Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1340/2016

Nr. 1340/2016 20. desember 2016

REGLUR
um fyrirkomulag og notkun nettengdra tölva og farsíma í opnum fangelsum.

1. gr.

Fanga í opnu fangelsi er heimilt, samkvæmt ákvörðun forstöðumanns, að hafa nettengda tölvu og farsíma í klefa sínum á nánar tilgreindum tímum.

Tilgangurinn með því að leyfa fanga að hafa aðgang að nettengingu og farsíma í opnum fangelsum er að gera honum kleift að sinna fjarnámi eða vinnu, eiga í samskiptum við fjölskyldu og nánustu aðstandendur, sinna persónulegum erindum við opinberar stofnanir og fylgjast með gangi þjóð­mála.

2. gr.

Óheimilt er að nýta nettengingu eða farsíma til að ræða um, birta eða senda frá sér nokkurt efni er varðar samfanga, starfsmenn eða starfsemi fangelsisins. Jafnframt er óheimilt að taka þátt í umræðu í gegnum netið, svo sem í gegnum athugasemdakerfi fjölmiðla.

Fanga er óheimilt að hafa annan farsíma eða aðrar nettengingar en honum er útvegað af fang­elsinu. Fangi er ábyrgur fyrir allri notkun á því símanúmeri sem hann hefur heimild til að nota, sem og þeirri netnotkun sem fer í gegnum þá nettengingu sem hann er skráður fyrir.

3. gr.

Fanga er með öllu óheimilt að halda úti eða nýta samskiptamiðla eða eigin vefsíður, líkt og Facebook, Twitter, Instagram, Snapchat, einkamálaauglýsingar eða sambærilega miðla. Fangi ber ábyrgð á eigin vefsíðum og samskiptamiðlum.

4. gr.

Fanga er með öllu óheimilt að nýta nettengingu til að nálgast klámfengið, ofbeldisfullt eða ólöglegt efni.

5. gr.

Beint niðurhal af netinu á til dæmis myndefni, hljóðskrám eða öðru sambærilegu efni er aðeins heimilt ef það samræmist tilgangi reglnanna. Nettengingu má ekki nota til þess að ná í afþrey­ingar­efni svo sem bíómyndir, sjónvarpsþætti, tölvuleiki eða annað sambærilegt efni.

6. gr.

Netnotkun og netumferð er skráð með þar til gerðum hugbúnaði sem skráir auðkennanlegar tölvuupplýsingar.

7. gr.

Að næturlagi er slökkt á nettengingu og farsímar skulu vera í vörslu fangavarða.

Fangi skal skila farsíma til fangavarðar fyrir kl. 22.00.

8. gr.

Fangelsisyfirvöldum er heimilt að innheimta gjald fyrir afnot af farsíma og nettengingu til að standa undir rekstri netþjónustunnar.

9. gr.

Brot gegn ofanskráðum reglum varða viðurlögum skv. 73. og 74. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga og geta auk þess meðal annars haft áhrif á afgreiðslu beiðna um dagsleyfi, fjölskylduleyfi, vistun utan fangelsa, rafrænt eftirlit og reynslulausn.

10. gr.

Reglur þessar eru settar af Fangelsismálastofnun og byggjast á heimild í 56. sbr. 98. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 og öðlast þær þegar gildi.

Fangelsismálastofnun ríkisins, 20. desember 2016.

Páll E. Winkel.


B deild - Útgáfud.: 3. febrúar 2017