Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 76/2016

Nr. 76/2016 16. júní 2016

LÖG
um breyt­ingu á lög­um um grunnskóla, nr. 91/​2008, með síðari breyt­ing­um (sjálfstætt rekn­ir grunnskól­ar, breytt vald­mörk ráðuneyta, tóm­stund­astarf og frí­stunda­heim­ili).

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu: 

1. gr.

  1. Orðin „sem hlotið hafa viðurkenningu samkvæmt lögum þessum“ í 1. gr. laganna falla brott.
  2. Í stað orðsins „sérfræðiþjónustu“ í 1. mgr. 5. gr., d-lið 2. mgr. 6. gr., 2. mgr. 15. gr., 1. mgr. 20. gr., 1., 4., tvívegis í 5., 6. og 7. mgr. og fyrirsögn 40. gr., og 2. mgr. 46. gr. laganna kemur: skólaþjónustu.
  3. Í stað orðsins „sérfræðiþjónusta“ í 1. og 3. mgr. 40. gr. og í fyrirsögn IX. kafla laganna kemur: skólaþjónusta.

2. gr.

    5. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Við 1. málsl. 3. mgr. 28. gr. laganna bætist: svo og nánari útfærslu á samþættingu skóla og frístundastarfs ef um slíkt er að ræða.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:

  1. 3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
  2. Í stað orðanna „lengda viðveru utan daglegs kennslutíma og tómstundastarf“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: tómstunda- og félagsstarf.
  3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Tómstunda- og félagsstarf.

5. gr.

    Á eftir 33. gr. laganna kemur ný grein, 33. gr. a, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Frístundaheimili.

    Öllum börnum í yngri árgöngum grunnskóla skal gefinn kostur á þjónustu frístundaheimila. Frístundaheimili er frístundavettvangur barna með áherslu á val barna, frjálsan leik og fjöl­breyti­leika í viðfangsefnum og umhverfi. Við skipulag þjónustu frístundaheimila skal tekið mið af þörfum, þroska og áhuga hvers og eins.
    Sveitarfélög fara með faglegt forræði frístundaheimila, ákveða skipulag starfsemi þeirra og rekstrarform með samþættingu skóla- og frístundastarfs og þarfir barna að leiðarljósi.
    Á frístundaheimilum gilda almenn ákvæði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim um öryggi og velferð barna, réttindi og skyldur, tilkynningarskyldu og ráðningarbann á grundvelli saka­vottorðs.
    Ráðuneytið gefur út, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, viðmið um gæði frístundastarfs, þ.m.t. um hlutverk og markmið, skipulag og starfsaðstæður, starfshætti, marg­breyti­leika, stjórnun og menntun starfsfólks.
    Sveitarfélög geta ákveðið að reka ekki frístundaheimili ef gildar ástæður eru fyrir hendi, t.d. stað­bundnar aðstæður.
    Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald fyrir vistun barna á frístundaheimili samkvæmt gjaldskrá sem þau setja og birta opinberlega. Gjaldskrárákvarðanir samkvæmt þessari grein eru kæranlegar samkvæmt fyrirmælum 47. gr.

6. gr.

    X. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Sjálfstætt rekn­ir grunnskól­ar, orðast svo, og jafnframt færast 44.–46. gr. kaflans í XI. kafla:

    a. (43. gr.)

Sjálfstætt reknir grunnskólar.

    Sjálfstætt reknir grunnskólar starfa samkvæmt lögum þessum en eru reknir af einkaaðila, almennt á grundvelli þjónustusamnings við viðkomandi sveitarfélag.
    Innritun í sjálfstætt rekinn grunnskóla er háð frjálsu vali foreldra, fyrir hönd barna sinna, nema annað leiði af þjónustusamningi. Ef innritun í sjálfstætt rekinn grunnskóla er ekki háð frjálsu vali skal til viðbótar öðrum kröfum fullnægja skilyrðum 43. gr. e.

    b. (43. gr. a.)

Þjónustusamningur.

    Sveitarfélag sem skóli starfar í skal gera þjónustusamning um rekstur skólans við rekstraraðila. Samningur felur í sér samþykki sveitarfélags fyrir stofnun skólans, staðfestingu á rétti til fjár­framlaga skv. 43. gr. b og skuldbindingu sveitarfélags um að hafa eftirlit með starfi hans.
    Ráðuneytið skal staðfesta þjónustusamning þegar fyrir liggur að öllum lögbundnum skilyrðum er fullnægt. Ekki má hefja skólastarf fyrr en sú staðfesting liggur fyrir. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun að annast staðfestingu þjónustusamnings.
    Sveitarfélag getur hafnað því að gera þjónustusamning eða takmarkað hann við tiltekinn nemendafjölda, t.d. ef fjárframlög til skólans kunna að hafa neikvæð áhrif á skólastarf sveitar­félagsins sjálfs og fjárveitingar til þess. Hafni sveitarfélag því að gera þjónustusamning fer um leyfi til starfsemi skólans eftir 46. gr.
    Í þjónustusamningi skal að minnsta kosti fjalla um eftirtalin atriði:

  1. Skólanámskrá sem er í samræmi við aðalnámskrá.
  2. Mat og eftirlit með gæðum, sbr. 37. gr.
  3. Fjárhagsleg samskipti aðila, svo sem dreifingu fjárframlaga og þau fjármál sem tengjast nemendum með sérþarfir.
  4. Þjónustu við nemendur í samræmi við metnar sérþarfir.
  5. Gildi samnings, svo sem reynslutíma og uppsagnarfresti. Um hámarkstíma samninga gilda ekki ákvæði 100. gr. sveitarstjórnarlaga.
  6. Hámarksfjölda nemenda við skólann, en hann skal m.a. ákvarðaður að teknu tilliti til hús­næðis, starfsaðstæðna nemenda og starfsmanna, möguleika á að skipuleggja eftirlit með skól­anum og fjárhagslegs rekstraröryggis.
  7. Hámarksfjölda nemenda við skólann sem sveitarfélagi ber að greiða kostnað af, sbr. 43. gr. b, en hann skal m.a. ákvarðaður með hliðsjón af fjárveitingum sem sveitarfélag ákveður.
  8. Innritun nemenda og gjaldtöku af nemendum. Sveitarfélag getur sett skilyrði um hámark gjaldtöku með hliðsjón af fjárframlögum þess til skólans.
  9. Fyrirkomulag skólaaksturs, ef við á.
  10. Slit á þjónustusamningi og vanefndaúrræði vegna brota á samningsskyldum.

    c. (43. gr. b.)

Fjárframlög úr sveitarsjóði.

    Sjálfstætt rekinn grunnskóli sem gert hefur þjónustusamning skv. 43. gr. a á rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar í. Skal framlagið nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands. Gildir þetta hlutfall fyrir skóla með allt að 200 nemendur, en framlagið skal vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda.
    Útreikningur Hagstofu Íslands skal liggja fyrir fimmta dag hvers mánaðar og byggjast á næsta mánuði á undan og taka mið af verðlagsbreytingum.
    Sveitarfélög greiða framlög reglulega eftir því sem segir í þjónustusamningi. Greiðslurnar taka breytingum til hækkunar eða lækkunar eftir útreikningum Hagstofunnar.
    Sveitarfélögum er heimilt að greiða sérstakt stofnframlag til sjálfstætt rekinna grunnskóla. Slík framlög verða eingöngu nýtt í þágu skólastarfsins.

    d. (43. gr. c.)

Almennar kröfur til einkaaðila sem reka grunnskóla.

    Einkaaðili sem rekur grunnskóla skal:

  1. Vera lögaðili og starfa í formi sjálfseignarstofnunar, hlutafélags eða samkvæmt öðru viður­kenndu rekstrarformi. Yfir lögaðilanum skal vera stjórn sem er ábyrg fyrir rekstri skól­ans gagn­vart viðkomandi sveitarfélagi og öðrum yfirvöldum. Um fjárhagslegar ábyrgðir stjórnar­manna fer eftir almennum reglum.
  2. Setja samþykktir um starfsemi sína sem birta skal opinberlega á vefsíðu skólans. Um sam­þykktirnar gilda almennar reglur en þar skal þó að minnsta kosti kveða á um helstu þætti í innra stjórnkerfi, um faglegt sjálfstæði skólastarfsins og um helstu þætti í verka­skiptingu stjórnar annars vegar og faglegra starfsmanna grunnskóla hins vegar.
  3. Tilgreina í samþykktum sínum að tilgangur hans sé rekstur grunnskóla. Tilgangurinn getur jafn­framt falist í rekstri annarra viðurkenndra menntastofnana og tengdum verkefnum. Hið síðast­nefnda má ekki vera verulegur þáttur í starfseminni.
  4. Tilgreina í samþykktum sínum að fjárframlög opinberra aðila verði einvörðungu nýtt í þágu skólastarfsins. Við slit á starfsemi lögaðilans gilda þó almennar reglur.

    Ákvæði stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi og ákvæði um þagnarskyldu taka til stjórnarmanna.

    e. (43. gr. d.)

Almennar kröfur til skólahalds í sjálfstætt reknum grunnskóla.

    Um rekstur og skólahald sjálfstætt rekins grunnskóla gildir eftirfarandi:

  1. Starfsemi grunnskólans, þ.m.t. skipulag og kennsluhættir, skal vera í fullu samræmi við ákvæði laga þessara, reglna sem settar eru á grundvelli þeirra og í samræmi við aðal­námskrá, nema undantekning sé gerð með lögum eða á grundvelli heimildar í lögum.
  2. Stjórn rekstraraðila gegnir þeim hlutverkum sem sveitarstjórn eru falin skv. 7. og 21. gr.
  3. Undanþága skv. 15. gr. skal tilkynnt skólanefnd sveitarfélags.
  4. Foreldrar taka sjálfir ákvörðun um innritun barns í skólann nema ákvæði 43. gr. e eigi við.
  5. Skólastjóri annast innritun nemenda nema í þjónustusamningi sé ákveðið að sveitarfélagið annist innritun.
  6. Gjald má taka fyrir skólavist óháð öðrum fyrirmælum laga þessara um kostnað nemenda í skyldunámi.
  7. Stjórn lögaðila skal setja almennar reglur um ákvarðanir skv. 5. og 6. tölul. og birta þær opinberlega á vefsíðu skólans.
  8. Meðferð og varðveisla gagna og upplýsinga sem lúta að skólastarfi sjálfstætt rekinna grunn­skóla lúta sömu almennu lögum og við eiga um almenna grunnskóla sveitarfélaga, þ.m.t. gilda ákvæði stjórnsýslulaga, upplýsingalaga og laga um opinber skjalasöfn.
  9. Lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla gilda um grunnskóla sem hlotið hafa staðfestingu ráðherra samkvæmt lögum þessum.

    f. (43. gr. e.)

Sjálfstætt reknir grunnskólar sem ekki eru valfrjálsir.

    Ef foreldrar eiga ekki frjálst val um það hvort þeir innrita börn sín í sjálfstætt rekinn grunnskóla vegna skipulags á grunnskólahaldi í sveitarfélagi ber sveitarfélagi að tryggja að nemendur í sjálfstætt reknum skóla njóti að öllu leyti sömu réttinda, sömu þjónustu og sambærilegrar stöðu og þegar sveitarfélag rekur skólann. Í þessu felst eftir atvikum eftirfarandi:

  1. Skylda til að kveða í þjónustusamningi á um viðeigandi fjárveitingar umfram það sem leiðir af 43. gr. b, m.a. til að tryggja gjaldfrjálsa skólavist og skólaþjónustu að því leyti sem sveitarfélagið kýs ekki að sinna slíkri þjónustu sjálft.
  2. Skylda til að tryggja í þjónustusamningi rétt sveitarfélags til að taka yfir nauðsynlega þætti í starfsemi rekstraraðilans, svo sem samninga við starfsfólk eða samninga um húsnæði eða gögn, málaskrár og annað sem tengist kennslu og telst hluti skólahaldsins, enda þurfi rekstraraðili að leggja niður eða hætta rekstri eða sveitarfélaginu hafi gefist réttmæt ástæða til að slíta samningi við hann.
  3. Skylda til að tryggja rétt sveitarfélags í samræmi við 2. tölul. þegar rekstraraðili gerir aðra samninga, svo sem við kröfuhafa, leigusala og starfsmenn.

    Á sjálfstætt reknum grunnskóla hvílir jafnframt að tryggja nemendum skólans og foreldrum þeirra sömu stöðu og nemendur í grunnskóla sveitarfélagsins hefðu notið, þ.m.t. skylda til að hafa samstarf við önnur stjórnvöld. Skólanum ber um leið réttur til fjárframlaga, sbr. 1. tölul. 1. mgr., og getur sótt hann fyrir dómstólum eftir almennum reglum.
    Sveitarstjórn skal kynna íbúum sveitarfélagsins áætlun um samninga eða skipulag skólahalds skv. 1. mgr. í samræmi við 1. mgr. 5. gr. og fyrirmæli sveitarstjórnarlaga um samráð við íbúa.

    g. (43. gr. f.)

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra skal setja reglugerð um framkvæmd 43. gr., 43. gr. a – 43. gr. e og 46. gr. í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands. Í reglugerð skal m.a. kveðið nánar á um skilyrði fyrir gerð þjónustusamnings, um form og efni þjónustusamnings, upplýsingar sem sveitarfélag skal afla sér um rekstraraðila þegar það gerir samning, skilyrði fyrir staðfestingu á þjónustusamningi, meðferð fjárframlaga til rekstraraðila skóla, upplýsingagjöf til sveitarfélaga og ráðuneytis, eftirlit með starfsemi, sérstakar skyldur sveitarfélaga og einkarekinna grunnskóla þegar nemendur eiga ekki val um innritun í sjálfstætt rekinn skóla, heimild um undanþágu frá ákvæðum laga og aðalnámskrár ef skólinn starfar samkvæmt viðurkenndri erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan, afturköllun staðfestingar ráðherra á þjónustusamningi og slit sveitarfélaga á þjón­ustu­samningi vegna vanefnda á ákvæðum hans.

7. gr.

    45. gr. laganna verður svohljóðandi:

    Sveitarfélögum er heimilt að hafa með sér samvinnu um rekstur grunnskóla. Um hana fer eftir sveitarstjórnarlögum. Samningur um samvinnu skal staðfestur af ráðherra að fenginni umsögn ráðherra sveitarstjórnarmála. Ráðherra er heimilt að fela Menntamálastofnun staðfestingu slíkra samninga.
    Í samningi um stofnun byggðasamlags skal sérstaklega kveðið á um hvernig fari með hlutverk skólanefndar. Stjórn byggðasamlagsins fer með það hlutverk komi ekki annað fram. Þá skal þar kveða á um heimild til samninga við einkaaðila um grunnskólahald eftir ákvæðum laga þessara.
    Í samningi um að eitt sveitarfélag taki að sér rekstur grunnskóla fyrir annað sveitarfélag skal taka mið af 5. gr. Sæki umtalsverður hluti barna úr sveitarfélagi skóla í öðru sveitarfélagi á þeim grundvelli er viðkomandi sveitarfélögum heimilt að kveða svo á um í samþykktum um stjórn sveitarfélaganna að í skólanefnd viðtökusveitarfélags eigi sæti, með málfrelsi og tillögurétt, fulltrúi sem kjörinn er af sveitarstjórn lögheimilissveitarfélags umræddra barna. Þá skal í samningi kveða á um heimild til samninga við einkaaðila um grunnskólahaldið eftir ákvæðum laga þessara.
    Sveitarfélögum er heimilt að reka saman grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla undir stjórn eins skólastjóra að fenginni umsögn skólanefnda. Skal stjórnandi slíkrar stofnunar hafa leyfisbréf til kennslu á leik- eða grunnskólastigi. Sveitarstjórn getur ákveðið að skólaráð og foreldraráð samkvæmt lögum um leikskóla starfi sameiginlega í einu ráði. Ákvæði þetta gildir einnig um skóla sem reknir eru á grundvelli 1. mgr. Hinn samrekni skóli starfar að öðru leyti samkvæmt lögum um viðkomandi skólastig.

8. gr.

    Á eftir 3. mgr. 46. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

    Hafi sveitarfélag hafnað því að gera þjónustusamning við sjálfstætt rekinn grunnskóla getur ráðherra þrátt fyrir það veitt honum heimild til starfa samkvæmt lögum þessum að fenginni umsögn viðkomandi sveitarfélags. Í heimild ráðherra felst ekki réttur skólans til opinbers fjár. Um skólann gilda reglur laga þessara að undanskildum ákvæðum 43. gr. a, 43. gr. b og 43. gr. e. Ráðherra skal setja starfsemi skólans skilyrði í samræmi við ákvæði 43. gr. a og hafa eftirlit með starfsemi hans.

9. gr.

    47. gr. laganna verður svohljóðandi:

    Ákvarðanir um réttindi og skyldur nemenda sem teknar eru á grundvelli laga þessara eru kæran­legar til ráðherra. Kæruheimildin nær einnig til sambærilegra ákvarðana um réttindi og skyldur nemenda á vegum sjálfstætt rekinna skóla.
    Ákvarðanir um námsmat sæta ekki kæru.

10. gr.

    Fyrirsögn XI. kafla laganna verður: Þróun­ar­skól­ar, sam­rekst­ur, heima­kennsla, úr­lausn ágrein­ings­mála o.fl.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu ákvæði 2. og 3. mgr. c-liðar 6. gr. ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2017.

Gjört á Bessastöðum, 16. júní 2016.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Kristján Þór Júlíusson.


A deild - Útgáfud.: 28. júní 2016