Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1234/2016

Nr. 1234/2016 15. desember 2016

REGLUGERÐ
um stuðning við garðyrkju.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um stuðningsgreiðslur til framleiðenda garðyrkjuafurða, svo sem bein­greiðslur til framleiðenda á gúrkum, tómötum og papriku og niðurgreiðslu á raforku samkvæmt samn­ingi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða dags. 19. febrúar 2016.

2. gr.

Handhafar greiðslna.

Greiðslur samkvæmt reglugerð þessari fá þeir framleiðendur einir sem uppfylla eftirtalin skilyrði:

 1. eru skráðir eigendur eða leigjendur garðyrkjubýlis og
 2. stunda framleiðslu garðyrkjuafurða á garðyrkjubýli með virkt virðisaukaskattsnúmer og starfsemi þeirra fellur undir atvinnugreinanúmer 01 og 02 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT2008, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.61, 01.62, 01.63, 01.64, 01.70 og 02.40.

Hjón og einstaklingar í óvígðri sambúð, samkvæmt skráningu í þjóðskrá, sem standa saman að búrekstri geta óskað eftir því við Matvælastofnun að greiðslum samkvæmt reglugerð þessari sé skipt jafnt á milli aðila. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða með aðskilinn búrekstur getur hver og einn þeirra verið handhafi greiðslna. 

3. gr.

Opinbert eftirlit.

Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Matvælastofnun og Orkustofnun fara með framkvæmd reglugerðarinnar eftir því sem við á.

4. gr.

Framkvæmdanefnd búvörusamninga.

Framkvæmdanefnd búvörusamninga er samráðsvettvangur samningsaðila samnings um starfs­skilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða.

Framkvæmdanefnd búvörusamninga aflar upplýsinga um þróun framleiðslu og sölu á garðyrkju­afurðum, afurðaverð, inn- og útflutning afurða, afkomuþróun í garðyrkju, auk annarra upplýsinga sem hafa þýðingu fyrir framkvæmd samnings um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkju­afurða.

Framkvæmdanefnd búvörusamninga er heimilt að taka ákvörðun um að færa framlög milli ein­stakra verkefna sem falla undir samning um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, sbr. töflu í viðauka I við samninginn. Heimild þessi getur m.a. átt við ef innan viðkomandi rekstrarárs fari svo að áætluðum fjármunum til einstaka þátta verði ekki ráðstafað að fullu vegna þeirra takmark­ana sem gilda um hámarksstuðning skv. 5. gr.

Ef í ljós kemur að framleiðsluáætlun skv. 9. gr. gefur til kynna umtalsverðar breytingar á fram­leiðslu­magni milli tegunda er framkvæmdanefnd búvörusamninga heimilt að endurskoða hlutfalls­lega skiptingu milli tegunda skv. 8. gr.

Matvælastofnun skal ráðstafa framlögum samkvæmt ákvörðun framkvæmdanefndar búvöru­samninga. 

5. gr.

Hámarksstuðningur við hvern framleiðanda.

Hámarksstuðningur við hvern framleiðanda samkvæmt reglugerð þessari er eftirfarandi:

 1. Vegna beingreiðslna, mest 10% af heildarbeingreiðslum sem til ráðstöfunar eru á við­komandi rekstrarári samkvæmt fjárlögum.
 2. Vegna niðurgreiðslu á flutnings- og dreifingarkostnaði raforku, mest 15% af þeirri heildar­fjárhæð sem til ráðstöfunar er á viðkomandi rekstrarári samkvæmt samningi um starfs­skilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða samkvæmt fjárlögum.

II. KAFLI

Beingreiðslur.

6. gr.

Umsókn og réttur til beingreiðslna.

Matvælastofnun skal halda skrá yfir handhafa beingreiðslna.

Framleiðendur, sem tóku við beingreiðslum á árinu á undan þurfa ekki að sækja sérstaklega um fyrir næsta ár, en þeir skulu skila áætlun til Matvælastofnunar fyrir 15. febrúar ár hvert, þar sem fram kemur flatarmál gróðurhúsa, sem ætlað er til framleiðslu fyrir hverja tegund svo og áætluð framleiðsla af hverri tegund á komandi ári. Feli áætlun í sér meira en 10% frávik frá framleiðslu síðasta árs skal gera sérstaka grein fyrir henni. Einnig skal liggja fyrir fullnaðaruppgjör vegna ársins á undan áður en beingreiðslur fást greiddar vegna næsta árs.

Þeir aðilar sem ekki tóku við beingreiðslum á árinu á undan en vilja öðlast rétt til þeirra að uppfylltum skilyrðum, sbr. 2. gr., skulu senda umsókn til Matvælastofnunar fyrir 15. febrúar ár hvert. Þá skulu umsækjendur skila áætlunum skv. 9. gr.

Ef fullnægjandi gögnum skv. 2. mgr. er ekki skilað á réttum tíma verða beingreiðslur ekki greiddar fyrr en framleiðendur hafa gert úrbætur.

Tilkynna skal Matvælastofnun án tafar um breytingar á handhöfum beingreiðslna.

Réttur til beingreiðslna er bundinn við handhafa. Framsal þeirra er óheimilt.

7. gr.

Heildarfjárhæð og framkvæmd beingreiðslna.

Beingreiðslur skulu greiddar til framleiðenda út á eigin framleiðslu á tómötum, gúrkum og papriku. Framlög samkvæmt fjárlögum hvers árs skiptast upp eftir áðurnefndum tegundum og greiðast til framleiðenda miðað við selt magn af þessum afurðum.

Matvælastofnun hefur umsjón með og annast framkvæmd beingreiðslna.

8. gr.

Skipting beingreiðslna milli afurða.

Heildarbeingreiðslur skiptast á afurðir sem hér segir:

 1. Tómatar (að meðtöldum kirsuberja-, plómu-, kjöt- og klasatómötum) 49%.
 2. Gúrkur 37%.
 3. Paprika 14%.

Ef í ljós kemur að framleiðsluáætlanir gefa til kynna umtalsverða breytingu á framleiðslumagni milli tegunda er heimilt að endurskoða ofangreinda skiptingu, sbr. 2. mgr. 4. gr.

9. gr.

Útreikningur beingreiðslna á afurðaeiningar.

Heildarfjárhæð beingreiðslna sem er til ráðstöfunar fyrir hverja afurð skal deilt á selt magn innan ársins, frá og með 1. janúar ár hvert. Flokka skal tómata, gúrkur og papriku eftir flokkunarreglum Sambands garðyrkjubænda um gæðaflokkun þessara afurða og skulu beingreiðslur einungis greiddar út á selt magn afurða sem fara í fyrsta flokk.

Matvælastofnun gerir áætlun að fengnum upplýsingum frá framleiðendum um sölumagn framan­greindra afurða fyrir árið. Áætla skal beingreiðslur pr. kg miðað við áætlað sölumagn og greiða 80% af áætluðum beingreiðslum pr. kg sem fyrstu greiðslu eftir sölu hvers mánaðar.

Við lokauppgjör skv. 14. gr. skal finna út beingreiðslur á hvert kg afurðar miðað við heildarfjárhæð beingreiðslna skv. 8. gr. með því að deila þeim á það magn, sem staðfest er að selt hafi verið á árinu og skulu þær greiddar framleiðendum að frádregnum þeim greiðslum sem fram hafa farið. Ef upp kemur ágreiningur um rétt til beingreiðslna skulu þeir fjármunir sem um er deilt ekki koma til greiðslu við lokauppgjör fyrr en leyst hefur verið úr ágreiningnum. 

10. gr.

Endurskoðun á einingaverði beingreiðslna.

Matvælastofnun skal tvisvar á ári hverju, fyrir 1. júlí og fyrir 1. október, endurskoða spár um framleiðslumagn ársins um breytingar á fyrirframgreiðslu á selda einingu, sbr. 12. gr. Ef til lækkunar kemur á beingreiðslum á einingu afurðar til hvers handhafa, skulu þær endurreiknaðar frá upphafi árs í samræmi við breytingar á einingaverðum, á þann hátt að til útborgunar á árinu komi að hámarki 88% af áætluðum beingreiðslum á einingu við endurskoðun 1. júlí. Við endurskoðun 1. október skal breyta fyrirframgreiðslum í 93% af áætluðum beingreiðslum á einingu. Matvæla­stofnun tilkynnir handhöfum beingreiðslna þessar ákvarðanir hverju sinni.

11. gr.

Gjalddagar beingreiðslna.

Fyrsti gjalddagi er 1. apríl ár hvert og síðan 1. hvers mánaðar vegna sölu næstsíðasta mánaðar að því tilskildu að gögnum vegna sölu sé skilað á réttum tíma, sbr. 13. gr. Berist gögn síðar frestast afgreiðsla beingreiðslna til næsta gjalddaga.

12. gr.

Umboðssala og réttur til beingreiðslna.

Framleiðandi getur einungis öðlast rétt til beingreiðslna með sölu eigin framleiðsluafurða en ekki með sölu á afurðum sem hann hefur keypt af öðrum. Sala afurða veitir aðeins rétt til beingreiðslna sé kaupandi bókhaldsskyldur hvort sem um er að ræða kaup til eigin rekstrar eða til endursölu. Sömu reglur gilda um umboðssölu.

III. KAFLI

Upplýsingar og gögn um sölu afurða o.fl.

13. gr.

Upplýsingar og gögn sem skila ber mánaðarlega.

Handhafar beingreiðslna skulu senda Matvælastofnun mánaðarlega eftirfarandi upplýsingar og gögn eigi síðar en 12. næsta mánaðar eftir að sala fer fram:

 1. Nafn, heimilisfang og kennitölu handhafa beingreiðslna ásamt virðisaukaskattsnúmeri og búsnúmeri garðyrkjubýlis.
 2. Nafn, heimilisfang og kennitölu kaupanda ásamt virðisaukaskattsnúmeri.
 3. Upplýsingar um framleiðslu eða afreikninga.
 4. Sölunótur skulu bera með sér tegund afurðar, selt magn í kg, skiptingu magns eftir gæðaflokkum, verð á kg fyrir hverja afurðaeiningu og verðmæti alls. Séu þessar upplýsingar sendar á rafrænu formi er ekki skylt að afreikningar eða sölunótur fylgi, aðeins að þessi gögn séu til staðar og aðgengileg sé eftir þeim leitað og að viðeigandi fylgiskjalsnúmer sé skráð og komi fram.

Þau gögn sem þannig eru frágengin skulu staðfest með undirritun eða öðrum fullnægjandi hætti, af eða fyrir hönd viðkomandi handhafa beingreiðslna eftir umboði. Matvælastofnun getur hvenær sem er óskað eftir aðgangi að frumgögnum til staðfestingar. Handhafa beingreiðslna er skylt að halda eftir afriti af gögnum sendum Matvælastofnun til að vinna lokauppgjör ársins eftir, sbr. 4. mgr. 9. gr. og 14. gr.

14. gr.

Staðfesting lokauppgjörs fyrir árið.

Matvælastofnun skal fyrir 1. mars ár hvert ljúka uppgjöri fyrir árið á undan. Hver framleiðandi, sem hlotið hefur beingreiðslur á árinu skal senda Matvælastofnun fyrir 10. febrúar ár hvert heildar­uppgjör fyrir árið staðfest af löggiltum endurskoðanda. Uppgjörið skal sýna selt magn af tómötum, gúrkum og/eða papriku eftir tegundum, afbrigðum og gæðaflokkum eigin framleiðslu skv. 6. gr. Komi fram misræmi frá áður innsendum gögnum, þ.e. afreikningum og sölunótum skal leggja fram afrit af þeim bókhaldsgögnum sem standa þar að baki og gera grein fyrir leiðréttingum. Við loka­uppgjör reiknar Matvælastofnun út og gerir upp beingreiðslur á kg af tómötum, gúrkum og papriku, eftir seldu magni árið áður. Þessir útreikningar skulu hljóta staðfestingu framkvæmda­nefndar búvörusamninga áður en lokauppgjör fer fram.

IV. KAFLI

Niðurgreiðsla á raforku.

15. gr.

Upplýsingar og gögn sem skila ber árlega.

Handhafar niðurgreiðslna skulu senda Orkustofnun árlega eftirfarandi upplýsingar og gögn eigi síðar en 1. desember ár hvert:

 1. Nafn og kennitölu viðkomandi orkugreiðanda. Ef orkugreiðandi er fyrirtæki þarf að tilgreina að lágmarki einn tengilið.
 2. Upplýsingar um framleiðslumagn hverrar ræktunartegundar eftir framleiðslustað.
 3. Upplýsingar um á hve mörgum fermetrum hver ræktunartegund var ræktuð og hve stór hluti þess svæðis notaðist við lýsingu.
 4. Tegund lýsingar.

Á hverju ári sér Orkustofnun um að láta framleiðendum garðyrkjuafurða er fá niðurgreiðslu í té rafrænt skjal sem þeir nota til að skila, á rafrænan hátt, umbeðnum upplýsingum inn til stofn­unarinnar. 

16. gr.

Umsókn.

Framleiðendur garðyrkjuafurða sem uppfylla skilyrði 2. gr. skulu eiga þess kost að sækja um niðurgreiðslu á flutningi og dreifingu raforku til Orkustofnunar á þar til gerðu eyðublaði sem stofnunin lætur í té. Stofnunin skal afgreiða umsókn um niðurgreiðslu innan mánaðar frá því hún berst stofnuninni sannarlega.

Á umsókn skal koma fram:

 1. nafn og kennitala orkukaupanda,
 2. ræktunarstaður og landnúmer. Skrá skal alla viðeigandi ræktunarstaði séu þeir fleiri en einn,
 3. heildarstærð gróðurhúsa í m² ásamt heildarstærð þess hluta sem ætlaður er undir ræktun og heildarstærð þess hluta sem á að lýsa á hverjum ræktunarstað fyrir sig,
 4. framleiðsluafurðir, áætlað afl og
 5. áætluð árleg orkunotkun á hverjum ræktunarstað fyrir sig.

Orkustofnun skal fara yfir umsóknir sem berast. Ef umsókn uppfyllir skilyrði skv. 17. gr. er dreifi­veitu formlega tilkynnt um að raforkudreifing verði greidd niður til viðkomandi aðila.

17. gr.

Skilyrði fyrir niðurgreiðslu.

Framleiðandi garðyrkjuafurða skal uppfylla eftirfarandi skilyrði til að fá niðurgreiðslu:

 1. Að orkukaupin séu vegna atvinnustarfsemi.
 2. Að niðurgreidd raforka sé sérmæld og fari einungis til lýsingar plantna í gróðurhúsi til að örva vöxt þeirra.
 3. Að framleiðslan sé ætluð til sölu.
 4. Að ársnotkun til lýsingar sé meiri en 100 MWh á ári.

18. gr.

Niðurgreiðsla.

Magnliðir í gjaldskrá dreifiveitu fyrir flutning og dreifingu skulu greiddir niður um allt að 95%, en framleiðendur garðyrkjuafurða skulu greiða 5%. Fastagjöld skulu alfarið greiðast af framleiðendum. Orkustofnun yfirfer reikninga dreifiveitna og ber saman við greiðslur til framleiðanda garð­yrkju­afurða.

Orkustofnun annast greiðslur til viðkomandi dreifiveitu samkvæmt IV. kafla.

Hlutfall skv. 1. mgr. skal endurskoðað eigi síðar en 1. mars ár hvert út frá fjárveitingum sem ætlaðar eru til niðurgreiðslu samkvæmt fjárlögum. Orkustofnun skal leggja fyrir ráðherra tillögu að breyttu hlutfalli sé þess þörf. Verði gerð breyting á hlutfalli skal það taka gildi frá næstu mánaðamótum á eftir. Orkustofnun stendur dreifiveitu skil á niðurgreiðslum mánaðarlega sam­kvæmt framlögðum reikningi. 

19. gr.

Niðurfelling greiðslna.

Fyrir 10. nóvember ár hvert skal dreifiveita kanna hvort framleiðandi uppfylli skilyrði b-liðar 1. mgr. 17. gr. og tilkynna Orkustofnun ef framleiðandi uppfyllir ekki skilyrðið. Orkustofnun skal á sama tíma fara yfir það hvort framleiðandi uppfylli skilyrði a-, c- og d-liðar 1. mgr.

Séu skilyrði 17. gr. ekki uppfyllt skal Orkustofnun tilkynna viðkomandi aðila um það og falla niðurgreiðslur til framleiðanda þá niður um næstu áramót. Á sama tíma skal Orkustofnun tilkynna dreifiveitu um að niðurgreiðslur hafi verið felldar niður. Orkustofnun skal eigi síðar en 10. desember ár hvert ljúka afgreiðslu mála vegna brottfalls niðurgreiðslna.

Standi framleiðandi garðyrkjuafurða ekki skil á sínum hluta kostnaðar skv. 18. gr. vegna flutnings og dreifingar skal dreifiveita og orkusali tilkynna Orkustofnun um það. Dreifiveita og orkusali skulu þá fylgja sömu reglum og gagnvart öðrum viðskiptavinum vegna vanskila. Ef lokað er fyrir viðskipti vegna vanskila skal dreifiveita og orkusali tilkynna Orkustofnun um það.

V. KAFLI

Kæruheimild o.fl.

20. gr.

Kæruheimild.

Ákvörðun Matvælastofnunar um rétt til beingreiðslna er heimilt að skjóta til úrskurðar ráðherra innan þriggja mánaða, sbr. VII. kafla stjórnsýslulaga.

21. gr.

Endurgreiðsla ofgreiddra greiðslna.

Ef greiðslur samkvæmt reglugerð þessari hafa verið ofgreiddar ber handhafa greiðslna að endur­greiða ríkinu hið ofgreidda fé. Beri að endurgreiða greiðslur skal handhafi endurgreiða greiðslur með vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim tíma er greiðslan átti sér stað og þar til endurgreiðsla fer fram. Auk almennra vaxta skal handhafi greiða dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Vextir skulu þó ekki greiddir ef endurgreiðsla fer fram innan 30 daga frá því að greiðsla fór fram. 

22. gr.

Skerðing og niðurfelling greiðslna.

Matvælastofnun er heimilt að skerða eða fella niður greiðslur á viðkomandi ári ef framleiðandi garðyrkjuafurða gefur vísvitandi rangar upplýsingar eða brýtur á annan hátt skilyrði í reglugerð þessari.

23. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í búvörulögum nr. 99/1993, með síðari breytingum og öðlast gildi 1. janúar 2017. Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð nr. 1222/2015 um beingreiðslur í garðyrkju árið 2016.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir 23. gr. skulu ákvæði reglugerðar nr. 1222/2015 um beingreiðslur í garðyrkju árið 2016 halda gildi sínu þar til uppgjöri vegna ársins 2016 er lokið.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 15. desember 2016.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Kristján Skarphéðinsson.

Rebekka Hilmarsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 30. desember 2016