Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 332/2020

Nr. 332/2020 8. apríl 2020

AUGLÝSING
um (3.) breytingu á gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands nr. 1257/2018 fyrir þjónustu sérgreinalækna sem ekki hefur verið samið um.

1. gr.

Gjaldliður nr. FÞ-001-01 í gjaldskránni fellur brott.

 

2. gr.

Eftirfarandi ákvæði bætast við fylgiskjal með gjaldskránni:

Vegna útbreiðslu á COVID-19 faraldri er eftirfarandi gjaldskrárbreyting gerð til bráða­birgða.   

Gj. nr. Heiti gjaldliðar Ein.
FT-001-04 Rafræn samskipti 12,0
FT-002-04 Fjarlækning 25,0
FT-002-05 Fjarlækning geðlækna, samskipti vara í að lágmarki 45 mín. 44,0
FT-002-06 Fjarlækning barnageðlækna, samskipti vara í að lágmarki 45 mín. 52,0

Rafræn samskipti og fjarlækningar er heimilt að nota að uppfylltum eftirfarandi skil­yrðum:

  1. Að notaður sé samskiptabúnaður sem uppfyllir skilyrði embættis landlæknis (EL) um veit­ingu fjarþjónustu.
  2. Áður en fjarþjónusta er veitt skv. gjaldskrá þessari skal þjónustuveitandi senda SÍ staðfest­ingu á að hann uppfylli skilyrði EL um veitingu fjarheilbrigðisþjónustu, sbr. fyrirmæli embættis landlæknis um upplýsingaöryggi við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu.
  3. Rafræn samskipti og fjarlækningar eru ávallt að beiðni sjúklings, fulltrúa hans eða skv. tilvísun frá heilbrigðisstarfsmanni.
  4. Að jafnaði skal fyrsta viðtal ekki fara fram í gegnum fjarfundarbúnað. Veitandi heilbrigðis­þjónustu getur þó tekið ákvörðun um að veita fyrsta viðtal í gegnum fjarfundarbúnað telji hann allar forsendur til þess vera fyrir hendi. Skulu þau rök færð sérstaklega í sjúkraskrá viðkomandi sjúklings.
  5. Áður en þjónusta er veitt skal sjúklingi gerð grein fyrir kostnaði við þjónustuna.
  6. Á reikningi vegna þjónustu skal tilgreina gjaldlið.
  7. Í þeim tilvikum þar sem samskipti við sjúkling fara ekki fram í gegnum sérstakan búnað sem skráir tímalengd samskipta, ber veitanda heilbrigðisþjónustu að halda sérstaka skrá um þau samskipti. Þar skal koma fram dagsetning samskipta, hvenær dags sam­skipti fóru fram, tímalengd samskipta og númer síma sem notaðir voru til samskiptanna, bæði hjá heilbrigðis­starfsmanni og sjúklingi. Þá skal þjónustuveitandi senda SÍ sambæri­legar upplýs­ingar úr skrá samskiptakerfis. Ofangreindar upplýsingar (hvort sem notuð eru kerfi sem halda sér­staka skrá eða ekki) skal senda SÍ á tveggja vikna fresti. Þá skulu öll sam­skipti skráð í sjúkraskrá viðkomandi samkvæmt gildandi reglum.
  8. Rafræn samskipti eða fjarlækningar koma ekki í stað þess símtals sem er innifalið í gjald­liðnum „viðtal og skoðun“ og á sér stað innan mánaðar frá komu, sbr. skilgreiningu í gjald­skrá þessari.
  9. Ofangreindir gjaldliðir eiga ekki við þegar um tímabókanir/afbókanir eða færslur er að ræða.
  10. Ekki er gerð krafa um skriflega staðfestingu sjúklings á að fjarþjónusta eða símtal hafi átt sér stað, enda liggi fyrir ofangreindar upplýsingar um tímasetningu símtals o.s.frv., sbr. hér að framan. Sjúklingur skal staðfesta allar aðrar komur.
  11. Óheimilt er að nota gjaldliði vegna fjarþjónustu eða rafræn samskipti með öðrum gjaldliðum sama dag.
  12. Vista skal öll rafræn gögn vegna fjarþjónustu í sjúkraskrá.

Rafræn samskipti.

Rafræn samskipti skulu vera að beiðni sjúklings (undantekning er símtal sem er innifalið í gjald­liðnum „viðtal og skoðun“ og á sér stað innan mánaðar frá komu, sbr. skilgreiningu í gjaldskrá þessari). Hér getur læknirinn að jafnaði ekki svarað án þess að kanna sjúkraskrárfærslur, niður­stöður rannsókna, myndgreininga eða sambærilegt, setja sig inn í mál og finna úrlausn.

Fjarlækning.

Fjarlækning – með myndsendingum í gegnum viðurkenndan samskiptabúnað. Kemur í stað við­tals á stofu og innifelur sömu/svipaða þætti. Fjarlækning getur ýmist verið að frumkvæði sjúklings eða skv. tilvísun frá heilbrigðisstarfsmanni. Oft sendir sjúklingur upplýsingar s.s. lífsmörk, hita, púls, blóðþrýsting, gögn úr snjallúri, myndir eða sambærilegt. Úrlausn felur í sér talsverða vinnu svo sem beiðnaskrif, ífyllingu kvarða eða gagnaöflun, lestur nýlegra eða eldri sjúkraskrárfærslna eða lækna­bréfa og rannsókna. Mat á og viðbrögð við gögnum svo sem ítarlegum einkennalýsingum, blóð­prufum, myndgreiningu, gagna úr insúlíndælu o.fl. eða þegar úrlausn gæti krafist samráðs við aðra lækna, heilbrigðisstéttir, stofnanir eða fulltrúa félagsmála. Tilvísanir í rannsóknir eða til annarra sem síðar þarf að fylgja eftir. Getur verið gert í lotu, innifalið símtal til eftirfylgni.

Fjarlækning, geðlækna og barnageðlækna.

Fjarlækning, geðlækning – með myndsendingum í gegnum viðurkenndan samskiptabúnað. Gjald­liðurinn tekur til geðlækningar og skal þjónustan vera sambærileg þjónustu skv. gjaldlið 54-004-01.

Fjarlækning, barnageðlækna.

Fjarlækning, geðlækning barna – með myndsendingum í gegnum viðurkenndan samskipta­búnað. Gjaldliðurinn tekur til geðlækningar barna og skal þjónustan vera sambærileg þjónustu skv. gjaldlið 54-055-02.

 

3. gr.

Auglýsing þessi um breytingu á gjaldskrá, sem sett er með stoð í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar og reglugerð nr. 1255/2018, með síðari breytingum, öðlast gildi 15. apríl 2020. Á sama tíma fellur úr gildi auglýsing nr. 258/2020.

 

Sjúkratryggingum Íslands, 8. apríl 2020.

 

María Heimisdóttir.

Katrín E. Hjörleifsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 8. apríl 2020