Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1401/2021

Nr. 1401/2021 22. nóvember 2021

REGLUR
um notkun stöðureita og gjaldtöku í Reykjavíkurborg.

1. gr.

Reglur þessar gilda um notkun og gjaldtöku fyrir notkun stöðureita við götur og á opnum svæðum sem eru í eigu eða umsjá Reykjavíkurborgar.

Reglurnar gilda einnig um notkun og gjaldtöku fyrir notkun bílastæða á einkalóðum í umsjá Reykjavíkurborgar á grundvelli samnings.

Reglurnar gilda ekki um notkun eða gjaldtöku fyrir notkun bílastæða í bílahúsum í eigu eða umsjá Reykjavíkurborgar.

 

2. gr.

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar getur ákveðið að innheimta skuli gjald fyrir notkun tiltekinna stöðureita í eigu eða umsjá Reykjavíkurborgar. Við ákvörðun um gjaldskyldu skal tiltekið hvaða stöðureitur eða svæði er háð gjaldskyldu, á hvaða tíma og fyrir hvaða endurgjald.

Ákvarðanir skipulags- og samgönguráðs um gjaldskyldu og gjaldskyldutíma skulu auglýstar með opinberum hætti.

Fjárhæð gjalds skal miðast við að standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi og rekstri stöðu­reita, sbr. nánari skilgreiningu í umferðarlögum. Ákvarðanir um gjald fyrir notkun stöðureita skulu auglýstar opinberlega í gjaldskrá.

Gjaldskyld svæði skulu merkt með greinargóðum hætti.

 

3. gr.

Skylt er að greiða fyrir afnot af gjaldskyldum stöðureit á gjaldskyldutíma. Þó er handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða heimilt að nota stöðureit fyrir ökutæki sitt án endurgjalds.

 

4. gr.

Ávallt skal vera mögulegt að greiða fyrir notkun stöðureits með greiðslu í stöðu- eða miðamæli innan gjaldsvæðisins. Á skjá mælis skulu vera notkunarleiðbeiningar og greinargóðar upplýsingar um gjald, gjaldskyldutíma og fyrir hversu langan tíma er greitt.

Bílastæðasjóði Reykjavíkur er heimilt að bjóða upp á aðra greiðslumöguleika, svo sem með snjalltækjum og eftir atvikum í samstarfi við þriðja aðila, enda innheimti sjóðurinn áfram fullt gjald fyrir notkun stæðanna sem renni óskert til borgarinnar. Í samningum um greiðslulausnir má ekki felast einkaréttur til innheimtu gjalds fyrir notkun eða framsal á rétti til notkunar stöðureita.

 

5. gr.

Óheimilt er að nota gjaldskyldan stöðureit án heimildar samkvæmt framangreindu. Sé gjald­skyldur stöðureitur notaður án heimildar á gjaldskyldutíma, skal leggja á aukastöðugjald fyrir notk­unina í samræmi við 109. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

 

6. gr.

Reglur þessar sem settar eru með heimild í 2. mgr. 86. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, hafa hlotið samþykki lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og voru samþykktar á fundi skipulags- og samgönguráðs 10. nóvember 2021 og á fundi borgarráðs 18. nóvember 2021 taka gildi við birtingu. Á sama tíma falla úr gildi reglur um notkun stöðureita í Reykjavík og gjaldtöku, frá febrúar 1988, sem birtar voru á bls. 280 í 35. tbl. Lögbirtingablaðs útg. 18. mars 1988.

 

Borgarstjórinn í Reykjavík, 22. nóvember 2021.

 

Dagur B. Eggertsson.


B deild - Útgáfud.: 7. desember 2021