Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 330/2022

Nr. 330/2022 18. mars 2022

REGLUGERÐ
um framboð og meðmæli við sveitarstjórnarkosningar.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Tilgangur og gildissvið.

Tilgangur reglugerðar þessarar er að setja reglur um gerð og form framboðslista í sveitar­stjórnar­kosningum og söfnun upplýsinga um frambjóðendur, meðferð þeirra, eftirlit með þeim og eyðingu. Einnig að setja reglur um form meðmæla fyrir framboðslista, söfnun þeirra, meðferð, eftir­lit og eyðingu meðmæla með framboðum til sveitarstjórnarkosninga og um yfirferð stuðnings­yfirlýsinga, notkun meðmælendakerfis, söfnun og meðferð persónuupplýsinga og um varðveislu og eyðingu. Loks er tilgangur reglugerðar þessarar að kveða á um auglýsingu framboða við sveitar­stjórnar­kosningar.

 

II. KAFLI

Gerð og form framboðslista, skil þeirra o.fl.

2. gr.

Auglýsing um móttöku framboðslista.

Þegar kosningar eiga að fara fram skal yfirkjörstjórn sveitarfélags auglýsa tímanlega hvar og hvenær hún tekur við framboðum. Auglýsinguna skal birta á vef sveitarfélagsins og víðar telji yfir­kjörstjórn ástæðu til.

 

3. gr.

Tilkynning um framboð.

Framboði skal skilað til yfirkjörstjórnar viðkomandi sveitarfélags á þeim stað og tíma sem aug­lýstur er, sbr. 2. gr. og eigi síðar en kl. 12 á hádegi 36 dögum fyrir kjördag.

Sá sem skilar framboði skal undirrita tilkynninguna eigin hendi á pappír eða með fullgildri rafrænni undirskrift. Sé tilkynning undirrituð með rafrænum hætti skal hún send sem viðhengi í tölvupósti til viðkomandi yfirkjörstjórnar. Senda skal rafræna skjalið en ekki mynd af því.

Yfirkjörstjórn staðfestir móttöku tilkynninga hvort sem þeim er skilað á pappír eða með raf­rænum hætti.

Á framboðslista skulu vera a.m.k. jafnmörg nöfn frambjóðenda og kjósa á í hvert skipti, en aldrei fleiri en tvöföld sú tala. Yfirkjörstjórn sveitarfélags skal nema burt af framboðslista öftustu nöfn sem eru fram yfir hámarkstölu.

Landskjörstjórn birtir sýnishorn af tilkynningu um framboð.

 

4. gr.

Upplýsingar um frambjóðendur.

Á framboðslista skal tilgreina skýrlega nafn frambjóðanda, lögheimili, kennitölu og stöðu eða starfsheiti hans.

Nöfn frambjóðenda skulu rituð að lágmarki með einu eiginnafni og kenninafni eins og þau birtast í þjóðskrá. Óski frambjóðandi eftir annarri ritun nafns á framboðslistann er honum það heimilt, enda séu þau nöfn skráð í þjóðskrá. Frambjóðanda er þó heimilt að rita eiginnafn eða eiginnöfn sín á annan veg en skráð er í þjóðskrá ef hann er kunnur af þeirri notkun eiginnafns eða eiginnafna.

Hafi frambjóðandi fleiri en eitt eiginnafn, millinafn eða kenninafn er honum heimilt að stytta þau með því að nota upphafsstaf eða styttri rithátt, svo framarlega sem uppfyllt sé skilyrði 1. máls­liðar 2. mgr.

Staða eða starfsheiti frambjóðanda skal vera á íslensku.

 

5. gr.

Yfirlýsing frambjóðanda.

Tilkynningu um framboð skal fylgja yfirlýsing allra þeirra sem eru á listanum um að þeir hafi heimilað að setja nöfn sín á listann, undirrituð eigin hendi á pappír eða á rafrænu skjali með fullgildri rafrænni undirskrift. Ef yfirlýsingin er send með rafrænum hætti skal hún send sem viðhengi í tölvupósti. Senda skal rafræna skjalið en ekki mynd af því. Æskilegt er að sem flestar rafrænar undirritanir séu á sama skjalinu.

Landskjörstjórn birtir sýnishorn af yfirlýsingu skv. 1. mgr.

Frambjóðandi getur afturkallað samþykki sitt til framboðs á framboðslista fram til þess að frestur til að skila framboðum rennur út. Samþykkinu, þ.e. yfirlýsingu frambjóðanda, skal þá eytt.

 

6. gr.

Umboðsmenn.

Tilkynningu um framboð skal jafnframt fylgja tilkynning frá þeim stjórnmálasamtökum sem bjóða fram listann um það hverjir tveir menn séu umboðsmenn hans ásamt tengiliðaupplýsingum þeirra.

 

7. gr.

Staðfesting á skráðu heiti og listabókstaf.

Stjórnmálasamtök sem eru skráð í stjórnmálasamtakaskrá sem ríkisskattstjóri starfrækir, sbr. 2. gr. e. laga um starfsemi stjórnmálataka og birt er á vef Stjórnarráðs Íslands skulu skila stað­fest­ingu á skráningu.

Í tilkynningu um framboð skal koma fram heiti framboðslistans og upplýsingar um listabókstaf. Séu stjórnmálasamtökin á skrá ráðuneytisins, sbr. auglýsingu skv. 2. gr. k. laga um starfsemi stjórn­mála­samtaka, er framboðslistinn merktur með hliðsjón af skránni. Sé framboðslistinn ekki á fyrr­greindri skrá ráðuneytisins merkir yfirkjörstjórn sveitarfélags listana í stafrófsröð eftir því sem þeir hafa borist henni eða eftir samkomulagi við umboðsmenn listanna.

 

8. gr.

Meðferð upplýsinga um framboð.

Yfirkjörstjórn skal að afloknum kosningum sjá til þess að meðferð gagna og upplýsinga um framboð sé í samræmi við lög um opinber skjalasöfn og fullnægi skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

 

III. KAFLI

Meðmæli með framboðslistum.

9. gr.

Meðmæli með framboðslista.

Framboðslista, sem skilað er til yfirkjörstjórnar, skal fylgja yfirlýsing um fyrir hvaða framboð listinn er boðinn fram og stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi sveitarfélagi.

Ekki er gerð krafa um meðmælendur í sveitarfélögum með 100 íbúa eða færri. Hámarkstala með­mælenda skal vera tvöföld tilskilin lágmarkstala. Lágmarksfjöldi meðmælenda skal vera sem hér segir:

  1. í sveitarfélagi með 101–500 íbúa 10 meðmælendur,
  2. í sveitarfélagi með 501–2.000 íbúa 20 meðmælendur,
  3. í sveitarfélagi með 2.001–10.000 íbúa 40 meðmælendur,
  4. í sveitarfélagi með 10.001–50.000 íbúa 80 meðmælendur,
  5. í sveitarfélagi með 50.001 og fleiri íbúa 160 meðmælendur.

Hver kjósandi getur einungis mælt með einum framboðslista.

Frambjóðendur á lista geta ekki verið meðmælendur hans. Fulltrúar í kjörstjórnum geta ekki verið meðmælendur framboðslista.

 

10. gr.

Form meðmælendalista.

Meðmælum skal safna á eyðublöðum þar sem fram koma upplýsingar um kjördag, heiti framboðs­lista sem lýst er stuðningi við, nafn sveitarfélags og nafn meðmælanda, kennitala hans og lög­heimili. Eyðublöðin skulu vera þannig úr garði gerð að mögulegt sé að auðkenna þau, t.d. með hlaup­andi blaðsíðunúmeri. Að hámarki skulu vera undirskriftir 20 meðmælenda á hverri blaðsíðu.

Landskjörstjórn birtir sýnishorn af meðmælendalista við framboðslista.

 

11. gr.

Söfnun meðmæla.

Sá sem lýst hefur yfir stuðningi við framboðslista getur afturkallað samþykki sitt meðan á söfnun stendur þar til framboð hefur verið afhent yfirkjörstjórn, en eftir það er ekki mögulegt að aftur­kalla meðmæli. Meðmæli sem safnað er til stuðnings framboði má ekki nota í öðrum tilgangi.

 

12. gr.

Lok meðmælasöfnunar.

Heimilt er að safna meðmælum með framboðslistum fram að þeim tíma sem yfirkjörstjórnir taka við framboðum, sbr. 2. gr. Finni yfirkjörstjórn galla á meðmælum, s.s. að tilskildum fjölda sé ekki náð, skal umboðsmanni framboðslistans gefinn kostur á að bæta úr og veittur frestur í því skyni eftir því sem tími og atvik leyfa.

 

13. gr.

Skráning í meðmælendakerfi.

Yfirkjörstjórnir geta gert að skilyrði fyrir móttöku framboðslista að nöfn meðmælenda hafi verið skráð í meðmælendakerfi sem Þjóðskrá Íslands sér um.

Yfirkjörstjórnir skulu hafa aðgang að meðmælendakerfi Þjóðskrár Íslands í þeim tilgangi að kanna lögmæti meðmælendalista. Þá er Þjóðskrá Íslands heimilt að veita framboðum aðgang að meðmæl­enda­kerfinu í þeim tilgangi að skrá upplýsingar um meðmælendur viðkomandi framboðs í þar til gert viðmót kerfisins.

Þjóðskrá Íslands er heimilt að gefa út leiðbeiningar til handa yfirkjörstjórnum sveitarfélaga og fram­boðum um notkun meðmælendakerfis stofnunarinnar.

 

14. gr.

Heimild til að sannreyna upplýsingar.

Heimilt er að samkeyra upplýsingar úr meðmælendalistum við kjörskrá að fullnægðum skil­yrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Tilgangur þess er að ganga úr skugga um að meðmælandi sé á kjörskrá.

 

15. gr.

Miðlun meðmælendalista og upplýsinga úr þeim.

Framboðum og öðrum sem aðgang hafa að meðmælum er óheimilt að miðla upplýsingum úr þeim til annarra en þeirra sem þær eiga að fá samkvæmt kosningalögum.

 

16. gr.

Meðferð persónuupplýsinga.

Við vinnslu upplýsinga við yfirferð meðmælendalista skal gera viðeigandi tæknilegar og skipulags­legar ráðstafanir til að tryggja viðunandi öryggi persónuupplýsinga með hliðsjón af lögum um persónu­vernd og vinnslu persónuupplýsinga.

 

17. gr.

Varðveisla og eyðing gagna.

Yfirkjörstjórnir skulu að loknum kosningum til sveitarstjórna og eigi síðar en ári eftir að söfnun meðmæla lauk, sjá til þess að stuðningsyfirlýsingum með framboðum verði eytt nema fram komi kæra eða dómsmál höfðað þar sem þær kunna að hafa gildi. Skal eyðing þá ekki fara fram fyrr en niðurstaða er fengin.

 

IV. KAFLI

Auglýsing framboða.

18. gr.

Auglýsing framboðslista við sveitarstjórnarkosningar.

Þegar niðurstaða yfirkjörstjórnar sveitarfélags liggur fyrir um gildi framboða við sveitarstjórnar­kosningar skal hún auglýsa framboðslistana á vef sveitarfélagsins og á vef landskjörstjórnar 30 dögum fyrir kjördag.

Á framboðslistum sem yfirkjörstjórn auglýsir skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:

  1. Heiti stjórnmálasamtaka sem bjóða fram listann og listabókstafur þeirra.
  2. Nöfn frambjóðenda, sbr. 4. gr., hvers lista í réttri röð.
  3. Kennitala frambjóðenda.
  4. Lögheimili frambjóðenda, eins og það er skráð í þjóðskrá og birt í kjörskrá. Lögheimili skal rita í þágufalli. Ekki skal tilgreina póstnúmer.
  5. Staða eða starfsheiti frambjóðenda, sbr. 4. mgr. 4. gr.

Yfirkjörstjórn sveitarfélags er heimilt að auglýsa framboðslista við sveitarstjórnarkosningar víðar, svo sem í staðarblöðum, dagblöðum eða öðrum fjölmiðlum.

Nú fer fram óbundin kosning til sveitarstjórnar, framboðsfrestur er framlengdur samkvæmt ákvæð­um 3. mgr. 46. gr. kosningalaga eða maður skorast undan endurkjöri skv. 5. mgr. 49. gr. sömu laga og skal þá yfirkjörstjórn sveitarfélags auglýsa það með sama hætti og framboð skv. 1. mgr.

 

V. KAFLI

Lokaákvæði.

19. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett skv. 1. og 2. mgr. 41. gr. og 1. mgr. 47. gr. kosningalaga nr. 112/2021 og tekur þegar gildi.

 

Dómsmálaráðuneytinu, 18. mars 2022.

 

Jón Gunnarsson.

Haukur Guðmundsson.


B deild - Útgáfud.: 21. mars 2022