Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 515/2021

Nr. 515/2021 26. apríl 2021

REGLUR
um framkvæmd námskeiða til löggildingar vigtarmanna.

1. gr.

Prófnefnd vigtarmanna starfar samkvæmt 24. gr. laga um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, nr. 91/2006, og skal nefndin setja reglur sem kveða nánar á um framkvæmd námskeiða, svo sem lágmarksárangur til að standast próf, lágmarksþátttakendafjölda á námskeiði og önnur atriði sem varða framkvæmd námskeiða og prófa.

 

2. gr.

Skilyrði sem þarf að uppfylla til að geta hlotið löggildingu, endurlöggildingu eða bráðabirgða­löggildingu er að finna í 23. gr. laga nr. 91/2006.

Próf til löggildingar og endurlöggildingar eru framkvæmd í tveimur hlutum, annars vegar í þeim hluta námsefnis sem fellur undir málefnasvið Neytendastofu og í þeim hluta námsefnis sem fellur undir málefnasvið Fiskistofu.

 

3. gr.

Kröfur eru gerðar um íslenskukunnáttu vigtarmanna, bæði í lestri og ritun, sbr. 5. gr. reglu­gerðar nr. 441/2010 um vigtarnámskeið. Öll kennsla á námskeiðunum fer fram á íslensku og spurn­ingum á prófum skal svarað á íslensku.

Próftaka er heimilt að hafa með sér öll gögn sem liggja fyrir á námskeiðinu og fletta upp þeim upplýsingum sem hann þarf við úrlausn prófsins.

Framkvæmdaaðilum prófa er heimilt að lesa spurningar á prófinu fyrir próftaka vegna lesblindu, annarra námsörðugleika eða ef próftaki hefur ekki íslensku að móðurmáli. Uppfletting svara og ritun prófs er að fullu á ábyrgð próftaka og framkvæmdaaðilum óheimilt að veita meiri aðstoð en við lestur spurninga.

Óheimilt er að veita þátttakendum utanaðkomandi aðstoð við próftöku.

 

4. gr.

Almenn námskeið og endurmenntunarnámskeið skulu haldin í Reykjavík.

Heimilt er að senda námskeið út með fjarfundarbúnaði. Þátttakandi greiðir sjálfur þann kostnað sem kann að falla til vegna þátttöku í fjarfundarbúnaði.

Leitast skal við að hafa námskeið eins hagkvæm og unnt er.

 

5. gr.

Neytendastofu er heimilt að fella niður námskeið ef þátttaka telst ekki nægjanleg.

 

6. gr.

Neytendastofa framkvæmir þann prófhluta sem varða lög og reglugerðir á málefnasviði Neyt­enda­stofu.

Fiskistofa framkvæmir þann prófhluta sem varðar lög og reglugerðir á málefnasviði Fiskistofu.

Bæði Neytendastofa og Fiskistofa geta gert samkomulag við aðra aðila um að hýsa og halda utan um sjálfa próftökuna, svo sem þegar námskeið og próftaka fer fram í gegnum fjarfundarbúnað, enda sé ákveðnum grunnskilyrðum fullnægt varðandi framkvæmd námskeiða og prófa og fylgt sé leiðbeiningum stofnananna um framkvæmdina þar sem m.a. eru settar fram kröfur til framkvæmda­­aðilans um leiðbeiningar vegna fjarfundarbúnaðar, upplýsingar um mætingu próftaka og fleira.

 

7. gr.

Lágmarksárangur á prófi skal vera 60% fyrir hvern prófhluta, þ.e. hluta Neytendastofu og hluta Fiskistofu.

 

8. gr.

Þátttakandi á námskeiði sem ekki unir niðurstöðu próflausnar sinnar skal hafa rétt til endur­skoðunar próflausnarinnar. Skal hann bera fram mótmæli sín eigi síðar en sjö dögum eftir birtingu einkunna.

 

9. gr.

Í lok hvers námskeiðs skal gera námsmat þar sem þátttakendum er gefinn kostur á að svara ákveðnum spurningum og gefa þeim vægi ásamt því að hafa möguleika á að gera athugasemdir við framkvæmd námskeiðsins og annað.

 

10. gr.

Reglur þessar, sem eru settar samkvæmt heimild í lögum nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn öðlast þegar gildi.

 

F.h. prófnefndar vigtarmanna, 26. apríl 2021,

 

Brynhildur Pálmarsdóttir formaður.


B deild - Útgáfud.: 10. maí 2021