Forseti Íslands gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:
1. gr.
Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
a. (IV.)
Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 37. gr. er heimilt að fullnusta refsingu með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 40 klukkustundir og mest 960 klukkustundir, í þeim tilvikum er maður hefur verið dæmdur í allt að 24 mánaða óskilorðsbundið fangelsi og almannahagsmunir mæla ekki gegn því.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 37. gr. er heimilt, þegar hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundinn, að fullnusta hinn óskilorðsbundna hluta fangelsisrefsingarinnar með samfélagsþjónustu þó að heildarrefsing samkvæmt dóminum sé lengri en 24 mánuðir.
Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 37. gr. er heimilt að fullnusta fangelsisrefsingu samkvæmt fleiri en einum dómi með samfélagsþjónustu en samanlögð refsing má ekki vera lengri en 24 mánuðir.
Ákvæði þetta nær til allra þeirra dóma sem kveðnir hafa verið upp fyrir gildistöku laga þessara og þegar eru komnir til fullnustu til Fangelsismálastofnunar sem og allra dóma sem stofnuninni berast fyrir 1. júlí 2024.
Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. júlí 2024.
b. (V.)
Ef refsing fanga er allt að 90 daga óskilorðsbundið fangelsi er heimilt að veita fanga reynslulausn fimm dögum áður en reynslulausn væri annars veitt. Ef refsing fanga er yfir 90 daga óskilorðsbundið fangelsi er heimilt að veita fanga reynslulausn tíu dögum áður en reynslulausn væri annars veitt.
Ákvæði þetta nær til allra þeirra dóma sem kveðnir hafa verið upp fyrir gildistöku laga þessara og þegar eru komnir til fullnustu til Fangelsismálastofnunar sem og allra dóma sem stofnuninni berast fyrir 1. júlí 2024.
Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. júlí 2024.
2. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Gjört í Vestmannaeyjum, 25. júní 2021.
Guðni Th. Jóhannesson. (L. S.)
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
|