Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1185/2017

Nr. 1185/2017 29. desember 2017

GJALDSKRÁ
Fiskistofu.

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Gildissvið.

Fyrir þjónustu og eftirlit, sem Fiskistofu er falið að sinna samkvæmt lögum nr. 36/1992 um Fiski­stofu, lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, lögum nr. 57/1996 um umgengni um nytja­stofna sjávar, lögum nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, lögum nr. 151/1996 um fisk­veiðar utan lögsögu Íslands, lögum nr. 54/1992 um vinnslu afla um borð í skipum, lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, lögum nr. 85/2000 um framkvæmd samnings um alþjóða­verslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, upplýsingalögum nr. 50/1996, og reglugerðum, sem byggja á framangreindum lögum, innheimtir stofnunin gjald sam­kvæmt gjaldskrá þessari.

Gjald fyrir eftirlit og þjónustu skal að hámarki nema raunkostnaði af veitingu þjónustu og eftirlits.

Gjaldskrá þessi gildir einnig um aðra gjaldskylda starfsemi Fiskistofu samkvæmt lögum.

2. gr.

Gjald fyrir vinnu sérfræðings og veiðieftirlitsmanns.

Fiskistofa innheimtir gjald samkvæmt gjaldskrá þessari fyrir verkefni og þjónustu, sem stofnuninni eru falin í lögum og heimilt er að taka gjald fyrir, sem nemur 17.200 krónum fyrir vinnu sér­fræð­ings og 19.100 krónum fyrir vinnu veiðieftirlitsmanns á hverja klukkustund.

3. gr.

Innheimta.

Gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari skulu greidd samkvæmt reikningi. Gjalddagi er við útgáfu reikn­ings en eindagi 15 dögum síðar. Sé gjald ekki greitt á eindaga reiknast dráttarvextir frá gjald­daga.

Innheimta má gjöld með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar.

Gjöld fyrir veiðileyfi og strandveiðigjald samkvæmt 4. gr. skulu greidd áður en leyfi er gefið út.

II. KAFLI

Leyfisveitingar, vottorð o.fl.

4. gr.

Veiðileyfi.

Fyrir veitingu almenns leyfis til veiða í atvinnuskyni samkvæmt 4. gr. laga um stjórn fiskveiða skal greiða gjald í samræmi við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1992 um Fiskistofu. Sama gjald skal greiða fyrir önnur veiðileyfi, sem veitt eru á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um veiðar í fisk­veiði­landhelgi Íslands, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga, sem kveða á um stjórn fiskveiða.

Vegna útgáfu leyfis til strandveiða er innheimt strandveiðigjald í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga um Fiskistofu, auk gjalds fyrir veiðileyfi samkvæmt 1. mgr.

Gjöld samkvæmt 1. og 2. mgr. skulu greidd áður en leyfi er gefið út.

5. gr.

Vigtunarleyfi.

Vegna umsóknar um vigtunarleyfi samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um umgengni um nytjastofna skal greiða 176.100 krónur fyrir úttekt á vigtunaraðstöðu og útgáfu leyfis samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. laganna (heimavigtunarleyfi) og 156.900 krónur fyrir úttekt á vigtunaraðstöðu og útgáfu leyfis samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 6. gr. (endurvigtunarleyfi).

Við breytingu á leyfi eða endurnýjun skal fara fram úttekt á vigtunaraðstöðu. Fyrir slíka úttekt skal greiða 118.700 krónur.

6. gr.

Leyfi til framkvæmda við ár og vötn.

Fyrir leyfi til framkvæmda í eða við veiðivatn samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 33. gr. laga um lax- og silungsveiði skal greiða 17.200 krónur.

7. gr.

Veiði- og vinnsluvottorð.

Fyrir veiðivottorð til að staðreyna löglegan uppruna afla og afurða í samræmi við 9. gr. reglugerðar nr. 994/2013 um skýrsluskil vegna viðskipta með sjávarafla skal greiða 152 krónur.

Fyrir vinnsluvottorð í samræmi við gr. 14 (2) og IV. viðauka reglugerðar EB nr. 1005/2008, sbr. samkomulag við Evrópusambandið 24. nóvember 2009 um útgáfu vottorða í samræmi við reglu­gerð EB nr. 1005/2008 um stofnun kerfis til þess að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, óskráðar og eftirlitslausar veiðar, skal greiða 5.700 krónur.

8. gr.

CITES-vottorð og -leyfi.

Fyrir vottorð og leyfi samkvæmt lögum um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna, sem eru í útrýmingarhættu, og reglna settra á grundvelli þeirra laga, skal greiða 17.200 krónur.

9. gr.

Afladagbók.

Fyrir afladagbók á pappírsformi skal greiða 2.900 krónur.

III. KAFLI

Eftirlit.

10. gr.

Vera eftirlitsmanns um borð í skipi.

Fiskistofa innheimtir gjald vegna veru veiðieftirlitsmanns um borð í skipi, sem stundar veiðar á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða.

Gjald er innheimt fyrir hvern dag eða hluta úr degi, sem veiðieftirlitsmaður er að störfum um borð í skipi, sem hefur leyfi til að vinna afla um borð, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um Fiskistofu. Sama gjald er innheimt þegar ástæða þykir til að fylgjast sérstaklega með veiðum, sbr. 13. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, og þegar ákveðið hefur verið, að veiðieftirlitsmaður skuli vera um borð í skipi á grundvelli 16. gr. sömu laga.

Gjald skal greiða fyrir hvern dag eða hluta úr degi, sem eftirlitsmaður er að störfum, sbr. 1. og 2. mgr., að fjárhæð 81.600 krónur.

11. gr.

Eftirlit með löndun erlendis.

Vegna ferðar eftirlitsmanns til að fylgjast með löndun úr skipi erlendis skal greiða 65.600 krónur vegna starfa eftirlitsmanns fyrir hvern dag eða hluta úr degi, sem eftirlitsmaður er að störfum. Ferð skal greidd í samræmi við útlagðan kostnað Fiskistofu.

12. gr.

Úttekt á búnaði til vinnslu afla um borð í skipi.

Vegna umsóknar um leyfi til vinnslu afla um borð í skipi samkvæmt 5. gr. laga um vinnslu afla um borð í skipum skal greiða 114.800 krónur vegna úttektar Fiskistofu á búnaði til vinnslunnar um borð.

IV. KAFLI

Úthlutun aflaheimilda, flutningur o.fl.

13. gr.

Úthlutun aflamarks á grundvelli laga um stjórn fiskveiða.

Vegna úthlutunar aflamarks, sem fæst í skiptum á tilboðsmarkaði, samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða skal greiða 12.900 krónur. Vegna úthlutunar aflamarks á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna skal greiða 3.100 krónur og 22.500 krónur vegna úthlutunar aflamarks á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. til stuðnings byggðarlögum.

14. gr.

Flutningur á aflamarki og aflahlutdeild.

Fyrir móttöku og úrvinnslu tilkynningar um flutning á aflamarki og krókaaflamarki á eyðublaði útgefnu af Fiskistofu samkvæmt 15. gr. laga um stjórn fiskveiða skal greiða 4.300 krónur.

Fyrir móttöku og úrvinnslu tilkynningar um flutning á aflamarki og krókaaflamarki sem berst gegnum rafrænt millifærslukerfi Fiskistofu samkvæmt 15. gr. laga um stjórn fiskveiða skal greiða 400 krónur.

Vegna þjónustusamnings um rafrænar tilkynningar um flutning aflamarks milli fiskiskipa skal greiða 34.400 krónur fyrir hvert fiskveiðiár.

Fyrir móttöku og úrvinnslu tilkynningar um flutning á aflahlutdeild ásamt staðfestingu Fiskistofu á flutningnum samkvæmt 12. gr. laga um stjórn fiskveiða skal greiða 20.100 krónur.

15. gr.

Tilkynningar um stöðu aflaheimilda.

Vegna tilkynningar um stöðu aflaheimilda, samkvæmt 14. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, skal greiða 11.100 krónur.

V. KAFLI

Upplýsingavinnsla o.fl.

16. gr.

Aðgangur að gagnasöfnum og sérvinnsla upplýsinga.

Fyrir aðgang að gagnasöfnum Fiskistofu með gagnaveitu skal greiða árgjald, sem nemur 68.900 krónum. Óheimilt er að miðla upplýsingum, sem fengnar eru með slíkum aðgangi til þriðja aðila án samþykktar Fiskistofu, hvort sem miðlun upplýsinganna er gegn gjaldi eður ei.

Fyrir sérstakan aðgang að gagnasöfnum og sérvinnslu upplýsinga greiðist tímagjald samkvæmt tímavinnu sérfræðings í samræmi við 2. gr.

17. gr.

Ljósrit og afrit af skjölum.

Fyrir ljósrit eða afrit af skjölum samkvæmt beiðni á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda gjaldskrár, sem forsætisráðherra setur.

VI. KAFLI

Annað.

18. gr.

Endurskoðun gjaldskrár.

Gjaldskrá þessa skal endurskoða fyrir árslok 2018.

19. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Gjaldskrá þessi, sem sett er samkvæmt 5. gr. laga nr. 36/1992 um Fiskistofu, staðfestist hér með og öðlast gildi 1. janúar 2018. Jafnframt fellur brott gjaldskrá Fiskistofu nr. 1197/2016.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 29. desember 2017.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Jóhann Guðmundsson.


B deild - Útgáfud.: 29. desember 2017