Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1190/2018

Nr. 1190/2018 4. desember 2018

AUGLÝSING
um flokkun vöru og þjónustu vegna vörumerkja.

1. gr.

Gildissvið.

Í samræmi við 16. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki, með síðari breytingum og ákvæði Nice-samningsins frá 15. júní 1957 um alþjóðlega flokkun vöru og þjónustu vegna skráningar vöru­merkja, með síðari breytingum, gildir eftirfarandi flokkaskrá fyrir vörur og þjónustu vegna skrán­ingar vörumerkja. Flokkaskráin er birt sem fylgiskjal með auglýsingu þessari.

Flokkaskráin er í samræmi við 11. útgáfu alþjóðlegu skrárinnar um flokkun vöru og þjónustu við skráningu vörumerkja samkvæmt Nice-samningnum sem tók gildi 1. janúar 2017 og þær breyt­ingar sem átt hafa sér stað frá þeim tíma. Flokkaskráin er uppfærð með rafrænum hætti um hver ára­mót.

2. gr.

Breytingar þann 1. janúar 2019.

Eftirfarandi breytingar eru gerðar á íslenskri þýðingu á yfirskriftum flokkaskrárinnar frá og með 1. janúar 2019.

Flokkur 9 orðast svo: Búnaður og tæki til notkunar við vísindi, rannsóknir, leiðsögu, landmælingar, ljósmyndun, kvikmyndatöku og -sýningar, hljóð- og myndmiðlun, ljósfræði, vigtun, mælingar, merkja­sendingar, greiningar, prófanir, eftirlit, björgun og kennslu; búnaður og tæki til að leiða, kveikja og slökkva á, breyta, safna, stilla eða stjórna dreifingu eða notkun á rafmagni; búnaður og tæki til að taka upp, miðla, afrita eða vinna hljóð, myndefni eða gögn; upptekið og niðurhalanlegt efni, tölvu­hugbúnaður, auðir, stafrænir eða hliðrænir gagnamiðlar til upptöku og geymslu; vélbúnaður fyrir myntstýrð tæki; búðarkassar, reiknivélar; tölvur og tölvujaðartæki; köfunar­búningar, köf­unar­grímur, eyrnatappar fyrir kafara, nefklemmur fyrir kafara og sundfólk, hanskar fyrir kafara, öndunarbúnaður fyrir kafsund; slökkvitæki.

Flokkur 11: Á eftir orðinu „hitun“ kemur: kælingu.

Flokkur 15: Á eftir tilgreiningunni „Hljóðfæri“ kemur: nótnastatíf og hljóðfærastandar; tónsprotar fyrir hljómsveitarstjóra.

Flokkur 19: Tilgreiningin „Byggingarefni (ekki úr málmi)“ verður: Efniviður, ekki úr málmi, til bygg­inga og mannvirkjagerðar. Á eftir orðinu „bik“ kemur: tjara.

Flokkur 26: Á eftir tilgreiningunni „Blúndur“ kemur: fléttuborðar. Á eftir tilgreiningunni „útsaumur“ kemur: og ofnir borðar og slaufur.

Flokkur 27: Á eftir tilgreiningunni „veggklæðningar“ kemur: ekki ofnar.

Flokkur 29: Á eftir tilgreiningunni „mjólk“ kemur: ostur, smjör, jógúrt og aðrar mjólkurafurðir.

Flokkur 30: Á eftir tilgreiningunni „hrísgrjón“ kemur: pasta og núðlur. Á eftir tilgreiningunni „sæl­gæti“ kemur: súkkulaði; ís, frauðís og annar ís til matar. Á eftir tilgreiningunni „salt“ kemur: krydd­blöndur, krydd, rotvarðar jurtir. Á eftir tilgreiningunni „sósur“ kemur: og aðrir bragðbætar.

Flokkur 32: Á eftir tilgreiningunni „Bjór“ kemur: óáfengir drykkir. Á undan tilgreiningunni „efni til drykkjargerðar“ bætist við: óáfeng.

Flokkur 33: Svigi utan um „nema bjór“ fellur brott. Við bætist tilgreiningin: áfeng efni til drykkjar­gerðar.

Flokkur 34: Á eftir tilgreiningunni „Tóbak“ kemur: og tóbakslíki; sígarettur og vindlar; rafrettur (veipur) og innúðatæki fyrir reykingafólk.

3. gr.

Leiðréttingar.

Eftirfarandi leiðréttingar eru gerðar á þýðingum í yfirskriftum eftirtalinna flokka:

  1. Flokkur 11: Í stað „vatns- og hreinlætislagnir“ kemur: vatnsveitu og hreinlæti.
  2. Flokkur 27: Tilgreiningin „veggklæðning“ verður: veggklæðningar.
  3. Flokkur 34: Tilgreiningin „reykingamenn“ verður: reykingafólk.

4. gr.

Nánari tilgreining á yfirskriftum flokka við endurnýjun vörumerkja.

Í samræmi við ákvörðun Einkaleyfastofunnar um þrengri túlkun á yfirskriftum flokkaskrárinnar frá 1. janúar 2014, er heimilt við fyrstu endurnýjun merkis eftir það tímamark að tilgreina nánar þá vöru og/eða þjónustu sem merki er skráð fyrir. Tilgreining skal vera í samræmi við þá útgáfu alþjóð­legu flokkaskrárinnar sem er í gildi hverju sinni. Útvíkkun á vernd er ekki heimil. Ef ekki er óskað eftir endurflokkun stendur vöru- og/eða þjónustulisti óbreyttur.

Við endurflokkun þá sem heimil er skv. 1. mgr. skal þess gætt að tilgreiningar séu skýrar og nákvæmar. Leitast skal við að velja einungis þær tilgreiningar sem varða starfsemi eiganda.  

Það er á ábyrgð eigenda eða umboðsmanna þeirra að tilgreina nánar vöru og/eða þjónustu við endur­nýjun í samræmi við ákvæði þetta. Telji Einkaleyfastofan tilgreiningar ekki fullnægjandi er veittur frestur til að lagfæra umsóknina í samræmi við 2. mgr. 27. gr. laga nr. 45/1997 um vöru­merki.

5. gr.

Gildistaka og brottfall.

Auglýsing þessi gildir frá og með 1. janúar 2019. Jafnframt fellur úr gildi auglýsing um flokkun vöru og þjónustu vegna vörumerkja nr. 1094/2017 ásamt breytingu án henni nr. 167/2018.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 4. desember 2018.

F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,

Ingvi Már Pálsson.

Daði Ólafsson.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 20. desember 2018