Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 460/2023

Nr. 460/2023 10. maí 2023

REGLUR
um íbúakosningar Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

1. gr.

Almennt.

Íbúakosning á vegum Sveitarfélagsins Hornafjarðar skal fara fram á grundvelli þessara reglna, reglugerðar innviðaráðuneytisins um íbúakosningar sveitarfélaga og sveitarstjórnarlaga. Reglur um kjörskrá og kosningarrétt skulu fara skv. kosningalögum.

Reglur þessar gilda um íbúakosningu um samþykkt aðal- og deiliskipulag þéttingar byggðar Inn­bæjar.

 

2. gr.

Kosningarréttur.

Rétt til þátttöku í íbúakosningu sveitarfélagsins eiga þau sem kosningarrétt eiga í sveitarfélaginu við kosningar til sveitarstjórnar samkvæmt kosningalögum og skal kosningaaldur miðast við 16 ár.

 

3. gr.

Kjörskrá.

Enginn getur neytt kosningarréttar við íbúakosningar sveitarfélagsins nema nafn hans sé á kjörskrá þegar kosning fer fram. Á kjörskrá sveitarfélagsins við íbúakosningar eru þau sem hafa kosn­ingar­rétt og skráð voru með lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá Þjóðskrár Íslands kl. 12.00 á hádegi 38 dögum fyrir kjördag.

Um auglýsingu kjörskrár vegna íbúakosninga sveitarfélagsins gilda 1. og 2. mgr. 30. gr. kosningalaga og um leiðréttingar á kjörskrá og kærur vegna leiðréttingar á kjörskrá gilda 32. gr. og 33. gr. kosningalaga. Ekki skal gera leiðréttingar á kjörskrá eftir að kosning er hafin.

Notast skal við prentaða kjörskrá við íbúakosningar sveitarfélagsins.

Að öðru leyti gilda ákvæði reglugerðar um íbúakosningar og ákvæði kosningalaga um kjörskrá vegna íbúakosninga sveitarfélagsins.

 

4. gr.

Kjörstjórn.

Sveitarstjórn skal kjósa kjörstjórn, með þrem fulltrúum, sem ber ábyrgð á stjórnsýslu íbúa­kosninga sveitarfélagsins. Yfirkjörstjórn sem kosin er á grundvelli kosningalaga fer með hlutverk kjörstjórnar vegna íbúakosninga sveitarfélagsins. Að loknum kosningum skal kjörstjórn skila skýrslu til sveitarstjórnar um framkvæmd kosningar. Um hlutverk kjörstjórnar gildir reglugerð innviða­ráðuneytisins um íbúakosningar sveitarfélaga.

 

5. gr.

Kjörgögn.

Um kjörgögn vegna atkvæðagreiðslu íbúakosninga gildir ákvæði reglugerðar um íbúakosningar sveitarfélaga, sbr. 2. mgr. reglugerðar um íbúakosningar sveitarfélaga.

Við íbúakosningu á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnarlaga sem ekki er bindandi, gildir ákvæði reglugerðar um íbúakosningar sveitarfélaga að undanskildum eftirfarandi atriðum:

  1. Kjörseðlar skulu vera úr haldgóðum pappír sem prent eða skrift sést ekki í gegnum.
  2. Varðveita skal ónotaða kjörseðla með tryggilegum hætti.

 

6. gr.

Framkvæmd atkvæðagreiðslu.

Atkvæðagreiðsla getur hafist í fyrsta lagi 36 dögum eftir að boðað er til íbúakosninga. Tímabil atkvæðagreiðslu er 3 vikur. Tímabil atkvæðagreiðslu skal vera frá 19. júní – 10. júlí.

Kjósandi skal gera þeim sem sinnir atkvæðagreiðslunni grein fyrir sér, svo sem með því að framvísa persónuskilríkjum með nafni, kennitölu og mynd, eða á annan fullnægjandi hátt að mati fulltrúa kjörstjórnar.

Tíu dögum áður en til atkvæðagreiðslunnar er boðað skal tilkynna á vefsíðu sveitarfélagsins að fyrirhuguð sé íbúakosning sveitarfélagsins. Í tilkynningunni skal jafnframt fjalla um þær reglur sem fram koma í 3. mgr. 4. gr. og 29. gr. kosningalaga um kjörskrá. Á sama tíma skal upplýsa Þjóðskrá Íslands um boðaða atkvæðagreiðslu og á hvaða tímabili hún fer fram.

Merkja skal við nafn kjósanda í kjörskrá áður en hann neytir kosningarréttar síns. Eigi kjósandi rétt á að greiða atkvæði samkvæmt kjörskránni skal fulltrúi kjörstjórnar afhenda kjósanda kjörseðil. Þegar kjósandi hefur tekið við kjörseðlinum fer hann með hann þar sem hægt er að greiða atkvæði án þess að aðrir geti séð hvernig kjósandi greiðir atkvæði. Kjósandi markar með skriffæri eða stimpli sem kjörstjórn leggur til X í ferning framan við þann svarkost á kjörseðlinum sem hann greiðir atkvæði sitt, brýtur atkvæðið saman og leggur atkvæðið í kjörkassa í viðurvist kjörstjórnar eða fulltrúa á vegum hennar.

 

7. gr.

Aðstoðarmenn kjósenda.

Um aðstoðarmenn kjósenda skulu gilda ákvæði reglugerðar um íbúakosningar sveitarfélaga.

 

8. gr.

Kjörstaðir.

Ein kjördeild verður í sveitarfélaginu. Atkvæðagreiðsla fyrir allar kjördeildir skal fara fram á skrifstofu sveitarfélagsins í Ráðhúsi á opnunartíma sem kjörstjórn auglýsir. Kjörstjórn skal auglýsa kjörstað, á hvaða tíma atkvæðagreiðsla fer fram og veitir aðrar nauðsynlegar leiðbeiningar varðandi atkvæða­greiðsluna.

Bæjarráð ákveður opnunartíma kjörstaðar.

Atkvæðagreiðsla skal fara fram fyrir kjósendur sem dvelja á heilbrigðisstofnunum, fangelsum og stofnunum fyrir fatlað fólk, innan sveitarfélagsins á tilteknum dögum og tímum sem kjörstjórn auglýsir með a.m.k. 5 daga fyrirvara á vefsíðu sveitarfélagsins og á viðkomandi stofnunum. Atkvæða­greiðsla samkvæmt þessari málsgrein skal að öðru leyti fara eftir g-lið 8. gr. reglugerðar um íbúakosningar sveitarfélaga.

Kjörstjórn eða fulltrúi kjörstjórnar skal gæta þess að ekki fari fram kosningaáróður eða kosn­inga­spjöll né önnur starfsemi sem truflar eða hindrar framkvæmd íbúakosninga á og við kjörstað.

Á hverjum kjörstað skal vera aðstaða þar sem hægt er að greiða atkvæði án þess að aðrir geti séð hvernig kjósandi greiðir atkvæði.

 

9. gr.

Atkvæði greitt með pósti.

Miða skal við að atkvæði greitt með pósti geti farið fram með þeim hætti sem lýst er í A-lið 1. mgr. 10. gr. reglugerðar um íbúakosningar sveitarfélaga.

Eftirtaldir aðilar geta óskað eftir að kjósa með pósti í íbúakosningum sveitarfélagsins:

  1. Námsmenn sem hafa kosningarrétt á grundvelli 2. mgr. 4. gr. kosningalaga, nr. 112/2021.
  2. Kjósendur sem geta ekki sótt kjörstað vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar.
  3. Aðilar sem sæta gæsluvist eða afplána fangelsi.

Kjósandi skal lýsa því yfir í fylgibréfi að hann falli undir viðkomandi undanþágu til að kjósa í póstkosningu sem vottar eða lögbókandi skulu jafnframt staðfesta. Að öðru leyti skal ekki leita eftir frekari sönnun á því að kjósandi falli undir viðkomandi undanþágu. Að öðru leyti skal gilda reglu­gerð um íbúakosningar sveitarfélaga um framkvæmd póstatkvæðagreiðslu. Kjósandi skal senda umsókn um atkvæða­greiðslu með pósti eigi síðar en 1. júlí og senda kjörseðil í tæka tíð fyrir lokun kjörstaðar. Kjósandi ber ábyrgð á að koma kjörseðli á kjörstað.

 

10. gr.

Talning atkvæða.

Um talningu atkvæða skal gilda reglugerð um íbúakosningu sveitarfélaga. Kjörstjórn kynnir niðurstöðu talningar á vefsíðu sveitarfélagsins.

Atkvæði skal meta ógilt ef:

  1. kjörseðill er auður,
  2. ekki má með öruggum hætti sjá hvaða svarkosti kjósandi hefur viljað greiða atkvæði sitt,
  3. ætla má að merki eða áletrun á kjörseðli séu sett af ásettu ráði til að gera seðilinn auðkenni­legan,
  4. kjörseðill er ekki sá sem kjörstjórn hefur látið gera.

Atkvæði skal ekki meta ógilt, þó að gallað sé, ef greinilegt er hvernig það á að falla nema það augljóslega brjóti í bága við einn eða fleiri stafliði 1. mgr. Þannig skal taka gilt atkvæði þó að ekki sé merkt í ferning við svarmöguleika en t.d. utan hans, þó að X sé ólögulegt, þó að hak sé sett í ferning í stað X o.s.frv. Ef ágreiningur verður innan kjörstjórnar um hvort atkvæði telst gilt, skal kjörstjórn úrskurða um það.

 

11. gr.

Almenn atkvæðagreiðsla um einstök málefni.

Til atkvæðagreiðslu skv. 107. gr. sveitarstjórnarlaga skal boða með a.m.k. 36 daga fyrirvara með opinberri auglýsingu. Samhliða skal sveitarstjórn opinberlega kynna þá tillögu sem borin verður undir atkvæði og þær upplýsingar sem kjósendum eru nauðsynlegar til að geta tekið til hennar upplýsta afstöðu.

Sveitarstjórn ber ábyrgð á orðalagi og framsetningu þeirrar spurningar sem lögð er fyrir íbúa í atkvæðagreiðslu um einstök málefni sveitarfélags, sbr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga. Á kjörseðli skal koma skýrt fram spurning um hvort kjósandi samþykki þá tillögu sem borin er upp og gefnir tveir möguleikir á svari, „Já“ eða „Nei“. Sveitarstjórn getur ákveðið að spurningar og svarkostir á kjör­seðli í atkvæðagreiðslu séu fleiri eða orðaðir með öðrum hætti.

Kjörstjórn skipar umboðsmenn sem hafa það hlutverk að gæta ólíkra sjónarmiða við atkvæða­greiðslu, talningu atkvæða og úrlausn ágreiningsmála.

 

12. gr.

Gölluð ákvæði.

Ef kosning ferst fyrir af óviðráðanlegum orsökum eða kosning hefur verið úrskurðuð ógild skal uppkosning fara fram innan mánaðar, með sömu kjörskrá.

Gallar á kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema líklegt sé að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Kærur um ólögmæti íbúakosninga skulu sendar úrskurðarnefnd kosningamála til úrlausnar innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga. Úrskurðarnefnd kosningamála skal úrskurða innan fjögurra vikna frá því að kæra berst, nema mál sé mjög umfangsmikið og skal þá úrskurða innan sex vikna, sbr. 5. mgr. 133. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

13. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru á grundvelli 4. mgr. 133. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, með síðari breytingum, sbr. reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga, nr. 323/2023, öðlast þegar gildi.

 

Samþykkt af bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar, 10. maí 2023.

 

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri.


B deild - Útgáfud.: 12. maí 2023