Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 437/2020

Nr. 437/2020 21. apríl 2020

SAMÞYKKT
um breytingu á samþykkt um stjórn sveitarfélagsins Dalabyggðar, nr. 391/2018.

1. gr.

Við j-lið 2. mgr. 16. gr. samþykktarinnar bætist nýr málsliður svohljóðandi:

Ekki skal færa í gerðabók greinargerðir, fyrirspurnir sem gert er ráð fyrir að svarað verði á öðrum vettvangi en í sveitarstjórn eða hvers konar skriflegan málflutning um afstöðu sveitarstjórnar­fulltrúa eða sveitarstjóra til máls sem til meðferðar er.

 

2. gr.

5. mgr. 35. gr. samþykktarinnar hljóði svo:

Í umhverfis- og skipulagsnefnd, félagsmálanefnd, fræðslunefnd og menningarmálanefnd og atvinnu­mála­nefnd skal sitja a.m.k. einn sveitarstjórnarmaður.

 

3. gr.

2. mgr. 39. gr. samþykktarinnar hljóði svo:

Um fundi nefnda, boðun þeirra, ályktunarhæfi og atkvæðagreiðslur gilda ákvæði III. kafla sam­þykktar þessarar og sveitarstjórnarlaga eftir því sem við getur átt.

 

4. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. samþykktarinnar:

a)    Við 2. tölulið A-liðar samþykktarinnar bætist nýr málsliður svohljóðandi:

Umhverfis- og skipulagsnefnd fer með fullnaðarákvörðun um matsskyldu framkvæmda þegar sveitarfélagið er sjálft framkvæmdaaðili.

b)    7. töluliður A-liðar samþykktarinnar hljóði svo:

Fjallskilanefndir. Sveitarstjórn kýs þrjá fulltrúa í hverja nefnd og einn til vara, að frátalinni fjallskilanefnd Suðurdala þar sem eru fimm fulltrúar og þá tveir til vara, sbr. 2. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986. Nefndirnar eru: Fjallskilanefnd Skógarstrandar, fjall­skila­nefnd Suðurdala, fjallskilanefnd Laxárdals, fjallskilanefnd Hvammssveitar, fjallskila­nefnd Fellsstrandar, fjallskilanefnd Skarðsstrandar og fjallskilanefnd Saurbæjar. Sveitar­stjórn getur sameinað einstaka nefndir komi fram óskir þess efnis og þá eftir atvikum fjölgað fulltrúum í sameinaðri nefnd.

c)    B-liður samþykktarinnar hljóði svo:

  1. Almannavarnanefnd. Sveitarstjórn skipar fulltrúa skv. samkomulagi við önnur sveitarfélög á Vesturlandi skv. 9. gr. laga um almannavarnir nr. 82/2008.
  2. Barnaverndarnefnd Borgarfjarðar og Dala. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara skv. III. kafla og 87. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þar af skipar Dalabyggð einn aðalmann og einn varamann. Félagsmálanefnd tilnefnir aðal- og varamann úr sínum röðum.
  3. Heilbrigðisnefnd. Sveitarstjórnir á Vesturlandi kjósa sameiginlega fimm aðalmenn og jafn­marga til vara í nefndina skv. 11. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Sveitarstjórn kýs aðal- og varafulltrúa á aðalfund.
  4. Ungmennaráð. Sveitarstjórn skipar að tillögu fræðslunefndar fjóra fulltrúa ungs fólks í ungmennaráð skv. æskulýðslögum nr. 70/2007. Ungmennaráð er m.a. sveitarstjórn til ráð­gjafar um málefni ungs fólks í Dalabyggð.
  5. Öldungaráð Dalabyggðar og Reykhóla. Sveitarstjórn skipar tvo fulltrúa og tvo til vara.
  6. Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samkvæmt samþykktum Sambands íslenskra sveitarfélaga kýs sveitarstjórn aðal- og varafulltrúa á landsþing sambandsins.
  7. Fulltrúaráð Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands. Sveitarstjórn kýs aðal- og vara­fulltrúa í fulltrúaráð Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands, sbr. 9. gr. laga um Eignar­haldsfélagið Brunabótafélag Íslands nr. 68/1994.
  8. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi. Sveitarstjórn kýs aðal- og varafulltrúa á aðalfund skv. samþykktum samtakanna og tilnefnir fulltrúa í stjórn/varastjórn.
  9. Sorpurðun Vesturlands. Sveitarstjórn kýs aðal- og varafulltrúa á aðalfund. Þegar Dalabyggð á fulltrúa í stjórn Sorpurðunar Vesturlands þá skal hann valinn af sveitarstjórn.
  10. Fjölbrautaskóli Vesturlands. Sveitarstjórn kýs einn fulltrúa í fulltrúaráð skólans og einn til vara.
  11. Dalagisting ehf. Sveitarstjórn kýs fulltrúa á aðalfund og tilnefnir tvo fulltrúa í stjórn og tvo til vara
  12. Dalaveitur ehf. Sveitarstjórn kýs fulltrúa á aðalfund og tilnefnir þrjá fulltrúa í stjórn og þrjá til vara.
  13. Samráðsvettvangur Vesturlands. Sveitarstjórn tilnefnir fulltrúa skv. ákvörðun stjórnar Sam­taka sveitarfélaga á Vesturlandi.
  14. Fasteignafélagið Hvammur. Sveitarstjórn kýs fulltrúa á aðalfund og tilnefnir einn fulltrúa í stjórn og einn til vara.
  15. Fóðuriðjan Ólafsdal ehf. Sveitarstjórn kýs aðal- og varafulltrúa á aðalfund og tilnefnir einn fulltrúa í stjórn og annan til vara.
  16. Minningarsjóður Ólafs Finnssonar og Guðrúnar Tómasdóttur (Fellsenda). Oddviti situr í stjórn minningarsjóðsins skv. stofnskrá hans.
  17. Breiðafjarðarnefnd. Sveitarstjórn tilnefnir aðal- og varafulltrúa.
  18. Menningar- og framfarasjóður Dalasýslu. Sveitarstjórn tilnefnir einn fulltrúa í stjórn sjóðsins og tvo skoðunarmenn.
  19. Minningarsjóður Finns Jónssonar frá Geirmundarstöðum. Sveitarstjórn tilnefnir einn full­trúa til setu í stjórn til fjögurra ára í senn.
  20. Minningarsjóður Péturs T. Oddssonar (prófasts að Hvammi). Sveitarstjórn tilnefnir einn fulltrúa til setu í stjórn til fjögurra ára í senn.
  21. Veiðifélag Laxdæla. Sveitarstjórn kýs fulltrúa á aðalfund og annan til vara.
  22. Veiðifélag Laxár í Hvammssveit. Sveitarstjórn kýs fulltrúa á aðalfund og annan til vara.
  23. Bakkahvammur hses. Sveitarstjórn kýs sex fulltrúa til setu í fulltrúaráði húsnæðissjálfs­eignarstofnunarinnar.
  24. Svæðisskipulagsnefnd Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar. Sveitarstjórn kýs tvo fulltrúa í nefndina og tvo til vara.
  25. Byggðasamlag um Brunavarnir Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar. Sveitar­stjóri er fulltrúi í stjórn en sveitarstjórn kýs einn til vara.

 

5. gr.

Við samþykktina bætist ný grein, 49. gr., svohljóðandi með fyrirsögn og breytast númer annarra greina til samræmis:

Framsal sveitarstjórnar til starfsmanna til fullnaðarafgreiðslu mála.

Í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð er sveitarstjórn heimilt að fela starfsmönnum fullnaðarafgreiðslu mála. Skal kveðið á um slíkar heimildir í samþykkt um stjórn og fundarsköp eða í sérstökum viðauka með samþykkt þessari. Byggðarráð hefur eftirlit með fullnaðarafgreiðslu starfsmanna og kallar reglulega eftir skýringum og upplýsingum.

Starfsmanni er alltaf heimilt að vísa ákvörðun skv. þessari grein til byggðarráðs.

Að uppfylltum skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um endurupptöku, á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið fyrir á ný. Beiðni um endurupptöku skal beint til byggðarráðs.

 

6. gr.

Við samþykktina bætast tveir viðaukar um fullnaðarafgreiðslur starfsmanna í samræmi við heimildir 49. gr. samþykktarinnar, sbr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Viðaukarnir varða fullnaðarafgreiðslur á eftirtöldum málefnasviðum:

  1. umsagnir um rekstrar- og tækifærisleyfi,
  2. byggingarfulltrúa.

Viðaukarnir eru birtir með samþykkt þessari.

 

7. gr.

Samþykkt þessi sem sveitarstjórn Dalabyggðar hefur sett skv. ákvæðum 9. og 18. gr. sveitar­stjórnarlaga nr. 138/2011 staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 21. apríl 2020.

 

F. h. r.

Hermann Sæmundsson.

Stefanía Traustadóttir.

 

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)

 

 

 


B deild - Útgáfud.: 12. maí 2020