Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 69/2023

Nr. 69/2023 22. júní 2023

LÖG
um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996 (geymsla og nýting fósturvísa og kynfrumna).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Sá sem leggur kynfrumur til getur veitt skriflegt og vottað samþykki fyrir notkun eftirlifandi maka á þeim við tæknifrjóvgun, enda geti eftirlifandi maki notað kynfrumurnar í eigin líkama. Sama á við um samþykki fyrir notkun fyrrverandi maka eftir skilnað eða sambúðarslit, enda geti hann notað kynfrumurnar í eigin líkama og skriflegt og vottað samþykki liggi fyrir samhliða umsókn um tæknifrjóvgun.

 

2. gr.

    Við 3. mgr. 9. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Einstaklingur sem samþykkt hefur geymslu fósturvísa skv. 2. mgr. getur veitt skriflegt og vottað samþykki fyrir notkun eftir­lifandi maka á þeim við tæknifrjóvgun, enda geti eftirlifandi maki notað fósturvísi í eigin líkama. Sama á við um samþykki fyrir notkun fyrrverandi maka eftir skilnað eða sambúðarslit, enda geti hann notað fósturvísana í eigin líkama og skriflegt og vottað samþykki liggi fyrir samhliða umsókn um tækni­frjóvgun.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:

 1. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nú er hámarksgeymslutími ekki liðinn en sá sem samþykkti geymslu kynfrumna eða fósturvísa dregur samþykki sitt til baka og skal þá eyða kynfrumum eða fósturvísum.
 2. Við 3. mgr. bætist: eða fyrir liggi skriflegt og vottað samþykki hins látna um notkun eftir­lifandi maka á þeim við tæknifrjóvgun skv. 1. málsl. 3. mgr. 8. gr.
 3. 4. mgr. orðast svo:
      Nú er hámarksgeymslutími fósturvísa ekki liðinn en aðili sem samþykkt hefur geymslu fósturvísa andast og skal þá eyða fósturvísunum nema skriflegt og vottað samþykki hins látna liggi fyrir um notkun eftirlifandi maka á þeim við tæknifrjóvgun skv. 2. málsl. 3. mgr. 9. gr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.

    Um geymslu og notkun fósturvísa og kynfrumna, sem sett voru í geymslu fyrir gildistöku þessara laga, fer samkvæmt ákvæðum laga þessara.

5. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:

 1. Barnalög, nr. 76/2003:
  1. Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. a laganna:
   1. Í stað vísunarinnar „2.–4. mgr.“ 2. málsl. kemur: 2.–5. mgr.
   2. Í stað vísunarinnar „4. mgr.“ í 3. málsl. kemur: 5. mgr.
  2. Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
   1. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
        Einstaklingur sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eftirlifandi eða fyrrverandi eiginkonu eða sambúðarkonu, samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun, eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit telst móðir eða faðir barns sem þannig er getið. Gildir þetta þrátt fyrir að sá sem gengst undir tæknifrjóvgun kunni að vera í hjúskap eða skráðri sambúð með öðrum þegar tæknifrjóvgun fer fram eða við fæðingu barns.
   2. Við 4. mgr. bætist: nema ákvæði 4. mgr. eigi við.
   3. Í stað vísunarinnar „5. mgr.“ í 6. mgr. kemur: 6. mgr.
   4. Á eftir vísuninni „3. mgr.“ í 7. mgr. kemur: eða eftirlifandi eða fyrrverandi eiginkonu eða sambúðarkonu, sbr. 4. mgr.
   5. Í stað vísunarinnar „7. mgr.“ í 8. mgr. kemur: 8. mgr.
  3. Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. a laganna:
   1. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
        Einstaklingur sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eftirlifandi eða fyrrverandi hjúskapar- eða sambúðarmaka, samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun, eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit telst móðir, faðir eða foreldri barns sem þannig er getið eftir því hvernig breyttri kynskráningu er háttað á sama hátt og skv. 2. málsl. 3. mgr. Gildir þetta þrátt fyrir að sá sem gengst undir tæknifrjóvgun kunni að vera í hjúskap eða skráðri sambúð með öðrum þegar tæknifrjóvgun fer fram eða við fæðingu barns.
   2. Við 4. mgr. bætist: nema ákvæði 4. mgr. eigi við.
   3. Í stað vísunarinnar „5. og 6. mgr.“ í 6. mgr. kemur: 6. og 7. mgr.
   4. Í stað vísunarinnar „7. og 8. mgr.“ í 7. mgr. kemur: 8. og 9. mgr.
   5. Í stað vísunarinnar „7. mgr.“ í 7. mgr. kemur: 8. mgr.
  4. Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
   1. 1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Læknir eða ljósmóðir sem tekur á móti barni skal spyrja móður sem elur barnið um faðerni þess, m.a. hvort um tækni­frjóvgun hafi verið að ræða eða ekki og skrá yfirlýsingu hennar um það.
   2. Í stað vísunarinnar „2. mgr.“ í 4. málsl. 2. mgr. kemur: 2. eða 4. mgr.
   3. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
        Móðir barns, barnið sjálft, sá sem er skráður faðir barns og sá sem telur sig föður barns geta óskað eftir leiðréttingu á skráningu á faðerni barns hjá Þjóðskrá Íslands á þeim grundvelli að skráning sé ekki í samræmi við faðerni barns samkvæmt lögum þessum. Sé faðir eða sá sem taldi sig föður látinn geta þeir erfingjar hans sem ganga jafnhliða eða næst barninu að erfðum óskað eftir leiðréttingu á skráningu. Skal Þjóðskrá Íslands taka ákvörðun um leiðréttingu á skráningu.
   4. Í stað vísunarinnar „3. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 4. mgr.
   5. Í stað vísunarinnar „2.–4. mgr.“ í 5. mgr. kemur: 2.–5. mgr.
   6. Á eftir orðunum „þ.m.t. um“ í 6. mgr. kemur: leiðréttingu á skráningu.
  5. Við 23. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
       Nú hefur einstaklingur samþykkt að tæknifrjóvgun fari fram á eftirlifandi eða fyrrverandi maka, sbr. 4. mgr. 6. gr. eða 4. mgr. 6. gr. a, og er þá í máli samkvæmt þessum kafla því aðeins unnt að taka til greina kröfu um vefengingu á faðerni eða foreldrastöðu að ljóst sé að barn sé ekki getið við tæknifrjóvgunina.
 2. Erfðalög, nr. 8/1962: Við 21. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um barn sem getið er eftir að arfleifandi fellur frá á grundvelli samþykkis skv. 4. mgr. 6. gr. og 4. mgr. 6. gr. a barnalaga, nr. 76/2003, ef það fæðist lifandi.

 

Gjört á Bessastöðum, 22. júní 2023.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Willum Þór Þórsson.


A deild - Útgáfud.: 7. júlí 2023