Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 333/2017

Nr. 333/2017 31. mars 2017

STARFSREGLUR
um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa.

1. gr.

Kjörgengi.

Kjörgengur til embættis biskups Íslands og vígslubiskupa er hver guðfræðikandídat sem fullnægir skilyrðum til þess að gegna prestsembætti í íslensku þjóðkirkjunni.

2. gr.

Kjördeild.

Kosið skal í einni kjördeild.

3. gr.

Kosningarréttur við kjör biskups Íslands.

A. Kosningarréttur vígðra:

Biskup Íslands og vígslubiskupar eiga kosningarrétt við biskupskjör. Auk þeirra á kosningarrétt hver sá sem vígslu hefur hlotið og er:

  a) þjónandi prestur eða djákni íslensku þjóð­kirkjunnar eða hjá íslenskum söfnuði þjóð­kirkjunnar erlendis og er í föstu og launuðu starfi sem slíkur, eða
  b) þjónandi prestur eða djákni sem lýtur tilsjón biskups Íslands og er í föstu og launuðu starfi á vegum stofnunar og/eða félagasamtaka hér á landi.

Prestur eða djákni í tímabundnu leyfi, allt að tveimur árum, nýtur kosningarréttar.

Prestur sem settur er til þjónustu tímabundið nýtur ekki kosningarréttar nema í þeim tilfellum þar sem ekki er skipaður prestur fyrir.

Prestur, sem sinnir aukaþjónustu, nýtur ekki kosningarréttar fyrir það embætti sem hann sinnir aukaþjónustu í.

Djákni skal vera ráðinn til a.m.k. eins árs eða ótímabundið til að njóta kosningarréttar.

Prestur eða djákni sem látið hefur af þjónustu nýtur ekki kosningarréttar.

Kosningarrétt eiga vígðir kennarar í föstu starfi við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og vígðir starfsmenn á biskupsstofu sem eru í föstu starfi.

B. Kosningarréttur leikmanna:

  a) kjörmenn prestakalla, sbr. 7. gr. starfsreglna um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016, með síðari breytingum,
  b) þeir leikmenn sem sæti eiga í kirkjuráði og á kirkjuþingi.

4. gr.

Kosningarréttur við kjör vígslubiskupa.

Kosningarrétt við vígslubiskupskjör eiga þeir sömu og réttinn eiga skv. 3. gr. og tilheyra prófasts­dæmi sem er í því umdæmi vígslubiskups sem kosið er í.

Þjónandi prestur eða djákni hjá íslenskum söfnuði þjóðkirkjunnar erlendis, sbr. a) lið 1. mgr. 3. gr., nýtur kosningarréttar í umdæmi vígslubiskups í Skálholti.

Þjónandi prestur eða djákni, sbr. b) lið 1. mgr. 3. gr., nýtur kosningarréttar í því umdæmi vígslu­biskups sem viðkomandi starfar.

Kosningarrétt eiga kirkjuþingsmenn, kirkjuráðsmenn, vígðir kennarar í föstu starfi við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og vígðir starfsmenn á biskupsstofu sem eru í föstu starfi.

5. gr.

Viðmið kosningarréttar.

Skilyrði kosningarréttar skv. 3. og 4. gr. skulu uppfyllt þremur vikum áður en tilnefning hefst og skal kjósandi vera skráður í þjóðkirkjuna þann dag.

6. gr.

Kjörstjórn.

Kjörstjórn við kirkjuþingskjör, sbr. starfsreglur um kjör til kirkjuþings, er jafnframt kjörstjórn við kjör samkvæmt starfsreglum þessum.

7. gr.

Ákvörðun um hvenær kosning fer fram.

Kjörstjórn ákveður hvenær kjörgögn skulu send þeim sem kosningarbærir eru við kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa. Með útsendingu kjörgagna hefst kosning skv. 14. gr. Jafnframt ákveður kjörstjórn hvenær kosningu lýkur, sbr. 14. gr.

Ákvarðanir kjörstjórnar skv. 1. mgr. eru háðar samþykki kirkjuráðs.

8. gr.

Kjörskrá.

Kjörskrá skal vera rafræn og annast kjörstjórn gerð hennar á grundvelli gagna frá biskupsstofu og Þjóðskrá Íslands og vinnsluheimilda þaðan ef við á.

Á kjörskrá skal taka þá sem uppfylla skilyrði 3. eða 4. gr. eftir því sem við á, sbr. 5. gr., og þar skulu koma fram upplýsingar um nafn kjósanda, lögheimili hans og kennitölu. Kjörskrá skal hafa verið gerð tveimur vikum áður en tilnefning, skv. 3. mgr. 10. gr. hefst.

Þegar kjörskrá er tilbúin skal kjörstjórn auglýsa það á vefsíðu þjóðkirkjunnar og í prentuðum dag­blöðum. Í auglýsingunni skal taka fram að þeir sem vilja koma að athugasemdum við kjörskrá skuli senda þær kjörstjórn.

Þegar kjörskrá hefur verið gerð getur viðkomandi kannað á þar til gerðu vefsetri hvort nafn hans er á kjörskrá. Við aðgang að vefsetrinu er notuð almenn innskráningarþjónusta sem kjörstjórn ákveður, s.s. rafræn skilríki eða Íslykill Þjóðskrár Íslands.

9. gr.

Leiðréttingar á kjörskrá.

Athugasemdir vegna kjörskrár skulu berast kjörstjórn eigi síðar en fimm sólarhringum áður en tilnefning hefst, sbr. 3. mgr. 10. gr. Kjörstjórn skal þegar taka til meðferðar athugasemdir sem henni berast vegna kjörskrár og gera viðeigandi leiðréttingar á henni. Kjörstjórn skal í síðasta lagi gera leiðréttingar á kjörskrá tveimur sólarhringum áður en tilnefning hefst. Ef kjörstjórn verður þess áskynja að villa hafi átt sér stað við kjörskrárgerðina skal hún leiðrétt. Óheimilt er að breyta kjörskrá ef skilyrði 5. gr. hafa ekki verið uppfyllt fyrir þann tíma sem þar greinir.

Berist kjörstjórn athugasemd þess efnis að nafn skuli tekið af eða sett á kjörskrá skal það þegar, sannanlega, tilkynnt hlutaðeigandi nema athugasemdin stafi frá honum sjálfum. Skal hlutaðeigandi veittur frestur, eftir því sem tími og atvik leyfa, til að koma að athugasemdum. Kjörstjórn skal þegar í stað tilkynna hlutaðeigandi um niðurstöðu málsins með sannanlegum hætti.

Kjörstjórn skal fram að þeim degi er tilnefning hefst leiðrétta kjörskrá ef henni berst vitneskja um andlát manns sem er á skránni.

Ákvörðun kjörstjórnar um leiðréttingu á kjörskrá má skjóta til yfirkjörstjórnar þjóðkirkjunnar. Skal niðurstaða yfirkjörstjórnar liggja fyrir ekki síðar en einum sólarhring áður en tilnefning hefst.

10. gr.

Tilnefning til biskups Íslands og vígslubiskups.

Hver vígður maður sem kosningarréttar nýtur skv. 3. gr. hefur rétt á að tilnefna allt að þrjá ein­staklinga sem uppfylla skilyrði 1. gr. til kjörs biskups Íslands.

Hver vígður maður sem kosningarréttar nýtur skv. 4. gr. hefur rétt á að tilnefna allt að þrjá ein­staklinga sem uppfylla skilyrði 1. gr. til kjörs vígslubiskups.

Tilnefning skv. 1. og 2. mgr. skal hefjast a.m.k. fimm vikum áður en kjör til biskups Íslands eða vígslu­biskups hefst.

11. gr.

Framkvæmd og fyrirkomulag tilnefninga.

Tilnefningin skal vera rafræn og standa í fimm sólarhringa samfellt. Skal henni lokið a.m.k. fjórum vikum áður en kosning biskups Íslands eða vígslubiskups hefst.

Kjörstjórn sér um undirbúning og ákveður nánari framkvæmd tilnefningarinnar, en biskupsstofa skal sjá til þess að aðgangur sé tryggur að öruggu kosningakerfi til að nota við tilnefninguna. Tryggt skal að kerfi það sem notað er sé þannig úr garði gert að ekki sé hægt að breyta tilnefningu án þess að það sé greinanlegt. Óheimilt er að kanna hvern viðkomandi tilnefndi í kerfinu.

Við tilnefninguna skal viðkomandi nota almenna innskráningarþjónustu sem kjörstjórn ákveður, s.s. rafræn skilríki eða Íslykil Þjóðskrár Íslands og skal hann auðkenna sig á fullnægjandi hátt áður en hann getur nýtt rétt sinn til að tilnefna.

Kjörstjórn auglýsir í prentuðum dagblöðum og á vefsvæði þjóðkirkjunnar hvenær tilnefning hefst og hvenær henni lýkur. Auglýsing skal birt a.m.k. viku áður en tilnefning hefst.

Allar upplýsingar um undirbúning og framkvæmd kosninga skulu vera aðgengilegar á vefsíðu þjóð­kirkjunnar, á biskupsstofu og hjá próföstum.

12. gr.

Afkóðun og talning tilnefninga.

Kjörstjórn skal innan sólarhrings frá því að tilnefningu var lokið, taka saman og telja til­nefn­ingarnar. Áður en talning hefst skal afkóða tilnefningarnar. Formaður kjörstjórnar skal varð­veita lykil sem notaður er við afkóðunina.

Eftir afkóðun skulu tilnefningarnar taldar og niðurstöður teknar saman í afkóðunar- og taln­ingar­hluta kerfisins.

13. gr.

Niðurstaða tilnefninga.

Þeir þrír einstaklingar sem flestar tilnefningar fá, að teknu tilliti til 3. mgr., eru í kjöri til biskups Íslands eða vígslubiskups. Ef tveir eða fleiri fá sama fjölda tilnefninga skulu þeir báðir eða allir vera í kjöri. Séu tilnefndir færri einstaklingar en þrír eru þeir allir í kjöri að teknu tilliti til 3. mgr.

Kjörstjórn skal strax og niðurstaða úr tilnefningunni er ljós, kanna hvort þeir sem verða í kjöri, skv. 1. mgr., sbr. 3. mgr., uppfylli skilyrði 1. gr. Telji kjörstjórn að svo sé ekki skal hlutaðeigandi þegar í stað gert viðvart og honum veittur frestur, eftir því sem tími og atvik leyfa, til að koma að athugasemdum. Kjörstjórn skal innan sólarhrings frá því að athugasemdir berast taka afstöðu og tilkynna hlutaðeigandi um þá niðurstöðu.

Vilji viðkomandi ekki una niðurstöðu skv. 2. mgr., getur hann skotið henni til yfirkjörstjórnar þjóðkirkjunnar, innan sólarhrings frá því að honum var sannanlega tilkynnt um niðurstöðuna. Skal niðurstaða yfirkjörstjórnar liggja fyrir ekki síðar en tveimur sólarhringum síðar.

Kjörstjórn skal svo fljótt sem verða má tilkynna þeim einstaklingum sem flestar tilnefningar fá, sbr. 1. mgr., um niðurstöðuna og leita eftir afstöðu þeirra til tilnefningarinnar. Ef einhver þeirra gefur ekki kost á sér skal sá sem næstur honum er að tilnefningu taka sæti hans.

Á vefsíðu þjóðkirkjunnar skal svo fljótt sem verða má, eftir að niðurstaða tilnefninga er ljós, til­kynna um þá sem verða í kjöri auk þeirra tveggja sem næstir komu að tilnefningu.

14. gr.

Framkvæmd kosninga.

Kosning skal vera skrifleg.

Kosning skal fara fram þó að einn sé í kjöri.

Kjörstjórn sendir þeim er kosningarrétt eiga nauðsynleg kjörgögn:

  1. kjörseðil með nöfnum þeirra sem eru í kjöri,
  2. kjörseðilsumslag,
  3. fylgibréf fyrir yfirlýsingu kjósanda um að hann hafi kosið,
  4. sendiumslag með utanáskrift kjörstjórnar,
  5. leiðbeiningar um það hvernig kosning fari fram.

Kjörstjórn ákveður útlit og gerð kjörseðils.

Kjósandi merkir á kjörseðil við nafn þess sem hann vill greiða atkvæði. Kjörseðil skal ekki undirrita eða auðkenna á neinn hátt. Kjósandi lætur kjörseðilinn í kjörseðilsumslagið, lokar því, fyllir út fylgi­bréfið og undirritar. Lætur svo kjörseðilsumslagið og fylgibréfið í sendiumslagið og afhendir það á biskups­stofu gegn móttökukvittun eða leggur það í póst. Að jafnaði skal miða við að atkvæða­greiðslu sé lokið innan tveggja vikna frá útsendingu kjörgagna.

Við framkvæmd og fyrirkomulag kosninga skal eftir því sem við á hafa hliðsjón af lögum um kosn­ingar til Alþingis.

15. gr.

Niðurstöður kosninga.

Kjörstjórn skal telja atkvæði þegar fjórir virkir dagar eru liðnir frá þeim skilafresti á pósthús sem hún hefur sett. Kjörstjórn metur gildi atkvæða.

Kjörstjórn skal gefa þeim sem eru í kjöri kost á að hafa umboðsmenn sína viðstadda talninguna.

Sá er réttkjörinn biskup Íslands eða vígslubiskup sem fær meiri hluta greiddra atkvæða. Ef enginn frambjóðandi fær meiri hluta greiddra atkvæða skal kosið á nýjan leik milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fengu. Ef fleiri en tveir fá jafnmörg atkvæði skal hlutkesti ráða um hverja tvo skuli kosið. Sá er réttkjörinn biskup Íslands eða vígslubiskup sem fær meiri hluta greiddra atkvæða. Verði atkvæði jöfn skal hlutkesti ráða.

16. gr.

Kærur til yfirkjörstjórnar.

Yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar, sbr. starfsreglur um kjör til kirkjuþings, fer með endanlegt úrskurðar­vald í ágreiningsmálum vegna kosninga samkvæmt starfsreglum þessum. Kosningu geta þeir kært sem eiga kosningarrétt.

Kærur vegna kosninga skulu hafa borist kjörstjórn eigi síðar en þremur dögum eftir að atkvæði hafa verið talin. Beri síðasta dag kærufrests upp á frídag skal næsti virki dagur teljast síðasti dagur kæru­frests.

Kærur skulu hafa borist kjörstjórn með sannanlegum hætti fyrir kl. 16.00 á síðasta degi kærufrests eða hafa verið póststimplaðar í síðasta lagi þann dag. Leggur hún þær fyrir yfirkjörstjórn þjóð­kirkjunnar til úrskurðar ásamt athugasemdum sínum. Yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar skal skera úr þeim málum sem fyrir hana eru lögð eins fljótt og auðið er og ekki síðar en sjö virkum dögum eftir að mál berst.

Niðurstöður yfirkjörstjórnar skulu vera í úrskurðarformi og dregnar saman í úrskurðarorð.

17. gr.

Tilkynning til ráðherra.

Þegar endanleg niðurstaða kosningar liggur fyrir tilkynnir kjörstjórn ráðherra kirkjumála úrslit kosn­ingarinnar.

18. gr.

Gildistaka.

Starfsreglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfs­hætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, með síðari breytingum, öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa nr. 1108/2011, með síðari breytingum.

Reykjavík, 31. mars 2017.

Magnús E. Kristjánsson, forseti kirkjuþings.


B deild - Útgáfud.: 19. apríl 2017