Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1257/2017

Nr. 1257/2017 18. desember 2017

REGLUR
um breytingu á reglum nr. 643/2011 um meistaranám við félagsvísindasvið Háskóla Íslands.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. reglnanna:

  1. Yfirskrift I. liðar verður: Umsjón með námi.
  2. Í stað orðsins „meistaranámsnefnd“ í 1. mgr. I. liðar, l. mgr. V. liðar og 1. mgr. IX. liðar kemur: kennslunefnd.
  3. Yfirskrift II. liðar verður: Skipan kennslunefndar.
  4. 1. mgr. II. liðar orðast svo:
      Í kennslunefnd sitja þrír fulltrúar, sem kosnir eru á deildarfundi. Skipað skal í kennslunefnd til tveggja ára í senn. Deildarforseti getur setið fundi nefndarinnar.
  5. 1. mgr. III. liðar orðast svo:
      Umsækjendur um framhaldsnám skulu að jafnaði hafa lokið BA- eða BS-prófi eða sambærilegu prófi með fyrstu einkunn. Umsækjendur með próf úr öðrum greinum en hagfræði geta, að undangengnu mati deildarinnar, fengið inngöngu í 60 eininga diplómanám eða MA-nám við hagfræðideild. Við inngöngu í diplómanám ákveður kennslunefnd hvaða námskeið hver nemandi þarf að taka á grundvelli fyrra náms og reynslu. Nemendur sem ná góðum árangri í námskeiðum diplómanámsins geta sótt um inngöngu í meistaranám. Fái þeir inngöngu, kemur til greina að meta hluta námskeiða úr diplómanámi til meistaraprófs, þó aldrei þau námskeið diplómanáms sem nemanda er gert að taka vegna skorts á nauðsynlegum grunni í rekstrarhagfræði, þjóðhagfræði, stærðfræði eða tölfræði. Gera skal grein fyrir matinu í samþykktarbréfi til umsækjanda. Kennslunefnd metur hvert tilvik í samræmi við verklagsreglur um mat á fyrra námi.
  6. 1. og 2. mgr. IV. liðar orðast svo:
      Meistaranám er 90 eða 120 einingar. MA-nám í hagnýtri hagfræði er 120 einingar. Nemendur ljúka 90 einingum í námskeiðum og skrifa 30 eininga ritgerð. Í MS-námi ljúka nemendur námskeiðum að lágmarki til 60 eininga og skrifa auk þess ritgerð til a.m.k. 30 eininga.
      Til að ljúka tveimur meistaraprófum frá deildinni þarf nemandi að ljúka öllum skyldu­námskeiðum á hvoru sviði. Einingafjöldi í námskeiðum skal samanlagt vera að lágmarki 90 einingar. Þá þarf nemandi að skrifa tvær sjálfstæðar ritgerðir.
  7. 1. málsl. 1. mgr. VIII. liðar orðast svo: Kjósi nemandi í MS-námi, sem lýkur námskeiðum til 60 eininga, að skrifa 60 eininga ritgerð skal hann senda umsókn til kennslunefndar.

2. gr.

Reglur þessar, sem háskólaráð Háskóla Íslands hefur samþykkt, eru settar samkvæmt heimild í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla, sbr. 69. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Reglurnar hafa verið samþykktar af hagfræðideild og stjórn félagsvísindasviðs, að fenginni umsögn Miðstöðvar framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 18. desember 2017.

Jón Atli Benediktsson.

Þórður Kristinsson.


B deild - Útgáfud.: 5. janúar 2018