Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 689/2013

Nr. 689/2013 4. júlí 2013
FJALLSKILASAMÞYKKT
fyrir Húnaþing vestra.

I. KAFLI

Stjórn fjallskilamála.

1. gr.

Samkvæmt lögum nr. 6 frá 21. mars 1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum, hefur sveitarstjórn yfirstjórn allra fjallskilamála, en fjallskilastjórnir annast alla stjórn og framkvæmd á þeim, hver á sínu svæði. Um þau atriði sem samþykkt þessi gildir ekki, gilda áðurnefnd lög nr. 6 frá 21. mars 1986.

2. gr.

Fjallskiladeildir í Húnaþingi vestra eru:

1. Fjallskiladeild Víðdælinga.
2. Fjallskiladeild Vesturhóps.
3. Fjallskiladeild Vatnsnesinga.
4. Fjallskiladeild Miðfirðinga.
5. Fjallskiladeild Hrútfirðinga að austan.
6. Fjallskiladeild Hrútfirðinga að vestan.

Umdæmi fjallskiladeilda skulu haldast óbreytt frá því sem gilti fyrir sameiningu sveitarfélaganna og upprekstrarréttur skal vera óbreyttur miðað við eldri skipan nema um annað sé samið, sbr. ákvæði 1. gr. laga nr. 25/1994, um breytingu á lögum nr. 6/1986.

3. gr.

Reikningshaldi hverrar fjallskiladeildar skal haldið aðgreindu í bókhaldi sveitarsjóðs en sveitarfélagið annast bókhald og innheimtu fjallskiladeildanna. Skal endurskoða fjallskilareikninga á sama hátt og sveitarstjórnarreikninga.

II. KAFLI

Um rekstur til afrétta og meðferð afréttarfjár.

4. gr.

Upprekstrarrétt eiga þeir einir sem hafa afnot af jörð eða jarðarhluta innan fjallskiladeildarinnar. Þessi réttur er óframseljanlegur og er öllum óheimilt að taka til upprekstrar sauðfé eða hross af öðrum, nema með samþykki viðkomandi fjallskilastjórnar. Þá hafa ábúendur upprekstrarrétt fyrir fjallskilaskyldan fénað heimilismanna sinna.

5. gr.

Upprekstur á afrétt skal eigi fara fyrr fram að vori til en fjallskilastjórn heimilar og með þeim takmörkunum sem hún ákveður og lög leyfa. Fjallskilastjórn skal veita heimild til upprekstrar að fengnu áliti gróðurverndarnefndar. Rekstri til afréttar skal haga þannig, að sem minnstur ágangur verði af í heimalöndum og þess gætt að búfé verði ekki fyrir ónæði. Komi fénaður saman við rekstur, skal hann skilinn úr svo fljótt sem unnt er. Gildir það jafnt um rekstur til og frá afrétti.

6. gr.

Nú verða mikil brögð að ágangi búfjár úr afrétti í heimahaga og getur þá sá er fyrir verður gert sveitarstjórn aðvart. Skal hún þá, ef um verulegan eða óeðlilegan ágang virðist vera að ræða, ákveða smölun ágangsfjár og rekstur til afréttar eða skilaréttar. Kostnaður greiðist úr fjallskilasjóði þeirrar fjallskiladeildar sem notar þann afrétt sem ágangsfé kom frá. Sama gildir um kostnað við smölun og rekstur búfjár sem stendur við afréttargirðingu.

7. gr.

Eigi má ónáða fé í afréttinum að þarflausu og ekki taka þaðan búfé nema með leyfi fjallskilastjórnar. Fjallskilastjórn skal fylgjast með gróðurfari á afréttinum og hafa til þess liðsinni gróðurverndarnefndar. Þá ber fjallskilastjórn að fylgjast með hvort fénaður safnast svo að afréttargirðingum að tjón verði á landi. Gerist það skal ráða bót á með rekstri inn á afréttinn, nema mjög sé liðið á sumar, en þá með smölun til réttar. Skal þá farið með á sama hátt eftir atvikum og um væri að ræða göngur.

III. KAFLI

Um fjallskil.

8. gr.

Skrifstofa sveitarfélagsins skal semja skrá yfir tölu sauðfjár og hrossa í hverri fjallskiladeild eftir síðustu forðagæsluskýrslu og einnig skrá yfir landverð og skulu þær lagðar til grundvallar fjallskilum. Verði kaup eða sala á fjallskilaskyldu búfé eða verulegar breytingar á búfjártölu af öðrum orsökum skulu eigendur tilkynna það fjallskilastjórn fyrir 1. ágúst ár hvert. Ber að taka tillit til þess í skýrslunni. Sé veittur afsláttur af fjallskilum, hvort heldur sem er vegna hrossa eða sauðfjár, er heimilt að miða við tölu búfjár sem kemur af afrétti.

9. gr.

Fjallskilaskylt er allt sauðfé og hross, veturgömul og eldri, þó ekki hross, allt að fimm á lögbýli, enda gangi þau í heimahögum. Þó er heimilt að fella niður fjallskil ef um er að ræða fleiri hross sem eigandi notar og skal þá eigandi sækja um það til fjallskilastjórnar fyrir 1. ágúst ár hvert. Hver fjallskilaskyldur maður skal leggja til fjallskila á þann hátt sem fjallskilastjórn ákveður. Allan fjallskilakostnað fjallskiladeildarinnar skal meta til peningaverðs, þannig að jafnhátt gjald komi á hverja sauðkind og jafnhátt gjald á öll hross. Hross skal meta til jafns við allt að sjö sauðkindur samkvæmt forðagæsluskýrslu. Telji fjallskilastjórn að hross skuli bera meiri kostnað hlutfallslega getur hún leitað samþykkis sveitarstjórnar til þess. Heimilt er fjallskilastjórn að leggja allt að 1/3 áætlaðs kostnaðar fjallskilasjóðs á landverð allra jarða í fjallskiladeildinni, þar með taldar eyðijarðir, án verðs ræktaðs lands og hlunninda, miðað við gildandi fasteignamat á hverjum tíma. Fjallskilastjórn er heimilt að fella niður fjallskil á allt að ¾ af fjallskilaskyldu búfé, sauðfé og hrossum, annarri tegundinni eða báðum, sem gengur í öruggum girðingum eða á eyjum. Fjallskil skulu innt af hendi með vinnu, eftir því sem þörf krefur og fjallskilastjórn ákveður, en ella goldin í peningum. Vinnu skal meta til peningaverðs sem næst gildandi meðal kauptaxta. Mönnum búsettum utan fjallskiladeildar er óheimilt að reka búfé á afrétt og ógirt heimalönd, nema með leyfi viðkomandi fjallskilastjórnar, eða þeir hafi þar jörð til afnota.

10. gr.

Skylt er hverjum eiganda búfjár að gera full fjallskil í þá fjallskiladeild, sem búfé hans er beitt á árlangt, enda sé það skráð þar á forðagæsluskýrslu. Þó hafa fjallskilastjórnir heimild til að gera um þetta sérstaka samninga. Húsráðendur skulu inna af hendi fjallskil fyrir heimafólk sitt.

11. gr.

Fjallgöngur á afréttum og víðlendum heimalöndum þar sem afréttarfé gengur að jafnaði skulu vera tvennar hvert haust en þó aðeins einar í Vatnsnesfjalli (heimalandi) nema sveitarstjórn ákveði að tvennar göngur skuli fara þar fram á hausti. Heimilt er þó fjallskilastjórnum í fjárskiptahólfi Miðfirðinga og Hrútfirðinga að láta aðra leit fara fram með aðstoð leitarflugs. Skylt er að fjallleitir séu tryggilega framkvæmdar. Gangnatíma skulu fjallskilastjórnir ákveða í samráði við aðliggjandi fjallskiladeildir og eftir því sem nauðsyn er vegna gróðurfars afréttanna og annarra ástæðna. Hrossarétt skal vera í Víðidalstungurétt fyrsta laugardag í október ár hvert.

12. gr.

Allri skylduvinnu og öðrum kostnaði við fjallskil skal fjallskilastjórn jafna niður á land- og búfjáreigendur í tæka tíð. Fjallskilastjórn skal kveðja íbúa í fjallskiladeild með gangnaboði til fjallskila 21 degi fyrir göngur. Á gangnaboðinu skal tilgreina nákvæmlega hvað hverjum ber að leggja til fjallskila það haust. Ef einhver vanrækir að gera fjallskil sem honum ber skal hann greiða samsvarandi kostnað, auk sektar í fjallskilasjóð, allt að helmingi af matsverði fjallskilanna. Athugasemdir við niðurjöfnunina skal bera fram skriflega við formann fjallskilastjórnar fyrir 20. október ár hvert.

13. gr.

Fjallskilastjórnir skulu skipa gangnastjóra fyrir hvern gangnaflokk. Hann ákveður tilhögun leitar og stjórnar henni. Skal hann sjá um að fjársöfnin séu rekin til réttar og kveðja menn til að gæta safnsins þar til fénaður er kominn í nátthaga eða vökumenn hafa tekið við honum. Gangnastjóra skal greiða sanngjarna þóknun fyrir gangnastjórnunina.

14. gr.

Gangnastjóri skal minna gangnamenn á að fara vel með sauðfé og hross í göngum. Finnist sauðfé og hross sem ekki verður komið lifandi til réttar, skal gangnastjóri ákveða hverju sinni hvernig með skuli fara. Óheimilt er að aflífa búfé í leitum án ákvörðunar gangnastjóra eða eftir umboði hans nema brýna nauðsyn beri til, svo sem ef búfé er mikið slasað eða sjúkt. Gangnastjóri skal sjá um að greinilega sé skráð mark þeirra kinda og hrossa sem lógað er, svo og önnur einkenni, svo sem kyn, litur og merki. Slíkri greinargerð skal gangnastjóri skila til formanns fjallskilastjórnar þegar leitum er lokið.

15. gr.

Ef veður eða aðrar ástæður hamla göngum eða gera líklegt að ekki verði árangur af göngunum að áliti gangnastjóra fyrir einum eða fleiri leitarflokkum samliggjandi leitarsvæða skal þeim frestað fyrir svæðið í heild. Gangnastjórar skulu hafa samráð með sér eftir því sem nauðsyn krefur, áður en göngur hefjast. Kostnaður við þær ráðstafanir greiðist úr fjallskilasjóði. Verði gangnamenn sem komnir eru saman til leitar eða lagðir upp í leit frá að hverfa ber þeim þóknun úr fjallskilasjóði en skylt er þeim að mæta til gangna þegar þeir eru tilkvaddir.

16. gr.

Ef gangnastjóri telur að gangnamaður sé ekki hæfur til starfsins þá er honum ekki skylt að taka hann gildan. Ef gangnamaður reynist ekki hæfur að mati gangnastjóra er heimilt að láta hann eða eiganda lands, sem hefur tilnefnt hann eða sent hann í göngur, greiða fjallskilin að fullu. Engan má senda í göngur yngri en 16 ára.

17. gr.

Ef fjallskilaskyldur maður hefur engan hæfan mann til gangna og getur ekki útvegað hann, skal hann tilkynna það skriflega til fjallskilastjórnar minnst 6 dögum áður en fjallgöngur eiga að hefjast og greiðir hann þá að fullu þeim manni sem fjallskilastjórn ræður til starfsins, svo og allan kostnað sem af því hlýst, þó ekki meira en hálft annað matsverð fjallskilanna.

18. gr.

Fjallskilastjórnir skulu sjá um að til séu á afréttinum hentugir skálar fyrir gangnamenn og hesta þeirra þar sem þess er þörf og gera tillögur til sveitarstjórnar þar um. Skulu þeir vera búnir nauðsynlegustu tækjum, svo sem hitunartækjum o.fl. Ber að halda skálum þessum vel við ásamt öllum tækjabúnaði, sem ætíð skal vera til staðar yfir gangnatímann. Kostnað er af þessu leiðir skal greiða úr sveitarsjóði.

IV. KAFLI

Um réttir og réttarstörf.

19. gr.

 

Aðalréttir eru:

 

Aukaréttir:

1.

Víðidalstungurétt

Réttað í 36. – 37. viku.

Valdarásrétt.

2.

Þverárrétt

Réttað í 36. – 37. viku.

Neðra-Vatnshornsrétt.

3.

Hamarsrétt

Réttað í 36. – 37. viku.

 

4.

Miðfjarðarrétt

Réttað í 36. viku.

 

5.

Hrútatungurétt

Réttað í 36. viku.

 

6.

Hvalsárrétt í Hrútafirði

Réttað í 37. – 38. viku.

Kjörseyrarrétt.

20. gr.

Stjórnir fjallskiladeilda ákveða hver á sínu svæði hvaða lönd skuli smala til hverrar réttar. Rísi ágreiningur um það úrskurðar sveitarstjórn.

21. gr.

Fjallskilastjórnum er skylt að sjá um byggingu rétta og viðhald þeirra. Nú koma hlutaðeigendur sér ekki saman um hvernig skuli jafna niður kostnaði við að koma upp rétt og sker þá sveitarstjórn úr. Við hverja aðalrétt skal vera ómerkingadilkur og sérstakur dilkur fyrir sjúkt fé. Ennfremur skulu vera til nægilega margir dilkar fyrir fénað úr öðrum fjallskiladeildum og sveitarfélögum.

22. gr.

Fjallskilastjórn skal með gangnaboði skipa hæfa menn til að fara í réttir annarra deilda til að hirða þar sauðfé og hross úr sinni deild. Þeir sem til eru valdir mega eigi allir yfirgefa rétt fyrr en störfum er þar að fullu lokið og úrskurðað hefur verið um óskilafé. Fjallskilastjórn ákveður hvert reka skuli eða flytja fénað þennan og hvernig haga skuli skilum á honum.

23. gr.

Fjallskilastjórnir skulu skipa réttarstjóra og tvo markaverði í hverri fjallskiladeild. Skal greiða þeim fyrir störf þeirra úr fjallskilasjóði. Þeir skulu vera komnir í tæka tíð hvern réttardag. Réttarstjóri ákveður hvernig búfjárdrætti skuli hagað og hefur umsjón með framkvæmd starfa í réttunum. Markaverðir skulu skera úr um mörk sem vafi er um, skoða og úrskurða mörk á óskilafé. Eigendum búfjár sem eiga fjárvon í rétt, er skylt að mæta eða sjá til þess að fulltrúi þeirra mæti og sjái um féð.

24. gr.

Réttarstjóri skal láta taka allar sjúkar kindur og kindur úr öðrum fjárskiptahólfum úr safninu þegar þeirra verður vart og einangra þær. Hann skal og annast um að ómerkt lömb séu hirt í réttinni og dregin í sér dilk, svo að eigendum gefist kostur á að láta lambsmæður helga sér þau. Helgi hryssur eða ær sér ekki ómerkinga, eru þeir eign viðkomandi fjallskilasjóðs nema ótvírætt vottorð óvilhallra manna liggi fyrir um eiganda.

25. gr.

Frá hverri aukarétt skulu kvaddir menn til að koma fé, sem orðið hefur eftir úr öðrum fjallskiladeildum og sveitarfélögum, tafarlaust til aðalréttar svo að hann sé þangað kominn áður en sundurdrætti er lokið.

26. gr.

Í fyrstu göngum skal ásamt sauðfé smala hrossum af afréttum. Skal haga sundurdrætti og hirðingu hrossa í réttum á sama hátt og um væri að ræða sauðfé að svo miklu leyti sem við getur átt. Á meðan á réttum stendur skal réttarstjóri gæta þess að hryssum gefist kostur á að helga sér ómerkt folöld og kappkosta að öðru leyti að haga allri meðferð á hrossum þannig að ekki hljótist slys af. Ómerkt folöld sem engin hryssa helgar sér skal réttarstjóri bjóða upp og selja þegar réttum er lokið. Skulu þau seld með 12 vikna innlausnarfresti.

27. gr.

Fjallskilastjórnir ákveða hvernig haga skuli almennri smölun og skilum á hrossum þar sem það á við. Við skil á hrossum skulu fjallskilastjórnir, hver fyrir sig, annast um hirðingu fjallskilaskyldra hrossa úr sinni fjallskiladeild í nærliggjandi sveitarfélagi enda séu fjallskil lögð á hross í fjallskiladeildinni.

V. KAFLI

Um hreinsun heimalanda og fjárskil.

28. gr.

Ábúanda eða eiganda jarðar er skylt að smala land sitt og þau heimalönd sem hann hefur til umráða svo oft sem fjallskilastjórn ákveður þótt hann eigi ekki fjárvon sjálfur. Einnig eftir að skyldusmölunum er lokið sé grunur um að þar sé búfé að finna. Geri hann það ekki skal fjallskilastjórn láta smala landið á kostnað eiganda. Skilarétt skal halda haust hvert og á þeim stað og tíma sem fjallskilastjórn ákveður.

29. gr.

Í fjalllendi, m.a.Vatnsnesfjalli, getur síðasta fjárhreinsun á haustin farið fram með flokkaleit er kemur þá í stað smölunar. Eigendur eða umráðamenn lands skulu leggja til leitar eftir fyrirmælum fjallskilastjórnar. Fjallskilastjórnir samliggjandi svæða skulu hafa samráð með sér um leitardag. Fjallskilastjórn ákveður leitarsvæði og tilnefnir leitarstjóra. Skal hann stjórna leitinni á sínu svæði. Leitarstjórar skulu hafa samráð sín á milli um tilhögun leitar, svo að fé fari ekki á milli leitarsvæða.

30. gr.

Hafi aðkomufé komið að eftir að réttum er lokið skal tilkynna eiganda það og ráðstafar hann þá fé sínu. Ber eiganda eða umráðamanni lands eða þeim sem smölun annast að láta eiganda búfjárins í té þá aðstoð sem unnt er. Ráðstafi eigandi ekki fé sínu skal það tilkynnt fjallskilastjórn sem ráðstafar því.

31. gr.

Ef eigendur eða ábúendur jarða í sveitarfélaginu telja sig verða fyrir ágangi búfjár í heimalandi eða löndum, sem ekkert leyfi eða heimild er fyrir er fjallskilastjórn heimilt að ákveða smölun á stærra eða minna svæði í sveitinni, þegar henni þykir þurfa og reka til almenningsrétta. Þar er eigendum skylt að hirða fénað sinn. Þegar fjallskilastjórn ákveður slíka smölun, er henni skylt áður en smölun fer fram að birta ráðstöfun sína með almennum auglýsingum, svo að búfjáreigendum gefist kostur á að hirða fé sitt. Fénað sem veldur sérstökum ágangi á girðingar, matjurtagarða og skrúðgarða skal eigandi hirða þegar hann fær upplýsingar um fénaðinn, setja í örugga vörslu eða farga honum. Geri hann það ekki skal hann bæta allt það tjón, sem fénaðurinn hefur valdið. Eiganda búfjár í þéttbýli er skylt að hafa fénað sinn í öruggri girðingu sé hann innan þess svæðis sem skipulagt er.

VI. KAFLI

Um meðferð óskilafjár.

32. gr.

Þegar fjárdrætti er lokið í aðalréttum skulu kindur, sem hafa orðið eftir úr öðrum fjallskiladeildum og sveitarfélögum afhentar fulltrúa sveitarstjórnar. Skal hann þá ásamt markavörðum skoða og skrifa upp mark og einkenni á hverri kind, svo rétt og nákvæmlega sem unnt er. Fjallskilastjórn skal annast um að koma óskilafé sem ekki þekkist eða ekki er hirt í sláturhús. Sama gildir um fé sem kemur fram utan rétta. Andvirði alls búfjár sem fargað er skal lagt inn á reikning fjallskiladeildar þannig að greiða megi verð hvers grips fyrir sig ef eigandi finnst.

33. gr.

Komi óskilahross fyrir í réttum eða utan rétta á hvaða árstíma sem er skal sýslumaður auglýsa það og selja hafi eigandi ekki gefið sig fram innan viku og sannað eignarrétt sinn. Hross skal selja með 12 vikna innlausnarfresti og jafnlöngum gjaldfresti og eru þau ekki á ábyrgð kaupenda þó misfarist fyrr en að þeim fresti liðnum nema um sé að kenna vanrækslu þeirra. Hver sá sem gerir kröfu til óskilahrossa skal sanna eignarrétt sinn svo að ekki verði um villst og greiða jafnframt allan áfallinn kostnað. Ákvæði þessarar greinar gilda eftir því sem við á um stóðhesta, sem seldir eru samkvæmt lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., með síðari breytingum. Einnig skulu gilda sömu ákvæði um nautgripi sem eru í óskilum.

34.gr.

Fyrir lok hvers árs skal sveitarstjórn senda greinilega lýsingu á öllum óskilahrossum og fé, sem selt hefur verið eða fargað í sveitarfélaginu á árinu til birtingar í Lögbirtingablaði. Skal hún síðan annast um greiðslu að frádregnum kostnaði á andvirði þess óskilabúfjár sem eigendur sanna eignarrétt sinn á. Geti enginn sannað eignarrétt sinn fellur andvirðið til fjallskilasjóðs viðkomandi fjallskiladeildar.

VII. KAFLI

Um eftirleitir og björgunarlaun.

35. gr.

Finnist búfé eftir að réttum er lokið skal greiða hæfilega þóknun fyrir samkvæmt ákvörðun fjallskilastjórnar. Greiðslur til þeirra sem finna búfé greiðast úr fjallskilasjóði viðkomandi fjallskiladeildar og björgunarlaun fyrir fé sem næst úr ógöngum skal greiða í samræmi við ákvæði VII. kafla laga nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum.

VIII. KAFLI

Um mörk og markaskrár.

36. gr.

Búfé skal draga eftir mörkum. Það er skylda hvers búfjáreiganda að hafa glöggt eyrnamark á öllu fé sínu, brennimark á hyrndu fé eða plötumerki í eyra. Sveitarstjórn skal svo oft sem þurfa þykir og a.m.k. áttunda hvert ár láta prenta markaskrá fyrir allt umdæmið. Skal sérhver markeigandi koma marki sínu í hana og greiða fyrir það eftir því sem sveitarstjórn ákveður en hvert sauðfjár- og hrossabú skal fá ókeypis eitt eintak af markaskránni. Mark helgar markeiganda eignarrétt nema full sönnun komi fyrir að annar eigi. Við sönnun um eignarrétt á búfé er örmerking rétthæst, þar næst frostmerking, síðan brennimark, þá löggilt plötumerki og síðast eyrnamark. Eiganda rétthærra marks er skylt að gera grein fyrir eignarrétti sínum ef eigandi réttlægra marks krefst þess. Hross skulu eins og sauðfé hafa glöggt mark er skráð sé í markaskrá umdæmisins.

37. gr.

Mörk ganga að erfðum. Gefa má mark, svo og selja. Taka má upp nýtt mark, gerðarmark. Tilkynni tveir eða fleiri fjáreigendur sama mark til markaskrár, er erfðamark rétthæst, síðan gjafamark, svo kaupamark og síðast gerðarmark. Aðfluttur maður skal breyta marki sínu þótt erfðamark sé, ef sammerkt er eða námerkt innan umdæmis. Um skráningu og notkun marka vísast til reglugerðar nr. 200/1998, um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár.

IX. KAFLI

Önnur ákvæði.

38. gr.

Fjallskilastjórnir skulu gera tillögur til sveitarstjórnar um varnargirðingu fyrir afréttarlöndum til varnar því að afréttarfé gangi ofan af afrétti eða sleppi á afrétt. Ennfremur til varnar því að afréttarfé gangi á víxl af einum afrétti á annan.

39. gr.

Fjallskilastjórnir skulu halda fundi um málefni upprekstrarfélaga ár hvert eða oftar. Þá skal halda fundi ef þriðjungur jarðeigenda krefst þess. Einnig skulu fjallskilastjórnirnar skila inn fundargerðum til sveitarfélagsins.

40. gr.

Nú verður verulegur ágangur sauðfjár eða hrossa frá einu sveitarfélagi í annað og getur þá það sveitarfélag er fyrir ágangi verður óskað eftir að hitt sveitarfélagið greiði bætur fyrir áganginn eða sendi menn í göngur, ef það er talið heppilegra miðað við gangnakostnað og usla í högum. Miða skal greiðslu við fjallskilakostnað á fullorðna kind í því sveitarfélagi sem féð gengur í og skulu hverjar tvær kindur, sem til réttar koma, metnar sem ein gjaldeining. Réttarstjóri skal sjá um að telja það fé sem til réttar kemur. Verði ágreiningur um gjaldtöku skulu viðkomandi sveitarfélög tilnefna einn mann hver og sýslumaður einn mann í nefnd til að úrskurða um ágreiningsefnið.

41. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum refsiheimildum. Sektir skulu renna í fjallskilasjóð þeirrar fjallskiladeildar sem brotið er framið í.

42. gr.

Um kæruheimildir fer samkvæmt ákvæðum gildandi laga og stjórnvaldsreglna á hverjum tíma.

43. gr.

Samþykkt þessi, sem sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur samið og samþykkt, staðfestist hér með samkvæmt 3. gr. laga nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum, til að öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi fjallskilasamþykkt nr. 762/1999, fyrir Húnaþing vestra.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 4. júlí 2013.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Kristinn Hugason.

Sigríður Norðmann.

B deild - Útgáfud.: 18. júlí 2013