Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 84/2018

Nr. 84/2018 25. júní 2018

LÖG
um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.

Markmið og gildissvið.

    Markmið laga þessara er að koma í veg fyrir notkun tiltekinna efna og lyfja í þeim tilgangi að bæta líkamlega frammistöðu svo að meðferð og notkun þeirra skaði ekki heilsu fólks. Markmið laga þessara er enn fremur að efla fræðslu og forvarnir ásamt því að koma í veg fyrir ólögmæta markaðssetningu slíkra efna og lyfja.

    Lög þessi gilda um eftirfarandi efni og lyf:

  1. Vefjaaukandi stera.
  2. Testósterón og afleiður þess auk samsvarandi efna með karlhormónaáhrif.
  3. Vaxtarhormón.
  4. Erýtrópóíetín og efni sem hafa sambærileg áhrif með því að auka magn rauðra blóðkorna í blóði umfram eðlileg gildi fyrir aldur og kyn.
  5. Efni sem auka myndun og losun:
    1. vaxtarhormóna,
    2. testósteróns og afleiðna þess eða sambærilegra efna með karlhormónaáhrif eða
    3. náttúrulegra rauðkornavaka (erýtrópóíetíns).

2. gr.

Varsla og meðferð.

    Varsla og meðferð tiltekinna efna og lyfja skv. 2. mgr. 1. gr., sem notuð eru til að bæta líkam­lega frammistöðu, er óheimil. Innflutningur, útflutningur, sala, kaup, skipti, afhending, mót­taka, framleiðsla og varsla slíkra efna og lyfja er bönnuð með undantekningum skv. 2. og 3. mgr.

    Lyfjastofnun getur veitt undanþágu frá banni 1. mgr. þegar sérstaklega stendur á. Slíkar undan­þágur eru ávallt afturtækar.

    Ákvæði 1. mgr. á ekki við um lyf sem hlotið hafa markaðsleyfi skv. 1. mgr. 7. gr. lyfjalaga eða Lyfjastofnun hefur heimilað að notuð séu skv. 7. mgr. 7. gr. lyfjalaga.

3. gr.

Fræðsla.

    Það ráðuneyti sem fer með fræðslumál skal í samráði við ráðuneytið og embætti landlæknis sjá til þess að fram fari fræðsla í því skyni að draga úr og koma í veg fyrir heilsutjón af völdum neyslu frammistöðubætandi efna.

4. gr.

Viðurlög.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti sam­kvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum laga þessara og eftir atvikum reglugerð sem sett er á grundvelli þeirra.

    Heimilt er að ljúka minni háttar málum með fésekt lögreglu eða tollstjóra og upptöku efna og lyfja í þeim tilvikum er mál telst að fullu upplýst og sakborningur fellst á slík málalok.

    Varsla eða meðferð efna og lyfja skv. 2. gr. skal aðeins vera refsiverð þegar haldlagt magn efna er umfram það sem talist getur til eigin neyslu.

    Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara. Lyf og efni sem lög þessi taka til og eru flutt hingað til lands eða seld ólöglega hér á landi skulu gerð upptæk með dómi. Andvirði hins upptæka rennur í ríkissjóð.

    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.

    Heimilt er að refsa fyrir brot á lögum þessum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.

    Sé brot framið í starfsemi lögaðila má gera lögaðilanum fésekt samkvæmt ákvæðum II. kafla A almennra hegningarlaga.

5. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð að efni eða lyf, sem ekki eru tilgreind í 1. gr. en hætt er við að verði misnotuð vegna eiginleika þeirra til að bæta líkamlega frammistöðu, skuli lúta sömu takmörkunum og um getur í 2. gr. Þá getur ráðherra í reglugerð kveðið nánar á um heimild Lyfjastofnunar til að veita undanþágur skv. 2. gr.

6. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

7. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum: Við 9. mgr. 3. gr. laganna bætist: og samkvæmt lögum um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

Gjört á Bessastöðum, 25. júní 2018.

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Svandís Svavarsdóttir.


A deild - Útgáfud.: 27. júní 2018