Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 585/2020

Nr. 585/2020 12. júní 2020

AUGLÝSING
um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

1. gr.

Ákvörðun og markmið.

Með vísan til 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið, að feng­inni tillögu sóttvarnalæknis og í samráði við ríkisstjórnina, að setja á tímabundna takmörkun á samkomum eftir því sem hér greinir.

Markmið takmörkunarinnar er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins.

 

2. gr.

Gildissvið.

Takmörkun á samkomum tekur gildi 15. júní 2020 kl. 00.00 og gildir til 5. júlí 2020 kl. 23.59.

Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar.

Takmörkun á samkomum tekur til landsins alls.

 

3. gr.

Fjöldatakmörkun.

Í takmörkun á samkomum felst að fjöldasamkomur eru óheimilar á gildistíma þessarar aug­lýsingar. Með fjöldasamkomum er átt við þegar fleiri en 500 einstaklingar koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum. Er þá m.a. vísað til:

 1. Ráðstefna, málþinga, útifunda o.þ.h.
 2. Kennslu, fyrirlestra og prófahalds, sbr. þó 1. mgr. 8. gr.
 3. Skemmtana, svo sem tónleika, leiksýninga, bíósýninga, íþróttaviðburða og einka­samkvæma.
 4. Kirkjuathafna hvers konar, svo sem vegna útfara, giftinga og ferminga, og annarra trúar­samkoma.
 5. Annarra sambærilegra viðburða með fleiri en 500 einstaklingum.

Enn fremur skal tryggt á öllum vinnustöðum og í allri starfsemi að ekki séu á sama tíma fleiri en 500 einstaklingar inni í sama rými.

Ákvæði 1. og 2. mgr. takmarka ekki gestafjölda á sund- og baðstöðum sem og líkamsræktar­stöðvum frá því sem kveðið er á um í starfsleyfi eða öðrum reglum sem um þá starfsemi gilda.

 

4. gr.

Nálægðartakmörkun.

Allir einstaklingar eru hvattir til að viðhalda tveggja metra fjarlægð í samskiptum við aðra eftir því sem aðstæður leyfa.

Í rýmum sem gert er ráð fyrir að almenningur eigi aðgang að, hvort sem er án skilyrða eða að uppfylltum skilyrðum, svo sem með greiðslu aðgangsgjalds eða vegna vinnusambands, skal leitast við að bjóða einstaklingum að halda 2 metra fjarlægð frá öðrum eins og kostur er. Þar sem veitt er lögbundin þjónusta eða almenningur á ekki kost á öðru en að mæta skal vera unnt að tryggja þeim sem það kjósa að halda tveggja metra fjarlægð frá öðrum. Undir rými í þessum skilningi falla m.a.:

 1. Verslanir.
 2. Veitingastaðir.
 3. Sund- og baðstaðir.
 4. Líkamsræktarstöðvar.
 5. Íþróttamannvirki.
 6. Heilbrigðisstofnanir.
 7. Móttaka stofnana og fyrirtækja.
 8. Vinnustaðir sem eðli starfseminnar vegna krefjast ekki mikillar nálægðar.
 9. Almenningssamgöngur.
 10. Leikhús, bíósalir, tónleikasalir o.þ.h.
 11. Húsnæði skóla og annarra mennta- og menningarstofnana.

Í 2. mgr. felst m.a. að verslanir gæti að því að í biðröðum sé unnt að halda umræddri fjarlægð, að vinnurými séu skipulögð þannig að unnt að sé að halda umræddri fjarlægð, að veitingastaðir og sambærileg starfsemi geri ráð fyrir að unnt sé að bjóða nokkrum viðskiptavinum að sitja í umræddri fjarlægð frá öðrum og að leikhús og bíósalir bjóði upp á a.m.k. nokkur sæti sem eru í umræddri fjarlægð.

Ákvæði 2. og 3. mgr. eiga ekki við um starfsemi þar sem eðli máls samkvæmt er krafist snert­ingar eða meiri nálægðar en tveggja metra, svo sem við veitingu heilbrigðisþjónustu, starfsemi hár­greiðslu­stofa og sambærilegrar starfsemi og íþróttaiðkunar.

 

5. gr.

Takmarkanir á starfsemi vegna sérstakrar smithættu.

Veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar og spilasalir skulu ekki hafa opið lengur en til kl. 23.00 alla daga vikunnar.

 

6. gr.

Þrif og sótthreinsun almenningsrýma.

Í öllum verslunum, opinberum byggingum og á öðrum stöðum innandyra þar sem umgangur fólks er nokkur skal þrífa eins oft og unnt er, sérstaklega algenga snertifleti.

Við alla innganga skal tryggja aðgang að sótthreinsandi vökva fyrir hendur og eins víða um rými og talin er þörf á, m.a. við afgreiðslukassa í verslunum.

 

7. gr.

Takmörkun gildissviðs.

Ákvæði 3. og 4. gr. auglýsingar þessarar taka ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.

Auglýsingin tekur hvorki til alþjóðaflugvalla og -hafna né til loftfara og skipa.

 

8. gr.

Undanþágur.

Ráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkun á samkomum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins eða til verndar lífi eða heilsu manna eða dýra.

Sóttvarnalæknir getur veitt undanþágu frá sóttkví vegna samfélagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast vegna lífsbjargandi starfsemi, svo sem raforku, fjarskipta, samgangna, heil­brigð­is­starfsemi, löggæslu, sjúkraflutninga og slökkviliða.

Allar undanþágur sem veittar hafa verið vegna takmarkana á samkomum og sóttkví halda gildi sínu.

 

9. gr.

Gildistaka.

Auglýsing þessi, sem sett er með heimild í 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, tekur gildi eftir því sem mælt er fyrir um í 2. gr. Frá sama tíma fellur úr gildi auglýsing nr. 470/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, með síðari breytingum.

 

Heilbrigðisráðuneytinu, 12. júní 2020.

 

Svandís Svavarsdóttir.

Ásta Valdimarsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 12. júní 2020