Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 224/2019

Nr. 224/2019 5. mars 2019

REGLUR
um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Markmið með reglum þessum er að stuðla að samræmdu verklagi og viðmiðum við framkvæmd 5., 8., 11., 12. gr. og ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 37/2016 um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

II. KAFLI

Heimildir til úttekta af reikningum háðum sérstökum takmörkunum.

2. gr.

Almenn heimild til úttektar vaxta og verðbóta vaxta.

Tilkynning til Seðlabanka Íslands vegna úttektar af reikningum sem háðir eru sérstökum tak­mörkunum vegna greiðslu vaxta, verðbóta vaxta, arðs og samningsbundinna afborgana höfuð­stóls lánaskuldbindinga, annarra en eingreiðslulánaskuldbindinga, og verðbætur þeirra, skv. 11. gr. laga 37/2016, skal send af hálfu þess fjármálafyrirtækis sem hefur milligöngu um úttektina.

Tilkynning og gögn skv. 1. mgr. skulu berast rafrænt til Seðlabanka Íslands samkvæmt leið­beiningum Seðlabankans um nánari framkvæmd reglna þessara, innan 5 virkra daga frá því að greiðsla á sér stað og mánaðarlegar samantektir innan 5 virkra daga frá síðasta degi mánaðarins sem samantektin nær til. Tilkynningarskylda fer eftir því sem nánar greinir í leiðbeiningum, sem birtar eru á vefsíðu Seðlabankans. Fjármálafyrirtæki sem hefur milligöngu um fjármagnshreyfingu getur, að höfðu samráði við Seðlabankann, uppfyllt tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. með sjálfvirkum hætti.

3. gr.

Heimildir einstaklinga til úttekta.

Beiðni um staðfestingu Seðlabanka Íslands á heimild til úttektar af reikningum sem háðir eru sér­stökum takmörkunum skv. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 37/2016, skal send af raunverulegum eig­anda fjármunanna.

Eftirfarandi upplýsingar og gögn skulu fylgja beiðni um staðfestingu:

  1. Stöðuyfirlit bankareiknings einstaklings hjá erlendu fjármálafyrirtæki dagsett fyrir 28. nóv­ember 2008.
  2. Nýlegt stöðuyfirlit bankareiknings einstaklings hjá erlendu fjármálafyrirtæki, þó ekki eldra en tveggja vikna miðað við umsóknardag.
  3. Hreyfingaryfirlit bankareiknings einstaklings hjá erlendu fjármálafyrirtæki frá 28. nóvember 2008 sem sýnir hreyfingar af vörslureikningi verðbréfa og bankareikningi í hans eigu.

Beiðni um staðfestingu Seðlabanka Íslands á heimild til úttektar af reikningum sem háðir eru sér­stökum takmörkunum skv. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 37/2016, skal send af skráðum eiganda eða greið­anda fjármunanna. Eftirfarandi upplýsingar og gögn skulu fylgja beiðni um staðfestingu:

  1. Staðfesting á geymslugreiðslu umræddra fjármuna.
  2. Gögn sem staðfesta eignarhald kröfu á þeim degi er fjármunir voru geymslugreiddir og hinn 22. maí 2016.

Beiðni um staðfestingu skv. 1. eða 2. mgr. 12. gr. og gögn skulu berast rafrænt til Seðlabanka Íslands á netfangið [email protected]. Seðlabankinn ákveður á hvaða formi beiðni um stað­festingu skal skilað.

4. gr.

Heimildir til úttekta samkvæmt bráðabirgðaákvæði.

Beiðni um staðfestingu Seðlabanka Íslands á heimild til úttektar af reikningum sem háðir eru sérstökum takmörkunum eða afléttingu kvaðar skv. 2. tölul. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I í lögum nr. 37/2016, skal send af eiganda eða vörsluaðila aflandskrónueignanna. Eftirfarandi upp­lýsingar skulu fylgja beiðni um staðfestingu:

  1. Stöðuyfirlit reikninga hjá erlendu fjármálafyrirtæki dagsett fyrir 28. nóvember 2008 eða önnur þau gögn sem sýna fram á eignarhald aflandskrónueignar fyrir 28. nóvember 2008.
  2. Nýleg stöðuyfirlit reikninga hjá fjármálafyrirtæki, þó ekki eldra en fjögurra vikna miðað við umsóknardag.

Beiðni um staðfestingu Seðlabanka Íslands á heimild einstaklings til úttektar af reikningum sem háðir eru sérstökum takmörkunum eða innlausnar innstæðubréfa skv. 3. tölul. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I í lögum nr. 37/2016, skal send af einstaklingnum eða umboðsmanni hans, t.d. vörslu­aðila aflandskrónueignanna. Eftirfarandi upplýsingar skulu fylgja beiðni um staðfestingu:

  1. Nýleg stöðuyfirlit reikninga hjá fjármálafyrirtæki, þó ekki eldra en fjögurra vikna miðað við umsóknardag.
  2. Yfirlýsing um að einstaklingur sé raunverulegur eigandi aflandskrónueignanna.
  3. Gilt umboð til umboðsmanns, ef við á.

Beiðnir um staðfestingu skv. 1. eða 2. mgr. og gögn skulu berast með tölvubréfi til Seðlabanka Íslands á netfangið [email protected]. Seðlabankinn ákveður á hvaða formi beiðni um stað­festingu skal skilað.

III. KAFLI

5. gr.

Yfirtaka Seðlabanka Íslands á réttindum og skyldum reikningsstofnunar.

Við flutning á rafrænt skráðum verðbréfum yfir á umsýslureikning á nafni viðeigandi vörsluaðila hjá Seðlabanka Íslands, til samræmis við fyrirmæli 1. mgr. 5. gr. laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum; yfirtekur Seðlabanki Íslands réttindi og skyldur reikn­ings­stofnunar, í skilningi laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, miðað við þann dag sem Seðla­bankinn tók formlega við vörslu aflandskrónueignar, í hverju tilviki, á umsýslureikningi á nafni vörslu­aðila. Þær skyldur reikningsstofnunar sem stofnast hafa fram að þeim tíma, hvort sem er innan eða utan samninga, eru á ábyrgð fyrri reikningsstofnunar en ekki Seðlabankans.

Seðlabanki Íslands telst ekki eigandi rafrænt skráðra verðbréfa á umsýslureikningi. Umsýslu­reikningum fylgir ekki atkvæðisréttur á hluthafafundum.

6. gr.

Framkvæmd flutnings rafrænt skráðra verðbréfa.

Vörsluaðili skal veita Seðlabankanum sundurliðaðar upplýsingar um rafrænt skráð verðbréf ásamt þeim upplýsingum um vörsluaðila sem bankinn kann að kalla eftir og nauðsynlegar eru vegna flutningsins, þar með talið upplýsingar vegna samskipta, sbr. 8. gr. reglna þessara, að minnsta kosti sjö virkum dögum fyrir flutninginn.

Seðlabanki Íslands mun stofna umsýslureikning á nafni vörsluaðila í tengslum við flutning sam­kvæmt þessari grein og tilkynna vörsluaðila um hvert sé úthlutað númer umsýslureiknings hjá Nasdaq verðbréfafmiðstöð hf., enda hafi vörsluaðili veitt bankanum upplýsingar skv. 1. mgr. 7. gr. reglna þessara.

Rafrænt skráð verðbréf skulu afhent inn á flutningssvæði á kennitölu Seðlabanka Íslands. Seðla­bankinn óskar eftir því við verðbréfamiðstöð að viðkomandi rafrænt skráðum verðbréfum verði úthlutað alþjóðlegu bráðabirgða ISIN-auðkenni verðbréfs áður en hann færir verðbréfin inn á umsýslu­reikning vörsluaðila.

7. gr.

Yfirlýsing vörsluaðila um peningaþvættisathugun.

Við flutning rafrænt skráðra verðbréfa skv. 1. mgr. 5. gr. laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, skal vörsluaðili veita Seðlabankanum yfirlýsingu, á því formi sem Seðlabankinn ákveður, þar sem fram kemur eftirfarandi:

  1. Yfirlýsing vörsluaðila um að hann hafi upplýsingar um raunverulegan eiganda og uppruna fjár.
  2. Yfirlýsing vörsluaðila um að raunverulegur eigandi fjármunanna sæti ekki þvingunar­aðgerðum skv. lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða.

Vörsluaðili skal veita Seðlabankanum, að beiðni bankans, eftirfarandi gögn:

  1. Nákvæma lýsingu á framkvæmd áreiðanleikakönnunar skv. 1. mgr. Hafi vörsluaðili treyst á upplýsingar frá þriðja aðila skal hann einnig geta upplýst um það með hvaða hætti þriðji aðili framkvæmdi áreiðanleikakönnun.
  2. Afrit af viðeigandi gögnum (eigin eða þriðja aðila) sem staðfesta hver sé raunverulegur eigandi.
  3. Nafn raunverulegs eiganda og, ef við á, tengdra lögaðila, að því er varðar greiðslu vaxta, afborgana, arðs eða hverjar aðrar greiðslur vegna aflandskrónueigna á umsýslureikningum, sem Seðlabankinn hefur aðkomu að sem reikningsstofnun.
  4. Lista með nöfnum raunverulegra eigenda og, ef við á, hvaða lögaðila þeir tengjast.

Vörsluaðila er heimilt hvenær sem er, án undangenginnar kröfu Seðlabankans, að afhenda honum gögn skv. 2. mgr.

Ef vörsluaðili reiðir sig á upplýsingar frá þriðja aðila, sbr. heimild í 16. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, er fullnægjandi að vörsluaðilinn veiti Seðlabankanum yfirlýsingu þess efnis sem kemur þá í stað yfirlýsingar skv. 1. mgr.

8. gr.

Samskipti við Seðlabankann.

Vörsluaðila er heimilt að gefa fyrirmæli um flutning eða um aðrar þær ráðstafanir aflands­krónu­eignar sem heimilar eru samkvæmt reglum þessum eða lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, rafrænt eða skriflega, s.s. með SWIFT fyrir­mælum, símbréfi eða tölvupósti. Fyrirmæli skulu innihalda upplýsingar um nafnverð, ISIN-auðkenni, lýsingu bréfs, viðskiptadag og uppgjörsdag.

Seðlabanki Íslands getur hafnað því að framkvæma fyrirmæli skv. 1. mgr. hafi bankinn grun um að þau komi ekki frá vörsluaðila.

Vörsluaðili skal láta Seðlabankanum í té upplýsingar um heimilisfang, netfang, SWIFT BIC, síma­númer og/eða símbréfsnúmer sem bankinn þarf til að eiga samskipti við vörsluaðila vegna umsýslu­reikningsins.

9. gr.

Upplýsingagjöf um stöðu á umsýslureikningi.

Seðlabankinn sendir vörsluaðila yfirlit yfir stöðu umsýslureiknings á þeim dögum sem fjármála­fyrirtæki og verðbréfamiðstöðvar eru opnar á Íslandi (bankadagur).

Fyrirspurnum um umsýslureikning skal beint til Fjárhags Seðlabanka Íslands á netfangið [email protected] eða á SWIFT BIC: SISLISRE.

Seðlabankinn mun miðla upplýsingum um fyrirtækjaaðgerðir sem berast bankanum og varða raf­rænt skráð verðbréf til vörsluaðila með rafrænum hætti, svo sem með SWIFT skeyti eða tölvu­pósti.

10. gr.

Vaxtagreiðslur, arðgreiðslur, afborganir, uppgreiðslur og/eða lokagreiðslur.

Uppgjör og efndir rafrænt skráðra verðbréfa skulu fara fram í íslenskum krónum sem leggja skal inn á reikninga háða sérstökum takmörkunum, með þeim hætti sem segir í þessari grein, til samræmis við 3. mgr. 5. gr. laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

Nú falla til greiðslur vaxta eða arðs vegna rafrænt skráðra verðbréfa og tilkynnir þá Seðlabankinn vörsluaðila verðbréfsins þar um og greiðir vextina til vörsluaðila sem skal svo greiða þá inn á viðeigandi reikninga sem eru háðir sérstökum takmörkunum. Komi til afborgana, uppgreiðslu og/eða lokagreiðslu gildir hið sama.

Í öllum tilvikum, þar sem greiðslur skv. 1. eða 2. mgr. eru í erlendum gjaldeyri, skal uppgjör fara fram í íslenskum krónum, með þeim hætti að fjármunum í erlendum gjaldeyri er skipt í íslenskar krónur, miðað við opinberlega skráð viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands þann dag sem greiðslan var móttekin, og þær lagðar inn á reikning vörsluaðila sem skal svo greiða inn á viðeigandi reikn­inga háða sérstökum takmörkunum.

11. gr.

Þátttaka á hluthafafundum.

Nú óskar eigandi aflandskrónueigna í formi hlutabréfa eftir því að taka þátt í hluthafafundi og skal þá vörsluaðili tilkynna Seðlabankanum um endanlegan eiganda, kennitölu hans og nafnverð hlutar hans að minnsta kosti tveimur virkum dögum fyrir hluthafafund. Seðlabankinn stofnar reikning í verðbréfamiðstöð á nafni þess endanlega eiganda sem tilkynnt er um, og færir eignina inn á reikninginn, svo eigandinn komi fram í hlutahafaskrám, fyrir lok dags daginn fyrir hluthafafund. Verði breytingar á eignarhaldi frá tilkynningu vörsluaðila, skv. 1. málsl., og fram að hluthafafundi skal tilkynna það Seðlabankanum eins fljótt og auðið er. Að loknum hluthafafundi hlutast Seðla­bankinn til um flutning eignarinnar til baka á umsýslureikning viðkomandi vörsluaðila.

12. gr.

Skuldfærsla umsýslugjalda.

Seðlabanki Íslands skuldfærir af stórgreiðslureikningi vörsluaðila hjá Seðlabankanum umsýslu­kostnað, sbr. 13. gr. laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, í sam­ræmi við gjaldskrá sem bankinn setur.

13. gr.

Framkvæmd vörslu á umsýslureikningum.

Seðlabanki Íslands tekur við greiðslum fyrir hönd vörsluaðila frá einstökum útgefendum rafrænt skráðra verðbréfa, þ. á m. arðgreiðslum, óski vörsluaðili þess.

Seðlabanki Íslands heldur rafrænt skráðum verðbréfum á umsýslureikningum aðgreindum frá eignum sínum. Hið sama á við um greiðslur í tengslum við slík verðbréf skv. 1. mgr.

14. gr.

Upplýsingagjöf vegna bindiskyldu.

Innlánsstofnanir sem uppfylla bindiskyldu skv. 8. gr. laga nr. 37/2016, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum skulu upplýsa Seðlabanka Íslands um heildarinnstæður sem skal binda í innstæðubréfum Seðlabanka Íslands, skv. 2. mgr. 8. gr. sömu laga. Upp­lýs­ingarnar skulu veittar þegar breytingar verða á heildarinnstæðum og síðasta bankadag hverrar viku. Seðlabankinn ákveður á hvaða formi upplýsingagjöfinni skuli háttað.

IV. KAFLI

Samþykki ráðherra og gildistaka.

15. gr.

Samþykki ráðherra.

Reglur þessar hafa verið samþykktar af fjármála- og efnahagsráðherra. Samþykkið er birt sem fylgiskjal með reglum þessum.

16. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 2. mgr. 25. gr. og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I í lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016, taka þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 425/2016, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

Reykjavík, 5. mars 2019

Seðlabanki Íslands,

  Már Guðmundsson
seðlabankastjóri.
Andri Egilsson
aðstoðarframkvstjóri gjaldeyriseftirlits.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 5. mars 2019