Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 377/2022

Nr. 377/2022 16. mars 2022

REGLUGERÐ
um Lóu – nýsköpunarstyrki til eflingar nýsköpunar á landsbyggðinni.

1. gr.

Markmið.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra veitir styrki til eflingar nýsköpunar á landsbyggðinni í samræmi við nýsköpunarstefnu stjórnvalda. Markmið Lóu – nýsköpunarstyrkja er að styðja við nýsköpun, frumkvöðlastarfsemi, verðmætasköpun og atvinnulíf sem byggir á hugviti og þekkingu, á forsendum viðkomandi svæða. Heildarfjármunir til úthlutunar eru ákvarðaðir í fjárlögum hverju sinni.

 

2. gr.

Styrkhæfi verkefna.

Styrkjum skal úthlutað til nýsköpunarverkefna utan höfuðborgarsvæðisins eins og það er skil­greint í gildandi byggðakorti og leiðbeinandi reglum ESA þar um. Styrkjum er einnig úthlutað til verkefna sem stuðla að uppbyggingu vistkerfis fyrir nýsköpunarstarfsemi og frumkvöðlastarfi á forsendum svæðanna.

Lóu – nýsköpunarstyrkir eru samkeppnisstyrkir og skal úthlutað til verkefna til eins árs í senn. Hver einstakur styrkur skal ekki nema hærri fjárhæð en 20% af heildarfjárheimild hvers árs.

Umsækjandi skal vera lögráða einstaklingur eða lögaðili með lögheimili innan gildandi byggða­korts. Lögaðilar í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga skulu að jafnaði ekki vera leiðandi aðilar í þeim verkefnum sem hljóta styrk.

 

3. gr.

Matsnefnd.

Ráðherra skipar þriggja manna matsnefnd til eins árs í senn, þar af skal einn skipaður formaður. Matsnefndin hefur það hlutverk að meta umsóknir í samræmi við nýsköpunarstefnu og áherslur stjórnvalda og gera tillögur til ráðherra um veitingu styrkja. Hafa skal hliðsjón af stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, við mat á umsóknum og úthlutun styrkja.

 

4. gr.

Auglýsingar.

Ráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki á vef ráðuneytisins ár hvert. Í auglýsingu skulu koma fram upplýsingar um helstu atriði sem litið er til við mat á umsóknum, hvar og hvernig skuli sækja um, auk upplýsinga um umsóknarfrest og hvenær umsóknir verði afgreiddar.

 

5. gr.

Umsóknir.

Umsókn er skilað með rafrænum hætti í gegnum vef Stjórnarráðsins á þar til gerðu umsóknar­formi fyrir lok auglýsts umsóknarfrests hverju sinni.

Umsókn skal innihalda eftirtalin gögn og upplýsingar eftir því sem við á:

 1. Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur.
 2. Upplýsingar um aðra þátttakendur og samstarfsaðila, ef einhverjir eru.
 3. Nafn verkefnisstjóra, þess sem annast samskipti við ráðuneytið.
 4. Nákvæm lýsing á verkefninu, markmiðum þess og þýðingu fyrir umsækjanda og aðra.
 5. Lýsing á því hvernig árangur verkefnisins verði metinn.
 6. Tíma- og verkáætlun.
 7. Fjárhagsáætlun, þar sem koma m.a. fram upplýsingar um áætlaðan kostnað og fjármögnun. Hlutdeild annarra í kostnaði og ávinningi við verkefnið og styrki sem verkefnið hefur hlotið eða eru í umsóknarferli.
 8. Staðfest gögn frá samstarfsaðilum sem og önnur gögn til stuðnings umsókn.
 9. Upplýsingar um kyn umsækjanda sem eru nýttar til greiningar á umsóknum og úthlutunum ásamt mati á samfélagslegum áhrifum verkefnisins.

 

6. gr.

Viðmið um úthlutun.

Við mat á umsóknum er matsnefnd heimilt að leita umsagnar fagaðila. Auk skilyrða um styrk­hæfi sem getið er í 2. gr., munu eftirtalin atriði vega inn í mat á umsóknum og ákvörðun úthlutana:

 1. Nýsköpun og nýnæmi.
  1. Mikilvægi verkefnis fyrir nýsköpun og uppbyggingu á hugvitsdrifnu atvinnulífi á við­komandi svæði.
  2. Mikilvægi verkefnis fyrir verðmætasköpun á svæðinu.
  3. Tenging við nýsköpunarstefnu og svæðisbundnar áherslur á sviði nýsköpunar og atvinnu­lífs.
  4. Skalanleiki verkefnis, þ.e. möguleiki til stækkunar.
 2. Samstarf og mótframlag.
  1. Mótframlag frá umsækjanda þarf að lágmarki að vera 30%. Mótframlag getur einnig verið frá sveitarfélagi, landshlutasamtökum, fyrirtækjum eða öðrum aðilum.
  2. Samstarf á alþjóðlegum vettvangi.
 3. Samfélagslegt gildi.
  1. Mikilvægi verkefnis fyrir uppbyggingu færni og menntunar á svæðinu.
  2. Tenging verkefnis við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
 4. Faglegir þættir.
  1. Gæði verkefnis, þ.m.t. hvort lýsing, markmið og skipulag verkefnis eru skýr, hvernig markmiðum verkefnis verði náð og hvernig árangur verði metinn.
  2. Faglegur bakgrunnur umsækjanda og annarra þátttakenda.
  3. Fjárhagslegur grundvöllur verkefnis og önnur fjármögnun.

 

7. gr.

Úthlutun og skilmálar.

Matsnefnd gerir tillögu til ráðherra um úthlutun og ráðstöfun fjár til verkefna. Tillögur mats­nefndar skulu vera skriflegar og geyma í stuttu máli almenna lýsingu á framkvæmd og málsmeðferð við tillögugerðina. Ráðherra tekur ákvörðun um styrkveitingar á grundvelli framkominna tillagna. Tilkynna skal öllum umsækjendum um afgreiðslu viðkomandi umsóknar.

Við móttöku á styrk ábyrgist styrkþegi að honum verði einungis varið til þess verkefnis sem getið er um í umsókn. Jafnframt skuldbindur hann sig til að skila greinargerð um árangur verk­efnis­ins og fjárhagsuppgjöri skv. samningi. Styrkþegi skal auk þess hlíta öðrum þeim skilmálum sem fram koma í reglum þessum eða eru tilgreindir sérstaklega í samningi. Lokagreiðsla styrkfjár kemur að jafnaði ekki til greiðslu fyrr en við lok verkefnis/verkefnishluta sem styrkur var veittur til og skil hafa verið gerð til ráðuneytisins á gögnum sem gerð er krafa um hverju sinni, svo sem greinargerð um framgang og lok verkefnis ásamt fjárhagsuppgjöri.

Styrkjum er úthlutað til eins árs í senn. Nýti styrkþegi ekki styrk innan þess tíma fellur styrkur­inn niður, nema sérstaklega sé sótt um frestun á ráðstöfun hans. Umsókn þess efnis skal vera skrifleg og rökstudd.

Styrkþegi má ekki vera á vanskilaskrá Creditinfo.

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um úthlutun birtir ráðuneytið nöfn styrkþega, heiti verkefnis, stutta lýsingu og upphæð styrks á vef ráðuneytisins.

 

8. gr.

Upplýsingagjöf, uppgjör og endurkröfuréttur ráðuneytis.

Umsýsla Lóu – nýsköpunarstyrks er í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Styrkþega ber ávallt að verða við beiðni ráðuneytisins um upplýsingar um stöðu verkefnisins og láta því í té allar upplýsingar og gögn um verkefnið, þar á meðal bókhaldsgögn. Styrkþegum er skylt að tilkynna ráðuneytinu tafarlaust ef upp koma aðstæður sem seinka verkefninu eða koma í veg fyrir að mark­miðum eða skilyrðum fyrir styrkveitingu sé fullnægt.

Verði óhóflegur frestur á að ráðist sé í verkefni, tefjist framkvæmd þess úr hófi eða verði önnur skilyrði sem styrkveiting kann að vera bundin ekki uppfyllt innan eðlilegra tímamarka teljast for­sendur brostnar. Áskilur ráðuneytið sér þá rétt til að ógilda styrkveitinguna og krefja styrkþega um endur­greiðslu á greiddum styrk, að hluta til eða í heild, ásamt kostnaði við innheimtu.

Ef sýnt þykir að styrkfé hafi ekki verið eða verði ekki nýtt í þeim tilgangi sem ætlað var getur ráðuneytið krafist þess að styrkurinn verði endurgreiddur í heild eða að hluta, ásamt kostnaði við innheimtu. Áður en ákvörðun um slíkt er tekin skal styrkþega gefinn kostur á að lýsa afstöðu sinni til málsins.

Reynist útgjöld vegna verkefnis samkvæmt umsókn lægri en útborguð styrkfjárhæð skal styrk­þegi endurgreiða ofgreiddan styrk innan 30 daga frá því fjárhagsuppgjör lá fyrir. Að öðrum kosti innheimtir ráðuneytið ofgreiddan styrk ásamt innheimtukostnaði.

Styrkþegi skal senda ráðuneytinu greinargerð um verkefnið og fjárhagsuppgjör vegna þess áður en kemur að lokagreiðslu. Ljúki verkefninu ekki á því ári sem styrkurinn er veittur, skal ráðuneytið upplýst um stöðu verkefnisins fyrir árslok.

Styrkþegi skal varðveita öll gögn verkefnisins, þ.m.t. bókhaldsgögn, í a.m.k. sjö ár og hafa þau tiltæk sé þess óskað af hálfu Ríkisendurskoðunar.

 

9. gr.

Kynningarefni tengt verkefni.

Á öllu útgefnu efni, auglýsingum o.s.frv. sem tengist hinu styrkta verkefni skal koma fram að það sé styrkt af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu.

 

10. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 9. gr. laga um opinberan stuðning við nýsköpun, nr. 25/2021, og tekur þegar gildi.

 

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, 16. mars 2022.

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Ásdís Halla Bragadóttir.


B deild - Útgáfud.: 31. mars 2022