Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1100/2022

Nr. 1100/2022 15. september 2022

REGLUGERÐ
um alþjónustu á sviði fjarskipta.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um fjarskiptafyrirtæki og nær til þeirra þátta fjarskipta sem teljast alþjónusta í skilningi laga um fjarskipti, nr. 70/2022.

 

2. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðarinnar er að skilgreina hvaða þættir fjarskipta af tilteknum lágmarksgæðum skuli boðnir neytendum á lögheimili sínu eða aðsetri samkvæmt skráningu hjá Þjóðskrá Íslands á viðráðanlegu verði, svo og örfélögum í skilningi laga um ársreikninga á stöðum þar sem þau eru með heilsársstarfsemi. Enn fremur er markmið reglugerðarinnar að kveða nánar á um skilyrði og útfærslu ráðstafana er varða aðgengi að og eftirlit með alþjónustu, þar á meðal gjaldskrá innan alþjónustu, svo og mat á kostnaði af alþjónustu sem alþjónustuveitanda er gert skylt að veita, með það í huga að bæta honum upp mismun kostnaðar og tekna af þjónustunni.

 

3. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari merkir:

 1. Alnánd: Alnánd felst í því að fyrirtæki býður fjarskiptaþjónustu alls staðar á ákveðnu svæði eða á landinu öllu. Þeir sem stofna ný heimili eða fyrirtæki eru þannig líklegri til að velja þann aðila þegar kemur að því að velja fyrirtæki til að veita fjarskiptaþjónustu heldur en samkeppnisaðila sem ekki er í sömu stöðu.
 2. Alþjónusta: Afmarkaðir þættir fjarskipta af tilteknum lágmarksgæðum í samræmi við ákvæði II. kafla.
 3. Alþjónustuveitandi: Fjarskiptafyrirtæki sem Fjarskiptastofa hefur útnefnt með alþjónustu­skyldur á grundvelli laga um fjarskipti, þ.e. lagt á kvaðir um að veita alþjónustu á starfs­svæði sínu samkvæmt III. kafla.
 4. Endanotandi: Neytandi eða örfélag í skilningi laga um ársreikninga sem nýtur réttar til alþjón­ustu á viðráðanlegu verði samkvæmt reglugerð þessari og veitir ekki almenna fjar­skipta­þjónustu eða býður almenn fjarskiptanet.
 5. Nothæf netaðgangsþjónusta: Netaðgangsþjónusta í skilningi laga um fjarskipti sem upp­fyllir lágmarkskröfur samkvæmt II. kafla að því er varðar virkni, gæði og tæknilega eigin­leika er miða að því að þjónustan geti komið endanotendum að gagni í daglegu lífi.
 6. Línugjald: Gjald fyrir aðgang að tengingu við fast net.
 7. Ímynd: Alþjónustuveitandi er líklegur til þess að hafa hag af umtali og auglýsingu sem fylgir því að þjóna óhagkvæmum svæðum og viðskiptavinum sem hluta af alþjónustu­skyldum með þeim hætti að það hefur áhrif á ímynd vörumerkis og orðstír fjarskipta­fyrirtækisins.
 8. Ósanngjörn byrði: Þegar álagning kvaða á fjarskiptafyrirtæki um að veita alþjónustu sam­kvæmt III. kafla leiðir til taps eða aðstæðna sem ekki myndu skapast ef venjuleg viðskipta­sjónarmið væru lögð til grundvallar og að teknu tilliti til ávinnings sem fyrirtækið hefur af veitingu þjónustunnar í samræmi við aðferðafræði um hreinan kostnað (e. net cost).
 9. Vörumerki: Hvers konar sýnileg tákn sem eru til þess fallin að greina vörur eða þjónustu eins aðila frá vörum og þjónustu annarra, sbr. 2. gr. laga um vörumerki.
 10. Æviferilsáhrif: Með því að þjóna viðskiptavini sem ekki er hagkvæmt að þjóna eykur alþjónustuveitandi líkur á því að viðskiptavinurinn eigi viðskipti við hann í framtíðinni eftir að arðsamt verður að veita honum fjarskiptaþjónustu. Með þessu er í fyrsta lagi átt við að viðskiptavinurinn flytjist til staðar þar sem ódýrara er að þjóna honum en á núverandi stað og í öðru lagi er átt við að aukin velmegun neytenda geti leitt til aukinnar notkunar á fjarskipta­þjónustu.

Að öðru leyti gilda orðskýringar í lögum um fjarskipti, nr. 70/2022.

 

II. KAFLI

Alþjónusta. Þjónustutegundir og lágmarkskröfur.

4. gr.

Tegundir fjarskiptaþjónustu innan alþjónustu.

Endanotendum sem uppfylla skilyrði 5. gr. skal tryggður aðgangur á viðráðanlegu verði að eftir­farandi fjarskiptaþjónustu, sem fellur undir reglur um alþjónustu:

 1. símaþjónustu og
 2. nothæfri netaðgangsþjónustu.

Réttur til alþjónustu er þó ekki fortakslaus. Hann getur verið háður takmörkunum vegna kostnaðar, landfræðilegra aðstæðna eða annars óhagræðis, sbr. einkum 12. gr.

Fjarskiptastofa skal leitast við að tryggja öllum fjarskiptafyrirtækjum viðeigandi hvata, óháð útnefningu samkvæmt III. kafla, til að veita þjónustu samkvæmt 1. mgr. með hagkvæmum hætti.

 

5. gr.

Nánar um rétt endanotenda til alþjónustu.

Eftirfarandi skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að endanotandi sem rétt á til alþjónustu fái notið skilgreindrar lágmarksþjónustu, þ.m.t. tengingar, sem liggur að baki:

 1. Neytandi skal vera með skráð lögheimili eða aðsetur samkvæmt skráningu hjá Þjóðskrá Íslands.
 2. Örfélag í skilningi laga um ársreikninga skal sýna fram á að félagið sé með heilsársstarfsemi á þeim stað þar sem óskað er eftir tengingu.

 

6. gr.

Þjónusta og aðgerðir sem endanotanda skal vera kleift
að framkvæma á grundvelli nothæfrar netaðgangsþjónustu.

Nothæf netaðgangsþjónusta í skilningi reglugerðarinnar skal að lágmarki styðja við eftirfarandi aðgerðir eða notkun:

 1. tölvupóst,
 2. leitarvélar sem gera kleift að leita að og finna allar gerðir upplýsinga,
 3. tæki til undirstöðuþjálfunar og menntunar á netinu,
 4. vefblöð eða -fréttir,
 5. pantanir og kaup á vörum eða þjónustu á netinu,
 6. atvinnuleit og atvinnuleitartæki,
 7. tengslamyndun í atvinnuskyni,
 8. bankaviðskipti á netinu,
 9. rafræna stjórnsýslu,
 10. samfélagsmiðla og smáskilaboð,
 11. símtöl og myndsímtöl (af staðalgæðum).

 

7. gr.

Lágmarkskröfur til þjónustu innan alþjónustu.

Alþjónustu má veita endanotendum í gegnum föst net eða þráðlaus net, svo sem farnet eða yfir gervitungl.

Tenging endanotanda sem rétt á til alþjónustu við almennt fjarskiptanet um nettengipunkt skal gera honum kleift að hringja og taka á móti innanlands- og útlandasímtölum, ásamt aðgangi að not­hæfri netaðgangsþjónustu.

Um staðalgæði vegna myndsímtala samkvæmt 11. tölul. 6. gr. fer samkvæmt ákvörðun Fjar­skipta­stofu á hverjum tíma og að teknu tilliti til alþjóðlega viðurkenndra viðmiða, þó að lágmarki 480p.

Ef markaðsaðstæður krefjast þess getur Fjarskiptastofa við útnefningu alþjónustuveitanda sam­kvæmt III. kafla kveðið á um lágmarksgagnaflutningshraða á nothæfri netaðgangsþjónustu innan alþjónustu og/eða lágmarksgæði símaþjónustu innan alþjónustu.

 

8. gr.

Kvartanir, mat og mælingar Fjarskiptastofu.

Ef endanotandi sem rétt á til alþjónustu telur sig ekki hafa aðgang að fullnægjandi fjarskipta­þjónustu samkvæmt reglum um alþjónustu, eða er synjað um slíka þjónustu af fjarskiptafyrirtæki, getur hann borið málið undir Fjarskiptastofu til ákvörðunar, sbr. 17. gr. laga um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021.

Við mat á því hvort endanotendur sem rétt eiga til alþjónustu hafi aðgang að nothæfri net­aðgangs­þjónustu getur Fjarskiptastofa tekið mið af upplýsingum úr stafrænum gagnagrunni um almenn fjarskiptanet, sbr. 10. gr. laga nr. 75/2021.

Endanotanda sem rétt á til alþjónustu er heimilt að óska eftir að Fjarskiptastofa geri mælingar til að staðreyna hvort hann hafi aðgang að nothæfri netaðgangsþjónustu og er stofnuninni skylt að verða við beiðni þar um ef vísbendingar eru um að fyrirliggjandi upplýsingar úr gagnagrunni gefi ekki rétta mynd af aðgengi að lágmarksþjónustu á viðkomandi lögheimili, aðsetri eða stöðum þar sem örfélög eru með heilsársstarfsemi.

 

III. KAFLI

Aðgengi að alþjónustu og eftirlit með gjaldskrá.
Útnefning alþjónustuveitenda og kostnaður.

9. gr.

Eftirlit með aðgengi að alþjónustu.

Fjarskiptastofa skal reglubundið og að lágmarki á þriggja ára fresti framkvæma markaðskönnun í því skyni að leggja mat á hvort allir endanotendur sem rétt eiga til alþjónustu njóti hennar í sam­ræmi við ákvæði laga og reglugerðar þessarar.

Markaðskönnun samkvæmt 1. mgr. skal m.a. taka til eftirfarandi atriða:

 1. Aðgengi endanotenda að þjónustu starfandi fjarskiptafyrirtækja.
 2. Þjónustuframboði á markaði.
 3. Útbreiðslu tenginga við föst net og farnetsþjónustu.
 4. Hvaða gagnaflutningshraða meirihluta landsmanna stendur almennt til boða.
 5. Hvort smásöluverð á fjarskiptamarkaði hér á landi á þjónustu innan alþjónustu teljist viðráðan­legt fyrir neytendur og aðra endanotendur. Sérstaklega skal kanna aðgengi tekju­lágra og neytenda með sérþarfir.
 6. Hvort neytendum með sérþarfir sé kleift að nýta sér skilgreinda lágmarksþjónustu til jafns við aðra endanotendur.
 7. Hvort endanotendur eigi þess kost að kaupa áskriftarleið sem takmarkast við símaþjónustu, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga um fjarskipti, nr. 70/2022.
 8. Hvort ástæða sé til að skilgreina lágmarksgæði símaþjónustu innan alþjónustu.
 9. Hvort endanotendum sé tryggður aðgangur að nothæfri netaðgangsþjónustu í samræmi við lög og reglugerð þessa.

Ef niðurstaða Fjarskiptastofu er að endanotendur sem rétt eiga til alþjónustu hafi ekki aðgang að skilgreindri alþjónustu skal stofnunin hefja undirbúning að útnefningu alþjónustuveitanda, sbr. 11. gr.

 

10. gr.

Eftirlit með gjaldskrá fjarskiptafyrirtækja á þjónustu innan alþjónustu.

Fjarskiptastofa skal fylgjast með verðlagi og þróun smásöluverðs á fjarskiptaþjónustu innan alþjón­ustu samkvæmt II. kafla hjá öllum fjarskiptafyrirtækjum sem veita almenna fjarskipta­þjónustu og reka almenn fjarskiptanet, þar á meðal alþjónustuveitendum.

Að lágmarki skal Fjarskiptastofa reglubundið vakta þróun smásöluverðs að því er varðar eftir­talið:

 1. línugjald,
 2. nothæfa netaðgangsþjónustu og
 3. símaþjónustu.

Fjarskiptastofa skal sérstaklega fylgjast með hvort jafnræði endanotenda sem rétt eiga til alþjón­ustu sé tryggt með tilliti til landsbundins verðlags og tekna neytenda, sem og því hvort meiri hætta sé fyrir tiltekna hópa endanotenda en aðra um að geta ekki nýtt sér skilgreinda lágmarks­þjónustu.

Við athugun á verðlagningu fjarskiptafyrirtækja á nothæfri netaðgangsþjónustu skal miða við ódýrustu áskriftarleið fjarskiptafyrirtækja á markaði, enda uppfylli hún lágmarkskröfur II. kafla.

Ef það er mat Fjarskiptastofu að aðgengi að skilgreindri lágmarksþjónustu, sé ekki tryggt vegna verðlagningar á þjónustu innan alþjónustu, skal stofnunin hefja undirbúning að útnefningu alþjón­ustu­veitanda til að tryggja að endanotendum standi til boða aðgengi að skilgreindri lágmarks­þjónustu á viðráðanlegu verði.

Ef það er mat Fjarskiptastofu að smásöluverð fyrir alþjónustu sé ekki viðráðanlegt fyrir tekjulága eða að neytendur með sérþarfir séu útilokaðir frá aðgangi að slíkri þjónustu getur stofnunin við útnefn­ingu samkvæmt 11. gr. kveðið á um að boðið skuli upp á sérstaka gjaldskrá fyrir þessa tilteknu hópa. Um birtingu sérstakrar gjaldskrár fer samkvæmt 73. gr. laga nr. 70/2022, um fjar­skipti.

 

11. gr.

Útnefning alþjónustuveitanda.

Ef markaðskönnun leiðir í ljós, að endanotendum sé ekki tryggt aðgengi að skilgreindri lágmarks­þjónustu með tilgreindum gæðum og á viðráðanlegu verði í samræmi við ákvæði laga og reglu­gerðar þessarar getur Fjarskiptastofa kveðið á um að fjarskiptafyrirtæki, eitt eða fleiri, sem reka fjarskiptanet eða veita fjarskiptaþjónustu skuli bjóða eina eða fleiri tegundir alþjónustu á starfs­svæði sínu. Heimilt er að deila alþjónustukvöðum á milli fjarskiptafyrirtækja og rekstraraðila neyðar- og öryggisfjarskipta­neta.

Aðferðir Fjarskiptastofu skulu á skilvirkan hátt miða að því að tryggja framkvæmd alþjónustu. Gæta ber hlutlægni, gagnsæis, jafnræðis og meðalhófs við útnefningarferlið.

Áður en endanleg ákvörðun er tekin um útnefningu skal stofnunin, ef við á, birta reglur um skil­greiningu lágmarksgæða á símaþjónustu innan alþjónustu og/eða lágmarksgagnaflutningshraða á not­hæfri netaðgangsþjónustu.

Fjarskiptastofa skal við undirbúning útnefningar alþjónustuveitanda leita allra leiða til að tryggja fjarskiptafyrirtækjum viðeigandi hvata til að rækja alþjónustuskyldur með sem hagkvæm­ustum hætti.

Kvöð um alþjónustu sem lögð er á fjarskiptafyrirtæki skal endurskoða að minnsta kosti innan 5 ára frá dagsetningu ákvörðunar. Áður en kvaðir vegna alþjónustu renna út skal Fjarskiptastofa hefja undirbúning að nýrri útnefningu alþjónustuveitanda.

 

12. gr.

Ákvörðun hámarkskostnaðar vegna aðgengis að þjónustu
innan alþjónustu við sérstakar aðstæður.

Við útnefningu alþjónustuveitanda er Fjarskiptastofu heimilt að ákvarða hámarkskostnað vegna stakrar fjarskiptatengingar við uppfyllingu alþjónustukvaða, enda sé um sérstakar landfræðilegar aðstæður eða annað óhagræði að ræða á tilteknum notkunarstað.

 

13. gr.

Umsókn um og ákvörðun kostnaðar vegna alþjónustu.

Ef alþjónustuveitandi telur að þjónusta, sem honum hefur verið gert skylt að veita, verði ekki rekin nema með tapi og muni þess vegna verða ósanngjörn byrði á fyrirtækinu getur hann sótt um að honum verði með fjárframlögum tryggt eðlilegt endurgjald fyrir viðkomandi þjónustu.

Umsókn um fjárframlag skal berast Fjarskiptastofu fyrir 15. apríl ár hvert ef sótt er um framlag á komandi almanaksári.

Í umsókn skal m.a. koma fram greinargóð lýsing á þeirri starfsemi sem sótt er um framlag fyrir, nákvæmar upplýsingar um hvert rekstrartapið af starfseminni er vegna alþjónustukvaða hlutað­eigandi, hvernig það sundurliðast og greinargerð um á hvern hátt rekstrartapið er ósanngjörn byrði á fjar­skipta­fyrirtækinu, þ.e. á hvern hátt tapið hafi veruleg áhrif á rekstrargetu fyrirtækisins og samkeppnis­mögu­leika eða hvernig það stofnar efnahag þess í hættu. Eftir því sem við á skal í umsókn tilgreina upp­lýsingar um hvernig bókhaldslegum aðskilnaði og sérgreiningu kostnaðar og tekna vegna alþjónustu er háttað hjá fyrirtækinu, sbr. 15. og 16. gr.

Nú berst Fjarskiptastofu umsókn um fjárframlag og niðurstaða stofnunarinnar er sú að viðkom­andi þjónusta sé óhjákvæmileg og verði ekki aflögð né verði hún tryggð með öðrum hagkvæmari hætti og hún sé ósanngjörn byrði á umsækjanda, þá skal Fjarskiptastofa ákvarða hreinan kostnað umsækj­anda vegna alþjónustuskyldu hans í samræmi við 14. gr.

Ákvörðun Fjarskiptastofu um fjárframlög skal gilda í eitt ár í senn. Telji annar hvor aðila að for­sendur fyrir ákvörðun fjárframlaga hafi breyst verulega geta þeir hvor fyrir sig krafist endur­skoðunar á framlaginu á gildistíma þess.

 

14. gr.

Útreikningur á hreinum kostnaði.

Við útreikning samkvæmt 4. mgr. 13. gr. skal Fjarskiptastofa reikna og sannprófa hreinan kostnað við alþjónustuskyldu sem mismun á hreinum kostnaði fjarskiptafyrirtækis, sem gert er skylt að veita alþjónustu, og hreinum kostnaði án alþjónustuskyldu í samræmi við ákvæði þetta.

Vandlega skal hugað að því að meta með réttum hætti kostnað sem fyrirtæki hefði kosið að komast hjá hefði ekki verið um neinar alþjónustuskyldur að ræða.

Við útreikning á hreinum kostnaði skal taka með í reikninginn þann ávinning, þar með talin óefnisleg hlunnindi, sem fyrirtæki kann að hafa af því að veita alþjónustu. Undir ávinning falla m.a. æviferilsáhrif, alnánd, ímynd og vörumerki. Við mat á ávinningi skal m.a. taka mið af framkvæmd innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Útreikningur samkvæmt ákvæði þessu skal grundvallast á kostnaði sem hægt er að heimfæra á eftirtalið:

 1. Þætti í viðkomandi þjónustu sem aðeins er hægt að veita með tapi eða hafa í för með sér meiri kostnað en eðlilegt getur talist í viðskiptum. Undir þetta geta til dæmis fallið síma­aðgengi að neyðar- og öryggisþjónustu, almenningssímar og tiltekin þjónusta eða búnaður fyrir endanot­endur með sérþarfir.
 2. Tiltekna endanotendur eða hópa endanotenda sem aðeins er hægt að þjóna með tapi eða með meiri kostnaði en eðlilegt getur talist í viðskiptum, að teknu tilliti til kostnaðar og tekna vegna reksturs viðkomandi fjarskiptanets og þjónustu og þeirra meðaltalsgjalda sem Fjar­skiptastofa kann að ákvarða. Undir þetta falla þeir endanotendur og hópar endanotenda sem fengju enga þjónustu hjá fyrirtæki sem starfaði á viðskiptagrundvelli og væri ekki skylt að veita alþjón­ustu.

Útreikningur á hreinum kostnaði við sérstaka þætti alþjónustuskyldna skal fara fram aðskilið og með þeim hætti að komist sé hjá því að tvítelja hvers kyns bein eða óbein hlunnindi og kostnað. Hreinan heildarkostnað fyrirtækis, sem hlýst af alþjónustuskyldu, skal reikna sem summuna af hreinum kostnaði sem hlýst af tilteknum þáttum alþjónustuskyldu, að teknu tilliti til hvers kyns óefnislegra hlunninda.

 

15. gr.

Bókhaldslegur aðskilnaður.

Fjarskiptafyrirtæki, sem á hefur verið lögð kvöð um að veita alþjónustu, sem hyggst sækja um framlag vegna alþjónustu skal aðgreina fjárstrauma og semja sérgreind reikningsskil fyrir þá gjalda- og tekjuþætti sem hægt er að heimfæra til þjónustunnar. Að lágmarki skal aðgreina eftirfarandi þætti:

 1. Rekstur almennra fjarskiptaneta sem notuð eru fyrir símaþjónustu og nothæfa netaðgangs­þjónustu.
 2. Rekstur símaþjónustu og nothæfrar netaðgangsþjónustu.
 3. Þjónustu við tekjulága og/eða neytendur með sérþarfir.

 

16. gr.

Sérgreining kostnaðar og tekna vegna alþjónustu.

Við heimfærslu kostnaðar og tekna á einstaka rekstrarþætti, sbr. 15. gr., skal fjarskiptafyrirtæki, sem á hefur verið lögð kvöð um að veita alþjónustu, nota eftirfarandi grunnreglur:

 1. Beinan kostnað af því að koma upp, starfrækja og viðhalda viðkomandi rekstrarþætti skal heimfæra alfarið á hann.
 2. Sameiginlegum kostnaði, þ.e. kostnaði sem ekki er hægt að heimfæra á einstakan rekstrar­þátt, skal deila að svo miklu leyti sem unnt er milli rekstrarþátta með því að greina tilurð kostn­aðar­ins.
 3. Þegar bein kostnaðargreining samkvæmt a- og b-lið er ekki möguleg, skal sameigin­legum kostnaði skipt á grundvelli óbeinna tengsla við aðra kostnaðarliði eða hóp kostnaðar­liða. Hin óbeinu tengsl skulu byggjast á sambærilegri uppsetningu kostnaðar.
 4. Þegar hvorki er hægt að finna beina né óbeina aðferð til heimfærslu, skal heimfærsla kostn­aðar eiga sér stað á grundvelli skiptireglu sem reiknast sem hlutfall alls beins og óbeins kostn­aðar heimfærðs annars vegar til viðkomandi alþjónustu og hins vegar til annarrar þjónustu sem á hlutdeild í kostnaðinum.
 5. Tekjur sem aflað er í sambandi við starfsemi alþjónustuveitenda á ákveðnu rekstrarsviði, skulu skiptast eftir sömu reglum og um getur í liðum a-d.

 

17. gr.

Fjármögnun alþjónustu.

Um álagningu jöfnunargjalds á fjarskiptafyrirtæki, til að standa straum af greiðslu fjárframlaga vegna kostnaðar við alþjónustu, fer samkvæmt 66. gr. laga um fjarskipti, nr. 70/2022. Við álagn­ingu jöfnunargjalds skal gæta að sjónarmiðum um gagnsæi, jafnræði og meðalhóf.

Fjarskiptastofa ber ábyrgð á árlegu endurmati á fjárþörf vegna alþjónustu og tímanlegri tillögu­gerð til ráðherra um álagningu og hlutfallsviðmið jöfnunargjalds.

Jöfnunargjald skal ákveðið með lögum og skal Fjarskiptastofa ef við á tilkynna ráðherra tíman­lega um fjárþörf vegna komandi árs til grundvallar árlegrar endurskoðunar fjármálaáætlunar.

 

IV. KAFLI

Opinber birting upplýsinga. Gildistaka.

18. gr.

Skýrsla Fjarskiptastofu um kostnað af alþjónustu.

Fjarskiptastofa skal árlega taka saman og birta í skýrslu samkvæmt 29. gr. laga um Fjar­skipta­stofu, nr. 75/2021, yfirlit yfir kostnað af alþjónustu, sem og lista yfir þá staði/svæði sem fjarskipta­fyrirtæki sjá sér ekki fært að þjóna vegna viðskiptahagsmuna.

Enn fremur skal í árlegri skýrslu Fjarskiptastofu birta upplýsingar um verðlag og þróun smá­sölu­verðs, sbr. 10. gr., sem og niðurstöðu á því mati stofnunarinnar hvort gjaldskrá fjarskipta­fyrirtækja á þjónustu innan alþjónustu teljist viðráðanleg á hverjum tíma.

Jafnframt skal Fjarskiptastofa birta upplýsingar um útreikning kostnaðar vegna alþjónustu­skyldu hjá einstökum alþjónustuveitendum og sundurliðaðan lista yfir greiðslur fjarskiptafyrirtækja í jöfn­unar­sjóð.

 

19. gr.

Eftirlit og viðurlög.

Fjarskiptastofa hefur eftirlit með framkvæmd ákvæða laga um fjarskipti, nr. 70/2022, er varða alþjónustu í fjarskiptum og nánar eru útfærð í reglugerð þessari. Um beitingu viðurlaga og önnur úrræði eftirlitsaðila fer samkvæmt lögum nr. 70/2022.

Um aðgang Fjarskiptastofu að upplýsingum fer samkvæmt lögum um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021.

 

20. gr.

Heimild og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 6. mgr. 62. gr., 3. mgr. 63. gr., 4. mgr. 64. gr., 8. mgr. 65. gr. og 107. gr. laga um fjarskipti, nr. 70/2022, og öðlast þegar gildi.

Samhliða fellur úr gildi reglugerð um alþjónustu á sviði fjarskipta, nr. 1356/2007.

 

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, 15. september 2022.

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Ásdís Halla Bragadóttir.


B deild - Útgáfud.: 30. september 2022