Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 491/2019

Nr. 491/2019 3. maí 2019

REGLUR
um greiðslu viðbótarlauna forstöðumanna.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar taka til greiðslu viðbótarlauna samkvæmt ákvæðum 39. gr. a laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Fjármála- og efnahagsráðherra ákvarðar forsendur viðbótar­launa en hlutaðeigandi ráðherra, eða eftir atvikum stjórn, ákvarðar greiðslu þeirra, innan ramma hinna almennu forsendna.

2. gr.

Tilgangur.

Reglum þessum er ætlað að tryggja að ákvarðanir um viðbótarlaun forstöðumanna byggist á málefnalegum sjónarmiðum og að jafnræðis sé gætt við framkvæmd ákvarðana um viðbótarlaun.

3. gr.

Viðbótarlaun.

Viðbótarlaun eru laun sem greidd eru tímabundið til viðbótar við reglubundin heildarlaun eins og þau eru ákveðin á grundvelli grunnmats starfs og fela í sér tímabundinn launaauka vegna sérstaks álags eða verkefna sem eru verulega umfram reglubundnar starfsskyldur.

Eftirfarandi greiðslur teljast ekki til viðbótarlauna:

  1. Seta á stjórnarfundum þeirrar stofnunar sem hann starfar við.
  2. Seta í nefnd sem hann situr í lögum samkvæmt.
  3. Vegna verkefna nefnda eða starfshópa sem forstöðumaður er skipaður í starfs síns vegna.
  4. Greiðslur vegna útlagðs kostnaðar hvort sem það er á grundvelli framlagðs reiknings eða samkvæmt ákvörðun þar til bærra aðila.

4. gr.

Heimild til greiðslu viðbótarlauna.

Heimild til greiðslu viðbótarlauna er bundin við sérstakt álag, t.d. vegna óvæntra eða ófyrirséðra ytri atvika, eða verkefna sem eru verulega umfram reglubundnar starfsskyldur og rúmast ekki innan venjubundinnar starfsemi stofnunar.

Taka má beiðni um greiðslu viðbótarlauna til meðferðar að ósk hlutaðeigandi forstöðumanns eða að frumkvæði hlutaðeigandi ráðherra eða stjórnar. Ákvörðun um greiðslu skal byggð á málefna­legum sjónarmiðum auk þess sem afla skal nauðsynlegra gagna og upplýsinga.

5. gr.

Fjárhæð viðbótarlauna og útborgun.

Fjárhæð viðbótarlauna skal reikna í sérstakri launategund og haldið aðgreindri frá öðrum greiðslum. Fjárhæð viðbótarlauna skal rúmast innan fjárveitingar viðkomandi stofnunar og byggja á málefnalegum sjónarmiðum og vera í takt við tilefni og í samræmi við aðstæður.

Viðbótarlaun eru greidd mánaðarlega vegna fyrirséðra tilefna en heimilt er að greiða eingreiðslu vegna liðinna atvika sem voru ófyrirséð. Miða skal við að ákvörðun um viðbótarlaun sé tekin sem næst í tíma við það tilefni sem greitt er fyrir.

Greiða má viðbótarlaun í allt að sex mánuði en ef tilefni er til er heimilt að framlengja greiðslu þeirra um þrjá mánuði í senn en þó aldrei lengur en í tvö ár samfellt.

6. gr.

Tilkynningar.

Ákvörðun hlutaðeigandi ráðherra um greiðslu viðbótarlauna skal tilkynnt forstöðumanni skriflega og afrit sent til fjármála- og efnahagsráðuneytis. Koma skal fram í tilkynningu á hvaða forsendum viðbótarlaun eru ákveðin. Jafnframt skal greina frá hvaða tíma þau eru greidd, fyrir hvaða tilefni og hvenær þeim ljúki. Taka skal fram í ákvörðun um tímabundna greiðslu viðbótarlauna að þeim verði sagt upp með mánaðar fyrirvara á tímabilinu hafi forsendur fyrir ákvörðun þeirra breyst.

7. gr.

Eftirlit og eftirfylgni.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur eftirlit með framkvæmd reglna þessara og skal gera hlutað­eigandi ráðherra eða stjórn grein fyrir því ef hann telur að framkvæmdin sé í ósamræmi við þær forsendur sem settar hafa verið um viðbótarlaun. Félagi forstöðumanna ríkisstofnana skal jafn­framt gefinn kostur á að fylgjast með og fjalla um álitamál sem upp kunna að koma fyrir hönd forstöðu­manna. Félagi forstöðumanna ríkisstofnana er heimilt að óska eftir samantekt á fram­kvæmd viðbótarlauna. Fjármála- og efnahagsráðherra tekur árlega saman lista yfir viðbótar­laun og birtir opinberlega.

8. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar sem settar eru með heimild í 39. gr. a laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfs­manna ríkisins, öðlast þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 3. maí 2019.

Bjarni Benediktsson.

Guðmundur Árnason.


B deild - Útgáfud.: 24. maí 2019