Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 730/2012

Nr. 730/2012 9. júlí 2012
REGLUGERÐ
um viðurkenningu þjónustuaðila og sérfræðinga sem veita atvinnurekendum þjónustu við gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum.

I. KAFLI

Gildissvið, markmið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins á þjónustuaðilum sem veita atvinnurekendum þjónustu við gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum, sbr. 65. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Jafnframt gildir reglugerð þessi um viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins á sérfræðingum, sbr. 66. gr. a sömu laga.

2. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að því að viðurkenndir þjónustuaðilar og viðurkenndir sérfræðingar hafi nauðsynlega færni til að sinna starfi sínu á grundvelli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, í því skyni að tryggja eins og frekast er unnt gæði þeirrar þjónustu sem þeir veita atvinnu­rekendum.

3. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

 1. Atvinnurekandi: Hver sá sem rekur atvinnustarfsemi. Framkvæmdastjóri fyrir­tækis telst atvinnurekandi eða ef um opinberan rekstur er að ræða, sá er hefur umsjón með starfseminni. Sé starfsemi rekin af tveimur einstaklingum eða fleiri í sameiningu telst einungis einn þeirra atvinnurekandi, enda sé hann tilkynntur sem slíkur til Vinnueftirlits ríkisins, en hinn/hinir starfsmenn.
 2. Áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað: Skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem meðal annars felur í sér mat á áhættu, sbr. 65. gr. a laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og áætlun um heilsuvernd, sbr. 66. gr. sömu laga.
 3. Fullnægjandi þekking: Sérfræðiþekking sem felur í sér háskóla-, iðn-, eða tæknimenntun sem viðurkennd er hér á landi á tilteknum sérsviðum.
 4. Fyrirtæki: Allir þeir sem reka starfsemi, hvort sem um er að ræða stofnanir, félagasamtök, einstaklinga eða aðra aðila. Um einstaklinga gildir einu, hvort þeir vinna einir eða hafa aðra í þjónustu sinni.
 5. Viðurkenndur sérfræðingur: Einstaklingur sem Vinnueftirlit ríkisins hefur viður­kennt á grundvelli reglugerðar þessarar að hafi fullnægjandi þekkingu á tilteknu sérsviði þannig að hann getur starfað hjá þjónustuaðila eða gert samninga við þjón­ustu­aðila um að hann verði undirverktaki við veitingu þjónustu við gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum.
 6. Viðurkenndur þjónustuaðili: Fyrirtæki sem Vinnueftirlit ríkisins hefur viðurkennt á grundvelli reglugerðar þessarar til að veita atvinnurekendum þjónustu við gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum.
 7. Vinnustaður: Umhverfi innanhúss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna.
 8. Heildstæð þjónusta: Þjónusta við gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnu­stöðum án takmarkana við tiltekna tegund starfsemi.
 9. Takmörkuð þjónusta: Þjónusta við gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnu­stöðum sem er takmörkuð við eina eða fleiri tegundir starfsemi.

II. KAFLI

Skilyrði viðurkenningar þjónustuaðila og viðurkenningar sérfræðinga.

4. gr.

Skilyrði viðurkenningar þjónustuaðila.

Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að viðurkenna fyrirtæki sem viðurkenndan þjónustuaðila til að veita atvinnurekendum heildstæða þjónustu fullnægi fyrirtækið eftirfarandi skilyrðum:

 1. er að mati Vinnueftirlits ríkisins bært til að veita atvinnurekendum þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum,
 2. hefur ráðið viðurkennda sérfræðinga skv. 5. gr. eða hefur gert samninga við viðurkennda sérfræðinga eða aðra þjónustuaðila skv. 6. gr. þannig að innan fyrir­tækisins sé að mati Vinnueftirlits ríkisins fullnægjandi þekking á heilbrigðis­sviði, í félagsvísindum, á tæknisviði eða öðrum sambærilegum sérsviðum sem nauðsynleg er til að starfsmenn þess séu færir um að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum vegna vinnu­vistfræði­legra þátta, svo sem eðlisfræðilegra, efnafræðilegra, líffræðilegra og sálfræðilegra þátta,
 3. leggi fram lista yfir starfsmenn þess þar sem fram koma upplýsingar um menntun og starfsreynslu þeirra,
 4. leggi fram skriflega samninga, einn eða fleiri, um samstarf við viðurkennda sérfræðinga eða aðra viðurkennda þjónustuaðila um að þeir verði undirverktakar, sbr. 6. gr., hafi slíkir samningar verið gerðir, sbr. b-lið,
 5. gildistími viðurkenningar Vinnueftirlitsins á þeim viðurkenndu þjónustuaðilum eða viðurkenndu sérfræðingum sem um ræðir í d-lið skal vera a.m.k. eitt ár frá því að umsókn viðkomandi fyrirtækis um viðurkenningu sem þjónustuaðili berst Vinnueftirliti ríkisins.

Fyrirtæki sem óskar eftir að Vinnueftirlit ríkisins viðurkenni það sem þjónustuaðila skal veita Vinnueftirlitinu nánari upplýsingar um menntun og starfsreynslu starfsmanna fyrir­tækisins óski stofnunin eftir því enda telji stofnunin viðkomandi gögn nauðsynleg við mat á því hvort umsækjandi uppfylli skilyrði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnu­stöðum, með síðari breytingum, sem og skilyrði reglugerðar þessarar fyrir viður­kenningu sem þjónustuaðili.

Viðurkenning skv. 1. mgr. getur eingöngu átt við um eitt tiltekið fyrirtæki.

Fullnægi fyrirtæki ekki skilyrðum b-liðar 1. mgr. að öllu leyti skal Vinnueftirlit ríkisins takmarka viðurkenningu sína við þá tegund starfsemi sem sérþekking innan fyrirtækisins tekur til og er fyrirtækinu þá einungis heimilt að veita takmarkaða þjónustu. Skal þá skýrt tekið fram til hvaða tegunda starfsemi viðurkenningin tekur en viðurkenningin getur tekið til fleiri en einnar tegundar starfsemi. Hið sama gildir þegar einstaklingur starfar einn í fyrirtæki en hann skal þá einnig vera viðurkenndur sem sérfræðingur skv. 5. gr.

Viðurkenning samkvæmt ákvæði þessu er veitt til allt að fjögurra ára í senn.

5. gr.

Skilyrði viðurkenningar sérfræðings.

Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að viðurkenna einstakling sem sérfræðing, sbr. 66. gr. a laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, hafi hann að mati Vinnueftirlitsins fullnægjandi þekkingu á heilbrigðissviði, í félagsvísindum, á tæknisviði eða öðru sambærilegu sérsviði þannig að hann sé fær um að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum vegna vinnuvistfræðilegra þátta, svo sem eðlisfræðilegra, efnafræðilegra, líffræðilegra eða sálfræðilegra þátta.

Enn fremur er Vinnueftirliti ríkisins í undantekningartilvikum heimilt að viðurkenna ein­stakling sem sérfræðing samkvæmt ákvæði þessu hafi viðkomandi einstaklingur yfir að ráða sérþekkingu sem að mati Vinnueftirlits ríkisins má jafna við þá menntun sem vísað er til í c-lið 3. gr. Vinnueftirlit ríkisins skal óska eftir staðfestingu á sérþekkingu við­kom­andi telji stofnunin slíkt nauðsynlegt. Að öðru leyti gildir ákvæði 1. mgr.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnueftirliti ríkisins þó einungis heimilt að viðurkenna einstakling sem sérfræðing samkvæmt ákvæði þessu hafi viðkomandi einstaklingur lokið námi eða námskeiði um gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum sem Vinnueftirlitið viðurkennir á hverjum tíma.

Einstaklingur sem óskar eftir að Vinnueftirlit ríkisins viðurkenni hann sem sérfræðing skal veita Vinnueftirlitinu nánari upplýsingar um menntun og starfsreynslu sína óski stofnunin eftir því enda telji stofnunin viðkomandi gögn nauðsynleg við mat á því hvort um­sækj­andi uppfylli skilyrði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, sem og skilyrði reglugerðar þessarar fyrir viðurkenningu sem sérfræð­ingur.

Vinnueftirlit ríkisins skal taka skýrt fram til hvaða tegunda starfsemi viðurkenning sam­kvæmt ákvæði þessu tekur en viðurkenningin getur tekið til fleiri en einnar tegundar starf­semi.

Viðurkenning samkvæmt ákvæði þessu er veitt til allt að fjögurra ára í senn.

6. gr.

Samstarfssamningur um heildstæða eða takmarkaða þjónustu.

Viðurkenndum þjónustuaðila skv. 4. gr. er heimilt að gera samninga við aðra aðila sem Vinnueftirlit ríkisins hefur viðurkennt sem sérfræðinga skv. 5. gr. eða aðra viðurkennda þjónustuaðila skv. 4. gr. um að þeir verði undirverktakar vegna einstakra þátta við veitingu þjónustu við atvinnurekendur við gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum.

Í samningi skv. 1. mgr. skal koma fram til hvaða vinnuvistfræðilegra þátta samningurinn taki, svo sem eðlisfræðilegra, efnafræðilegra, líffræðilegra eða sálfræðilegra þátta sem og gildistími viðurkenningar Vinnueftirlits ríkisins á umræddum þjónustuaðilum eða sérfræðingum.

7. gr.

Skilyrði endurnýjunar á viðurkenningu þjónustuaðila eða viðurkenningu sérfræðings.

Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að endurnýja viðurkenningu þjónustuaðila eða viður­kenn­ingu sérfræðings þegar hlutaðeigandi uppfyllir áfram skilyrði skv. 4. gr. eða 5. gr. eftir því sem við á.

III. KAFLI

Skyldur viðurkenndra þjónustuaðila, viðurkenndra sérfræðinga og atvinnurekenda.

8. gr.

Skyldur viðurkenndra þjónustuaðila og viðurkenndra sérfræðinga.

Viðurkenndur þjónustuaðili skv. 4. gr. sem gerir samning við atvinnurekanda um gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað ber ábyrgð á að áætlunin uppfylli skilyrði 65. – 66. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breyt­ingum, ásamt reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra laga.

Viðurkenndir þjónustuaðilar skv. 4. gr. sem og viðurkenndir sérfræðingar skv. 5. gr. skulu gæta trúnaðar í starfi og fara með allar upplýsingar sem þeir komast að er varða persónuleg málefni og einkahagi starfsmanna þeirra fyrirtækja er þeir starfa fyrir ásamt upplýsingum er tengjast fyrrnefndum fyrirtækjum sem trúnaðarmál.

9. gr.

Breytingar á samningum eða öðrum atriðum sem kunna að hafa áhrif
á viðurkenningu þjónustuaðila eða viðurkenningu sérfræðings.

Viðurkenndir þjónustuaðilar skv. 4. gr. skulu tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins án ástæðulauss dráttar um allar þær breytingar sem kunna að verða á starfsmannahaldi hjá fyrirtækinu eða samstarfssamningum við viðurkennda sérfræðinga eða aðra viðurkennda þjónustuaðila sem kunna að hafa áhrif á viðurkenningu þeirra sem þjónustuaðila. Enn fremur skulu viðurkenndir sérfræðingar skv. 5. gr. tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins án ástæðulauss dráttar um allar þær breytingar sem kunna að hafa áhrif á fyrri viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins. Vinnueftirlitinu ber þá að meta innan fjögurra vikna frá því að stofnuninni berst slík tilkynning hvort umræddar breytingar hafi áhrif á fyrri viðurkenningu skv. 4. eða 5. gr. eftir því sem við á og leiði jafnvel til afturköllunar fyrri viðurkenningar að öllu leyti eða hluta þannig að sú þjónusta sem viðkomandi er heimilt að veita takmarkist við ákveðna tegund starfsemi.

Viðurkenndur þjónustuaðili skv. 4. gr. skal veita Vinnueftirliti ríkisins frekari gögn vegna breytinga skv. 1. mgr. óski stofnunin eftir því enda telji stofnunin viðkomandi gögn nauðsynleg svo henni sé unnt að meta hvort viðkomandi uppfylli áfram skilyrði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, sem og skilyrði reglugerðar þessarar og hafi þar með heimild til að veita heildstæða eða takmarkaða þjónustu eftir því sem við á eða hvort stofnuninni beri að afturkalla viðurkenningu viðkomandi þjónustuaðila, sbr. 13. gr.

Viðurkenndur sérfræðingur skv. 5. gr. skal veita Vinnueftirliti ríkisins frekari gögn vegna breytinga skv. 1. mgr. óski stofnunin eftir því enda telji stofnunin viðkomandi gögn nauðsynleg svo stofnuninni sé unnt að meta hvort viðkomandi uppfylli áfram skilyrði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, sem og skilyrði reglugerðar þessarar eða hvort stofnuninni beri að afturkalla viðurkenningu viðkomandi sérfræðings, sbr. 13. gr.

10. gr.

Skyldur atvinnurekanda.

Atvinnurekandi ber ábyrgð á gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað enda þótt hann njóti þjónustu viðurkennds þjónustuaðila við gerð hennar. Jafnframt ber atvinnu­rekandi ábyrgð á að áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sé fylgt eftir á vinnu­staðnum.

Njóti atvinnurekandi þjónustu viðurkennds þjónustuaðila við gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað skal hann upplýsa viðkomandi þjónustuaðila um þá þætti sem vitað er eða grunur leikur á að hafi áhrif á öryggi og heilbrigði starfsmanna á vinnustaðnum.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

11. gr.

Umsókn um viðurkenningu sem þjónustuaðili eða sérfræðingur.

Fyrirtæki sem óskar eftir að Vinnueftirlit ríkisins viðurkenni það sem þjónustuaðila sam­kvæmt 66. gr. a laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og reglugerð þessari skal sækja um það skriflega á þar til gerðum eyðu­blöðum. Með umsókninni skulu fylgja öll þau gögn sem nauðsynleg eru að mati Vinnu­eftirlits ríkisins í því skyni að meta hvort skilyrðum fyrrnefndra laga og reglugerðar þess­arar fyrir viðurkenningu þjónustuaðila sé fullnægt, þar á meðal listi yfir starfsmenn fyrir­tækisins þar sem fram koma upplýsingar um menntun og starfsreynslu þeirra sem og skrif­legur samningur, einn eða fleiri, um samstarf við aðra aðila, sbr. 6. gr., hafi slíkur samn­ingur verið gerður.

Einstaklingur sem óskar eftir að Vinnueftirlit ríkisins viðurkenni hann sem sérfræðing samkvæmt 66. gr. a laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og reglugerð þessari skal sækja um það skriflega á þar til gerðum eyðublöðum. Með umsókninni skulu fylgja öll þau gögn sem nauðsynleg eru að mati Vinnueftirlits ríkisins í því skyni að meta hvort skilyrðum fyrrnefndra laga og reglugerðar þessarar fyrir viðurkenningu sérfræðings sé fullnægt.

12. gr.

Gildistími viðurkenningar þjónustuaðila eða viðurkenningar sérfræðings.

Viðurkenning þjónustuaðila eða viðurkenning sérfræðings fellur úr gildi að liðnum gildis­tíma hennar skv. 5. mgr. 4. gr. eða 5. mgr. 5. gr. Sæki viðkomandi þjónustuaðili eða sér­fræðingur að nýju um viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins sem þjónustuaðili eða sérfræð­ingur áður en fyrri viðurkenning Vinnueftirlitsins fellur úr gildi skal fyrri viður­kenn­ingin halda gildi sínu meðan nýja umsóknin er til meðferðar hjá stofnuninni.

13. gr.

Afturköllun á viðurkenningu þjónustuaðila eða viðurkenningu sérfræðings.

Vinnueftirliti ríkisins er heimilt að afturkalla viðurkenningu þjónustuaðila eða viður­kenningu sérfræðings í heild eða að hluta sé skilyrðum laga um aðbúnað, hollustu­hætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, sem og skilyrðum reglu­gerðar þessarar ekki lengur fullnægt að mati stofnunarinnar. Hið sama á við uppfylli viður­kenndur þjónustuaðili eða viðurkenndur sérfræðingur ekki skyldur sínar skv. 8. eða 9. gr.

Um afturköllun gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993, og almennar stjórnsýslureglur.

14. gr.

Kæruheimild.

Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins sem teknar eru á grundvelli reglu­gerðar þessarar til velferðarráðuneytis innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 98. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

15. gr.

Viðurlög.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar geta varðað viðurlögum samkvæmt ákvæði 99. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

16. gr.

Gildistaka reglugerðar.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 65. gr. og 66. gr. a laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, öðlast þegar gildi.

17. gr.

Reglugerð þessa skal endurskoða innan fimm ára frá gildistöku hennar og síðan á fimm ára fresti eftir það, sbr. 1. mgr., 4. gr. laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Viðurkenndir þjónustuaðilar og viðurkenndir sérfræðingar sem hlotið hafa viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins fyrir gildistöku reglugerðar þessarar skulu endurnýja umsókn sína um viðurkenningu sem þjónustuaðilar eða sérfræðingar í samræmi við reglugerð þessa innan árs frá gildistöku hennar. Að öðrum kosti fellur úr gildi viðurkenning þeirra sem þjónustuaðilar eða sérfræðingar.

Velferðarráðuneytinu, 9. júlí 2012.

Guðbjartur Hannesson.

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 29. ágúst 2012