1. gr.
Gildissvið.
Reglur þessar gilda um nánari framkvæmd laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga hvað varðar umsóknir um starfsleyfi, stöðluð eyðublöð, sniðmát og málsmeðferð við veitingu starfsleyfa og tengdar tilkynningar, skipulagskröfur og kröfur til birtingar viðskiptaupplýsinga fyrir veitendur gagnaskýrsluþjónustu, skv. 106., 108., 109., 110. og 111. gr. laganna.
2. gr.
Tilvísanir.
Starfsáætlun skv. 2. mgr. 61. gr. MiFID II: Tilvísanir í reglum þessum til upplýsinga eða starfsáætlunar sem um getur í 2. mgr. 61. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til starfsáætlunar skv. 106. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Starfsskyldur skv. 3. mgr. 63. gr. MiFID II: Tilvísun til starfsskyldna samkvæmt 3. mgr. 63. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til 8. mgr. 108. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Upplýsingar sem gera skal opinberar skv. 1. mgr. 64. gr. og 1. og 2. mgr. 65. gr. MiFID II: Tilvísanir í reglum þessum til upplýsinga sem gera skal opinberar í samræmi við 1. mgr. 64. gr. og 1. og 2. mgr. 65. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til upplýsinga skv. 109. og 110. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Kröfur skv. V. bálki MiFID II: Tilvísanir í reglum þessum til krafna skv. V. bálki tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til 5. þáttar laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
3. gr.
Innleiðing reglugerða.
Með reglum þessum öðlast gildi hér á landi eftirfarandi reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (ESB) sem birtar eru í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 72 frá 11. nóvember 2021, bls. 16-31 og 280-282, með þeim aðlögunum sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2019 sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 88 frá 31. október 2019, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest:
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/571 frá 2. júní 2016 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um starfsleyfi, skipulagskröfur og birtingu viðskiptaupplýsinga fyrir veitendur gagnaskýrsluþjónustu.
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/63 frá 26. september 2017 um breytingu á framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/571 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um starfsleyfi, skipulagskröfur og birtingu viðskiptaupplýsinga fyrir veitendur gagnaskýrsluþjónustu.
Með reglum þessum öðlast einnig gildi hér á landi reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/1110 frá 22. júní 2017 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar stöðluð eyðublöð, sniðmát og málsmeðferð við veitingu starfsleyfa til þeirra sem bjóða gagnaskýrsluþjónustu og tengdar tilkynningar samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 78 frá 9. desember 2021, bls. 381-391, með þeim aðlögunum sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2019 sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 88 frá 31. október 2019, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest.
4. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 4. mgr. 106. gr., 9. mgr. 108. gr., 7. mgr. 109. gr., 11. mgr. 110. gr. og 6. mgr. 111. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga, taka gildi þegar í stað. Á sama tíma falla úr gildi reglur nr. 1423/2021 um starfsleyfi, skipulagskröfur og kröfur til birtingar viðskiptaupplýsinga fyrir veitendur gagnaskýrsluþjónustu á fjármálamarkaði.
Seðlabanka Íslands, 24. febrúar 2022.
|
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. |
Rannveig Júníusdóttir framkvæmdastjóri. |
|