Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 892/2009

Nr. 892/2009 2. október 2009
REGLUR
um stærð og frágang minnismerkja í umdæmi kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

I. KAFLI

Inngangur.

1. gr.

Reglur þessar taka til allra minnismerkja í skilningi laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, sbr. einnig 3. gr. þessara reglna og skulu hafa gildi innan um­dæmis kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Stjórn kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma fer með framkvæmd þessara reglna. Stjórnin má fela garðyrkjustjóra framkvæmd einstakra þátta.

2. gr.

Markmið reglnanna er að tryggja að legsteinar séu settir niður á grafreiti með sam­ræmdum og skipulögðum hætti. Jafnframt setja reglur þessar stærðar- og umfangs­mörk minnismerkja á grafreitum.

Ekki má setja girðingar úr steini, málmi, timbri, plasti eða sambærilegu efni um einstök leiði eða fjölskyldugrafreiti. Þá er ekki heimilt að reisa grafhýsi.

3. gr.

Í reglum þessum gilda eftirfarandi skilgreiningar:

Minnismerki: Samheiti fyrir legsteina, krossa o.fl., sem reist eru á grafreitum.

Legsteinn: Minnismerki úr steini sem ber nafn eða nöfn þeirra er hvíla í grafreit og graf­skrift.

Púltsteinn: Ferkantaður legsteinn sem liggur láréttur á jörðu og með skáhallandi leturfleti með nöfnum og grafskrift.

Náttúrusteinn: Legsteinn eða púltsteinn sem ekki hefur verið slípaður.

Platti: Niðurgrafin undirstaða legsteins úr járnbentri steinsteypu.

Undirsteinn: Undirstaða eða sökkull legsteins, oft úr sama efni og legsteinninn sjálfur og er lögð í jarðvegsyfirborð eða ofan á platta.

Grafreitur: Samheiti fyrir kistugrafstæði og duftgrafstæði.

Kistugrafstæði: Afmarkaður reitur í kirkjugarði sem úthlutað er af kirkjugarðsstjórn til aðstand­enda til greftrunar látins einstaklings eða látinna einstaklinga.

Duftgrafstæði: Afmarkaður reitur í kirkjugarði sem úthlutað er af kirkjugarðsstjórn til aðstand­enda til greftrunar á duftkerjum með ösku látins einstaklings eða látinna ein­stak­linga að lokinni líkbrennslu.

4. gr.

Þeir aðstandendur sem hyggjast setja minnismerki á grafreit skulu tilkynna það garð­yrkjustjóra og jafnframt leggja fram skriflega lýsingu á stærð og gerð minnismerkis og fá skriflegt leyfi fyrir uppsetningu. Einnig geta aðstandendur falið sölumönnum minnis­merkja uppsetninguna og þurfa þeir einnig að leggja fram skriflega lýsingu og fá skriflegt leyfi fyrir uppsetningu. Minnismerkin og uppsetning þeirra er alfarið á ábyrgð aðstand­enda og á kostnað þeirra. Minnismerki úr plasti eru ekki leyfileg. Leyfilegt er að setja upp bráðabirgðamerkingar á grafir, s.s. trékrossa á kistugrafir eða svonefnd púlt úr krossviði á tveimur tréhælum með áföstu skilti á duftgrafir. Garðyrkjustjóri og starfs­menn hans skulu veita aðstandendum leiðbeiningar varðandi reglur þessar sé þess óskað. Kirkju­garðs­stjórn er heimilt að færa uppsetningu minnis­merkja til samræmis við reglur þessar eftir að tilkynning hefur verið send aðstandendum um að þeim beri að færa minnismerki til rétts horfs. Í slíkri tilkynningu skal tilgreindur hóflegur frestur til þess að ljúka framkvæmdum. Aðstandendur skulu bera allan kostnað sem hlýst af tilfærslu leg­steina sem ekki eru uppsettir í samræmi við reglur þessar.

II. KAFLI

Kistugrafstæði.

5. gr.

Garðyrkjustjóri markar grafstæði og línu í þau sem miða skal bakhlið legsteins við. Leg­steinar og undirstöður þeirra skulu ávallt vera innan marka grafstæðis. Heimilt er að jarð­setja duftker í kistugrafstæði sem þegar hefur verið jarðsett í.

6. gr.

Hámarksbreidd legsteins á einfalt grafstæði er 0,8 metrar, að meðtöldum undirsteini, en 1,8 metrar ef legsteinn nær yfir tvö grafstæði. Nái legsteinn yfir fleiri en tvö grafstæði, skal þess gætt að steinninn fari ekki nær næstu grafstæðum til hvorrar handar en nemur 0,3 metrum. Hámarkshæð legsteins frá yfirborði jarðar er 1,7 metrar.

Allir legsteinar aðrir en púltsteinar skulu standa á platta. Til stuðnings legsteinum sem eru 1,4 metrar eða hærri er skylt að setja platta. Skal þykkt plattans vera a.m.k. 10 sentimetrar, sem næst ferhyrndur og skal hlutfallsleg stærð hans samsvara 0,5 fer­metrum á hvern meter af hæð legsteinsins. Standi legsteinn á platta skal staðsetja leg­steininn sem næst miðju plattans.

7. gr.

Skylt er að hafa jarðvegsskipti undir legstein. Skal grafa 0,45 metra undir jarð­vegs­yfirborð fyrir legstein og a.m.k. 0,2 metra út fyrir undirstöðu legsteins á alla kanta. Eftir að legsteini hefur verið komið fyrir skal leggja að frostfrítt efni og þjappa vel að legsteininum. Sömu aðferð skal beitt ef undirstaða legsteins er platti.

III. KAFLI

Duftgrafstæði.

8. gr.

Garðyrkjustjóri markar duftgrafstæði og línu í þau sem miða skal bakhlið legsteins við. Legsteinar og undirstöður þeirra skulu ávallt vera innan marka grafstæðis.

Legsteinar á duftgrafstæðum skulu einkum vera púltsteinar. Staðsetja skal púltstein fyrir miðju grafstæðis við hina afmörkuðu línu fyrir bakhlið. Einnig er heimilt að setja náttúru­stein eða steyptan púltstein með steyptri málmplötu á duftgrafstæði, enda liggi hann þá flatur og sé innan sömu stærðarmarka og púltsteinar, sbr. 4. mgr. hér að neðan. Ef náttúrusteinn er þykkari en 0,2 metrar skal þess gætt við uppsetningu að hæð frá yfirborði sé ekki hærri en reglur kveða á um. Einfalt duftgrafstæði er að lágmarki 0,75 x 0,75 metrar, tvöfalt duftgrafstæði er 0,75 x 1,5 metrar og fjórfalt duftgrafstæði er 1,5 x 1,5 metrar.

Í duftreitum við Fossvogskirkju gildir sú regla að á einföldum og tvöföldum duft­graf­stæðum mega púltsteinar vera allt að 0,5 x 0,4 x 0,2/0,1 metrar. Á þreföldu og fjór­földu duftgrafstæði er hámarksstærðin 0,6 x 0,6 x 0,2/0,1 metrar.

Í duftreitunum á Sóllandi gildir eftirfarandi:

 

A)

Á hólmagröfum er einungis heimilt að hafa púltsteina og skulu þeir vera 0,5 x 0,5 x 0,2/0,1 metrar að hámarksstærð. Einnig er heimilt að setja náttúrustein á duftgrafstæði á hólmagröfum, enda liggi hann þá flatur og sé innan sömu stærðar­marka og púltsteinar. Hægt verður að hafa kross eða önnur trúartákn á hólma­gröf og verða þau þá að vera liggjandi eins og púltsteinn og takmarkast stærðin við umfang leyfðra púltsteina. Ekki er heimilt að setja upprétt trúartákn á hólmagrafir. Á tvöfalt duftgrafstæði í hólmagrafssvæðum er heimilt að setja lengri gerð púltsteins sem er 0,5 x 1,0 x 0,2/0,1 metrar að stærð. Ef um þrefalt eða fjórfalt duftgrafstæði er að ræða þurfa púltsteinar að vera tveir eða fleiri.

 

B)

Á skógargröfum eru leyfðir uppréttir legsteinar og er hámarkshæð þeirra 0,5 metrar, mælt frá jarðvegsyfirborði, að meðtöldu skreyti (fuglastyttur o.fl.). Hámarksbreidd legsteina á skógargröfum er 0,5 metrar og skal grunnflötur uppréttra legsteina ekki vera meiri en 0,5 x 0,25 metrar að meðtöldum sökkli. Heimilt er að setja upp trékrossa eða önnur trúartákn á skógargröfum, þó ekki hærri en 0,5 metrar, mælt frá jarðvegsyfirborði. Á tvöfalt duftgrafstæði í skógar­grafar­svæðum er heimilt að setja breiðari gerð legsteins sem er 0,5 metra hár og 1,0 meters breiður ef um uppréttan legstein er að ræða, annars púltstein sem er 0,5 x 1,0 x 0,2/0,1 metrar að stærð. Ef um þrefalt eða fjórfalt duft­graf­stæði er að ræða þurfa legsteinar að vera tveir eða fleiri.

Í duftreitunum í Kópavogskirkjugarði og Gufuneskirkjugarði gildir eftirfarandi:

 

A)

Á einföldum og tvöföldum duftgrafstæðum mega púltsteinar vera allt að 0,5 x 0,4 x 0,2/0,1 metrar. Á tvöföldu og fjórföldu duftgrafstæði er hámarksstærðin 0,6 x 0,6 x 0,2/0,1 metrar.

 

B)

Leyfðir eru uppréttir legsteinar. Hámarkshæð þeirra er 0,5 metrar, mælt frá jarðvegsyfirborði, að meðtöldu skreyti (fuglastyttur o.fl.). Hámarksbreidd þeirra er 0,5 metrar og skal grunnflötur uppréttra legsteina ekki vera meiri en 0,5 x 0,25 metrar að meðtöldum sökkli. Heimilt er að setja upp trékrossa eða önnur trúartákn, þó ekki hærri en 0,5 metrar, mælt frá jarðvegsyfirborði.

IV. KAFLI

Almenn ákvæði.

9. gr.

Setja má trékross á alla grafreiti þar sem ekki er minnismerki. Trékrossar skulu vera úr gegnheilum fúavörðum við. Hámarkshæð trékrossa á kistugrafstæði er 1,3 metrar frá jörðu, en 0,5 metrar á duftgrafstæði nema á hólmagröfum á Sóllandi (sjá þar).

10. gr.

Öll samskeyti á legsteinum eiga að vera límd saman. Nota skal viðurkennt þurrefni til slíkra líminga. Þegar legsteinar að viðbættum platta eru hærri en 0,8 metrar skulu allar samsetningar vera teinaðar saman með ryðfríum stálteinum. Teinarnir límast inn í steinhlutina með tveggja þátta steinlími.

11. gr.

Kirkjugarðsstjórn er heimilt að fjarlægja af grafreitum óviðeigandi girðingar og minnis­merki í samræmi við 26. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993. Vandamönnum skal í slíkum tilvikum gert viðvart, sé þess kostur, og samráð haft við prófastana í Reykjavíkurprófastsdæmi.

12. gr.

Brot gegn reglum þessum varða viðurlögum skv. 52. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993.

13. gr.

Í sérstökum tilvikum getur kirkjugarðsstjórn heimilað aðrar gerðir minnismerkja en kveðið er á um í reglum þessum.

14. gr.

Rísi ágreiningur um túlkun þessara reglna má skjóta þeim málum til úrskurðar kirkju­garða­ráðs innan þriggja mánaða frá ákvörðun kirkjugarðsstjórnar.

15. gr.

Reglur þessar, sem settar eru á grundvelli tillagna stjórnar kirkjugarða Reykja­víkur­prófasts­dæma með heimild í 51. gr. laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, staðfestast hér með til að öðlast gildi þegar í stað.

Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 787, 6. september 2004 um stærð og frágang minnis­merkja í umdæmi kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu, 2. október 2009.

Ragna Árnadóttir.

Þórunn J. Hafstein.

B deild - Útgáfud.: 9. nóvember 2009