Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 276/2018

Nr. 276/2018 6. mars 2018

REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017.

1. gr.

Fyrirsögn VI. kafla verði: Alþjóðleg vernd, málsmeðferð og réttindi umsækjanda.

2. gr.

Á eftir 31. gr. reglugerðarinnar koma þrjár nýjar greinar ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytist númeraröð annarra greina samkvæmt því:

32. gr.

Sérstakar ástæður og sérstök tengsl, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Við það mat stjórnvalda sem rúmast innan c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 ber að leggja megináherslu á mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins og skilvirkni umsóknarferlisins. Sjónarmið um skilvirkni umsóknarferlisins endurspeglast m.a. í 47. gr. reglu­gerðar þessarar.

Við mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ber að taka mið af viðmið­unar­reglum 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar þessarar.

32. gr. a

Sérstakar ástæður, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Almenn viðmið.

Með sérstökum ástæðum er átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Við mat á því hvort taka megi umsókn til efnislegrar meðferðar hér á landi, á grundvelli sérstakra ástæðna, skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eru eftirfarandi viðmið nefnd í dæmaskyni:

ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, s.s. ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjón­ustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki,
ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúk­dóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Meðferð telst, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í viðtökuríkinu en viðkomandi muni ekki standa hún til boða, eða
ef umsækjanda, vegna þungunar, stendur ekki til boða fullnægjandi fæðingaraðstoð í viðtöku­ríki.

Að öðru leyti en talið er upp hér að framan hefur heilsufar umsækjanda takmarkað vægi við mat á því hvort umsókn hans verði tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi nema ástæðan sé talin það einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði fram hjá henni litið. Efnahagslegar ástæður geta ekki talist til sérstakra ástæðna.

Óheimilt er með öllu að líta til athafna umsækjanda eða afleiðinga þeirra athafna sem hafa þann tilgang að setja þrýsting á stjórnvöld við ákvarðanatöku. Sem dæmi um framangreint má nefna athafnir umsækjanda sem eru til þess fallnar að grafa undan eigin heilsufari, og afleiðingum þeirra athafna, s.s. hungurverkfall o.fl.

Sérviðmið er varða börn og ungmenni.

Við mat á því hvort Útlendingastofnun er heimilt að taka mál barns til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skulu hagsmunir barns hafðir að leiðarljósi. Barni sem myndað getur eigin skoðanir skal tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og skal tekið tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Þá eiga þau almennu viðmið sem koma fram í 1., 3., 4., 5., 6. og 7. mgr. þessa reglugerðarákvæðis jafnframt við um börn, auk þeirra sérsjónarmiða sem hér eru rakin.

Sé barn fylgdarlaust ber að taka ríkt tillit til afstöðu þess og þeirrar sérstaklega viðkvæmu stöðu sem það er í skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun er heimilt að taka umsókn fylgdarlauss barns til efnislegrar meðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna, samrýmist það hags­munum þess og afstöðu. Hagsmuni fylgdarlauss barns ber m.a. að meta með hliðsjón af mögu­leikum barns til fjölskyldusameiningar, sbr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar sem birt er sem fylgi­skjal með auglýsingu nr. 1/2014 í C-deild Stjórnartíðinda.

Við mat á sérstökum ástæðum er heimilt að horfa til ungs aldurs viðkomandi sem náð hefur 18 ára aldri en sannanlega verið fylgdarlaust barn við komu til landsins.

Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra eða annars fjölskyldumeðlims sem hefur það á framfæri sínu skal það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman. Við það mat ber meðal annars að líta til þess hvort flutningur úr landi til viðtökulands hafi í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist eða muni aðskiljast.

32. gr. b

Tengsl umsækjanda við landið, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Við mat á því hvort heimilt sé að taka mál til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli þess að umsækjandi hafi slík tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, er Útlendingastofnun m.a. heimilt að líta til tengsla á grundvelli fyrri dvalar umsækjanda. Heimilt er að taka tillit til framangreinds hafi umsækjandi áður verið með útgefið dvalarleyfi hér á landi í eitt ár eða lengur.

Hafi umsækjandi dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis verður umsókn ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra tengsla nema önnur tengsl við landið séu mjög sterk.

3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Dómsmálaráðuneytinu, 6. mars 2018.

Sigríður Á. Andersen.

Haukur Guðmundsson.


B deild - Útgáfud.: 14. mars 2018