Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 946/2016

Nr. 946/2016 1. júní 2016

REGLUR
um vistun fanga á öryggisdeild Fangelsisins Litla-Hrauni.

1. gr.

Heimilt er að hafa fangelsi deildaskipt, skv. 18. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga. Öryggis­deild er í húsi 1, deild A í Fangelsinu Litla-Hrauni.

2. gr.

Á öryggisdeild er unnt að vista fanga sem gerst hafa sekir um alvarleg eða ítrekuð agabrot, eru taldir stefna öryggi fangelsisins í hættu eða geta ekki vistast með öðrum föngum vegna hegðunar sinnar.

3. gr.

Forstöðumaður fangelsisins tekur ákvörðun um að vista skuli fanga á öryggisdeild, sbr. 5. mgr. 21. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016. Slíka ákvörðun skal rökstyðja skriflega og bóka. Vistun á öryggisdeild má ákvarða í allt að 3 mánuði í senn.

4. gr.

Stundi fangi, sem vistaður er á öryggisdeild, vinnu eða nám skal sú starfsemi að jafnaði fara fram þar.

5. gr.

Um heimsóknir til fanga sem vistaðir eru á öryggisdeild gilda ákvæði 45.–48. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016, reglugerð um fullnustu refsinga og verklagsreglur Fangelsismálastofnunar um heimsóknir í fangelsi.

6. gr.

Um símtöl fanga sem vistaðir eru á öryggisdeild gildir 49. gr. laga um fullnustu refsinga. Taka skal upp og hlusta á öll símtöl fanga á öryggisdeild að undanskildum símtölum við lögmann, prest eða annan sambærilegan fulltrúa trúfélags eða lífsskoðunarfélags sem fangi tilheyrir, opinberar stofn­anir og umboðsmann Alþingis.

7. gr.

Fangi sem vistaður er á öryggisdeild á rétt á útiveru og að iðka tómstundastörf, líkamsrækt og íþróttir í frítíma eftir því sem aðstæður í fangelsi leyfa í að minnsta kosti eina og hálfa klukkustund á dag, nema það sé ósamrýmanlegt góðri reglu og öryggi í fangelsi. Útivera og tómstundir fanga á öryggisdeild skulu að jafnaði fara fram á öðrum tíma en útivera og tómstundir annarra fanga.

8. gr.

Forstöðumaður getur leyft fanga sem vistaður er á öryggisdeild að hafa í klefa sínum sjón­varps­tæki, útvarpstæki og leikjatölvu án nettengingar. Forstöðumaður getur heimilað fanga á öryggis­deild að hafa aðgang að nettengdri tölvu í sameiginlegu rými deildarinnar.

9. gr.

Forstöðumaður getur ákveðið að klefar fanga sem vistast á öryggisdeild séu ekki opnir á sama tíma ef nauðsynlegt þykir vegna öryggis í fangelsinu.

10. gr.

Reglur þessar eru settar af Fangelsismálastofnun ríkisins og byggjast á heimild í 98. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016. Öðlast þær þegar gildi.

Jafnframt falla úr gildi reglur um vistun fanga á öryggisdeild Fangelsisins Litla-Hrauni, dagsettar 6. júní 2012.

Fangelsismálastofnun ríkisins, 1. júní 2016.

Páll E. Winkel.


B deild - Útgáfud.: 11. nóvember 2016