Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 945/2017

Nr. 945/2017 8. nóvember 2017

REGLUGERÐ
um desemberuppbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um desemberuppbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði í desember 2017.

2. gr.

Sá sem hefur staðfest atvinnuleit á tímabilinu frá 20. nóvember til 3. desember 2017 og verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í samtals tíu mánuði eða lengur á árinu 2017 á rétt á desemberuppbót úr Atvinnuleysistryggingasjóði að fjárhæð kr. 65.162 enda hafi viðkomandi verið að fullu tryggður skv. III. eða IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar á umræddum tíma.

Biðtími eftir atvinnuleysisbótum skal teljast með við útreikninga skv. 1. mgr. enda hafi viðkomandi verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun þann tíma.

3. gr.

Sá sem hefur staðfest atvinnuleit á tímabilinu frá 20. nóvember til 3. desember 2017 og verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun samtals í tíu mánuði eða lengur á árinu 2017 en tryggður hlutfallslega samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á umræddum tíma á rétt á hlutfallslegri desemberuppbót skv. 1. mgr. 2. gr. í samræmi við það tryggingarhlutfall sem um ræðir.

Biðtími eftir atvinnuleysisbótum skal teljast með við útreikninga skv. 1. mgr. enda hafi viðkomandi verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun þann tíma.

4. gr.

Sá sem hefur staðfest atvinnuleit á tímabilinu frá 20. nóvember til 3. desember 2017 en verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í skemmri tíma en tíu mánuði á árinu 2017 á rétt á hlutfallslegri desemberuppbót skv. 1. mgr. 2. gr. í samræmi við þann tíma sem hann hefur verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun enda hafi viðkomandi verið að fullu tryggður skv. III. eða IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar á umræddum tíma, sbr. þó 4. mgr.

Sá sem hefur staðfest atvinnuleit á tímabilinu frá 20. nóvember til 3. desember 2017 en verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í skemmri tíma en tíu mánuði á árinu 2017 ásamt því að hafa verið tryggður hlutfallslega samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á umræddum tíma á rétt á hlutfallslegri desemberuppbót skv. 1. mgr. 2. gr. í samræmi við það tryggingarhlutfall sem um ræðir og þann tíma sem hann hefur verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun á árinu 2017, sbr. þó 4. mgr.

Biðtími eftir atvinnuleysisbótum skal teljast með við útreikninga skv. 1. eða 2. mgr. enda hafi viðkomandi verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun þann tíma.

Þrátt fyrir 1.–3. mgr. skal desemberuppbót aldrei nema lægri fjárhæð en kr. 16.291.

5. gr.

Desemberuppbætur samkvæmt reglugerð þessari skulu greiddar út eigi síðar en 18. desember 2017.

6. gr.

Sá sem á rétt á desemberuppbót úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt reglugerð þessari og hefur framfærsluskyldu gagnvart barni eða börnum yngri en 18 ára á rétt á 4% af óskertri desemberuppbót, sbr. 1. mgr. 2. gr., með hverju barni.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 33. gr. og 64. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Velferðarráðuneytinu, 8. nóvember 2017.

Þorsteinn Víglundsson
félags- og jafnréttismálaráðherra.

Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 10. nóvember 2017