Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1032/2014

Nr. 1032/2014 26. nóvember 2014
REGLUR
um fjármögnunarhlutfall í erlendum gjaldmiðlum.

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Gildissvið og tilgangur.

Reglur þessar taka til viðskiptabanka og samstæðna viðskiptabanka og ná til fjármögn­unar­hlutfalls í erlendum gjaldmiðlum.

Reglur þessar miða að því að takmarka tímamisræmi á milli eigna og skulda viðskipta­banka í erlendum gjaldmiðlum og að hve miklu leyti viðskiptabankar reiða sig á óstöðuga skammtímafjármögnun til að fjármagna langtímaeignir í erlendum gjaldmiðlum. Reglurnar eru settar með vísan í 12. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.

2. gr.

Skilgreiningar og orðskýringar.

Í reglum þessum merkir:

 1. Aðilar í fjármálastarfsemi: Aðilar sem eru undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins, skv. 2. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, erlendir aðilar sem eru háðir sambærilegu eftirliti þar sem þeir eru með lögheimili, eignar­halds­félög á fjármálasviði, sbr. 4. mgr. 97. gr. laga nr. 161/2002, um fjármála­fyrirtæki, og blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi, sbr. 6. mgr. 97. gr. laga nr. 161/2002.
 2. Afleiða: Samningur þar sem uppgjörsákvæði byggist á breytingu einhverra þátta á tilteknu tímabili, svo sem vaxta, gengis gjaldmiðla, verðbréfaverðs, verðbréfa­vísitölu, ávöxtunarkröfu eða hrávöruverðs, þar með talið en þó ekki ein­göngu valréttarsamningur, vaxtaskiptasamningur, gjaldeyrisskiptasamningur og fram­virkur samningur.
 3. Fjármögnunarhlutfall: Með fjármögnunarhlutfalli er átt við hlutfall tiltækrar stöð­ugrar fjármögnunar, sbr. 12. tl. 2. gr. reglna þessara af nauðsynlegri stöðugri fjár­mögnun, sbr. 8. tl. 2. gr. reglna þessara.
 4. Innlán: Til innlána teljast í reglum þessum fjárhæðir sem bindiskyldur aðili skuldar viðskiptavinum, aðrar en þær sem tilkomnar eru vegna útgáfu framseljanlegra skuldaskjala.
 5. Innlendur aðili: Einstaklingur og lögaðili með lögheimili á Íslandi.
 6. Lítil og meðalstór fyrirtæki: Fyrirtæki flokkast sem lítil eða meðalstór í reglum þessum ef þau uppfylla skilyrði 17. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007, um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, enda séu auk þess innlán og önnur fjármögnun frá fyrirtækinu og samstæðu þess undir viðmiðunarmörkum samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007.
 7. Minnihlutafjárfestir: Fjárfestir sem á minna en 50% af hlutafé í viðskiptabanka enda sé ekki um að ræða að hlutafjáreign fjárfestisins teljist vera virkur eignar­hlutur samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.
 8. Nauðsynleg stöðug fjármögnun: Nauðsynleg stöðug fjármögnun (e. required stable funding) viðskiptabanka er fundin með því að flokka eignir viðkomandi viðskiptabanka, sbr. ákvæði IV. kafla og margfalda fjárhæð eigna í hverjum flokki með viðeigandi vægi skv. 14.-22. gr. reglna þessara. Heildarfjárhæð nauð­syn­legrar stöðugrar fjármögnunar er summa hinna vegnu fjárhæða, að við­bættum fjárhæðum eigna viðskiptabankans utan efnahagsreiknings, marg­föld­uðum með viðeigandi vægi skv. 23. gr. reglna þessara.
 9. Opinbert fyrirtæki og stofnanir: Með opinberum fyrirtækjum og stofnunum í reglum þessum er átt við fyrirtæki og stofnanir sem eru að öllu leyti í eigu ríkis eða sveitarfélaga eða samsvarandi stjórnvalda í öðrum löndum eða eru undir stjórn áðurnefndra aðila og eru rekin með öðrum markmiðum en að hámarka hagnað (e. non-commercial).
 10. Raunverulegt eignarhald: Yfirráð eða eignarhald þess aðila sem nýtur efna­hags­legs ávinnings eða ber efnahagslega áhættu af fjármálagerningi eða fjár­muna­eign, annars en vörsluaðila.
 11. Samstæða viðskiptabanka: Með samstæðu viðskiptabanka er átt við móðurfélag, sem er viðskiptabanki, og dótturfélag eða dótturfélög þess, sbr. 7. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006.
 12. Tiltæk stöðug fjármögnun: Tiltæk stöðug fjármögnun (e. available stable funding) er fundin með því að flokka eigið fé og skuldir viðkomandi lánastofnunar, sbr. ákvæði III. kafla og margfalda bókfært virði eigin fjár og skulda í hverjum flokki með viðeigandi vægi skv. 6.-11. gr. Heildarfjárhæð tiltækrar stöðugrar fjár­mögn­unar er summa hinna vegnu fjárhæða.
 13. Veðsettar eignir: Með veðsettum eignum er í reglum þessum átt við eignir sem eru veðsettar eða bundnar hvers kyns öðrum kvöðum (e. encumbered).
 14. Viðskiptabanki: Fjármálafyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.

II. KAFLI

Fjármögnunarhlutfall.

3. gr.

Fjármögnunarhlutfall.

Fjármögnunarhlutfall skal reiknað greint niður í íslenskar krónur, erlenda gjaldmiðla og samanlagt. Eignir og skuldbindingar skulu flokkaðar eftir eftirstöðvatíma á neðangreind sex tímabil eins og fram kemur í 6. gr. og 13. gr. reglna þessara:

 1. Eignir og skuldbindingar með eftirstöðvatíma allt að þremur mánuðum.
 2. Eignir og skuldbindingar með eftirstöðvatíma frá þremur til sex mánaða.
 3. Eignir og skuldbindingar með eftirstöðvatíma sex til níu mánaða.
 4. Eignir og skuldbindingar með eftirstöðvatíma níu til tólf mánaða.
 5. Eignir og skuldbindingar með eftirstöðvatíma frá tólf til þrjátíu og sex mánaða.
 6. Eignir og skuldbindingar með eftirstöðvatíma lengri en þrjátíu og sex mánuði.

Fjármögnunarhlutfall eins og það er skilgreint í reglum þessum skal reiknað mánaðarlega á grundvelli upplýsinga í lok hvers mánaðar samkvæmt sérstökum skýrslum sem skilað er til Seðlabankans, sbr. nánar 24. gr.

4. gr.

Lágmark fjármögnunarhlutfalla.

Fjármögnunarhlutfall viðskiptabanka í erlendum gjaldmiðlum, reiknað með vægi miðað við álag til eins árs samkvæmt reglum þessum, að teknu tilliti til gjaldeyrisjafnaðar, sbr. 4. mgr. þessarar greinar, skal á hverjum tíma eigi vera lægra en 1.

Auk fjármögnunarhlutfalls samkvæmt 1. mgr., skal reikna fjármögnunarhlutfall í íslensk­um krónum og samanlagt. Einnig skal reikna fjármögnunarhlutfall í erlendum gjald­miðlum miðað við álag til þriggja ára í samræmi við skýrslur eins og nánar er til­greint í leiðbeiningum, sbr. 28. gr. Seðlabankinn lítur til þróunar þessara hlutfalla við mat á áhættu í fjármögnun viðskiptabanka.

Telji Seðlabankinn fjármögnunaráhættu eða gjalddagamisræmi eigna og skulda við­skipta­banka gefa tilefni til, getur hann aukið við þær kröfur sem gerðar eru í 1. mgr. varð­andi fjármögnunarhlutfall, með því að breyta vægi einstakra liða til útreiknings á tiltækri og/eða nauðsynlegri fjármögnun eða hækka leyfilegt lágmark fjár­mögn­unar­hlutfalls upp fyrir það sem tilgreint er í 1. mgr. Seðlabankinn skal gefa viðskipta­banka skriflegan rökstuðning fyrir slíkum breytingum.

Viðskiptabanki skal færa allar fjárhæðir í milljónum íslenskra króna en greint niður á íslenskar krónur og erlenda gjaldmiðla. Við útreikning skal umreikna fjárhæðir miðað við miðgengi íslensku krónunnar samkvæmt síðustu opinberu gengisskráningu Seðlabankans í viðkomandi mánuði. Allar fjárhæðir eru færðar án vægis. Við útreikning skal taka tillit til gjaldeyrisjafnaðar samkvæmt reglum Seðlabankans nr. 950/2010, um gjaldeyrisjöfnuð. Fjárhæð eigna umfram skuldir í erlendum gjaldmiðlum skal draga frá nauðsynlegri stöðugri fjármögnun en fjárhæð skulda umfram eignir í erlendum gjaldmiðlum skal draga frá tiltækri stöðugri fjármögnun.

Komi til þess að viðskiptabanki sé, eða fyrirsjáanlegt er að hann verði innan næstu sex mánaða undir því lágmarki sem sett er í 1. mgr. einnig að teknu tilliti til 3. mgr. þessarar greinar, skal hann án tafar tilkynna Seðlabankanum um það með skriflegum hætti þar sem ástæður þess eru tilgreindar með fullnægjandi hætti. Viðkomandi viðskiptabanki skal enn fremur leggja fram tímasetta áætlun um hvernig hann hyggst ná því lágmarki fjármögnunarhlutfalls sem sett er í 1. mgr. þessarar greinar.

III. KAFLI

Tiltæk stöðug fjármögnun.

5. gr.

Almennt.

Viðskiptabanki skal færa eigið fé og skuldaliði í skýrslur um tiltæka stöðuga fjármögnun eins og nánar er tilgreint í leiðbeiningum sem gefnar verða út með reglum þessum, sbr. 28. gr. Eigið fé og skuldir skulu færðar á bókfærðu virði.

6. gr.

Eftirstöðvatími eigin fjár og skulda.

Við flokkun eigin fjár og skulda eftir eftirstöðvatíma til gjalddaga skal gera ráð fyrir því að fjárfestar og lánardrottnar nýti allan rétt til gjaldfellingar við fyrsta mögulega tækifæri. Hafi bankinn valrétt tengdan fjármögnun, skal bankinn gera ráð fyrir fyrsta mögulega gjalddaga nema bankinn geti sýnt Seðlabanka Íslands fram á það með rökstuddum hætti að bankinn muni ekki nýta sér rétt til uppgreiðslu, nýti rétt til framlengingar fjár­mögn­unar eða nýti á annan hátt rétt til að seinka gjalddaga miðað við fyrsta mögu­lega gjalddaga.

Fyrir langtímaskuldir skal aðeins flokka þann hluta afborgana sem er á gjalddaga eftir sex mánuði eða síðar sem fjármögnun með sex mánaða eftirstöðvatíma eða lengri.

Fyrir langtímaskuldir skal aðeins flokka þann hluta afborgana sem er á gjalddaga eftir tólf mánuði eða síðar sem fjármögnun með tólf mánaða eftirstöðvatíma eða lengri.

7. gr.

Skuldir og eigið fé með fullt vægi.

Skuldir og eigið fé sem hafa 100% vægi sem tiltæk stöðug fjármögnun eru eftirfarandi:

 1. Eiginfjárgrunnur skv. 84. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, fyrir frádrátt skv. 85. gr. sömu laga, en að frádregnum þeim hluta eiginfjárþáttar B (Tier 2) sem hefur eftirstöðvatíma til gjalddaga styttri en 1 ár.
 2. Öll fjárhæð annarra eiginfjárliða sem ekki eru innifaldir í 1. tl. 7. gr. reglna þessara, sem hafa eftirstöðvatíma til eindaga 1 ár eða meira, fyrir utan liði þar sem heimilt er að stytta væntan eftirstöðvatíma niður í minna en 1 ár.
 3. Öll fjárhæð veðtryggðrar og óveðtryggðrar lántöku og skuldbindinga, þar á meðal bundinna innlána, með eftirstöðvatíma til eindaga 1 ár eða meira. Afborganir sem ráðgerðar eru innan 1 árs af skuldbindingum með lengri eftirstöðvatíma en 1 ár skulu þó færðar á viðeigandi tímabil innan árs og fá minna vægi samkvæmt því.

8. gr.

Skuldir með 95% vægi.

Óbundin og bundin innlán einstaklinga og lítilla og meðalstórra fyrirtækja með binditíma undir 1 ári, sem teljast stöðug skv. 1. og 3. tl. 3. mgr. 9. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 1031/2014, um lausafjárhlutfall o.fl., hafa 95% vægi sem tiltæk stöðug fjármögnun.

9. gr.

Skuldir með 90% vægi.

Óbundin og bundin innlán einstaklinga og lítilla og meðalstórra fyrirtækja með skemmri binditíma en 1 ár, sem falla undir 2. og 4. tl. 3. mgr. 9. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 1031/2014, um lausafjárhlutfall o.fl. hafa 90% vægi sem tiltæk stöðug fjármögnun.

Geti viðskiptabanki ekki greint innlán samkvæmt skilyrðum 1. og 3. tl. 3. mgr. 9. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 1031/2014, um lausafjárhlutfall o.fl., skal flokka öll innlán einstaklinga og lítilla og meðalstórra fyrirtækja með 90% vægi. Viðskiptabanki skal árlega gera Seðlabankanum skriflega grein fyrir skilgreiningum og forsendum að baki flokkunar innlána á milli 8. og 9. gr. og í hvert sinn sem breyting verður á þessum skil­greiningum og forsendum.

10. gr.

Skuldir með 50% vægi.

Skuldbindingar sem hafa 50% vægi sem tiltæk stöðug fjármögnun eru eftirfarandi:

 1. Fjármögnun, bæði tryggð og ótryggð, með skemmri eftirstöðvatíma en 1 ár, frá öðrum en aðilum í fjármálastarfsemi.
 2. Innlán sem samþykkt hafa verið af Seðlabanka Íslands sem innlán lögaðila í rekstrarsambandi við viðskiptabankann, skv. 5. tl. 3. mgr. 9. gr. reglna Seðla­banka Íslands nr. 1031/2014, um lausafjárhlutfall o.fl.
 3. Fjármögnun frá ríki, sveitarfélögum, opinberum fyrirtækjum og alþjóðlegum þróunarbönkum, með eftirstöðvatíma undir 1 ári.
 4. Tekjuskattsskuldbinding eða önnur skattfrestun og hlutafé frá minnihlutafjárfestum með mögulegan tíma til eindaga frá 6 mánuðum og allt að 1 ári.
 5. Önnur fjármögnun, bæði með og án trygginga, sem hvorki fellur undir 1.-4. tl. né 7.-9. gr. reglna þessara, með eftirstöðvatíma frá 6 mánuðum og allt að 1 ári, þar á meðal frá seðlabanka og aðilum í fjármálastarfsemi.

11. gr.

Skuldir með 0% vægi.

Skuldbindingar sem hafa 0% vægi sem tiltæk stöðug fjármögnun eru eftirfarandi:

 1. Allir aðrir flokkar eigin fjár og skuldbindinga sem ekki falla undir 7.-10. gr. reglna þessara, þar á meðal önnur fjármögnun með eftirstöðvatíma til gjalddaga skemmri en 6 mánuði frá seðlabanka eða aðilum í fjármálastarfsemi.
 2. Aðrar skuldbindingar án tilgreinds gjalddaga, þar á meðal skortstöður og gjald­fellanlegar skuldbindingar en þó ekki tekjuskattsskuldbinding eða önnur skatt­frestun og hlutafé frá minnihlutafjárfestum (e. minority interest) með mögu­legan tíma til eindaga lengri en 6 mánuði.
 3. Nettóafleiðuskuldbindingar, ef afleiðuskuldbindingar eru umfram afleiðueignir.

IV. KAFLI

Nauðsynleg stöðug fjármögnun.

12. gr.

Almennt.

Viðskiptabanki skal færa eignaliði í skýrslur eins og nánar er tilgreint í leiðbeiningum sem Seðlabankinn gefur út, sbr. 28. gr. reglna þessara.

Eignir skulu færðar á bókfærðu virði og fá viðeigandi vægi, byggt á eftirstöðvatíma þeirra og lausafjárvirði (e. liquidity value).

13. gr.

Eftirstöðvatími eigna.

Þegar eftirstöðvatími eigna er ákvarðaður, skal gert ráð fyrir að skuldarar nýti allan rétt sinn til að fresta gjalddögum og framlengja eftirstöðvatíma eigna viðskiptabankans.

Viðskiptabanka er heimilt að færa þann hluta útlána sem greiðast skal innan þriggja ára á viðeigandi tímabil innan þriggja ára.

14. gr.

Vægi eigna sem eru veðsettar eða bundnar hvers kyns kvöðum.

Eignir á efnahagsreikningi sem eru veðsettar til 1 árs eða lengur hafa 100% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar.

Eignir veðsettar til 6 mánaða eða lengur, en skemur en 1 árs sem hefðu, ef þær væru óveðsettar, minna en 50% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar, fá 50% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar.

Eignir veðsettar til 6 mánaða eða lengur, en skemur en 1 árs sem hefðu, ef þær væru óveðsettar, meira en 50% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar, halda sama vægi og ef þær væru óveðsettar.

Eignir veðsettar til skemmri tíma en 6 mánaða hafa sama vægi til nauðsynlegrar stöð­ugrar fjármögnunar eins og sambærilegar óveðsettar eignir.

15. gr.

Um verðbréfaviðskipti og raunverulegt eignarhald.

Við útreikning nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar skal viðskiptabanki undanskilja verðbréf sem hann hefur að láni í verðbréfaviðskiptum, svo sem öfugum endurhverfum viðskiptum eða samkvæmt ákvæðum skiptasamninga, þegar hann hefur ekki raun­veru­legt eignarhald á þeim. Viðskiptabanki skal heldur ekki telja með nein þau verð­bréf sem hann hefur fengið til sín með skiptasamningi, komi þau ekki fram á efna­hags­reikningi hans.

Við útreikning nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar skal viðskiptabanki taka með í reikninginn verðbréf sem hann hefur lánað frá sér eða veðsett í verðbréfaviðskiptum, þegar hann heldur raunverulegu eignarhaldi yfir þeim. Skal viðskiptabankinn þá fá þeim eignum viðeigandi vægi, samkvæmt 16.-23. gr. reglna þessara.

16. gr.

Eignir með 0% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar.

Eftirfarandi eignir hafa 0% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar:

 1. Sjóður.
 2. Öll innlán hjá seðlabönkum.
 3. Öll óveðsett lán til eftirlitsskyldra banka og sparisjóða, sbr. 1. tl. 1. mgr. 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, með eftirstöðvatíma skemmri en 6 mánuði.

17. gr.

Eignir með 5% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar.

Óveðsettar lausafjáreignir af stigi 1, skv. 2. mgr. 6. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 1031/2014, um lausafjárhlutfall o.fl., sem ekki falla undir 16. gr. reglna þessara fá 5% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar.

18. gr.

Eignir með 15% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar.

Óveðsettar lausafjáreignir af stigi 2A, sbr. 3. mgr. 6. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 1031/2014, um lausafjárhlutfall o.fl., fá 15% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjár­mögn­unar.

19. gr.

Eignir með 50% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar.

Eftirfarandi eignir hafa 50% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar:

 1. Óveðsettar lausafjáreignir af stigi 2B, sem hafa 50% vægi eða meira, sbr. 4. mgr. 6. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 1031/2014, um lausafjárhlutfall o.fl.
 2. Lausafjáreignir með 50% vægi eða meira, sbr. 6. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 1031/2014, um lausafjárhlutfall o.fl., veðsettar til 6 mánaða eða lengur en skemur en til 1 árs.
 3. Öll lán til eftirlitsskyldra banka og sparisjóða, sbr. 1. tl. 1. mgr. 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, með eftirstöðvatíma 6 mánuði eða lengri og skemmri en 1 ár.
 4. Innlán hjá öðrum fjármálastofnunum sem viðskiptabankinn er í rekstrarsambandi við, vegna rekstrarþáttar starfsemi hans og samþykkt hafa verið sem innlán í rekstrarlegum tilgangi samkvæmt 5. tl. 3. mgr. 9. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 1031/2014, um lausafjárhlutfall o.fl., og 18. gr. sömu reglna.
 5. Allar aðrar eignir sem ekki teljast lausafjáreignir skv. 6. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 1031/2014, um lausafjárhlutfall o.fl., sem hafa skemmri eftir­stöðva­tíma en 1 ár, þar með talin lán til fyrirtækja, smásölulán til einstaklinga, lán til ríkja, sveitarfélaga, alþjóðlegra þróunarbanka, seðlabanka og opinberra fyrir­tækja.

20. gr.

Eignir með 65% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar.

Eftirfarandi eignir hafa 65% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar:

 1. Óveðsett húsnæðisveðlán með eftirstöðvatíma lengri en 1 ár, sem fullnægja skil­yrðum fyrir 35% eða lægri áhættuvog, samkvæmt staðalaðferð í V. kafla reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007, um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjár­mála­fyrirtækja.
 2. Önnur óveðsett lán sem ekki falla undir 16.-19. gr. reglna þessara, með eftir­stöðva­tíma 1 ár eða lengri, sem fullnægja skilyrðum fyrir 35% eða lægri áhættu­vog samkvæmt staðalaðferð í V. kafla reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007, um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, að frátöldum lánum til fjár­mála­fyrirtækja.

21. gr.

Eignir með 85% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar.

Eftirfarandi eignir hafa 85% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar:

 1. Önnur óveðsett lán í skilum með eftirstöðvatíma 1 ár eða lengri, með áhættuvog hærri en 35% samkvæmt staðalaðferð í V. kafla reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, að frátöldum lánum til fjármálafyrirtækja.
 2. Óveðsett verðbréf sem eru í skilum, en teljast ekki lausafjáreignir skv. 6. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 1031/2014, um lausafjárhlutfall o.fl., þar með talin hlutabréf skráð í kauphöll.
 3. Hrávörur, þar á meðal gull.

22. gr.

Eignir með fullt vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar.

Eftirfarandi eignir hafa 100% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar:

 1. Allar eignir sem veðsettar eru til 1 árs eða lengur.
 2. Hrein afleiðueign ef afleiðueignir eru meiri en afleiðuskuldbindingar.
 3. Allar aðrar eignir sem ekki falla undir ákvæði 16.-21. gr., þar með talin lán og verðbréf í vanskilum, lán til fjármálafyrirtækja með eftirstöðvatíma til gjalddaga 1 ár eða lengri, óskráð hlutabréf, fasteignir, lífeyriseignir, óefnislegar eignir, skatta­skuldbindingar og tryggingareignir.

23. gr.

Eignir utan efnahagsreiknings.

Eftirfarandi eignir utan efnahagsreiknings hafa 5% vægi til nauðsynlegrar stöðugrar fjár­mögnunar:

 1. Sá hluti óafturkallanlegrar lána- og lausafjárfyrirgreiðslu sem er ónýttur eða óádreg­inn.
 2. Sá hluti afturkallanlegrar lána- og lausafjárfyrirgreiðslu sem er ónýttur eða óádreg­inn, þegar afturköllunin er háð skilyrðum.

Eftirfarandi eignir hafa 0% vægi:

 1. Lána- og lausafjárfyrirgreiðsla sem viðskiptabanki getur afturkallað skilyrðislaust.
 2. Skuldbindingar vegna sölutrygginga og annarrar þjónustu við lögaðila vegna við­skipta með vöru og þjónustu, þar með taldar ábyrgðir.
 3. Aðrar ábyrgðir en þær sem taldar eru í 2. tl.
 4. Ósamningsbundnar skuldbindingar, svo sem:
  1. Mögulegar beiðnir um endurkaup á eigin skuldbindingum bankans eða tengdra miðlunarsjóða, eininga um sérverkefni á sviði verðbréfunar og annarra slíkra fjármögnunareininga.
  2. Fjármálagerningar þar sem viðskiptavinir vænta þess að markaðshæfi sé til staðar, svo sem skuldabréf með einhvers konar vaxtaaðlögun.
  3. Stýrðir sjóðir sem markaðssettir eru með því markmiði að halda stöðugu virði.
 5. Allar aðrar skuldbindingar utan efnahags sem hvorki eru taldar í 1. mgr. né 1.-4. tl.

V. KAFLI

Skýrsluskil, upplýsingar, viðurlög, leiðbeiningar og gildistaka.

24. gr.

Skýrsluskil.

Skýrslum um tiltæka og nauðsynlega stöðuga fjármögnun til grundvallar útreiknings fjármögnunarhlutfalls skv. 3. tl. 2. gr. reglna þessara, skal skilað til Seðlabankans eigi síðar en tíunda dag hvers mánaðar vegna móðurfélags en eigi síðar en tuttugasta dag hvers mánaðar vegna samstæðu viðskiptabanka. Ef skiladag ber upp á helgar- eða frídag skal skila næsta virka dag á eftir.

Innri endurskoðandi viðskiptabanka skal yfirfara aðferðir við skýrslugerð stöðugrar fjár­mögnunar að minnsta kosti einu sinni á ári og senda Seðlabankanum skriflega yfir­lýsingu þar um.

25. gr.

Upplýsingar.

Skylt er, að viðlögðum viðurlögum, sbr. 26. gr. reglna þessara, að láta Seðlabankanum í té allar upplýsingar og gögn sem bankinn telur nauðsynleg til að framfylgja reglum þessum.

26. gr.

Dagsektir.

Nái fjármögnunarhlutföll viðskiptabanka ekki því lágmarki sem sett er í 1. mgr. 4. gr. reglna þessara er heimilt að beita dagsektum á þær fjárhæðir sem á vantar samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands um beitingu viðurlaga í formi dagsekta, nú reglur nr. 389/2002.

Seðlabankanum er heimilt að beita dagsektum við vanrækslu á skýrsluskilum samkvæmt 24. gr. reglna þessara á grundvelli reglna um beitingu viðurlaga í formi dagsekta, nú reglur nr. 389/2002.

Vanræki viðskiptabanki að afhenda Seðlabankanum þær upplýsingar og gögn sem bank­inn telur nauðsynleg til að framfylgja reglum þessum, sbr. 25. gr., er heimilt að beita dagsektum samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands um beitingu viðurlaga í formi dag­sekta, nú reglur nr. 389/2002.

Um ákvörðun dagsekta, kæruheimild og innheimtu gilda ákvæði 6., 7. og 8. gr. reglna Seðlabanka Íslands um beitingu viðurlaga í formi dagsekta, nú reglur nr. 389/2002, eftir því sem við getur átt, og um skuldfærslu dagsekta á hlutaðeigandi aðila gildir 5. mgr. 26. gr. eftir því sem við getur átt.

Seðlabankanum er heimilt að skuldfæra reiknuð viðurlög á viðskiptareikning viðkomandi viðskiptabanka hjá Seðlabankanum að liðnum a.m.k. sjö dögum frá því að ákvörðun um dagsektir var kynnt aðila.

27. gr.

Tímabundin heimild varðandi samstæður viðskiptabanka.

Seðlabankinn getur veitt viðskiptabanka tímabundna heimild til að undanskilja til­tekið/tiltekin dótturfélag/-félög frá samstæðuskilum enda sýni móðurfélag í samstæðu við­skipta­banka fram á, með fullnægjandi hætti að mati Seðlabankans, að dótturfélag/-félög hafi lítil áhrif á fjármögnunarhlutfall og lausafjáráhættu og/eða gjalddagamisræmi eigna og skulda samstæðunnar. Móðurfélag skal leggja til grundvallar skriflegri umsókn sinni rökstuddar ástæður þess að heimila skuli samstæðu viðskiptabanka að undanskilja til­tekið/tiltekin dótturfélag/-félög frá samstæðuskilum.

28. gr.

Leiðbeiningar.

Seðlabankinn gefur út leiðbeiningar um nánari framkvæmd reglna þessara.

29. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, sbr. 29. og 37. gr. sömu laga, taka gildi 1. desember 2014.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Til aðlögunar að reglum þessum skal lágmark fjármögnunarhlutfalls viðskiptabanka, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglna þessara, sbr. einnig 1. tl. 2. mgr. 3. gr. reglna þessara, vera með eftirfarandi hætti fram til 1. janúar 2017:

 1. Frá gildistöku reglna þessara til og með 31. desember 2015 skal fjár­mögn­unar­hlutfall viðskiptabanka í erlendum gjaldmiðlum eigi vera lægra en 0,8.
 2. Frá 1. janúar 2016 til og með 31. desember sama ár skal fjármögnunarhlutfall viðskiptabanka í erlendum gjaldmiðlum eigi vera lægra en 0,9.
 3. Frá 1. janúar 2017 skal fjármögnunarhlutfall viðskiptabanka í erlendum gjald­miðlum eigi vera lægra en 1.

Bráðabirgðaákvæði þetta fellur úr gildi þann 1. janúar 2017 en frá og með þeim degi skal lágmark fjármögnunarhlutfalls viðskiptabanka vera í samræmi við 1. mgr. 4. gr. reglna þessara, sbr. 5. tl. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis þessa.

Reykjavík, 26. nóvember 2014.

Seðlabanki Íslands,

 

Már Guðmundsson
seðlabankastjóri.

Sigríður Benediktsdóttir framkvæmdastjóri.

B deild - Útgáfud.: 28. nóvember 2014