Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 176/2023

Nr. 176/2023 10. febrúar 2023

REGLUR
um stuðningsþjónustu hjá Múlaþingi.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Lagagrundvöllur.

Reglur þessar byggja á eftirfarandi lögum:

Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 með síðari breytingum. Í VII. kafla er fjallað um stuðningsþjónustu, í VIII. kafla um málefni barna og ungmenna, í X. kafla um þjónustu við aldraða og í XI. kafla um þjónustu við fatlað fólk.
Lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Í III. kafla er fjallað um stoðþjónustu og í IV. kafla þjónustu við börn.
Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021.

Í reglum þessum eru hugtökin stuðningsþjónusta, þjónusta, aðstoð eða stuðningur notuð hvort heldur stuðningur er veittur skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga eingöngu eða lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Við framkvæmd reglna þessara skal framfylgja þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórn­völd hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og réttindi barna.

 

2. gr.

Markmið.

Markmið stuðningsþjónustu samkvæmt reglum þessum er að:

Aðstoða og styrkja einstakling sem þarf aðstæðna sinna vegna á stuðningi að halda við heimilis­hald, athafnir daglegs lífs og til þess að rjúfa félagslega einangrun.
Efla umsækjanda til sjálfshjálpar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi. Stuðning skal veita með það að leiðarljósi að skapa skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin for­sendum, samfélags­legrar þátttöku og miða að valdeflingu og hvatningu.
Stuðla að farsæld barna með það að markmiði að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, án hindrana.

 

3. gr.

Réttur til þjónustu.

Umsækjendur þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði til þess að fá þjónustu skv. reglum þessum:

  1. Eiga lögheimili í Múlaþingi þegar þjónustan hefst.
  2. Búa á eigin heimili eða með foreldrum/ættingjum, forráðamönnum. Undantekning frá þessu getur verið börn sem dvelja í úrræði á vegum Barna- og fjölskyldustofu.
  3. Þurfa aðstoð vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar.

Einstaklingar sem búa á hjúkrunarheimilum eða stofnun þar sem greidd eru daggjöld frá ríkinu eiga alla jafna ekki rétt á þjónustu skv. reglum þessum.

Mat á stuðningsþörf er metin m.a. út frá læknisvottorði, SIS-mati, RAI-mati eða öðru mati fag­aðila á stöðu umsækjanda. Mat á stuðningsþörf er unnið í samvinnu við umsækjanda og fjölskyldu hans þegar það á við og/eða persónulegan talsmann.

 

4. gr.

Inntak þjónustunnar.

Stuðningsþjónusta getur verið veitt innan og utan heimilis. Með stuðningsþjónustu er átt við stuðning við heimilishald, athafnir daglegs lífs og/eða félagslegan stuðning til þess að rjúfa félags­lega einangrun og auka möguleika á samfélagslegri þátttöku. Stuðningsþjónusta getur einnig falið í sér ýmsa sérfræðiaðstoð.

Þjónustan getur falið í sér:

Stuðning við heimilishald s.s. þrif á heimili, innkaup, matseld og þvotta.
Stuðning við athafnir daglegs lífs s.s. persónulega aðhlynningu, hreinlæti, og annað sem varðar athafnir daglegs lífs (ekki er veitt hjúkrunarþjónusta).
Félagslegan stuðning og rekstur ýmis konar erinda.
Heimsendingu matar.
Snjómokstur (þjónustan er að jafnaði ekki veitt ef aðrir heimilismenn, 18 ára og eldri, geta sinnt henni).
Garðslátt (þjónustan er að jafnaði ekki veitt ef aðrir heimilismenn, 18 ára og eldri, geta sinnt henni).
Öryggisinnlit.
Sérhæfða félagsráðgjöf og ráðgjöf við uppeldi barna.
Stuðning við umönnun og uppeldi barna s.s. vegna fötlunar eða félagslegra erfiðleika for­eldra eða barna.
Almenna þjónustu í þágu farsældar barns, t.d. teymisvinnu, þjónustu sjálfstætt starfandi sér­fræðinga, íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarf og starfsemi frjálsra félaga- og hagsmuna­samtaka. Greiðsla fyrir þjónustu sérfræðinga er starfa utan sveitarfélagsins Múlaþings er borin af notanda þjónustunnar nema í undantekningartilfellum. Ef fjárhagsleg og félagsleg staða hamlar nauðsynlegri þjónustu er hægt að sækja um greiðsluþátttöku frá félagsþjónustu.
Þjónustu sem veitt er á heimilum fatlaðs fólks í búsetukjörnum og er skilgreind sem sólarhrings­þjónusta. Sólarhringsþjónusta er ætluð 18 ára og eldri og innifelur stuðning við heimilishald, aðstoð við athafnir daglegs lífs og félagslegan stuðning.

Stuðningsþjónusta í formi félagslegs stuðnings, aðstoðar við athafnir daglegs lífs og við heimilis­hald sem veitt er skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga getur numið allt að 15 klst. á viku. Reynist þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu eða þörf fyrir stuðning meiri eða sérhæfðari en svo að henni verði fullnægt með almennri stuðningsþjónustu skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, skal veita viðbótarþjónustu/stoðþjónustu skv. 3. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Þjónusta skal vera heildstæð, samfelld og samþætt.

 

II. KAFLI

Umsóknir og mat.

5. gr.

Umsókn.

Sótt er um stuðningsþjónustu rafrænt á mínum síðum hjá Múlaþingi.

Með umsókn skulu fylgja nauðsynleg gögn til þess að meta umsóknina s.s. læknisvottorð þegar um heilsubrest er að ræða eða gilt örorkumat og greining á fötlun og/eða umönnunarmat ef umsókn byggir á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Einnig þarf að fylgja staðfest afrit af nýjasta skattframtali ásamt staðgreiðsluskrá, þegar við á.

Starfsmenn fjölskyldusviðs sem veita ráðgjöf, aðstoða umsækjanda við umsóknarferlið ef þörf er á.

 

6. gr.

Samvinna og ráðgjöf.

Við meðferð umsóknar, öflun gagna og upplýsinga sem og ákvarðanatöku skal hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eftir því sem unnt er en að öðrum kosti við persónulegan talsmann hans eða umboðsmann ef við á. Leita skal sjónarmiða barna eftir því sem aldur og þroski leyfir.

Þar sem umsækjandi er með talsmann skal leggja fram samkomulag við hinn fatlaða, sbr. ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011. Umboðsmaður skal fram­vísa skriflegu umboði.

Við afgreiðslu umsóknar veitir starfsmaður fjölskyldusviðs umsækjanda ráðgjöf, upplýsingar og leið­beiningar um önnur réttindi sem hann kann að eiga (sbr. frumkvæðisreglu og upplýsinga­skyldu). Þá upplýsir starfsmaður umsækjanda um þær skyldur sem kunna að hvíla á honum vegna umsóknar um stuðningsþjónustu og aðstoða við öflun nauðsynlegra gagna ef þörf er á.

 

7. gr.

Mat á stuðningsþörf.

Uppfylli umsækjandi skilyrði 2. gr. reglna þessara skal leggja mat á stuðningsþörf hans í sam­vinnu við umsækjanda samkvæmt matsviðmiðum í fylgiskjali 1 með reglum þessum.

Við mat á stuðningsþörf er horft til eftirfarandi þátta:

  1. Færni og styrkleika umsækjanda.
  2. Félagslegar aðstæður umsækjanda og tengslanet.
  3. Samfélagsþátttöku, valdeflingu og virkni umsækjanda.
  4. Þörf umsækjanda fyrir aðstoð og stuðning.
  5. Annars veitts stuðnings.

Fylgjast skal með velferð og farsæld barna og foreldra og bregðast við þörf fyrir þjónustu á skilvirkan hátt um leið og þörf krefur.

Leiði mat á stuðningsþörf í ljós að þörf fyrir stuðning og þjónustu er meiri og víðtækari en veitt er skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga getur sveitarfélagið óskað eftir því að gert sé mat á stuðningsþörf – SIS-mat.

 

8. gr.

Afgreiðsla umsókna.

Umsókn ásamt greinargerð starfsmanns fjölskyldusviðs, er lögð fyrir meðferðarfund félags­þjónustu Múlaþings.

Sé ekki unnt að veita þjónustu strax eða innan þriggja mánaða frá samþykkt umsóknar skal umsókn sett í bið. Umsækjandi skal upplýstur um áætlaðan biðtíma og hvaða þjónusta geti staðið honum til boða á biðtíma sbr. reglugerð nr. 1035/2018 um biðlista, forgangsröðun og úrræði á bið­tíma eftir þjónustu.

 

III. KAFLI

Þjónustusamningur og endurmat.

9. gr.

Þjónustusamningur.

Áður en stuðningsþjónusta hefst skal gerður þjónustusamningur milli aðila þar sem fram kemur:

tilgangur með stuðningi;
hvernig settum markmiðum þjónustu skuli náð;
hvernig aðstoðin skuli veitt og tímamörk samnings.

Stuðningur er að jafnaði veittur í tiltekinn fjölda klukkustunda í viku hverri á grundvelli mats á þjónustuþörf. Ef um er að ræða þjónustu í búsetukjarna þá er veitt sólarhringsþjónusta og gerður búsetu-/þjónustusamningur. Að öllu jöfnu skal samþykkt þjónusta ekki gilda lengur en 12 mánuði. Ef umsækjandi óskar eftir áframhaldandi þjónustu skal hann sækja um hana að nýju.

Í undantekningartilfellum er heimilt að afgreiða þjónustu til lengri tíma en 12 mánaða ef ljóst er að umsækjandi hefur þörf á langvarandi stuðningi. Þjónustusamningur er endurmetinn árlega með tilliti til breytinga á stuðningsþörf.

 

10. gr.

Notendasamningur.

Einstaklingar og fjölskyldur sem hafa leyfi frá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála geta sótt um að gera notendasamning, sbr. 28. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 eða 10. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.

Notendasamningur felur í sér að notandi stjórnar því hver veitir aðstoðina, hvenær hún er veitt og hvernig, þannig að best henti hverjum og einum. Notendasamningar geta verið í formi bein­greiðslu­samnings, þar sem notandi sér alfarið um starfsmannahald sjálfur.

 

11. gr.

Gjaldskrá.

Greitt er fyrir stuðningsþjónustu skv. gildandi gjaldskrá um stuðningsþjónustu hjá félags­þjón­ustu Múlaþings. Gjald er innheimt fyrir heimsendan mat og heimilisþrif. Aldrei er innheimt meira en tvær klukkustundir á viku fyrir heimilisþrif.

Greitt er fyrir snjómokstur skv. gildandi gjaldskrá.

Greitt er fyrir garðslátt skv. gildandi gjaldskrá. Eldri borgarar og öryrkjar eiga rétt á þrem gjald­frjálsum garðsláttum uppfylli þeir tekju- og eignamörk skv. gjaldskránni.

Undanþága frá greiðslu:

Þeir sem eingöngu hafa lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, tekjutryggingaauka, heim­ilis­uppbót eða tekjur sem samsvara þeirri fjárhæð, geta sótt um niðurfellingu gjalda fyrir stuðn­ings­þjónustu. Tekjuviðmið tekur breytingum í samræmi við breytingar á bótum almanna­trygg­inga. Greiðslur miðast við tekjur og handbært fé allra heimilismanna yfir 18 ára aldri, skv. skatt­framtali. Undanþága frá gjaldi gildir ekki fyrir heimsendan mat.
Þjónusta í þágu barna.

 

12. gr.

Kostnaður og ferðir.

Notandi stuðningsþjónustu greiðir eigin kostnað vegna frístundastarfs sem hann tekur þátt í með stuðningsaðila. Félagsþjónusta Múlaþings endurgreiðir stuðningsaðila útlagðan kostnað að hámarki kr. 7.000 sem er tiltekið í þjónustusamningi.

Ef þjónustunotandi þarf akstursþjónustu, kemur það fram í mati og greinargerð og er útfært í þjónustusamningi.

Hvatt er til þess að almenningssamgöngur og einkabíll notanda sé nýttur eins og kostur er. Ef nauðsynlegt er að starfsmaður leggi til eigin bíl er slíkur akstur háður skriflegu samkomulagi milli notanda og starfsmanns og þess getið í þjónustusamningi. Að hámarki er gert ráð fyrir 30 km akstri á mánuði með möguleika á sveigjanleika á milli mánaða. Þjónustan er háð samþykki meðferðar­fundar félagsþjónustu.

 

13. gr.

Vinnuaðstæður.

Þegar heimili notanda er vinnustaður starfsmanna í stuðningsþjónustu, skulu aðstæður vera í samræmi við lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980. Skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað skal liggja fyrir sem byggð er á áhættumati sem nær til allra þátta sem geta haft áhrif á heilsu og öryggi starfsmanna.

 

IV. KAFLI

Málsmeðferð og málskot.

14. gr.

Málsmeðferð.

Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæðum XVI. kafla laga um félags­þjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991 og ákvæðum VII. kafla laga um þjónustu við fatlað fólk með lang­varandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.

 

15. gr.

Könnun á aðstæðum.

Kanna skal aðstæður umsækjanda svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn hefur borist.

 

16. gr.

Samvinna við umsækjanda.

Öflun gagna og upplýsinga skal unnin í samvinnu við umsækjanda. Við meðferð umsóknar og ákvarðanatöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eftir því sem unnt er, að öðrum kosti umboðsmann hans. Umboðsmaður skal framvísa skriflegu umboði sbr. ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011.

 

17. gr.

Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum.

Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Hafi starfsmenn kynnst einkahögum umsækjanda eða annarra í starfi sínu er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óviðkomandi nema að fengnu samþykki viðkomandi.

Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að svo miklu leyti sem það stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum.

Vinnsla mála í teymum sérfræðinga, með málsaðilum er háð upplýstu samþykki málsaðila.

 

18. gr.

Niðurstaða og rökstuðningur synjunar.

Kynna skal niðurstöðu umsóknar svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan í viðeigandi ákvæði þessara reglna.

 

19. gr.

Áfrýjun.

Telji umsækjandi á rétt sinn hallað skv. reglum þessum er honum heimilt að vísa ákvörðun félagsþjónustunnar til fjölskylduráðs innan fjögurra vikna frá því honum barst vitneskja um ákvörðun. Fjölskylduráð skal fjalla um umsókn og taka ákvörðun um afgreiðslu hennar svo fljótt sem unnt er.

 

20. gr.

Málskot.

Umsækjandi getur skotið ákvörðun fjölskylduráðs til úrskurðarnefndar velferðarmála. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun fjölskylduráðs.

 

21. gr.

Endurskoðun reglna.

Reglur þessar skulu endurskoðaðar árlega.

 

22. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar taka þegar gildi. Jafnframt falla þá úr gildi eftirfarandi reglur:

Reglur Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs um félagslega heimaþjónustu frá 23. maí 2011.
Reglur um félagslega liðveislu hjá Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs frá 1. apríl 2016.
Reglur um þjónustu við fatlað fólk á eigin heimilum hjá Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs frá 9. desember 2015.
Reglur Múlaþings um garðslátt fyrir eldri borgara og öryrkja frá 11. maí 2022.

Samþykkt í sveitarstjórn Múlaþings 8. febrúar 2023.

 

Múlaþingi, 10. febrúar 2023.

 

Björn Ingimarsson sveitarstjóri.

 

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 24. febrúar 2023