Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 33/2024

Nr. 33/2024 5. janúar 2024

GJALDSKRÁ
fyrir heilbrigðis-, mengunarvarna- og matvælaeftirlit á starfssvæði Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra.

1. gr.

Innheimt eru gjöld af starfsemi sem háð er starfsleyfi eða eftirliti Heilbrigðiseftirlits Norður­lands vestra samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, lögum nr. 6/2002 um tóbaksvarnir og lögum nr. 93/1995 um matvæli. Einnig er heimilt að innheimta gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari vegna þjónustu sem er í verkahring heilbrigðis­eftirlits að veita skv. ofangreindum lögum.

 

2. gr.

Tímagjald fyrir þjónustu er kr. 18.900
Gjald fyrir rannsókn á einu sýni skv. eftirlitsáætlun er kr. 26.000
Gjald vegna heildarefnagreiningar neysluvatns er kr. 245.000

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra sér um innheimtu eftirlitsgjalda vegna reglubundins eftirlits skv. viðauka með gjaldskrá þessari. Þar kemur jafnframt fram áætluð tíðni eftirlits.

Unnt er að sækja um lækkun gjalda ef starfsemi hefur haft samning við faggilta skoðunarstofu, hefur rekið vottað gæðakerfi eða hefur rekið innra eftirlit með starfsemi sinni sem heilbrigðisnefnd telur ganga lengra en reglur kveða á um. Ef heilbrigðisnefnd fellst á slíka lækkun er henni heimilt að draga úr eftirliti frá sama tíma.

Ef einungis hluti margþætts eftirlits með starfsemi fer fram er heimilt að lækka eftirlitsgjald sem því nemur.

Þegar sami aðili rekur fleiri en eina tegund starfsemi á einum og sama stað er heimilt að inn­heimta eitt árlegt gjald.

 

3. gr.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra, annast innheimtu eftirlitsgjalda, samkvæmt gjaldskrá þessari s.s. vegna útgáfu leyfa og vottorða og vegna eftirlits umfram áætlun auk þjónustuverkefna.

Fyrir nýtt starfsleyfi eða eftir atvikum móttöku á skráningu greiðast kr. 34.000 umsýslugjald auk auglýsingakostnaðar og eftirlitsgjalds ef við á. Heilbrigðisnefnd er jafnframt heimilt að inn­heimta reiknað tímagjald vegna vinnu við gerð sértækra starfsleyfisskilyrða vegna starfsemi sem fellur undir reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.

Fyrir endurnýjun starfsleyfis greiðast kr. 29.000 auk auglýsingakostnaðar og eftirlitsgjalds ef við á.

Fyrir auglýsingu starfsleyfis á vef heilbrigðiseftirlits greiðast kr. 16.900.

Fyrir önnur leyfi s.s. tóbaksleyfisgjöld greiðast kr. 36.000.

Fyrir vottorð og umsagnir skv. fyrirliggjandi gögnum greiðast kr. 27.000.

Fyrir húsnæðisskoðun greiðast kr. 36.000, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra er þó heimilt að lækka eða fella það niður. Fyrir ítarlega húsnæðisskoðunarskýrslu er greitt skv. tímagjaldi.

Fyrir markaðs- og götusölu greiðast kr. 26.000, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra er þó heimilt að lækka eða fella það niður.

Sé raunkostnaður við rannsókn skv. reikningi frá rannsóknarstofu hærri en sem nemur gjaldi heilbrigðiseftirlits fyrir rannsókn skal innheimta raunkostnað að viðbættu 35% umsýslugjaldi og akstursgjaldi skv. útreikningi fjármála- og efnahagsráðuneytis ef ekki er unnt að samnýta ferðina.

Heilbrigðisnefnd er heimilt að fjölga tímabundið eftirlitsferðum umfram það sem fram kemur í eftirlitsáætlun ef nauðsyn krefur t.d. þegar nýr búnaður hefur verið tekin í notkun eða vegna kvart­ana. Nefndin innheimtir þá gjald eins og um þjónustuverkefni sé að ræða.

Fyrir starfsemi sem er eftirlitsskyld en er ekki á lista í viðauka greiðist eftirlitsgjald eins og um þjón­ustuverkefni sé að ræða.

Verk sem unnin eru skv. ákvæðum samþykkta settum samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustu­hætti og mengunarvarnir eru gjaldfærð eins og um þjónustuverkefni sé að ræða nema um annað hafi verið samið. Fyrir þjónustuverkefni er rukkað tímagjald.

Vegna beitingar þvingunarúrræða laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og þving­unar­úrræði laga nr. 93/1995 um matvæli skal heilbrigðisnefnd innheimta fyrir kostnaði eins og um aukin eftirlitsverkefni sé að ræða.

 

4. gr.

Heimilt er að fella starfsleyfi fyrir starfsemi úr gildi ef eftirlitsgjöld skv. 2. gr. eru ekki greidd að undangengnum tilhlýðilegum fresti. Séu gjöld skv. 3. gr. ekki greidd fellur starfsleyfið sjálfkrafa úr gildi. Sama á við ef starfsemi hefur ekki hafist einu ári frá útgáfu leyfis og ef starfsemi hefur legið niðri í tvö ár samfellt.

 

5. gr.

Gjalddagi eftirlitsgjalda er útgáfudagur reiknings og eindagi 14 dögum síðar. Dráttarvextir reikn­ast frá gjalddaga séu gjöldin ekki greidd á eindaga auk áfallins innheimtukostnaðar.

Um innheimtu gjalda fer samkvæmt 46. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunar­varnir.

 

6. gr.

Gjaldskrá þessi, sem samin er og samþykkt af heibrigðisnefnd Norðurlands vestra í samræmi við 46. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, 25. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli og 8. gr. laga um tóbaksvarnir nr. 6/2002. Gjaldskrá þessi öðlast þegar gildi og fellur þá úr gildi gjald­skrá nr. 115/2023 fyrir heilbrigðis-, mengunarvarna- og matvælaeftirlit á svæði Heilbrigðis­eftirlits Norðurlands vestra.

 

Sauðárkróki, 5. janúar 2024.

F.h. heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra,

Sigurjón Þórðarson framkvæmdastjóri.

 

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 19. janúar 2024