Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 17/2018

Nr. 17/2018 15. janúar 2018

AUGLÝSING
(II) um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta.

1. gr.

Með vísan til 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 604 frá 3. júlí 2017 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018 staðfestir ráðuneytið sérstök skilyrði vegna úthlutunar aflaheimilda í eftirfarandi sveitarfélögum:

Fjallabyggð.

Ákvæði reglugerðar nr. 604/2017 gilda um úthlutun byggðakvóta Siglufjarðar og Ólafsfjarðar með eftirfarandi viðauka/breytingum:

  a) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess afla­marks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess afla­marks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiski­skipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í ein­stökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skulu öll skip og bátar sem uppfylla ákvæði 1. gr. reglugerðarinnar eiga rétt á 2.000 þorsk­ígildiskílóa úthlutun óháð afla þeirra á fiskveiðiárinu 2016/2017. Auk þess skal því afla­marki sem eftir stendur skipt hlutfallslega milli sömu skipa og báta miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorsk­ígildum talið, innan sveitar­félagsins á tímabilinu 1. september 2016 til 31. ágúst 2017, þó ekki hærra en 20% af því sem eftir stendur, en að hámarki 20 þorskígildistonn.
  b) Ákvæði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður:
    Afli af fiskiskipum sem landað er í sveitarfélagi af bátum sem ekki eru skráðir innan við­komandi sveitarfélags á sama tíma, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.
  c) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tíma­bilinu frá 1. september 2017 til 31. ágúst 2018.

Vesturbyggð.

Ákvæði reglugerðar nr. 604/2017 gilda um úthlutun byggðakvóta Patreksfjarðar, Brjánslækjar og Bíldudals með eftirfarandi viðauka/breytingum:

  a) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess afla­marks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðar­lagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiski­skipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggða­kvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega, af því aflamarki sem fallið hefur til við­komandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorsk­ígildis­stuðla, í þorskígildum talið, innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2016 til 31. ágúst 2017.
  b) Ákvæði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður:
    Afli af fiskiskipum sem landað er í sveitarfélagi af bátum sem ekki eru skráðir innan við­komandi sveitarfélags á sama tíma, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.
  c) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tíma­bilinu frá 1. september 2017 til 31. ágúst 2018.

Ísafjarðarbær.

Ákvæði reglugerðar nr. 604/2017 gilda um úthlutun byggðakvóta Ísafjarðar, Hnífsdals, Þingeyrar, Flateyrar og Suðureyrar með eftirfarandi viðauka/breytingum:

  a) Ákvæði a-liðar 1. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Hafa leyfi til veiða í atvinnu­skyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, eða frístunda­veiði­leyfi skv. 2. tl. 4. mgr. 6. gr. sömu laga, við lok umsóknarfrests.
  b) Ákvæði c-liðar 1. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í sveitarfélaginu 1. júlí 2017.
  c) Ákvæði 1. málsl. 1. og 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess afla­marks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal fyrst úthluta bátum með frístundaleyfi, sbr. a-lið, 1 þorsk­ígildis­tonni á bát, 40% af því sem eftir stendur skal skipt jafnt milli annarra skipa, þó ekki meira í þorskígildum talið en viðkomandi bátur landaði í þorskígildum talið á fiskveiði­árinu 2016/2017, afganginum skal skipt hlutfallslega, miðað við allan landaðan botn­fisk­afla í tegundum sem hafa þorsk­ígildisstuðla, í þorskígildum talið, sem landað var innan viðkomandi sveitarfélags á tíma­bilinu 1. september 2016 til 31. ágúst 2017.
    Afli af fiskiskipum sem landað er í sveitarfélaginu af bátum sem ekki eru skráðir innan sveitar­félagsins á sama tíma, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.
  d) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla, sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðar­laga, á tímabilinu frá 1. september 2017 til 31. ágúst 2018. Ísafjarðarbær getur þó heimilað að aflanum sé landað innan sveitarfélags með áritun á umsókn viðkomandi um byggða­kvóta.

2. gr.

Auglýsing þessi, sem birt er samkvæmt heimild í 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fisk­veiða, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 15. janúar 2018.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Baldur P. Erlingsson.

Annas Jón Sigmundsson.


B deild - Útgáfud.: 16. janúar 2018