Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 216/2020

Nr. 216/2020 13. mars 2020

AUGLÝSING
um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.

1. gr.

Ákvörðun og markmið.

Með vísan til 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis og í samráði við mennta- og menningarmála­ráðherra, að takmarka skólastarf tímabundið eftir því sem hér greinir.

Markmiðið með takmörkun skólastarfs er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúk­dómsins.

 

2. gr.

Gildissvið.

Takmörkun á skólastarfi tekur gildi 16. mars 2020 kl. 00.01 og gildir til 12. apríl 2020 kl. 23.59. Yfirvöld endurmeta þörf á takmörkun skólastarfs eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistímann.

Takmörkun á skólastarfi tekur til leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla, hvort sem um er að ræða opinbera eða einkarekna skóla. Þá tekur ákvörðunin jafnframt til annarra mennta­stofn­ana, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og íþróttastarfs og gilda um það sömu reglur og um við­komandi skólastig.

 

3. gr.

Leikskólar.

Leikskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi leikskólastarfi að þeim skilyrðum uppfylltum að börn séu í sem minnstum hópum og aðskilin eins og kostur er. Jafnframt skulu gerðar ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.

 

4. gr.

Grunnskólar.

Grunnskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum að þeim skilyrðum uppfylltum að ekki séu fleiri en 20 nemendur í kennslu í sömu stofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, s.s. í mötuneyti eða frímínútum. Jafnframt skulu gerðar ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.

 

5. gr.

Framhaldsskólar og háskólar.

Framhalds- og háskólum skal lokað. Fjarkennslu skal sinnt eftir því sem unnt er og samkvæmt nánari ákvörðun menntamálayfirvalda.

 

6. gr.

Undanþágur.

Heilbrigðisráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkun skólastarfs ef ekki er talin hætta á að slíkt fari gegn markmiðum opinberra sóttvarnaráðstafana.

 

Heilbrigðisráðuneytinu, 13. mars 2020.

 

Svandís Svavarsdóttir.

Ásta Valdimarsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 13. mars 2020