost og annað er máli kann að skipta um öryggi þess og vörslu. Telji sveitarstjórn að umsækjandi uppfylli þau skilyrði, sem krafist er samkvæmt gildandi lögum og stjórnvaldsreglum, veitir hún leyfið. Leyfið er gefið út á nafn og er ekki framseljanlegt. Leyfið er háð samþykkt þessari og er uppsegjanlegt með eins árs fyrirvara miðað við 15. júní ár hvert. Ef leyfishafi brýtur ítrekað gegn lögum nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl. eða samþykkt þessari, má svipta hann leyfi til búfjárhalds með 3ja mánaða fyrirvara.

4. gr.

Um tómstundabúskap við Djúpavog, gilda reglur vegna lóðarleigu í Löngulág. Þar er m.a. kveðið á um búfjáreign á hvern skráðan leyfishafa, sem hér greinir: Ær og gimbrar = 10, hrútar = 2 og hestar = 4. Um heimild til að halda annað búfé, eða fjölga því skv. ofanrituðu, þarf að semja sérstaklega. Einnig hefur sveitarstjórn heimild til þess að kveða sérstaklega í leigusamningum á um viðhald húsnæðis, gróðurs og beitarnytja. Byggingafulltrúi getur krafist úrbóta eða svipt viðkomandi leigusamningi með eins árs fyrirvara miðað við 15. júní ár hvert.

5. gr.

Öllum umráðamönnum búfjár í sveitarfélaginu, á lögbýlum og utan þeirra, er skylt að hafa það í vörslu innan fjárheldra girðinga sem hér segir:

a) Allir gripir aðrir en sauðfé og geitfé, allt árið.

b) Sauðfé, frá 20. nóvember til 20. maí.

Heimilt er þó umráðamanni búfjár að beita búfé á ógirt land meðan dagsbirtu nýtur, enda sé búféð einungis á því landi, sem hann hefur sannanleg umráð yfir.

6. gr.

Nú verður búfjár vart utan vörslusvæða, er þeim þá skylt er sér, að tilkynna það til fjallskilastjóra eða sveitarstjóra. Skal fjallskilastjóri þá í samráði við sveitarstjóra, láta handsama fénaðinn og færa í örugga vörslu sem fjallskilastjóri sér um. Eiganda skal tilkynnt um gripi sína, gert að sækja þá og greiða áfallinn kostnað, samkvæmt gjaldskrá. Sveitarstjóri heldur skrá um gripina. Við ítrekuð brot eða hafi eigandi ekki hirt um að sækja gripi sína og greiða áfallinn kostnað innan tíu daga, er heimilt að svipta viðkomandi leyfi til búfjárhalds. Um ráðstöfun gripa fer eftir lögum nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl., lögum nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. og öðrum gildandi lögum og stjórnvaldsreglum á hverjum tíma eftir því sem við á.

7. gr.

Við framkvæmd fjallskila að hausti gilda ekki ákvæði í þessari samþykkt, heldur einungis ákvæði laga um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. nr. 6, 21. mars 1986 og ákvæði fjallskilasamþykktar fyrir Múlasýslur nr. 9, 4. janúar 2006.

8. gr.

Eigendur þeirra landspildna í Djúpavogshreppi sem ætlunin er að friða, þurfa að skila til sveitarstjóra fyrir 20. maí ár hvert, staðfestingu héraðsráðunautar, þess efnis að vörslulína svæðisins teljist fullkominn farartálmi fyrir sauðfé. Séu vanefndir á þessu er óheimilt að valda búpeningi, jafnt innan girðingar sem utan, ónæði allt frá 20. maí til fyrstu gangna.

9. gr.

Byggingar gripahúsa skulu einungis leyfðar á lögbýlum og þeim svæðum sem skipulögð eru fyrir búfjárhald. Þau gripahús sem fyrir eru í þéttbýlinu á svæðum sem ætluð eru til annarra nota en búfjárhalds samkvæmt aðalskipulagi, og þau gripahús, sem umhverfinu stafar hætta af vegna hugsanlegs foks eða mengunar, skulu fjarlægð þegar sveitarstjórn samþykkir slíkt með eins árs fyrirvara. Fjarlægi eigandi ekki hættulega byggingu innan tilskilins frests, gilda ákvæði skipulags- og byggingarlaga og reglugerða um framgang mála.

10. gr.

Með mál út af brotum gegn samþykkt þessari skal farið að hætti opinberra mála, sbr. 18. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl.

Samþykkt þessi, sem er samin og samþykkt af sveitarstjórn Djúpavogshrepps staðfestist hér með samkvæmt lögum nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl. og öðlast þegar gildi.

Landbúnaðarráðuneytinu, 9. maí 2006.

Guðni Ágústsson.

Atli Már Ingólfsson.

B deild - Útgáfud.: 19. maí 2006