Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 360/2020

Nr. 360/2020 21. apríl 2020

AUGLÝSING
um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

1. gr.

Ákvörðun og markmið.

Með vísan til 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið, að feng­inni tillögu sóttvarnalæknis og í samráði við ríkisstjórnina, að setja á tímabundna takmörkun á sam­komum eftir því sem hér greinir.

Markmið takmörkunarinnar er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins.

 

2. gr.

Gildissvið.

Takmörkun á samkomum tekur gildi 4. maí 2020 kl. 00.00 og gildir til 1. júní 2020 kl. 23.59.

Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar.

Takmörkun á samkomum tekur til landsins alls.

 

3. gr.

Fjöldatakmörkun.

Í takmörkun á samkomum felst að fjöldasamkomur eru óheimilar á gildistíma þessarar auglýs­ingar. Með fjöldasamkomum er átt við þegar fleiri en 50 einstaklingar koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum. Er þá m.a. vísað til:

  1. Ráðstefna, málþinga, útifunda o.þ.h.
  2. Kennslu, fyrirlestra og prófahalds, sbr. þó 1. mgr. 8. gr.
  3. Skemmtana, svo sem tónleika, leiksýninga, bíósýninga, íþróttaviðburða og einkasamkvæma.
  4. Kirkjuathafna hvers konar, svo sem vegna útfara, giftinga og ferminga, og annarra trúar­samkoma.
  5. Annarra sambærilegra viðburða með fleiri en 50 einstaklingum.

Enn fremur skal tryggt á öllum vinnustöðum og í allri starfsemi að ekki séu á sama tíma fleiri en 50 einstaklingar inni í sama rými, svo sem á veitingastöðum, kaffihúsum, í mötuneytum og versl­unum öðrum en matvöruverslunum og lyfjabúðum. Þessar takmarkanir eiga einnig við um almenn­ings­samgöngur og aðra sambærilega starfsemi.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er matvöruverslunum og lyfjabúðum heimilt að hafa allt að 100 manns inni í einu að því gefnu að uppfyllt sé skilyrði 4. gr. Þá er matvöruverslunum sem eru yfir 1.000 m² að stærð heimilt að hleypa til viðbótar einum viðskiptavin inn fyrir hverja 10 m² umfram 1.000 m², þó að hámarki 200 viðskiptavinum í allt.

 

4. gr.

Nálægðartakmörkun.

Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi, m.a. þeirri sem talin er upp í 3. gr., skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að sinna heilbrigðisþjónustu sem krefst snertingar eða meiri nálægðar en kveðið er á um í 1. mgr., svo sem læknisskoðun, tannlæknaþjónustu og sjúkraþjálfun. Enn fremur er starfsemi nuddstofa, hárgreiðslustofa, snyrtistofa og sambærileg starfsemi heimil, en gætt skal að fjarlægð milli viðskiptavina, skv. 1. mgr., sem og sótthreinsun og þrifum.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að sinna ökukennslu, flugkennslu og akstri þjónustubifreiða svo fremi viðkomandi séu ekki með einkenni COVID-19. Þá skal sérstaklega hugað að hreinlæti og sótthreinsun.

 

5. gr.

Lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu.

Skemmtistaðir, krár og spilasalir skulu vera lokuð á gildstíma auglýsingar þessarar. Þá skulu aðrir veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar ekki hafa opið lengur en til kl. 23.00 alla daga vikunnar.

Sundlaugar og húsnæði líkamsræktarstöðva skulu vera lokuð almenningi. Sundlaugar mega þó hafa opið fyrir skólasund og skipulagt íþróttastarf sem samræmist reglum 6. gr.

 

6. gr.

Skipulagt íþróttastarf.

Æfingar og keppnir skipulagðs íþróttastarfs eru heimilar án áhorfenda með þeim takmörkunum sem greinir í 6. gr.

Í skipulögðu íþróttastarfi skulu snertingar vera óheimilar og halda skal 2 metra bili á milli einstak­linga. Notkun á sameiginlegum búnaði, einkum þeim sem snertur er með höndum, skal haldið í lágmarki og ber að sótthreinsa hann á milli notkunar.

Óheimilt er að nota búningsklefa, sturtuklefa og aðra inniaðstöðu en íþróttasal og salernis­aðstöðu.

Við skipulagt íþróttastarf innandyra mega ekki fleiri en fjórir einstaklingar æfa eða leika saman í einu rými, sem skal vera a.m.k. 800 m².

Við skipulagt íþróttastarf utandyra mega ekki fleiri en sjö einstaklingar æfa eða leika saman í hópi. Séu fleiri hópar við æfingar á sama svæði skal miða við að hver hópur hafi um 2.000 m² til umráða.

Þrátt fyrir ákvæði 3.-5. mgr. eru sundæfingar heimilar fyrir allt að sjö manns í einu, hvort sem er inni eða úti, og notkun búnings- og sturtuaðstöðu eftir því sem þörf krefur.

 

7. gr.

Þrif og sótthreinsun almenningsrýma.

Í öllum verslunum, opinberum byggingum og á öðrum stöðum innandyra þar sem umgangur fólks er nokkur skal þrífa eins oft og unnt er, sérstaklega algenga snertifleti.

Við alla innganga skal tryggja aðgang að sótthreinsandi vökva fyrir hendur og eins víða um rými og talin er þörf á, m.a. við afgreiðslukassa í verslunum.

 

8. gr.

Takmörkun gildissviðs.

Ákvæði 3., 4. og 5. gr. auglýsingar þessarar taka ekki til nemenda í starfsemi leik- og grunn­skóla þannig að þar sé hægt að halda óskertri vistun og kennslu. Sama á við um starfsemi dag­foreldra, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og aðra lögbundna þjónustu á leik- og grunnskólastigi. Í því felst að ekki eru takmarkanir á því hversu margir nemendur geti verið saman komnir eða nálægð þeirra í framang­reindri starfsemi, þ.m.t. í frímínútum og mötuneyti. Öðrum en nemendum ber í framan­greindri starfsemi að fara eftir ákvæðum auglýsingarinnar eins og unnt er.

Með sama hætti og í 1. mgr. taka ákvæði 3., 4., 5. og 6. gr. auglýsingarinnar ekki til íþrótta- og æskulýðsstarfs barna á leik- og grunnskólaaldri. Um fjölda og nálægð annarra en barna á umrædd­um aldri fer eftir almennum reglum auglýsingarinnar.

Auglýsingin tekur hvorki til alþjóðaflugvalla og -hafna né til loftfara og skipa.

 

9. gr.

Undanþágur.

Ráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkun á samkomum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkis­ins eða til verndar lífi eða heilsu manna eða dýra.

Sóttvarnalæknir getur veitt undanþágu frá sóttkví vegna samfélagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast vegna lífsbjargandi starfsemi, svo sem raforku, fjarskipta, samgangna, heil­brigðis­­starfsemi, löggæslu, sjúkraflutninga og slökkviliða.

Allar undanþágur sem veittar hafa verið vegna takmarkana á samkomum og sóttkví halda gildi sínu.

 

10. gr.

Gildistaka.

Auglýsing þessi, sem sett er með heimild í 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, kemur í stað auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, með síðari breytingu, tekur gildi eftir því sem mælt er fyrir um í 2. gr.

 

Heilbrigðisráðuneytinu, 21. apríl 2020.

 

Svandís Svavarsdóttir.

Ásta Valdimarsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 21. apríl 2020