Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1401/2023

Nr. 1401/2023 13. desember 2023

SAMÞYKKT
um fráveitur í Múlaþingi.

I. KAFLI

Gildissvið og markmið.

1. gr.

Samþykkt þessi gildir um fráveitu í Múlaþingi eins og hún er skilgreind í 3. tölulið 3. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna og nær til allra fasteigna, íbúðarhúsnæðis, sumar­bústaða, stofnana og atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu. Samþykktin nær til allra fráveitna, þar með talið allra mannvirkja sem reist eru til meðhöndlunar eða flutnings á frárennsli, svo sem rotþróa með siturlögn, annarra hreinsivirkja, set- og sandskilja, fellitanka og olíu- og fitugildra.

Kröfur um söfnun, hreinsun og losun frárennslis byggja á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og reglugerðum um frá­veitur og skólp, um meðhöndlun seyru, um varnir gegn mengun vatns og um varnir gegn mengun grunnvatns.

Sveitarstjórn Múlaþings felur HEF veitum ehf., kt. 470605-1110, sem er B-hluta fyrirtæki að fullu í eigu sveitarfélagsins að fara með skyldur og réttindi sveitarfélagsins hvað varðar uppbygg­ingu, rekstur og eignarhald fráveitu samkvæmt lögum nr. 9/2009, sbr. heimild í 6. gr. laganna. Jafnframt skulu HEF veitur ehf., í umboði Múlaþings, hafa með höndum umsjón og framkvæmd kerfisbundinnar tæmingar á seyru úr rotþróm og öðrum stökum hreinsivirkjum.

Rekstur fráveitu er háður starfsleyfi heilbrigðisnefndar Austurlands í samræmi við lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og reglugerðir settar samkvæmt þeim.

Samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, hefur heilbrigðisnefnd Austur­lands eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar.

 

2. gr.

Markmið samþykktar þessarar er að:

  1. afmarka skyldur sveitarfélagsins hvað varðar fráveitumál og fráveituframkvæmdir,
  2. tryggja uppbyggingu og starfrækslu fráveitna þannig að frárennsli valdi sem minnstum óæski­legum áhrifum á umhverfið,
  3. skýra réttindi og skyldur eigenda og notenda fráveitna og
  4. stuðla að hagkvæmni í uppbyggingu og starfrækslu fráveitna.

 

II. KAFLI

Fráveitur.

3. gr.

HEF veitur ehf. sjá um og starfrækja fráveitu á Egilsstöðum, í Fellabæ á Borgarfirði, Seyðis­firði, Djúpavogi og Hallormsstað. HEF veitur ehf. geta tekið að sér fráveitur á öðrum svæðum í sveitar­félaginu en tilgreind eru í 2. og 3. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009, sbr. 6. og 7. mgr. sömu greinar.

HEF veitur ehf. kosta rekstur fráveitna og framkvæmdir við þær, sjá um lagningu og viðhald allra fráveitulagna, þ.e. stofnlagna, safnkerfa og fráveitutenginga, ákveða framkvæmdir við fráveitur og veita árlega fé á fjárhagsáætlun sinni til reksturs fráveitna og framkvæmda við þær.

 

4. gr.

Húseigendum er skylt að halda vel við fráveitulögnum húseigna sinna og gæta þess að þær stíflist ekki. Draga skal úr magni lífræns úrgangs og fasts úrgangs inn á fráveitukerfi eftir föngum, t.d. með því að hafa ristar á niðurföllum, sandskiljur eða slógbrunna.

Óheimilt er að losa í fráveitu HEF veitna ehf. hvers kyns spilliefni, t.d. olíur, bensín, lífræn leysiefni og lyf, föst efni eða annað það sem skemmt getur eða truflað rekstur fráveitukerfisins eða skaðað viðtaka.

Um mengunarvarnir fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerða settra samkvæmt þeim og starfsleyfa ef við á.

 

5. gr.

Í þéttbýli skulu öll hús tengd sameiginlegri fráveitu HEF veitna ehf. eða aðila sem sveitarstjórn hefur falið reksturinn að hluta eða öllu leyti.

Fyrir stök hús í þéttbýli sem vegna landfræðilegrar stöðu er ekki hægt að tengja inn á sameigin­lega fráveitu getur heilbrigðisnefnd veitt leyfi til að setja niður stakt hreinsivirki, svo sem rotþró með siturlögn eða annan hreinsibúnað, sem heilbrigðisnefnd samþykkir.

Í dreifbýli þar sem fjöldi húsa er u.þ.b. 20 á hverja 10 ha og/eða atvinnustarfsemi felur í sér losun sem nemur u.þ.b. 50 persónueiningum eða meira á hverja 20 ha skal Múlaþing sjá til þess að skólpi sé safnað á kerfisbundinn hátt með safnkerfi, stofnlögnum og sameiginlegu hreinsikerfi.

Þar sem eru húsaþyrpingar með færri húsum en skv. 3. mgr. skal leitast við að samnýta fráveitur til hreinsunar skólps.

Fráveita frá salernum í gripahúsum, tómstundabúskap og hesthúsahverfum skal leidd í hreinsi­virki, ásamt sigvatni frá haughúsum, skolvatni frá þvottastöðum o.þ.h. Þar sem við á skal leiða fituríkt fráveituvatn um fituskilju.

Atvinnustarfsemi í dreifbýli sem ekki getur tengst safnkerfi og sameiginlegu hreinsivirki en losar meira en 50 pe skal koma á fót og reka hreinsivirki, sem heilbrigðisnefnd samþykkir.

Í skipulagðri frístundabyggð skal landeigandi eða félag í frístundabyggð koma á fót sameigin­legri fráveitu með hreinsivirki þar sem fjöldi húsa er u.þ.b. 20 á hverja 10 ha. Þegar sveitarfélagið skipu­leggur frístundabyggð á eigin landi skal sveitarfélagið koma á fót fráveitu.

 

6. gr.

Fráveita HEF veitna ehf. veitir frárennsli, sem getur verið húsaskólp, iðnaðarskólp, ofanvatn, frárennslisvatn hitaveituvatn, kælivatn og ræsisvatn, um fráveitulagnir frá byggð til hreinsivirkis og síðan til viðtaka.

Einföld fráveita veitir skólpi og ofanvatni saman í einni fráveitulögn en tvöföld fráveita veitir skólpi og ofanvatni í tveimur aðskildum fráveitulögnum.

Á veitusvæði fráveitu HEF veitna ehf., sbr. 3. gr. samþykktar þessarar, á fyrirtækið allar holræsa­lagnir fráveitu, útrásir, stofnræsi, götuholræsi, ofanvatnsræsi í götum og opnum svæðum og götu­fráræsi að fráræsum húseigna. Enn fremur allan fráveitubúnað, brunna, niðurföll, hverfisrotþrær, dælustöðvar og hreinsistöðvar.

Fráræsi húseigna er eign húseiganda og endar í tengibrunni, sem er eign lóðarhafa við lóðar­mörk, að aðliggjandi götu þar sem fráveita HEF veitna ehf. tekur við. Á lóðarblaði skal koma fram stað­setning og tengikóti á stút fráveitu við lóðarmörk.

 

7. gr.

Á veitusvæði fráveitu HEF veitna ehf., skal húseigendum séð fyrir tengingu frá fráveitukerfi að heimæðum húseigna. Þar sem fráveitan liggur um lóðir skal séð fyrir tengigrein á holræsalögn. HEF veitur ehf. ákveða legu götuholræsa og tengigreina ásamt tengikótum og í samráði við umhverfis- og framkvæmdasvið Múlaþings eftir því sem við á.

HEF veitum ehf. er heimilt að tengja stök hús í þéttbýli við stök hreinsivirki eða annan hreinsi­búnað, sem heilbrigðisnefnd samþykkir. Búnaðurinn er eign HEF veitna ehf., á ábyrgð þeirra og hluti af fráveitu sveitarfélagsins.

 

8. gr.

Sérhverjum eiganda fasteignar þar sem fráveita HEF veitna ehf. liggur er skylt, á sinn kostnað, að annast lagningu og viðhald heimæðar frá húseign sinni og tengja við fráveituna í samræmi við lóðaruppdrátt, byggingarskilmála eða önnur fyrirmæli sem gefin eru.

Húseigendur skulu halda skólpi og ofanvatni aðskildu í tvöfaldri fráveitulögn og tengja hana fráveitunni, hvort sem hún er einföld eða tvöföld. Að öðru leyti fer samkvæmt lögum nr. 9/2009 og ákvæðum reglugerðar um fráveitur og skólp.

 

9. gr.

Þegar ekki er unnt að ná nægilegum halla á frárennslislögn húseignar að fráveitu HEF veitna ehf. skal húseigandi leiða fráveituvatn frá húseigninni að stöku hreinsivirki eða dæla fráveituvatni sínu upp í fráveitukerfið.

Hafi fráveita ekki verið komin þegar húseign var byggð skal húseigandi kosta þær viðbætur sem þarf til að hægt sé að tengja fráveitu húseignarinnar við fráveitu HEF veitna ehf.

 

10. gr.

Eigendum fasteigna er skylt að hlíta því að lagnir fráveitu HEF veitna ehf. séu lagðar um lóðir þeirra eða lönd og að á þeim geti farið fram nauðsynlegt viðhald og hreinsun. HEF veitum ehf. er skylt að halda raski tengdu framkvæmdum í lágmarki, ganga snyrtilega um og færa allt til fyrra horfs eins og við verður komið.

 

11. gr.

Þar sem hætta er á að fráveituvatn frá fráveitu HEF veitna ehf. flæði til baka um fráræsislagnir frá húseignum vegna vatnsborðsriss af völdum ofanvatns eða hárrar sjávarstöðu skulu húseigendur koma fyrir sjálfvirkum flóðlokum í lögnum sínum, svo sem við gólfniðurföll.

 

12. gr.

Þar sem HEF veitur ehf. nýta ekki heimild til eignarhalds og rekstrar fráveitu í dreifbýli, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009, skal landeigandi sjá til þess að skólp sé hreinsað og koma á safnkerfi, stofnlögnum og sameiginlegu hreinsivirki eftir því sem nánar er kveðið á um í deiliskipulagi. Þar sem ekki er til staðar sameiginleg fráveita skal frárennsli einstakra húsa veitt í hreinsivirki. Ganga skal frá fráveitum í samræmi við kröfur heilbrigðisnefndar Austurlands til íbúða- og frístunda­byggðar eða viðkomandi atvinnustarfsemi. Húseigandi eða viðkomandi rekstraraðili er í slíkum tilvikum eigandi fráveitu og kostar uppsetningu hennar, svo sem niðursetningu og annan frágang hreinsivirkja og lagna svo og viðhald þeirra.

Múlaþing getur sett sérstakar reglur um stuðning við framkvæmdirnar.

Rotþrær skulu uppfylla kröfur og leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um stærð og siturlagnir og vera samþykktar af heilbrigðisnefnd. Önnur hreinsivirki, sem geta hreinsað fráveituvatn jafn vel eða betur en rotþrær og siturlagnir, skulu samþykktar af Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd, eftir því sem við á.

Land- eða húseigandi leggur til fráveitu eða hreinsivirki, svo sem rotþró og siturlögn, sem sam­þykkt er af byggingarfulltrúa. Gerð, stærð og hönnunarforsendur fráveitu eða rotþróar og siturlagna er háð samþykki heilbrigðisnefndar Austurlands og skulu vera í samræmi við leiðbeiningar Umhverfis­stofnunar.

Þar sem fleiri hús eða húsaþyrpingar eru tengd inn á rotþrær og siturlagnir eða önnur hreinsi­virki skal staðsetning vera í samræmi við deiliskipulag.

Aðgengi stórra bíla til tæminga á hreinsivirkjum, þ. á m. rotþróm skal vera gott.

Rotþrær og siturlagnir sem og önnur hreinsivirki skal sýna á afstöðuteikningum og á lagna­teikningum húsa.

Í rotþró og önnur stök hreinsivirki skal leiða skólp, baðvatn og þvottavatn úr öllum niðurföllum innanhúss. Ekki skal leiða afrennsli frá ofnum eða afbræðslukerfum, heitum pottum, þakvatn eða annað yfirborðsvatn í rotþró og önnur stök hreinsivirki. Heimilt er að leiða bað- og sturtuvatn gegnum síur í aftasta hólf rotþróar.

HEF veitur ehf. skulu halda skrá yfir öll stök hreinsivirki í sveitarfélaginu, svo sem rotþrær og siturlagnir þeirra, og sjá um að fram fari reglubundin tæming.

Komi til bilana eða stíflna milli tæminga bera eigendur viðkomandi hreinsivirkja ábyrgð á að láta tæma þau og gera við á eigin kostnað.

 

13. gr.

Þegar tengja skal fráveitu húseigna við fráveitu HEF veitna ehf. eða veita fráveituvatni frá þeim um hreinsivirki í einkaeigu, svo sem rotþró með siturlögn, skal sækja um það til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins á þar til gerðum eyðublöðum. Umsóknir skulu undirritaðar af húseigendum eða fullgildum umboðsmönnum þeirra og pípulagningameistara sem verkið á að vinna. Umsóknum skulu fylgja teikningar af fráveitulögnum húsa og lóða sem tengja á fráveitunni.

Umsóknum um hreinsivirki, svo sem rotþrær með siturlögnum, skulu fylgja teikningar sem sýni gerð þeirra, stærð og staðsetningu, meðal annars m.t.t. lóðamarka, auk teikninga af fráveitulögnum húsa og lóða.

Ef um er að ræða endurnýjun fráveitulagna innan lóðar, skal húseigandi sækja um heimild bygg­ingarfulltrúa vegna framkvæmdarinnar og leggja fram teikningar af fyrirhugaðri breytingu eða endur­nýjun. Byggingarfulltrúi getur krafist ábyrgðar pípulagningarmeistara vegna verksins.

 

14. gr.

Teikningar skulu fylgja almennum reglum um hönnun fráveitulagna í húsum, sbr. byggingar­reglugerð og byggingarskilmála. Allt efni skal standast kröfur um efni og vinnu sem gerðar eru á hverjum tíma.

 

15. gr.

Byggingarstjóri skal hafa eftirlit með því að fráveitulagnir frá húseignum innan lóða séu lagðar samkvæmt samþykktum teikningum. Áður en lagnir eru huldar skal einnig taka út og viðurkenna fráveitu frá húseignum og tengingar þeirra við fráveitu HEF veitna ehf. eða stakt hreinisvirki, svo sem rotþró með siturlögnum.

 

16. gr.

Hverja rotþró og önnur stök hreinsivirki skal hreinsa eftir þörfum, eigi sjaldnar en þriðja hvert ár og skal húseigandi tryggja greiðan aðgang að þeim. Hreinsun fer fram á vegum HEF veitna ehf. eða þess aðila sem falin er framkvæmd verksins. HEF veitur ehf. ákveða verktilhögun og annað sem skiptir máli til að tryggja góðan árangur. Meðhöndlun seyru er háð starfsleyfi heilbrigðisnefndar í samræmi við ákvæði reglugerðar um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.

 

17. gr.

HEF veitur ehf. ábyrgjast alla meðhöndlun seyru í sveitarfélaginu í samræmi við reglugerð, þ.e. seyrulosun úr minni hreinsivirkjum, svo sem rotþróm, ásamt flutningi, endurnýtingu eða förgun. Heilbrigðisnefnd Austurlands annast eftirlit með starfseminni. HEF veitum ehf. er heimilt að fela öðrum aðilum meðhöndlun seyru, enda hafi viðkomandi starfsleyfi heilbrigðisnefndar.

Umráðamenn eða eigendur fráveitna geta falið öðrum en HEF veitum ehf. meðhöndlun seyru, enda framvísi þeir samningi til að lágmarki þriggja ára við þjónustuaðila með starfsleyfi heilbrigðis­nefndar. Auk tilkynningar til HEF veitna ehf. skal umráðamaður eða eigandi fráveitu tilkynna heilbrigðis­nefnd Austurlands um slíkan samning.

 

18. gr.

Þar sem húseignir í dreifbýli liggja utan vega sem þola ekki umferð hreinsibíla og ekki er kleift að koma þeim að rotþróm eða öðrum stökum hreinsivirkjum er tæming á ábyrgð og umsjón húseigenda. Við slíkar aðstæður getur Múlaþing heimilað eða kveðið á um aðrar fráveitulausnir, svo sem kamar eða þurrsalerni, að höfðu samráði við heilbrigðisnefnd Austurlands.

 

III. KAFLI

Gjaldtaka.

19. gr.

Múlaþingi er heimilt að innheimta stofngjald vegna tengingar og lagningar frárennslislagna frá lóðamörkum húseigenda við holræsakerfi sveitarfélagsins. Gjaldið skal ákveðið í gjaldskrá sem HEF veitur ehf. setja og Múlaþing lætur birta í B-deild Stjórnartíðinda.

Af þeim fasteignum í sveitarfélaginu þar sem tenging er fyrir hendi við mörk fasteignar skal árlega greiða fráveitugjald og skal því varið til þess að standa straum af kostnaði af fráveitu HEF veitna ehf.

Álagningarstofn fráveitugjalds skal vera hlutfall af fasteignamati fasteignar í heild, þ.e. húsa, mannvirkja, lóða og landa, samkvæmt lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og sam­kvæmt lögum nr. 9/2009 um upp­byggingu og rekstur fráveitna.

Álagningarhlutfall skal ákveðið af sveitarstjórn, að fenginni tillögu HEF veitna ehf., samhliða ákvörðun álagningar annarra fasteignagjalda og fasteignaskatts og kynnt venju samkvæmt.

Sveitarstjórn Múlaþings getur sett reglur og nýtt heimild í 7. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009 um niðurfellingu eða lækkun gjalda hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum.

Fráveitugjald greiðist af skráðum eiganda fasteignar ef um eignarlóð er að ræða en af skráðum eiganda húsa eða annarra mannvirkja á leigulóðum og bera þessir aðilar ábyrgð á greiðslu gjaldsins.

Gjalddagar fráveitugjalds skulu vera þeir sömu og sveitarstjórn Múlaþings ákveður fyrir fast­eigna­gjöld og skal innheimtu þess hagað á sama hátt og innheimtu fasteignagjalda. Álagning fráveitu­gjalds af nýbygg­ingum skal hefjast þegar tenging er fyrir hendi við mörk fasteignar.

 

20. gr.

Múlaþingi er heimilt að innheimta árlegt gjald fyrir hreinsun, tæmingu á rotþróm og öðrum stökum hreinsivirkjum sem ekki eru tengd fráveitu HEF veitna ehf. Gjaldið skal ákveðið að fenginni tillögu HEF veitna ehf. og renna til HEF veitna ehf. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Í gjaldskrá er heimilt að sundurliða gjöld miðað við kostnað af einstökum þáttum til skýringar fyrir greiðendur. Gjöld þessi skulu ákveðin með sérstakri gjaldskrá í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og ákvæði 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Gjaldskrána skal birta í B-deild Stjórnartíðinda.

Gjaldið skal innheimt með sama hætti og fasteignagjöld til sveitarfélagsins.

Heimilt er að innheimta aukagjald þar sem um óvenju mikinn kostnað er að ræða við hreinsun og tæmingu rotþróa, eða þegar sérstakar aðstæður krefjast aukinnar þjónustu. Gjald þetta má þó aldrei vera hærra en svo að nemi sannanlegum kostnaði við verkið.

 

21. gr.

Gjöld samkvæmt samþykkt þessari njóta lögveðsréttar í viðkomandi fasteign sem gildir næstu tvö ár eftir gjalddaga, með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði, sbr. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustu­hætti og mengunarvarnir. Gjöld má innheimta með fjárnámi.

 

Ⅳ. KAFLI

Málsmeðferð og gildistaka.

22. gr.

Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Um viðurlög fer samkvæmt XIX. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru samkvæmt samþykkt þessari er heimilt að kæra til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála.

 

23. gr.

Samþykkt þessi staðfestist hér með samkvæmt 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, ákvæðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og 10. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna til þess að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 1028/2021 um fráveitur í Múlaþingi.

 

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 13. desember 2023.

 

F. h. r.

Gunnlaug Helga Einarsdóttir.

Trausti Ágúst Hermannsson.


B deild - Útgáfud.: 19. desember 2023