Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 92/2006

Nr. 92/2006 14. júní 2006
LÖG
um evrópsk samvinnufélög.
FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:
 
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.
    Ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1435/2003 frá 22. júlí 2003, um samþykktir fyrir evrópsk samvinnufélög (SCE), skulu hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun 1 um altæka aðlögun að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem bókunin er lögfest. Reglugerðin er prentuð sem fylgiskjal með lögum þessum.
    Í samræmi við reglugerð um evrópsk samvinnufélög eru í lögum þessum sett nánari ákvæði um þau félög. Ná þau ákvæði aðeins til evrópskra samvinnufélaga sem skráð eru á Íslandi nema annað sé tekið fram.

2. gr.
Bókhald og ársreikningar.
    Um evrópskt samvinnufélag, sem skráð er hér á landi, gilda lög um bókhald og lög um ársreikninga sé eigi kveðið á um annað í reglugerð um evrópsk samvinnufélög. Evrópskt samvinnufélag getur fengið heimild ársreikningaskrár, sem ríkisskattstjóri starfrækir, til að færa bókhald sitt í erlendum gjaldmiðli í samræmi við ákvæði laga um bókhald og semja og birta ársreikning sinn í erlendum gjaldmiðli í samræmi við lög um ársreikninga.
    Flytji evrópskt samvinnufélag skráða skrifstofu sína til annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja skal stjórn eða framkvæmdastjórn félagsins gera sérstakan rekstrarreikning fyrir tímabilið frá lokum síðasta ársreiknings til þess dags er flutningur skráðrar skrifstofu hefur öðlast gildi skv. 10. mgr. 7. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög.
    Taki samvinnufélag þátt í stofnun evrópsks samvinnufélags með samruna skv. 19. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög og evrópska samvinnufélagið verður með skráða skrifstofu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum skal stjórn samvinnufélagsins gera sérstakan ársreikning frá lokum síðasta ársreiknings til þess dags er evrópska samvinnufélagið er skráð skv. 1. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar.
    Ársreikningurinn skal afhentur samvinnufélagaskrá innan mánaðar frá lokum þess tímabils sem reikningurinn tekur til.
    Stundi evrópskt samvinnufélag, með skráða skrifstofu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, starfsemi hér á landi í formi útibús skal bókhald og ársreikningur útibúsins vera í samræmi við lög um bókhald og lög um ársreikninga. Heimild 2. málsl. 1. mgr. gildir einnig um þessi útibú.

3. gr.
Heiti.
    Evrópsku samvinnufélagi er skylt að hafa skammstöfunina SCE í heiti sínu. Auk þess er félagi heimilt að hafa orðin „evrópskt samvinnufélag“ í heitinu, svo og að nota skammstöfunina SCE/esvf. Heitið skal greina glöggt frá heiti annarra samvinnufélaga sem skráð hafa verið í samvinnufélagaskrá, sbr. 9. gr.

4. gr.
Aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum.
    Um aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum gilda samnefnd lög.

II. KAFLI
Stofnun evrópsks samvinnufélags.
5. gr.
Þátttaka í stofnun evrópsks samvinnufélags.
    Samvinnufélagi eða félagi í samsvarandi lagalegu formi, sem hefur aðalskrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja, er heimilt að taka þátt í stofnun evrópsks samvinnufélags ef félagið:
    1.    er stofnað samkvæmt lögum ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja;
    2.    hefur skráða skrifstofu í ríki skv. 1. tölul. og
    3.    hefur raunveruleg og stöðug tengsl við atvinnulíf ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Við stofnun evrópsks samvinnufélags með öðrum hætti en samruna eða breytingu skulu ákvæði 1. mgr. um samvinnufélag eða félag í samsvarandi lagalegu formi einnig gilda um þá lögaðila sem kveðið er á um í 34. gr. samningsins um evrópska efnahagssvæðið.

6. gr.
Þátttaka fjármálafyrirtækja í stofnun evrópsks samvinnufélags
með samruna.
    Fyrirtæki sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með er ekki heimilt að taka þátt í stofnun evrópsks samvinnufélags í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum með samruna ef Fjármálaeftirlitið leggst gegn því að lokinni athugun vegna hættu á alvarlegum truflunum í greiðslumiðlunarkerfi eða starfsemi á fjármálamarkaði ellegar með tilliti til almannahagsmuna að öðru leyti, enda leggist stofnunin gegn því fyrir útgáfu vottorðs skv. 7. gr. þess efnis að lokið sé öllum gerningum og formsatriðum fyrir stofnun evrópsks samvinnufélags með samruna.
    Fyrirtækið skal leggja inn umsókn um athugun Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr. Mæli eitthvað gegn því að athugunin fari fram skal Fjármálaeftirlitið gefa fyrirtækinu kost á að tjá sig eða bæta úr annmörkum innan tiltekins frests. Geri fyrirtækið það ekki skal vísa umsókn þess frá. Fjármálaeftirlitið skal taka ákvörðun innan mánaðar frá móttöku umsóknar eða lokum frests.
    Samvinnufélagaskrá skal hafna umsókn um leyfi til að hrinda í framkvæmd samrunaáætlun sem gerir ráð fyrir stofnun evrópsks samvinnufélags með samruna hafi athugun Fjármálaeftirlitsins ekki farið fram, sbr. 2. mgr., eða stofnunin lagst gegn samruna á grundvelli slíkrar athugunar.

7. gr.
Útgáfa vottorðs við stofnun evrópsks samvinnufélags með samruna.
    Samvinnufélagaskrá skal gefa út vottorð skv. 2. mgr. 29. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög þess efnis að lokið sé öllum gerningum og formsatriðum fyrir stofnun evrópsks samvinnufélags með samruna þegar skráin hefur gefið samvinnufélagi leyfi til að hrinda í framkvæmd annaðhvort lögmætri ákvörðun félagsfundar eða ákvörðun stjórnar um að taka þátt í stofnun evrópsks samvinnufélags með samruna skv. X. kafla laga nr. 22/1991, um samvinnufélög, eða XIV. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, eftir því sem við á.

8. gr.
Réttur til úrsagnar úr yfirtökufélagi.
    Hafi félagsmaður í félagi lagst gegn stofnun evrópsks samvinnufélags með samruna getur hann sagt sig úr yfirtökufélaginu leiði samruninn til þess að skráð skrifstofa evrópska samvinnufélagsins verði utan Íslands. Skal úrsögn fara fram innan þeirra tímamarka og með þeim skilyrðum sem getið er í 5. mgr. 7. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög.

III. KAFLI
Skráning evrópskra samvinnufélaga o.fl.
9. gr.
Skráningaryfirvald.
    Samvinnufélagaskrá, sem ríkisskattstjóri starfrækir, skráir evrópsk samvinnufélög. Um skráningu félaganna hjá samvinnufélagaskrá gilda ákvæði laga um samvinnufélög og eftir atvikum önnur lagaákvæði, m.a. um gjaldmiðil stofnfjár, sbr. 3. gr. og 1. mgr. 77. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög. Um evrópsk samvinnufélög, sem stunda starfsemi á sviði fjármagnsmarkaðar, gilda ákvæði laga á því sviði og eftir atvikum önnur lagaákvæði við skráningu félaganna.
    Um gjald fyrir skráningu evrópskra samvinnufélaga fer eftir þeim ákvæðum laga um aukatekjur ríkissjóðs er varða samvinnufélög. Um aukatilkynningar o.fl. fer eftir ákvæðum sömu laga. Fjármálaráðherra er heimilt að setja með reglugerð ákvæði um skráningu evrópskra samvinnufélaga, önnur en almennt gilda um samvinnufélög, þ.m.t. um skipulag skráningarinnar, rekstur skrár, aðgang að skrá og gjaldtöku, m.a. fyrir úgáfu vottorða og afnot af þeim upplýsingum sem skráin hefur á tölvutæku formi. Skráin innheimtir gjöld vegna birtingar í Lögbirtingablaði samkvæmt lögum og reglum þar að lútandi, svo og gjöld vegna birtingar upplýsinga um skráningu og afskráningu evrópskra samvinnufélaga í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, sbr. 13. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög.

10. gr.
Birting tillagna að ýmsum ákvörðunum.
    Framkvæmdastjórn í evrópsku samvinnufélagi með tvíþættri stjórn eða stjórn í evrópsku samvinnufélagi með einþættri stjórn skal afhenda samvinnufélagaskrá tillögur að ákvörðunum eða upplýsingar skv. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög, um flutning skráðrar skrifstofu, skv. 3. mgr. 35. gr. reglugerðarinnar um breytingu starfandi samvinnufélags í evrópskt samvinnufélag og skv. 3. mgr. 76. gr. reglugerðarinnar um breytingu evrópsks samvinnufélags í samvinnufélag í því ríki þar sem evrópska samvinnufélagið hefur skráða skrifstofu. Upplýsingar um skráningu skal án dráttar láta birta á kostnað tilkynnanda í Lögbirtingablaði. Sé tillaga ekki birt í heild skal greina frá því í tilkynningu hvar hana megi nálgast.

IV. KAFLI
Flutningur skráðrar skrifstofu evrópsks samvinnufélags.
11. gr.
Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggjast gegn flutningi.
    Evrópsku samvinnufélagi, sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með, er ekki heimilt að flytja skráða skrifstofu frá Íslandi til annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja leggist stofnunin gegn flutningnum innan tveggja mánaða frá birtingu flutningstillögu í Lögbirtingablaði skv. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög, sbr. 6. mgr. sömu greinar.
    Í síðasta lagi tveimur vikum eftir birtingu flutningstillögunnar skal evrópskt samvinnufélag, sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með, leggja inn umsókn um athugun á því hvort stofnunin leggst gegn flutningi skráðrar skrifstofu, sbr. 1. mgr. Berist umsókn ekki innan frestsins skal henni vísað frá. Fjármálaeftirlitið getur lagst gegn flutningnum sé hætta á alvarlegum truflunum í greiðslumiðlunarkerfi eða starfsemi á fjármálamarkaði ellegar með tilliti til almannahagsmuna að öðru leyti.
    Mæli eitthvað gegn því að athugun skv. 2. mgr. fari fram skal Fjármálaeftirlitið gefa félaginu kost á að tjá sig innan tiltekins frests eða bæta úr annmörkum. Geri félagið það ekki skal vísa umsókn þess frá.

12. gr.
Upplýsingar til kröfuhafa um flutning.
    Samþykki félagsfundur evrópsks samvinnufélags að flytja skráða skrifstofu félagsins til annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja, sbr. 7. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög, skal félagið tilkynna þekktum kröfuhöfum félagsins ákvörðunina skriflega.
    Í tilkynningu skv. 1. mgr. skulu vera upplýsingar um rétt kröfuhafa félagsins á grundvelli 4. mgr. 7. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög til að skoða flutningstillöguna auk skýrslu skv. 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar. Í tilkynningunni skulu enn fremur vera upplýsingar um rétt kröfuhafa skv. 14. gr. laga þessara til að leggjast gegn flutningnum.

13. gr.
Umsókn um flutningsleyfi.
    Evrópskt samvinnufélag skal sækja um leyfi hjá samvinnufélagaskrá til flutnings skráðrar skrifstofu skv. 7. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög til annars ríkis á Evrópska efna hagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja. Leggja skal inn umsókn innan mánaðar frá ákvörðun félagsfundar um flutning.
    Umsókn skal fylgja:
    1.    eitt afrit fundargerðar frá félagsfundi þar sem ákvörðun um flutning var tekin;
    2.    eitt afrit flutningstillögu;
    3.    eitt afrit skýrslu skv. 3. mgr. 7. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög;
    4.    vottorð frá framkvæmdastjórn evrópsks samvinnufélags með tvíþættu stjórnkerfi, stjórn evrópsks samvinnufélags með einþættu stjórnkerfi eða framkvæmdastjóra evrópsks samvinnufélags um að þekktum kröfuhöfum félagsins hafi verið veittar upplýsingar skv. 12. gr. og
    5.    staðfesting frá Fjármálaeftirlitinu varðandi fyrirtæki skv. 11. gr. þess efnis að stofnunin hafi athugað umsókn samkvæmt þeirri grein og ekki lagst gegn flutningi.
    Hafi evrópskt samvinnufélag látið undir höfuð leggjast að láta skjöl skv. 2. mgr. fylgja umsókn eða annað tálmar athugun á umsókn skal samvinnufélagaskrá gefa félaginu kost á að tjá sig innan tiltekins frests eða bæta úr annmörkum. Geri félagið það ekki skal samvinnufélagaskrá vísa umsókn þess frá.
    Hafi dómstóll staðfest ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skv. 11. gr. um að leggjast gegn flutningi skráðrar skrifstofu, sbr. 28. gr., skal samvinnufélagaskrá vísa umsókninni frá.

14. gr.
Meðferð flutningsmáls hjá samvinnufélagaskrá.
    Hafi samvinnufélagaskrá tekið umsókn um flutningsleyfi skv. 13. gr. til athugunar skal hún gefa út áskorun til kröfuhafa evrópsks samvinnufélags og birta hana í Lögbirtingablaði.
    Í áskorun skv. 1. mgr. skal kveða á um að þeir kröfuhafar sem leggjast gegn flutningi skráðrar skrifstofu skuli í síðasta lagi tveimur vikum eftir birtingu flutningstillögu í Lögbirtingablaði tilkynna það skriflega.

15. gr.
    Leggist kröfuhafi, sem fengið hefur áskorun skv. 14. gr., gegn því innan tiltekins frests að evrópskt samvinnufélag flytji skráða skrifstofu skal samvinnufélagaskrá senda erindið héraðsdómi í því umdæmi þar sem félagið hefur skráða skrifstofu. Hafi enginn kröfuhafi lagst gegn flutningnum skal samvinnufélagaskrá veita félaginu umbeðið flutningsleyfi.

16. gr.
Meðferð flutningsmáls fyrir héraðsdómi.
    Hafi erindi um flutning skráðrar skrifstofu evrópsks samvinnufélags til annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja verið sent héraðsdómi skal dómurinn veita félaginu flutningsleyfi sýni það fram á að þeir kröfuhafar sem lagst hafa gegn flutningnum hafi fengið fulla greiðslu á kröfum sínum eða fullnægjandi tryggingu fyrir greiðslu þeirra krafna sem orðið hafa til innan frestsins sem tilgreindur er í 2. mgr. 14. gr. Að öðrum kosti skal dómurinn hafna umsókn félagsins.
    Héraðsdómur skal að eigin frumkvæði upplýsa samvinnufélagaskrá um niðurstöðu flutningsmáls fyrir dóminum.

17. gr.
Útgáfa vottorðs vegna flutnings.
    Samvinnufélagaskrá skal gefa út vottorð skv. 8. mgr. 7. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög varðandi lok gerninga og formsatriða fyrir flutningi þegar:
    1.    skráin hefur veitt flutningsleyfi skv. 15. gr. eða
    2.    héraðsdómur hefur veitt flutningsleyfi skv. 16. gr.
    Samvinnufélagaskráin skal þó ekki gefa út vottorð í þeim tilvikum sem kveðið er á um í 15. mgr. 7. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög.

V. KAFLI
Skipulag evrópskra samvinnufélaga.
18. gr.
Evrópsk samvinnufélög með tvíþættu stjórnkerfi.
    Um evrópsk samvinnufélög með tvíþættu stjórnkerfi skv. 37.–41. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög gilda eftirfarandi ákvæði:
    1.    Sé eigi kveðið á um annað í reglugerð um evrópsk samvinnufélög skulu ákvæði um stjórn eða stjórnarmenn í lögum um samvinnufélög, og eftir atvikum í öðrum lögum, einnig gilda um framkvæmdastjórn eða framkvæmdastjórnarmenn þessara evrópsku samvinnufélaga, svo og eftirlitsstjórn eða eftirlitsstjórnarmenn eftir því sem við á.
    2.    Auk skyldna samkvæmt ákvæðum reglugerðar um evrópsk samvinnufélög skal eftirlitsstjórn gefa aðalfundi skýrslu með upplýsingum um þau málefni sem skipta máli um mat á ársreikningi félagsins og skýrslu endurskoðenda eða skoðunarmanna.
    Í 23. gr. laga þessara er að finna nánari ákvæði um störf eftirlitsstjórnar.

19. gr.
    Sé eftirlitsstjórnarmaður valinn til setu í framkvæmdastjórn skv. 3. mgr. 37. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög skal valið eigi vera til lengri tíma en þriggja mánaða.

20. gr.
Evrópsk samvinnufélög með einþættu stjórnkerfi.
    Sé eigi kveðið á um annað í reglugerð um evrópsk samvinnufélög skulu ákvæði um stjórn eða stjórnarmenn í lögum um samvinnufélög, og eftir atvikum öðrum lögum, einnig gilda um stjórn eða stjórnarmenn evrópskra samvinnufélaga með einþættu stjórnkerfi skv. 42.–44. gr. reglugerðarinnar.

21. gr.
Fjöldi manna í stjórnarstofnunum evrópskra samvinnufélaga.
    Sé evrópskt samvinnufélag með tvíþættu stjórnkerfi skv. 37.–41. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög skulu minnst þrír menn sitja í framkvæmdastjórn og minnst þrír menn í eftirlitsstjórn.
    Sé evrópskt samvinnufélag með einþættu stjórnkerfi skv. 42.–44. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög skulu minnst þrír menn sitja í stjórn félagsins.

22. gr.
Framkvæmdastjóri evrópsks samvinnufélags.
    Evrópskt samvinnufélag skal hafa framkvæmdastjóra.
    Sé stjórnkerfi félagsins tvíþætt, sbr. 37.–41. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög, skal framkvæmdastjórn ráða framkvæmdastjóra. Í því tilviki getur framkvæmdastjórinn ekki átt sæti í eftirlitsstjórn. Sé stjórnkerfi félagsins einþætt, sbr. 42.–44. gr. reglugerðarinnar, skal stjórn ráða framkvæmdastjóra.
    Nánar er kveðið á um framkvæmdastjóra og verksvið hans í lögum um samvinnufélög.

23. gr.
Eftirlit í evrópskum samvinnufélögum með tvíþættu stjórnkerfi.
    Í evrópsku samvinnufélagi með tvíþættu stjórnkerfi skv. 37.–41. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög skulu bæði eftirlitsstjórn og framkvæmdastjórn hafa eftirlit með störfum framkvæmdastjóra. Ákvæði 39.–40. gr. reglugerðarinnar um eftirlit eftirlitsstjórnar með störfum framkvæmdastjórnar og rétt til upplýsinga gilda einnig um eftirlit eftirlitsstjórnar og framkvæmdastjórnar með störfum framkvæmdastjórans.
    Sérhver eftirlitsstjórnarmaður á rétt á að fá frá framkvæmdastjórn og framkvæmdastjóra nauðsynlegar upplýsingar til að geta haft eftirlit með störfum framkvæmdastjórnar skv. 3. mgr. 40. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög, svo og eftirlit með framkvæmdastjóra skv. 1. mgr. Sérhver framkvæmdastjórnarmaður á rétt á að fá frá framkvæmdastjóra nauðsynlegar upplýsingar til að geta haft eftirlit með störfum hans.
    Endurskoðandi félags skal tilkynna eftirlitsstjórn um athugasemdir sem hann hefur komið á framfæri við framkvæmdastjórn og framkvæmdastjóra.

24. gr.
Eftirlit í evrópskum samvinnufélögum með einþættu stjórnkerfi.
    Ákvæði 23. gr. um eftirlit framkvæmdastjórnar í evrópsku samvinnufélagi með tvíþættu stjórnkerfi með störfum framkvæmdastjóra og rétt hennar til að fá upplýsingar frá honum gilda um eftirlit stjórnar með framkvæmdastjóra í evrópsku samvinnufélagi með einþættu stjórnkerfi skv. 42.–44. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög.

VI. KAFLI
Önnur ákvæði.
25. gr.
Tillöguréttur félagsmanna.
    Hver félagsmaður á rétt á að fá mál tekið til meðferðar á félagsfundi ef hann gerir um það skriflega kröfu með það miklum fyrirvara að unnt sé að taka málið á dagskrá fundarins.
    Krafa skv. 1. mgr. skal send til framkvæmdastjórnar evrópsks samvinnufélags með tvíþættu stjórnkerfi eða stjórnar evrópsks samvinnufélags með einþættu stjórnkerfi.

26. gr.
Stjórnvald boðar til félagsfundar.
    Sé eigi boðað til félagsfundar í evrópsku samvinnufélagi samkvæmt reglugerð um evrópsk samvinnufélög, félagssamþykktum eða ákvörðun félagsfundar skal viðkomandi stjórnvald boða til félagsfundar skv. 19. gr. laga nr. 22/1991, um samvinnufélög, hafi krafa þar að lútandi borist frá framkvæmdastjórnarmanni eða eftirlitsstjórnarmanni í evrópsku samvinnufélagi með tvíþættu stjórnkerfi, stjórnarmanni í evrópsku samvinnufélagi með einþættu stjórnkerfi, framkvæmdastjóra, endurskoðanda, skoðunarmanni eða félagsmanni.

27. gr.
Ráðstafanir gagnvart evrópsku samvinnufélagi með skráða skrifstofu
og aðalskrifstofu í mismunandi EES-ríkjum.
    Fullnægi evrópskt samvinnufélag ekki skyldum sínum skv. 6. gr. reglugerðar um evrópsk samvinnufélög um að skráð skrifstofa og aðalskrifstofa félagsins séu í sama ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamnings Evrópu eða í Færeyjum skal samvinnufélagaskrá staðfesta það með sérstakri ákvörðun. Skráin skal síðan gefa félaginu fyrirmæli um að bæta úr annmarkanum innan hæfilegs frests. Í fyrirmælunum skal felast viðvörun um að krafist verði skipta á félaginu bæti það eigi úr annmarkanum.
    Fari evrópskt samvinnufélag ekki að fyrirmælum skv. 1. mgr. skal ráðherra gera kröfu um að félagið verði tekið til skipta skv. 62. gr. a laga nr. 22/1991, um samvinnufélög.

28. gr.
Málskot.
    Ákvörðun samvinnufélagaskrár varðandi skráningu evrópsks samvinnufélags er heimilt að leggja fyrir héraðsdóm innan tveggja mánaða frá ákvörðunardegi. Sama gildir um ákvörðun skrárinnar um að vísa frá umsókn félags um flutningsleyfi, sbr. 13. gr.
    Ákvörðun samvinnufélagaskrár skv. 1. mgr. 27. gr. um staðsetningu skrifstofu evrópsks samvinnufélags má leggja fyrir héraðsdóm innan eins mánaðar frá þeim degi er félagið fékk vitneskju um ákvörðunina. Leggja má ákvörðun stjórnvalds skv. 2. mgr. 27. gr. fyrir héraðsdóm innan eins mánaðar frá ákvörðunardegi.
    Leggja má ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins skv. 6. gr. varðandi samruna og 11. gr. varðandi flutning fyrir héraðsdóm innan eins mánaðar frá því að félagið fékk vitneskju um ákvörðunina.

29. gr.
Viðurlög.
    Ákvæði XIV. kafla laga nr. 22/1991, um samvinnufélög, varðandi refsingar o.fl. gilda m.a. um stjórnendur evrópskra samvinnufélaga sem skráð eru hér á landi.

30. gr.
Gildistaka.
    Lög þessi öðlast gildi 18. ágúst 2006.

Gjört á Bessastöðum, 14. júní 2006.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Valgerður Sverrisdóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

A deild - Útgáfud.: 29. júní 2006