Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1000/2020

Nr. 1000/2020 30. september 2020

REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð nr. 1106/2015, um vöruval, innkaup og dreifingu ÁTVR á áfengi, með síðari breytingum.

1. gr.

Orðin „án sérstakrar tilkynningar“ í 5. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar falla brott.

 

2. gr.

12. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Umsókn birgis um sölu á vöru sem þá þegar er í gildi vörukaupasamningur um á milli ÁTVR og annars birgis, sbr. 10. gr. reglugerðar þessarar, nefnist verðboð. Um verðboð gilda almennar reglur í reglugerð þessari, þ.m.t. ákvæði 7. gr. reglugerðarinnar, nema annað sé sérstaklega tekið fram.

ÁTVR skal hafna verðboði ef:

  1. verðboð í vöruna hefur verið samþykkt á síðastliðnum sjö mánuðum,
  2. verðboði í vöruna hefur verið hafnað á grundvelli 7. eða 8. mgr. á síðastliðnum sjö mán­uðum,
  3. ástæða er til að ætla að umsækjandi muni ekki efna vörukaupasamning um vöruna,
  4. atvik eru eins og mælt er fyrir um í 7. eða 8. mgr.

ÁTVR skal tilkynna handhafa vörukaupasamnings um framkomið verðboð svo fljótt sem verða má.

Uppfylli verðboð almenn skilyrði reglugerðar þessarar og höfnunarástæður skv. a-, b- eða c-lið 2. mgr. eiga ekki við þá skal ÁTVR samtímis tilkynningu skv. 3. mgr. gefa handhafa vörukaupa­samn­ings færi á, innan hóflegs tímafrests, að breyta vöruverði skv. gildandi vörukaupasamningi.

Bæði boðið verð umsækjanda og breytt verð handhafa vörukaupasamnings skv. 4. mgr. skulu afhent ÁTVR í lokuðu umslagi eða með sambærilegum hætti. ÁTVR skal hvorki upplýst um boðið verð né breytt verð skv. 4. mgr. á meðan á vinnslu verðboðs stendur.

Þegar vinnslu verðboðs er að öðru leyti lokið skal aflétta leynd hins boðna verðs umsækjanda og í framhaldinu, með fyrirvara um lokamálslið 7. mgr., aflétta leynd hins breytta verðs handhafa vöru­kaupasamnings.

ÁTVR skal hafna verðboði ef boðið verð umsækjanda er jafnhátt eða hærra en vöruverð samkvæmt gildandi vörukaupasamningi. Skal þá verðbreyting handhafa vörukaupasamnings skv. 4. mgr. ekki koma til frekari skoðunar og er hún þá ekki bindandi fyrir hann.

ÁTVR skal hafna verðboði, þrátt fyrir að boðið verð umsækjanda sé lægra en vöruverð sam­kvæmt gildandi vörukaupasamningi, ef boðið verð umsækjanda er jafnhátt eða hærra en breytt vöru­verð handhafa vörukaupasamnings skv. 4. mgr. Hið breytta verð handhafa vörukaupasamnings skal taka gildi þremur mánuðum eftir að verðboði er hafnað og er þá óheimilt að hækka verð í fjóra mánuði frá því tímamarki er breytt verð tekur gildi.

ÁTVR skal samþykkja verðboð ef boðið verð umsækjanda er lægra en vöruverð samkvæmt gildandi vörukaupasamningi að teknu tilliti breytts vöruverðs handhafa vörukaupasamnings skv. 4. mgr. ef við á. Skal ÁTVR þá gera nýjan vörukaupasamning við umsækjanda sem tekur gildi að liðnum gildistíma gildandi vörukaupasamnings, sbr. 11. mgr.

Verðákvæði nýs vörukaupasamnings skv. 9. mgr. skal vera í samræmi við boðið verð umsækj­anda og er umsækjanda, þ.e. handhafa nýs vörukaupasamnings, óheimilt að hækka vöruverð í fjóra mánuði frá gildistöku nýja vörukaupasamningsins.

Samhliða samþykki verðboðs skv. 9. mgr. skal ÁTVR segja upp gildandi vörukaupasamningi með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Á uppsagnarfresti er handhafi vörukaupasamnings óbundinn af tilkynningu sinni skv. 4. mgr. um lækkað vöruverð.

 

3. gr.

4. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar fellur brott.

 

4. gr.

3. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar fellur brott.

 

5. gr.

1. mgr. 21. gr. reglugerðarinnar orðast svo, ásamt breyttri fyrirsögn:

Sérpantanir í vefverslun.

Birgjar geta boðið vörur utan vöruúrvals til sérpöntunar í vefverslun ÁTVR.

 

6. gr.

29. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

ÁTVR er heimilt að hafna vöru ef verulega skortir á að hún uppfylli skilyrði laga nr. 93/1995, um matvæli, og/eða stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru á grundvelli laganna.

 

7. gr.

Í stað tölunnar „500“ í 2. málsl. 33. gr. reglugerðarinnar kemur: 50.

 

8. gr.

Orðið „tímabundið“ í 37. gr. reglugerðarinnar fellur brott.

 

9. gr.

42. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Sömu kröfur eru gerðar til sérpantaðrar vöru og til vöru sem tilheyrir vöruúrvali ÁTVR, að frá­töldum skilyrðum 33. gr. reglugerðar þessarar um stærð umbúða, 35. gr. um strikamerki, 38. gr. um vandkvæði við framstillingu vöru í verslun og 39. gr. um takmörkun á vörufjölda.

 

10. gr.

43. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Vegna gæðaeftirlits er ÁTVR ávallt heimilt, á kostnað birgis, að taka sýnishorn vöru úr vöru­birgðum eða kalla eftir sýnishorni frá birgi.

 

11. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 11. gr. laga nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak, öðlast þegar gildi.

 

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 30. september 2020.

 

F. h. r.

Helga Jónsdóttir.

Steinar Örn Steinarsson.


B deild - Útgáfud.: 14. október 2020