Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 466/2024

Nr. 466/2024 3. apríl 2024

REGLUGERÐ
um réttindi flugfarþega.

1. gr.

Markmið og gildissvið.

Með reglugerð þessari er leitast við að auka neytendavernd með því að skýra réttindi farþega og kveða á um meðferð kvartana með það fyrir augum að einfalda málsmeðferð og auðvelda úrlausn mála.

Reglugerð þessi gildir um greiðslu skaðabóta og aðstoð við farþega sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst, seinkað eða flýtt.

 

2. gr.

Ábyrgðar- og eftirlitsaðili.

Samgöngustofa fer með eftirlit með réttindum neytenda samkvæmt XVI. kafla laga um loft­ferðir og reglugerð þessari og skal grípa til viðeigandi aðgerða til að tryggja að réttindi farþega séu virt.

 

3. gr.

Réttur til kvörtunar.

Farþegar og aðrir sem hafa hagsmuna að gæta geta skotið ágreiningi er varðar fjárhagslega kröfur og einkaréttarlega hagsmuni skv. XVI. kafla laga um loftferðir og reglugerð þessari til Samgöngu­stofu.

 

4. gr.

Málskotsgjald.

Sá sem óskar eftir úrskurði Samgöngustofu skal greiða málskotsgjald að fjárhæð 5.000 kr. til Samgöngustofu. Ef fallist er á kröfu kvartanda í heild eða hluta skal málskotsgjald endurgreitt kvartanda af þjónustuveitanda sem kvartað er vegna.

Ef sættir verða í máli eftir að kvörtun berst Samgöngustofu ber málsaðilum að tilkynna stofn­un­inni um það. Í kjölfarið verður kvörtun felld niður af hálfu Samgöngustofu og málskotsgjald endur­greitt kvartanda af Samgöngustofu.

 

5. gr.

Málsmeðferð og gjald lagt á þjónustuveitanda.

Kvartanir vegna brota á reglugerð þessari og lögum um loftferðir skal beina til Samgöngustofu.

Samgöngustofa skal leita álits viðkomandi flugrekanda eða rekstraraðila flugvallar á kvörtun, ganga úr skugga um að upplýsingar sem þar eru veittar eigi við rök að styðjast og freista þess að jafna ágreining aðila á skjótan og markvissan hátt, sbr. 208. gr. laga um loftferðir.

Náist ekki samkomulag eða sátt skal Samgöngustofa skera úr ágreiningi með úrskurði.

Falli mál farþega í vil innheimtir Samgöngustofa gjald af viðkomandi þjónustuveitanda vegna kostnaðar af kvörtun sem berst frá farþega og miðast gjaldið við 3 klst. vinnu sérfræðinga Samgöngu­stofu, sbr. 1. gr. a í viðauka I í gjaldskrá Samgöngustofu.

 

6. gr.

Birting úrskurða o.fl.

Samgöngustofu er heimilt að birta opinberlega úrskurði sem teknir eru á grundvelli reglugerðar­innar og laga um loftferðir. Stofnuninni er heimilt að birta nöfn flugrekenda og rekstraraðila flug­valla sem tilkynnt hafa að þeir hyggist ekki fara að úrskurði stofnunarinnar.

Samgöngustofu er heimilt að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja á grundvelli þjóðréttar­skuldbind­inga nauðsynlegar upplýsingar og gögn er varða afgreiðslu mála er falla undir reglu­gerðina.

 

7. gr.

Skylda til að veita farþega upplýsingar um rétt sinn.

Flugrekendur, umráðendur loftfars, umboðsaðilar og söluaðilar skulu veita farþega greinargóðar og fullnægjandi upplýsingar um rétt til bóta og aðstoðar bæði með tilkynningu við innritun farþega og með aðgengilegum skriflegum upplýsingum.

 

8. gr.

Seinkun, aflýsing, neitun á fari og flýting.

Um bætur vegna seinkunar, aflýsingar eða neitunar á fari gilda ákvæði reglugerðar (EB) nr. 261/2004.

Farþegi á einnig rétt á aðstoð og þjónustu í samræmi við reglugerðina.

Ef flugi er flýtt á farþegi rétt á sömu aðstoð og þjónustu og kveðið er á um í 2. mgr. Í slíku tilviki getur farþegi einnig átt rétt á bótum.

 

9. gr.

Viðmið vegna mats á kostnaði.

Ef ágreiningur er um bætur og kveðið er á um slíkan bótarétt í XVI. kafla laga um loftferðir og reglugerð þessari, s.s. vegna kostnaðar farþega vegna gistingar, fæðis, samskipta og flutnings milli staða, skal Samgöngustofa leggja til grundvallar kostnað sem ráða má af reikningi, sölunótu, greiðslu­kvittun eða öðrum gögnum sem eðlileg geta talist með hliðsjón af aðstæðum.

Geti farþegi ekki sýnt fram á raunkostnað með sannarlegum hætti er Samgöngustofu heimilt að ákveða kostnaðarviðmið sem endurspegla kostnað farþega svo sem vegna gistingar, fæðis, sam­skipta, flutnings milli staða o.fl. Kostnaðarviðmið skal byggja á almennum kostnaði eða meðaltals­kostnaði þar sem honum er til að dreifa.

Réttur farþega ræðst af ákvæðum XVI. kafla laga um loftferðir og reglugerða sem innleiddar eru með reglugerð þessari sem tilgreina bætur eða hámark þeirra ef við á.

 

10. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi eftirtalin gerð sem vísað er til í XIII. viðauka við samn­inginn um Evrópska efnahagssvæðið með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaða­bætur og aðstoð til handa farþegum sem er neitað um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður og um að fella úr gildi reglugerð (EBE) nr. 295/91, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndar­innar nr. 171/2004 frá 3. desember 2004, sem birt er í EES-viðbæti nr. 54, bls. 371, árið 2007.

 

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 209. gr. og 249. gr. laga um loftferðir nr. 80/2022, öðlast þegar gildi. Samhliða fellur úr gildi reglugerð um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum í flugi sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst, seinkað eða flýtt eða vegna tapaðs farangurs eða tjóns á honum, nr. 1048/2012.

 

Innviðaráðuneytinu, 3. apríl 2024.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Hermann Sæmundsson.


B deild - Útgáfud.: 17. apríl 2024