Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 245/2015

Nr. 245/2015 24. febrúar 2015
SAMÞYKKT
um búfjárhald í Vestmannaeyjum.

1. gr.

Gildissvið og stjórnsýsla.

Markmiðið með samþykkt þessari er að tryggja skipulag, stjórn og eftirlit með búfjárhaldi í Vestmannaeyjum, sbr. lög um búfjárhald nr. 38/2013 og lög um velferð dýra nr. 55/2013, koma í veg fyrir að gróðurlendi og lóðum í þéttbýli í Vestmannaeyjum sé spillt vegna ágangs beitarfénaðar. Umhverfis- og skipulagsráð fer með málefni sem varða búfjárhald.

2. gr.

Skilyrði fyrir leyfi.

Búfjárhald (alifugla, geita, kanína, loðdýra, nautgripa, sauðfjár, hrossa og svína) og lausa­ganga búfjár er óheimil á Heimaey að öðru leyti en greinir í samþykkt þessari.

Hver sem vill fá leyfi til búfjárhalds á Heimaey eða úteyjum skal senda um það umsókn til umhverfis- og skipulagsráðs. Leyfi til búfjárhalds er veitt til 5 ára í senn og er uppsegjanlegt með eins árs fyrirvara miðað við 15. júní ár hvert. Leyfið miðast við ákveðinn hámarksfjölda búfjár miðað við beitiland, að fenginni umsögn gróðureftirlitsmanns Landgræðslu ríkisins, og er bundið við nafn umsækjanda. Óheimilt er að framselja leyfið. Leyfi skal einungis veitt þeim sem hafa yfir að ráða viðunandi beitilandi og gripahúsum samkvæmt reglugerð um velferð hrossa nr. 910/2014 og reglugerð um velferð sauðfjár og geitfjár nr. 1066/2014.

Heildarfjöldi hrossa á Heimaey skal aldrei vera meiri en svo að nægt beitiland sé til staðar að fenginni umsögn gróðureftirlitsmanns Landgræðslu ríkisins. Er þá miðað við tímabilið 1. maí til 30. september ár hvert þegar hrossum fjölgar á Heimaey m.a. vegna atvinnu­starfsemi s.s. hestaleiga og reiðskóla. Eftir 1. október ár hvert skal fara með þau hross sem sannar­lega er ekki verið að nota, aftur upp á fastalandið.

3. gr.

Aðbúnaður, umhverfi o.fl.

Leyfi til byggingar gripahúss og til afnota af beitilandi skal sækja um til skipulags- og byggingarfulltrúa sem fjallar um umsóknina í samráði við umhverfis- og skipulagsráð. Óheimilt er að framselja leyfið. Skipulags- og byggingarfulltrúi heldur skrá og kort yfir tún og jarðir sem eru í notkun og samninga sem í gildi eru. Umsóknin ásamt tillögum skipulags- og byggingarfulltrúa og umhverfis- og skipulagsráðs er síðan send bæjarstjórn til afgreiðslu.

Aðbúnaður, umhverfi og gripahús skal vera í samræmi við ákvæði laga nr. 55/2013 um velferð dýra og reglugerða um velferð hrossa nr. 910/2014 og um velferð sauðfjár og geit­fjár nr. 1066/2014.

4. gr.

Beitiland og hagaganga.

Búfjáreigandi skal ætíð ganga vel um leiguland sitt m.a. með áburðargjöf, og draga úr eða aflétta beit tafarlaust ef ástæða þykir til að fenginni umsögn gróðureftirlitsmanns Land­græðslu ríkisins.

Þá skal búfjáreigandi ábyrgjast örugga vörslu búfjár síns með fjárheldum girðingum og við­haldi á gripahúsum sínum og gæta þess að þau líti vel út, sbr. ákvæði reglugerðar um vörslu búfjár nr. 59/2000 og reglugerðar um girðingar nr. 748/2002. Hagaganga, þ.e. haust­beit sauðfjár á skilgreindum svæðum á Heimaey (frá rimlahliði á Stórhöfðavegi og suður úr að undanskildum Stórhöfða og Litlahöfða) er heimil á tímabilinu 1. október til 15. desem­ber ár hvert. Eftir 15. desember skal allt búfé vera komið á hús. Umhverfis- og skipulags­ráð getur veitt undanþágu frá þeirri dagsetningu ef nauðsynlegt þykir að mati ráðsins.

Land sem ætlað er til hagagöngu skal ákveðið af umhverfis- og skipulagsráði að fenginni umsögn gróðureftirlitsmanns Landgræðslu ríkisins. Mörk landsvæðis sem ætlað er til haga­göngu skulu endurskoðuð þriðja hvert ár. Fylgi búfjáreigandi ekki þessum reglum eftir má svipta hann leyfi til búfjárhalds án tafar.

Búfjáreigandi sem hættir búskap eða hyggst ekki nýta leiguland sitt undir bústofn sinn skal tilkynna það svo fljótt sem auðið er til umhverfis- og skipulagsráðs svo að endurúthluta megi landinu.

5. gr.

Merkingar á búfé.

Allt búfé á Heimaey og úteyjum skal vera einstaklingsmerkt eigendum sínum með viður­kenndu merki, sbr. reglugerð nr. 916/2012 um merkingu búfjár, og skal búfjáreigandi skila inn skrá yfir þá gripi sem hann heldur til umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja­bæjar.

Sauðfé skal eyrnamerkja samkvæmt reglugerð nr. 200/1998 um búfjármörk og skrá í hjarð­bók. Hross skulu örmerkt samkvæmt reglugerð nr. 200/1998 og stöðlum Alþjóða­staðal­skrár­ráðsins (ISO 11784 eða 11785) og skráð í gagnagrunn.

6. gr.

Lausaganga, þvingunarúrræði, kostnaður.

Lausaganga búfjár er óheimil á Heimaey nema annað sé tekið fram, sbr. 3. gr. Fylgi búfjár­eigandi ekki settum reglum varðandi búfjárhald má svipta hann forræði þess að undan­genginni skriflegri aðvörun. Sleppi búfénaður laus skal Vestmannaeyjabær sjá um að fram­fylgja 9. gr. laga um búfjárhald nr. 38/2013 og 24. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Kostnaður sem hlýst af handsömun og geymslu á lausagöngufé greiðist af eiganda sam­kvæmt gjaldskrá.

7. gr.

Tilkynning.

Þeir sem við gildistöku samþykktar þessarar, eiga eða hafa í umsjón sinni búfé sem fellur undir ákvæði hennar, skulu tilkynna búfjárhald sitt til umhverfis- og skipulagsráðs, sbr. 1. gr. og sækja um leyfi til búfjárhalds.

8. gr.

Nytjaréttur í úteyjum.

Vestmannaeyjabær leigir úteyjafélögum nytjarétt í úteyjum öllum, þ.m.t. Heimakletti, Ysta­kletti og Miðkletti, að undanskilinni Surtsey, til óákveðins tíma en með eins árs upp­sagnar­fresti miðað við 15. júní ár hvert. Aðskilja skal beitar- og veiðirétt. Um þá sem hyggjast nýta úteyjar til beitar gilda sömu reglur og á Heimaey nema umhverfis- og skipulags­ráð ákveði annað, og skulu þeir, eins og aðrir sækja um leyfi samkvæmt 2. gr.

9. gr.

Viðurlög.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum eða fangelsi ef sakir eru miklar. Með mál vegna brota á samþykkt þessari skal farið að hætti opinberra mála, sbr. 14. gr. laga nr. 38/2013 um búfjárhald.

10. gr.

Gildistaka.

Samþykkt þessi var samþykkt af bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar þann 19. febrúar 2015 og staðfestist hér með samkvæmt 4. gr. laga um búfjárhald nr. 38/2013 og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi samþykkt um búfjárhald í Vestmannaeyjum nr. 727/2003.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 24. febrúar 2015.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Kristján Skarphéðinsson.

Rebekka Hilmarsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 10. mars 2015