Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 621/2019

Nr. 621/2019 14. júní 2019

REGLUR
um veitingu leyfa til fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér.

1. gr.

Minjastofnun Íslands fjallar um og veitir leyfi til allra fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér í samræmi við 36. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.

2. gr.

Leita þarf heimildar Minjastofnunar Íslands til notkunar málmleitartækja, jarðsjár eða annarra tækja sem fela í sér að jarðvegi er hróflað við leit minja, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um menn­ingar­minjar.

3. gr.

Minjastofnun Íslands fjallar um leyfisumsóknir, veitir leyfi eða hafnar umsókn. Stofnunin getur krafist viðbótarupplýsinga áður en umsókn er afgreidd og áskilur sér rétt til að fallast á umsókn að öllu leyti eða að hluta. Eftir atvikum getur Minjastofnun Íslands fallist á umsókn með skilyrðum. 

4. gr.

Umsókn skal skila inn á þar til gerðum eyðublöðum sem fást hjá Minjastofnun Íslands, minnst 4 vikum áður en vettvangsrannsókn hefst, en óheimilt er að hefja uppgröft áður en leyfi er fengið. Þó getur stofnunin veitt leyfi með skemmri fyrirvara í neyðartilfellum, svo sem ef minjar koma óvænt í ljós við framkvæmdir.

5. gr.

Skilmálar leyfis til fornleifarannsókna eru eftirfarandi:

 1. Leyfi til fornleifarannsókna er ekki framseljanlegt og skulu rannsóknirnar fara fram undir beinni stjórn og eftirliti fornleifafræðings þess sem skráður er sem stjórnandi rann­sóknar­innar.
  Öðrum en fornleifafræðingum er ekki veitt heimild til að hafa yfirumsjón með forn­leifa­rannsókn.
 2. Minjastofnun Íslands áskilur sér rétt til að líta til þekkingar, reynslu og menntunar við veit­ingu leyfa.
  Að jafnaði er þess krafist að stjórnandi hafi framhaldspróf í fornleifafræði.
 3. Leyfi til fornleifarannsókna gildir almennt í eitt ár frá útgáfudegi, en heimilt er að veita leyfi til allt að þriggja ára, sbr. 2. mgr. 37 gr. laga nr. 80/2012. Fornleifarannsókn skal fara fram á þeim tíma sem fram kemur í umsókninni. Ef breyting verður þar á þarf að tilkynna breyttan rannsóknartíma til Minjastofnunar Íslands áður en vettvangsvinna hefst.
 4. Vettvangsrannsóknir utanhúss skulu fara fram við bestu mögulegar aðstæður, svo að menningarverðmæti liggi ekki að þarflausu undir skemmdum vegna veðurs. Æskilegur tími utanhússrannsókna er frá maíbyrjun til septemberloka. Reynist nauðsynlegt að rannsaka með uppgreftri utan þess tíma skal tryggja með viðeigandi umbúnaði að minjar skemmist ekki. Minjastaðir sem verið er að rannsaka skulu að jafnaði girtir af þannig að ekki sé hætta á að minjar skemmist af völdum dýra eða manna.
 5. Sýna skal starfsmönnum Minjastofnunar Íslands öll gögn og gripi rannsóknar æski þeir þess við eftirlit.
 6. Við vettvangsrannsóknir skal fara fram ítarleg skráning, kortlagning, teikning og ljósmyndun eftir atvikum á jarðlögum, mannvistarlögum og forngripum, sem í ljós koma. Hvert atriði skal hljóta auðkenni eða númer við skráningu. Gera skal forngripaskrá á íslensku yfir alla fundna forngripi á vettvangi, þar sem getið er fundardags, fundarstaðar og lýst helstu ein­kennum hvers forngrips.
 7. Að lokinni vettvangsrannsókn hvers árs skal skila inn til Minjastofnunar Íslands eyðublaði þar sem fram koma grunnupplýsingar um gang rannsóknarinnar það árið. Minjastofnun Íslands mun gefa út yfirlit yfir fornleifarannsóknir hvers árs sem byggir á þessum upp­lýs­ingum.
 8. Afhenda skal Minjastofnun Íslands áfangaskýrslu innan árs frá útgáfu leyfis um gang rann­sóknanna á leyfistímanum. Ef um er að ræða rannsókn til margra ára skal skila áfanga­skýrslu undangengins rannsóknartímabils áður en vinna hefst á vettvangi árið eftir.
 9. Afhenda skal Þjóðminjasafni Íslands alla fundna forngripi til varðveislu, sbr. 40. gr. laga nr. 80/2012. Meðhöndlun þeirra á vettvangi og frágangur skal vera í samræmi við Leiðbeiningar Þjóðminjasafns Íslands um umhirðu forngripa og frágang sýna. Forvarsla gripa skal hefjast í síðasta lagi strax að lokinni vettvangsrannsókn hvers árs. Afhenda skal Þjóðminjasafni Íslands sérstaklega viðkvæma gripi til forvörslu og varðveislu strax og slíkir gripir finnast. Ef forvörslu gripa er ekki lokið við afhendingu annars efnis úr rannsókn skal Minjastofnun Íslands sent formlegt erindi þar sem óskað er eftir að fá að halda gripunum lengur. Í kjöl­farið skal gert samkomulag um skilin og eftirlit safnsins með forvörslunni ef um er að ræða forvörslu utan safnsins. Óska þarf leyfis Þjóðminjasafns Íslands til töku sýna úr skila­skyldum gripum.
 10. Afhenda skal Þjóðminjasafni Íslands öll sýni sem ætluð eru til langtímavarðveislu og skal meðhöndlun þeirra vera í samræmi við Leiðbeiningar Þjóðminjasafns Íslands um umhirðu forngripa og frágang sýna.
 11. Endurnýjun rannsóknarleyfis er háð afhendingu eyðublaðs um lok vettvangsrannsóknar, sbr. 7. tl. og áfangaskýrslu vettvangsrannsóknar frá fyrra leyfistímabili og því að skilyrði þau sem fjallað er um í reglum þessum séu uppfyllt.
 12. Leyfishafi skal birta niðurstöður rannsóknar innan fimm ára frá lokum vettvangsrannsókna. Þó er heimilt að framlengja ofangreindan frest ef fullnægjandi ástæður eru fyrir hendi að mati Minjastofnunar Íslands. Sækja skal skriflega um slíkt leyfi. Senda skal Minjastofnun Íslands endurgjaldslaust tvö eintök af áfanga- og lokaskýrslum rannsóknar og afrit af öllu efni sem til verður við rannsóknina, svo sem bókum og greinum í blöðum og tímaritum, sem leyfishafi birtir.
 13. Afhenda skal Þjóðminjasafni Íslands gagnasafn rannsóknarinnar og rannsóknarskýrslur til varðveislu innan árs frá skilum lokaskýrslu (sjá 12. tl.) í því formi sem Minjastofnun Íslands ákveður í samráði við Þjóðminjasafn Íslands.
 14. Umsækjanda verður ekki veitt leyfi til nýrra fornleifarannsókna hafi hann sem leyfishafi ekki fullnægt kröfum Minjastofnunar Íslands um skil á útgefnu efni, gögnum og gripum og um birtingu lokaskýrslu um fyrri fornleifarannsóknir sínar, sem veitt hefur verið leyfi til.
 15. Leyfishafi skal eiga fyrsta útgáfurétt um gögn og gripi meðan unnið er úr rannsókn en þó ekki lengur en í fimm ár frá lokum vettvangsrannsókna. Sýningar um rannsóknina skulu ekki settar upp innan þess tíma án samþykkis leyfishafa rannsóknarleyfis. Eftir þann tíma skal efnið vera aðgengilegt öðrum vísinda- og fræðimönnum til rannsókna og útgáfu.
 16. Leyfishafi skuldbindur sig til að ganga vel frá rannsóknarstað milli ára og að rannsókn lokinni. Skal frágangur miða að því að varðveita sem best það, sem eftir er af minjum og að minjastaðurinn sé snyrtilegur í hvívetna. Rannsóknarstaður er í umsjón Minjastofnunar Íslands, sbr. lög nr. 80/2012 og skulu allar ráðstafanir varðandi rannsóknarstaðinn að lok­inni rannsókn gerðar í samráði við stofnunina.
 17. Fornleifarannsókn telst lokið þegar gengið hefur verið frá minjastað í samræmi við reglur Minjastofnunar Íslands, gögnum og gripum skilað til Þjóðminjasafns Íslands og birt loka­skýrsla um niðurstöður rannsóknarinnar.

6. gr.

Fari leyfishafi ekki að greindum skilmálum eða ákvæðum laga um menningarminjar að mati Minja­stofnunar Íslands áskilur stofnunin sér rétt til að afturkalla leyfið þegar í stað og krefjast afhend­ingar gagna og gripa til Þjóðminjasafns Íslands. Um mögulegt framhald rannsóknarinnar gilda ákvæði 38. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.

Minjastofnun Íslands áskilur sér einnig rétt til að afturkalla leyfi til rannsókna ef í ljós kemur að ekki er faglega staðið að rannsóknunum að mati eftirlitsmanna stofnunarinnar og vinnubrögð eru talin geta skapað hættu á að heimildagildi fornleifanna glatist. Á þetta jafnt við um fornleifarannsóknir til eins árs eða til lengri tíma.

Ef sú staða kemur upp að stjórnandi rannsóknar getur ekki lokið rannsókn skal öllum gögnum og gripum þegar í stað skilað til Þjóðminjasafns Íslands.

7. gr.

Reglur þessar eru settar af Minjastofnun Íslands með vísan til 36. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 339/2013.

Minjastofnun Íslands, 14. júní 2019.

Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður.


B deild - Útgáfud.: 1. júlí 2019