Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 208/2018

Nr. 208/2018 1. febrúar 2018

REGLUR
um úthlutun styrkja af safnliðum mennta- og menningarmálaráðuneytis.

1. gr.

Hlutverk og skipulag.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti veitir styrki til verkefna sem falla undir menningu, listir og íþrótta- og æskulýðsmál (málefnasvið 18). Veittir eru styrkir til félaga, samtaka eða einstaklinga vegna verkefna sem ekki njóta lögbundins stuðnings eða falla undir sjóði eða sérstaka samninga.

Ráðherra úthlutar styrkjum að fenginni tillögu starfshóps þriggja fagaðila einu sinni á ári.

Styrkjum skal úthlutað til ákveðinna verkefna og til ákveðins tíma hverju sinni.

2. gr.

Auglýsingar.

Ráðuneytið auglýsir í september ár hvert eftir umsóknum um styrki í dagblöðum eða með öðrum sannanlegum hætti. Í auglýsingu skulu koma fram upplýsingar um helstu atriði sem litið er til við mat á umsóknum, um eyðublöð fyrir umsóknir og hvar þau séu að finna. Þá skal tilgreindur umsóknarfrestur og hvenær umsóknir verði afgreiddar.

3. gr.

Umsóknir.

Umsókn skal skilað á þar til gerðu umsóknareyðublaði og skal bera greinilega með sér hvernig umsækjandi hyggst verja styrknum. Umsókn skulu fylgja eftirtalin gögn og upplýsingar eftir því sem við á:

  a) upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, aðra þátttakendur og samstarfsaðila, ef einhverjir eru,
  b) nafn þess sem annast samskipti við ráðuneyti,
  c) nákvæm lýsing á verkefni, markmiðum þess og þýðingu fyrir umsækjanda og aðra,
  d) tíma- og verkáætlun,
  e) fjárhagsáætlun, þar sem koma fram m.a. upplýsingar um áætlaðan kostnað, tekjur, hlut­deild annarra í kostnaði við verkefnið og styrkfé sem verkefnið hefur hlotið eða hefur sótt um,
  f) staðfest gögn frá samstarfsaðilum sem og önnur gögn til stuðnings umsókn.

4. gr.

Mat á umsóknum.

Starfshópur metur styrkhæfi umsókna og gildi þeirra fyrir málefnasvið 18 og málaflokka innan þess. Mat á umsóknum skal einkum byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum eftir því sem við á:

  a) gildi og mikilvægi verkefnis fyrir stefnu viðkomandi málaflokks,
  b) gildi og mikilvægi fyrir kynningu og markaðssetningu viðkomandi málaflokks,
  c) að umsækjanda takist að ná þeim markmiðum sem verkefnið miðar að,
  d) starfsferli og faglegum bakgrunni umsækjanda og annarra þátttakenda,
  e) fjárhagsgrundvelli verkefnis og/eða hvort umsækjandi hafi hlotið aðra styrki til sama verkefnis.

Við mat á umsóknum er starfshópnum heimilt að leita umsagnar fagaðila, gerist þess þörf.

5. gr.

Úthlutun.

Starfshópurinn gerir tillögu til ráðherra um úthlutun og ráðstöfun fjár til verkefna. Tillögur starfs­hópsins skulu vera skriflegar og geyma í stuttu máli almenna lýsingu á framkvæmd og máls­meðferð við tillögugerðina. Sérhverri umsókn skal fylgja stutt umsögn ásamt tillögu um afgreiðslu hennar.

Ráðherra tekur ákvörðun um styrkveitingar á grundvelli framkominna tillagna. Tilkynna skal öllum umsækjendum um afgreiðslu umsóknar.

Ráðuneytið birtir nöfn styrkþega og upphæð styrks á vefsíðu ráðuneytisins.

6. gr.

Skilyrði styrkveitinga.

Hafi umsækjandi áður hlotið styrk til verkefnis þarf að liggja fyrir greinargerð um framkvæmd þess og ráðstöfun styrkfjárins til að ný umsókn komi til greina, sbr. verkáætlun í umsókn og skilmálum styrks.

Styrkjum er úthlutað til eins árs í senn. Nýti styrkþegi ekki styrk innan árs frá dagsetningu styrk­bréfs fellur styrkur niður, nema sérstaklega sé sótt um frest. Umsókn þess efnis skal vera skrif­leg og rökstudd.

Styrkveitingar eru bundnar skilyrðum og koma almennir skilmálar styrks fram í styrkbréfi. Þegar styrkir eru hærri en 500 þús. kr. kemur lokagreiðsla styrkfjár að jafnaði ekki til greiðslu fyrr en við skil til ráðuneytisins á gögnum sem gerð er krafa um.

Heimilt er að gera við styrkþega samninga er stuðla að eðlilegri framvindu þeirra verkefna sem styrkt eru.

7. gr.

Upplýsingagjöf, uppgjör og endurskoðun.

Styrkþegum er skylt að kynna ráðuneytinu stöðu verkefnis sé þess óskað. Verði brestur á að ráðist sé í verkefni, tefjist framkvæmd þess úr hófi eða verði önnur skilyrði sem styrkveiting kann að vera bundin ekki uppfyllt innan eðlilegra tímamarka teljast forsendur fyrir styrkveitingu brostnar. Áskilur ráðuneytið sér þá rétt til að ógilda styrkveitinguna og krefja styrkþega um endurgreiðslu á greiddum styrk, að hluta til eða í heild sinni, ásamt kostnaði við innheimtu.

Ef sýnt þykir að styrkfé hafi ekki verið eða verði ekki nýtt í þeim tilgangi sem ætlað var getur ráðuneytið krafist þess að styrkurinn verði endurgreiddur í heild eða að hluta. Áður en ákvörðun um slíkt er tekin skal styrkþega gefinn kostur á að lýsa viðhorfi sínu til málsins.

Reynist útgjöld vegna verkefnis samkvæmt umsókn lægri en útborguð styrkfjárhæð skal styrkþegi ótilkvaddur endurgreiða ofgreiddan styrk innan 30 daga frá því fjárhagsuppgjör lá fyrir. Að öðrum kosti innheimtir ráðuneytið ofgreiddan styrk ásamt innheimtukostnaði.

Að verkefni loknu skal styrkþegi kynna ráðuneytinu árangur og niðurstöður þess með skriflegri skýrslu samkvæmt almennum skilmálum styrks eða samningi við styrkþega.

8. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar gilda frá og með árinu 2017 og öðlast gildi við birtingu. Reglur þessar eru gefnar út á grundvelli 1. mgr. 42. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 1. febrúar 2018.

Lilja D. Alfreðsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 22. febrúar 2018