Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1064/2023

Nr. 1064/2023 6. október 2023

REGLUR
um úthlutun styrkja úr Vinnuverndarsjóði.

1. gr.

Tilgangur.

Vinnuverndarsjóður er tímabundið samstarfsverkefni félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og Vinnu­eftirlits ríkisins.

Markmið Vinnuverndarsjóðs er að efla rannsóknir á sviði vinnuverndar og stuðla að betri vinnuvernd á íslenskum vinnumarkaði. Tilgangur sjóðsins er að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því markmiði. Við mat á umsóknum skal einkum litið til eftirfarandi:

  1. Rannsókna á tengslum einstakra sjúkdóma við vinnuumhverfi.
  2. Verkefna eða rannsókna sem varpa ljósi á samfélagslegan og efnahagslegan ávinning af vinnuvernd.
  3. Verkefna eða rannsókna á orsökum, tíðni og þróun vinnuslysa í ákveðnum starfsgreinum á innlendum vinnumarkaði.
  4. Verkefna sem ætlað er að hvetja til samfélagslegrar umræðu um mikilvægi vinnuverndar þannig að stuðlað sé að jákvæðri ímynd og viðhorfi almennings til vinnuverndarstarfs.
  5. Verkefna sem ætlað er að efla vitund einstakra hópa á vinnumarkaði um vinnuvernd, svo sem starfsfólks sem skilur ekki íslensku, ungs fólks og starfsfólks er sinnir áhættusömum störfum.
  6. Verkefna eða rannsókna sem stuðla að aukinni þekkingu á mikilvægi góðrar vinnustaða­menningar.
  7. Verkefna sem stuðla að forvörnum gegn neikvæðum samskiptum á vinnustað, svo sem einelti, áreitni og ofbeldi.
  8. Verkefna eða rannsókna sem varpa ljósi á ástæður fyrir fjarveru fólks frá vinnu vegna slæmra vinnuskilyrða.
  9. Verkefna eða rannsókna sem auka vitund almennings um vinnutengda kulnun og hvernig megi fyrirbyggja hana.
  10. Verkefna eða rannsókna sem stuðla að nýsköpun á sviði vinnuverndar.
  11. Verkefna eða rannsókna sem ætlað er að meta og bregðast við áhrifum aukinnar tækni­væðingar á vinnuumhverfið, svo sem í tengslum við störf sem unnin eru með vélum og vél­mennum og einhæf störf.
  12. Verkefna eða rannsókna sem ætlað er að meta áhrif samblands fjarvinnu og vinnu á vinnu­stað á vinnuvernd starfsfólks.

 

2. gr.

Stjórn og skipulag.

Félags- og vinnumarkaðsráðherra skipar sjóðnum stjórn með fulltrúa stjórnvalda, fulltrúa sam­taka launfólks og fulltrúa samtaka atvinnurekenda. Óska skal eftir sameiginlegri tilnefningu frá Alþýðu­sambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna og BSRB annars vegar og sameiginlegri tilnefn­ingu frá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnu­lífsins hins vegar. Fulltrúa stjórnvalda skal skipa án tilnefningar. Ekki er sérstaklega greitt fyrir setu í stjórn sjóðsins.

Stjórn sjóðsins setur sér starfsreglur eftir því sem þurfa þykir og annast mat á umsóknum um styrki úr sjóðnum. Stjórninni er heimilt að leita ráða hjá óháðum sérfræðingum við mat á umsókn um styrk hverju sinni.

Stjórnsýsla sjóðsins, þ.m.t. varsla hans og dagleg umsýsla, er hjá Vinnueftirliti ríkisins.

 

3. gr.

Fjármunir.

Vinnuverndarsjóður hefur 10 m.kr. til umráða á árinu 2023.

Stjórn sjóðsins skal gera greiðsluáætlun fyrir sjóðinn þar sem gerð er grein fyrir kostnaði vegna fjölda styrkveitinga og fjárhæð þeirra sem og kostnaði við að leita til óháðra sérfræðinga þegar ástæða hefur þótt til að leita ráða þeirra við mat á umsókn um styrk.

 

4. gr.

Styrkveitingar.

Stjórn sjóðsins ákveður fjölda styrkveitinga og fjárhæð þeirra. Styrkveitingar skulu að megin­stefnu vera til verkefna eða rannsókna er varða eitthvert þeirra atriða sem talin eru upp í 1. gr. reglna þessara. Einnig skal stjórnin líta til þess sem er markverðast á sviði vinnuverndar hverju sinni og taka mið af þekkingarsköpun og hagnýtingargildi rannsókna og verkefna sem sótt er um styrk til að vinna.

Stjórn sjóðsins skal viðhafa vandaða stjórnsýsluhætti og byggja ákvarðanir sínar á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Gæta skal jafnræðis við mat á umsóknum um styrk úr sjóðnum.

 

5. gr.

Auglýsing um styrkveitingar.

Stjórn Vinnuverndarsjóðs skal auglýsa eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum og skal umsóknar­frestur vera að lágmarki sex vikur.

Í auglýsingu skal tilgreina þær kröfur sem gerðar eru til þeirra verkefna og rannsókna sem hljóta styrki úr sjóðnum og fyrir hvaða tíma umsóknir skuli berast sjóðnum.

 

6. gr.

Styrkhæfi umsókna.

Við mat á styrkhæfi umsókna skal stjórn Vinnuverndarsjóðs leggja mat á gæði rannsóknar- eða verkefnaáætlunar, þ.m.t. markmið og skipulag þeirra, sem og gildi og mikilvægi með hliðsjón af markmiðum og tilgangi sjóðsins skv. 1. gr. Einnig skal koma fram í umsókninni ef framkvæmd rann­sóknar eða verkefnis er háð samþykki annarra stjórnvalda, svo sem Vísindasiðanefndar. Heimilt er að veita styrk með fyrirvara um samþykki annarra stjórnvalda hafi slíks samþykkis ekki verið aflað fyrir fram.

Þegar um er að ræða rannsókn skal meðal annars leggja mat á vísindalegt gildi hennar sem og nýmæli hennar, gildi þekkingarsköpunar og hæfi umsækjanda til verkefnisstjórnunar.

Verkefnastjórar rannsóknarverkefna skulu hafa lokið háskólanámi við alþjóðlegan viður­kenndan háskóla. Sé sótt um styrk til rannsóknar sem hluti af doktorsnámi skal leiðbeinandi vera tilgreindur sem verkefnastjóri.

 

7. gr.

Skyldur þeirra sem fá styrk.

Sá sem hlýtur styrk skal gera grein fyrir framvindu verkefnis eða rannsóknar sem og ráðstöfun fjár eftir nánari ákvörðun stjórnar Vinnuverndarsjóðs. Verði breyting á framvindu verkefnis eða rannsóknar skal upplýsa stjórn um það skriflega án ástæðulausrar tafar. Stjórnin tekur þá afstöðu til þess hvort breyting á framvindu hafi áhrif á styrkveitingu þess verkefnisins eða rannsóknar sem um ræðir hverju sinni.

Verði misbrestur á eða önnur skilyrði stjórnar fyrir styrkveitingu eru ekki uppfyllt getur stjórn sjóðsins farið fram á endurgreiðslu þess styrks sem veittur hefur verið.

Styrkur fellur niður sé hans ekki vitjað innan árs frá dagsetningu tilkynningar um veitingu hans.

Niðurstöður verkefna eða rannsókna sem hlotið hafa styrk samkvæmt reglum þessum skulu birtar almenningi samkvæmt nánari fyrirmælum stjórnar Vinnuverndarsjóðs.

 

8. gr.

Meðferð umsókna.

Fara skal með allar umsóknir um styrk úr vinnuverndarsjóði sem trúnaðarmál.

Öllum umsóknum um styrk úr Vinnuverndarsjóði skal svarað skriflega.

 

9. gr.

Reikningar og endurskoðun.

Vinnueftirlit ríkisins annast vörslu Vinnuverndarsjóðs og er reikningsár hans almanaksárið. Ríkis­endurskoðun endurskoðar reikninga sjóðsins.

 

10. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar taka þegar gildi.

 

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, 6. október 2023.

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Gissur Pétursson.


B deild - Útgáfud.: 9. október 2023