Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 31/2020

Nr. 31/2020 30. apríl 2020

LÖG
um Matvælasjóð.

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum.

    Matvælasjóður lýtur stjórn fjögurra manna sem ráðherra skipar til þriggja ára í senn. Einn skal skipaður samkvæmt tilnefningu Bændasamtaka Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.

    Stjórn sjóðsins gerir tillögur um úthlutanir úr sjóðnum að fenginni umsögn fagráðs sem stjórnin skipar til fjögurra ára í senn. Fagráð skal skipað allt að sjö einstaklingum. Fagráð er til ráðgjafar um fagleg málefni við úthlutanir úr sjóðnum. Jafnframt er fagráð ráðgefandi fyrir stjórn sjóðsins eftir því sem óskað er.

    Stjórn sjóðsins mótar stefnu fyrir sjóðinn og ber undir ráðherra til samþykktar. Ráðstöfunarfé sjóðsins samanstendur af fjárveitingu af fjárlögum hverju sinni og öðrum tekjum eftir því sem þeim er til að dreifa.

    Stjórn sjóðsins hefur umsjón með rekstri hans. Heimilt er að fela þriðja aðila reksturinn. Stjórnin skilar ársreikningi og reglulegu yfirliti um störf sín til ráðherra. Þóknun stjórnar er ákveðin af ráðherra. Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans.

    Stjórn sjóðsins setur starfsreglur um auglýsingar, meðferð og mat umsókna, framkvæmd úthlut­unar, fagráð o.fl.

 

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Lög um Framleiðnisjóð landbúnaðarins, nr. 89/1966, falla úr gildi 31. desember 2020. Skal starf­semi sjóðsins þá vera lokið. Matvælasjóður tekur við öllum eignum hans og skuldbindingum frá þeim tíma.

    Skipa skal stjórn fyrir Matvælasjóð svo fljótt sem verða má eftir gildistöku laga þessara sem þegar skal hefja vinnu við stefnumótun fyrir sjóðinn og undirbúning að starfsemi hans.

 

3. gr.

    Við gildistöku þessara laga verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:

  1. Búnaðarlög, nr. 70/1998:
    1. Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
      1. Orðin „þar sem m.a. skal kveðið á um framlög til Framleiðnisjóðs land­bún­aðarins vegna atvinnuuppbyggingar í sveitum og verkefna sem stuðla að aukinni framleiðni í íslenskum landbúnaði“ í 1. mgr. falla brott.
      2. 2. málsl. 4. mgr. fellur brott.
    2. 2. mgr. 21. gr. laganna orðast svo:
          Framlögum til verkefna skv. 1. mgr. skal ráðstafa að fenginni umsögn fagráðs í viðkomandi búgrein.
  2. Lög um skattskyldu lánastofnana, nr. 65/1982: Í stað orðanna „Framleiðnisjóðs land­bún­aðarins“ í 2. gr. laganna kemur: Matvælasjóðs.
  3. Lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996: Í stað orðanna „Framleiðni­sjóður landbúnaðarins“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: Matvælasjóður.
  4. Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003: Í stað orðanna „Framleiðnisjóður landbúnaðarins“ í 1. tölul. 5. mgr. 71. gr. laganna kemur: Matvælasjóður.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 2.–4. tölul. 3. gr. skal Framleiðnisjóður landbúnaðarins halda sömu skattalegu stöðu og hingað til út starfstíma sinn.

 

Gjört á Bessastöðum, 30. apríl 2020.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Kristján Þór Júlíusson.


A deild - Útgáfud.: 6. maí 2020