Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 162/2006

Nr. 162/2006 21. desember 2006
LÖG
um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:
 
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið.
    Tilgangur laga þessara er að kveða á um fjárframlög til stjórnmálasamtaka og stjórnmálastarfsemi, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum. Markmið laganna er að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið.

2. gr.
Skilgreiningar.
    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð og hugtök merkingu sem hér segir:
    1.    Stjórnmálasamtök: Flokkar eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna.
    2.    Prófkjör: Kosningar sem stjórnmálasamtök halda til að velja fulltrúa á framboðslista við kosningar til Alþingis eða sveitarstjórna.
    3.    Frambjóðendur: Þátttakendur í persónukjöri til sveitarstjórna og þátttakendur í prófkjörum stjórnmálasamtaka.
    4.    Framlög: Framlög til starfsemi stjórnmálasamtaka eða frambjóðenda eða kosningabaráttu, hvort heldur eru bein fjárframlög eða önnur gæði sem metin verða til fjár, án tillits til þess hvaðan þau koma eða hvers eðlis þau eru. Til framlaga í þessum skilningi teljast allir afslættir af markaðsverði, ívilnanir og eftirgjöf, þar með taldir afslættir af markaðsverði auglýsinga, eftirgjöf eftirstöðva skulda, óvenjuleg lánakjör o.s.frv. Ef afsláttur hefur verið veittur af markaðsverði skal mismunur markaðsverðs og raunverðs tilgreindur sem framlag í reikningum. Önnur framlög, svo sem endurgjaldslaust lán vinnuafls, aðstöðu eða búnaðar, skulu metin til peningaverðs á gangverði eða markaðsverði á hverjum tíma og tilgreind í reikningum á því verði.
    5.    Tengdir aðilar: Lögaðilar þar sem svo háttar til að sami aðili eða sömu aðilar eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum, enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 10% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum. Sama á við ef einstaklingar eða lögaðilar, sem eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðila og hver um sig á a.m.k. 10% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðilanum, eiga ásamt viðkomandi lögaðila meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í öðrum lögaðila. Til eignarhluta og atkvæðisréttar einstaklinga í lögaðilum samkvæmt þessum tölulið telst jafnframt eignarhlutur og atkvæðisréttur maka og skyldmenna í beinan legg.
    6.    Endurskoðendur: Löggildir endurskoðendur samkvæmt ákvæðum laga um endurskoðendur.
    7.    Þingflokkar: Samtök þingmanna sem uppfylla skilyrði þingskapa til að teljast þingflokkur.

II. KAFLI
Framlög ríkis og sveitarfélaga til stjórnmálastarfsemi.
3. gr.
Framlög til stjórnmálasamtaka úr ríkissjóði.
    Árlega skal úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Fjárhæðinni skal úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn.

4. gr.
Framlög til þingflokka úr ríkissjóði.
    Árlega skal úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi þingflokka á Alþingi samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Greiða skal jafna fjárhæð fyrir hvern þingmann og nefnist hún eining. Að auki skal greiða eina einingu fyrir hvern þingflokk. Því til viðbótar skal úthluta fjárhæð sem svarar tólf einingum til þingflokka þeirra stjórnmálasamtaka sem eiga ekki aðild að ríkisstjórn og skiptast þær einingar hlutfallslega milli þeirra. Forsætisnefnd Alþingis getur sett nánari reglur um greiðslur samkvæmt þessari grein.

5. gr.
Framlög til stjórnmálasamtaka frá sveitarfélögum.
    Sveitarfélögum með fleiri en 500 íbúa er skylt, en öðrum sveitarfélögum heimilt, að veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið a.m.k. 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, fjárframlög til starfsemi sinnar. Ákvörðun um slík framlög tekur sveitarstjórn samhliða samþykkt fjárhagsáætlunar. Fjárhæðinni skal úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn.

III. KAFLI
Almenn framlög til stjórnmálastarfsemi.
6. gr.
Móttaka framlaga.
    Stjórnmálasamtökum og frambjóðendum er heimilt að taka á móti framlögum til starfsemi sinnar eða til kosningabaráttu með þeim takmörkunum sem leiðir af 2.–5. mgr. þessarar greinar og ákvæðum 7. gr.
    Óheimilt er að veita viðtöku framlögum frá óþekktum gefendum.
    Óheimilt er að veita viðtöku framlögum frá fyrirtækjum að meiri hluta í eigu, eða undir stjórn, ríkis eða sveitarfélaga.
    Óheimilt er að veita viðtöku framlögum frá opinberum aðilum sem ekki rúmast innan ákvæða II. kafla.
    Óheimilt er að veita viðtöku framlögum frá erlendum ríkisborgurum, fyrirtækjum eða öðrum aðilum sem skráðir eru í öðrum löndum. Bann þetta tekur þó ekki til framlaga frá erlendum ríkisborgurum sem njóta kosningaréttar hér á landi skv. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna.

7. gr.
Hámarksframlög, leiðbeiningarreglur og prófkjör.
    Stjórnmálasamtökum og frambjóðendum er óheimilt að taka á móti hærri framlögum frá lögaðilum en sem nemur 300.000 kr. á ári. Undanþegin slíku hámarki eru þó framlög í formi afslátta svo fremi um sé að ræða almenna afslætti sem veittir eru frá markaðsverði með opinberum hætti og slíkir afslættir séu sérgreindir í reikningum. Lögaðilar, sem inna af hendi framlög til stjórnmálasamtaka eða frambjóðenda, skulu sérgreina heildarfjárhæð slíkra framlaga í ársreikningum sínum. Telja skal saman framlög tengdra aðila.
    Stjórnmálasamtökum og frambjóðendum er heimilt að taka á móti framlögum frá lögráða einstaklingum sem nemur allt að 300.000 kr. á ári. Til framlaga í þessum skilningi teljast ekki almenn félagsgjöld stjórnmálasamtaka sem innheimt eru með reglubundnum hætti og eru ekki umfram 100.000 kr. á ári.
    Ríkisendurskoðun skal setja leiðbeiningarreglur um fyrirkomulag sölu þjónustu á vegum stjórnmálasamtaka til að tryggja samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr.
    Heildarkostnaður frambjóðenda í prófkjörum af kosningabaráttu má ekki vera hærri en sem nemur 1 millj. kr., að viðbættu álagi sem hér segir:
    Á kjörsvæði með fleiri en 50.000 íbúa, 18 ára og eldri, 75 kr. fyrir hvern.
    Á kjörsvæði með 40.000–49.999 íbúa, 18 ára og eldri, 100 kr. fyrir hvern.
    Á kjörsvæði með 20.000–39.999 íbúa, 18 ára og eldri, 125 kr. fyrir hvern.
    Á kjörsvæði með 10.000–19.999 íbúa, 18 ára og eldri, 150 kr. fyrir hvern.
    Á kjörsvæði með færri en 10.000 íbúa, 18 ára og eldri, 175 kr. fyrir hvern.

IV. KAFLI
Reikningsskil og upplýsingaskylda stjórnmálasamtaka.
8. gr.
Reikningsskil stjórnmálasamtaka.
    Stjórnmálasamtök skulu halda samstæðureikning fyrir allar einingar sem undir þau falla, svo sem sérsambönd, kjördæmisráð, eignarhaldsfélög og tengdar sjálfseignarstofnanir. Heimilt er að halda flokkseiningum utan samstæðureikningsskila ef tekjur þeirra eru undir 300.000 kr. á ári. Við gerð ársreikninga skal farið að efnisreglum laga um ársreikninga eins og við á. Ríkisendurskoðun gefur út frekari leiðbeiningar um reikningshald stjórnmálasamtaka.
    Stjórnmálasamtök skulu fela endurskoðendum að endurskoða reikninga sína. Endurskoðendur skulu starfa eftir leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar og sannreyna að samstæðureikningurinn sé saminn í samræmi við ákvæði laga þessara og almennar reikningsskilareglur og staðfesta það álit með áritun á reikninginn. Ríkisendurskoðun getur hvenær sem er kallað eftir öllum gögnum til að staðreyna að framlög einstaklinga og lögaðila séu innan þeirra marka sem greinir í III. kafla.

9. gr.
Upplýsingaskylda um reikninga stjórnmálasamtaka.
    Stjórnmálasamtök skulu árlega skila Ríkisendurskoðun reikningum sínum, sbr. 8. gr., árituðum af endurskoðendum. Ríkisendurskoðun skal í kjölfarið birta útdrátt úr ársreikningi stjórnmálasamtaka með samræmdum hætti. Þar skal greina a.m.k. heildartekjur og heildargjöld. Þá skal flokka tekjur eftir uppruna, þannig að greint sé á milli ríkisframlags, framlaga frá sveitarfélögum, framlaga frá lögaðilum, félagsgjalda og framlaga frá einstaklingum, ásamt helstu stærðum í efnahagsreikningi. Greina skal sérstaklega alla móttekna afslætti frá markaðsverði. Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi.

V. KAFLI
Reikningsskil og upplýsingaskylda í persónukjöri.
10. gr.
Reikningsskil frambjóðenda í persónukjöri.
    Frambjóðendur skulu gera uppgjör fyrir kosningabaráttu sína í samræmi við almennar reikningsskilareglur og fela endurskoðendum endurskoðun þess. Ríkisendurskoðun gefur út leiðbeiningar um uppgjör fyrir kosningabaráttu og um upplýsingaskyldu um uppgjörið.
    Frambjóðendur í persónukjöri eru undanþegnir uppgjörsskyldu ef kostnaður við kosningabaráttu er ekki umfram 300.000 kr.

11. gr.
Upplýsingaskylda um reikninga yfir kosningabaráttu.
    Frambjóðendur skulu skila Ríkisendurskoðun reikningum sínum árituðum af endurskoðendum eigi síðar en sex mánuðum frá því að kosning fór fram. Ríkisendurskoðun skal í kjölfarið birta útdrátt úr reikningum þar sem greina skal heildartekjur og heildargjöld. Þá skal flokka tekjur eftir uppruna, þannig að greint sé á milli framlaga frá lögaðilum, framlaga frá einstaklingum og eigin framlags. Greina skal sérstaklega alla móttekna afslætti frá markaðsverði. Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til kosningabaráttu frambjóðandans.

VI. KAFLI
Viðurlög, gildistaka og brottfall lagaákvæða.
12. gr.
Viðurlög.
    Hver sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi brýtur gegn ákvæðum laga þessara skal sæta fésektum, en alvarleg brot geta varðað fangelsi allt að sex árum.

13. gr.
Gildistaka og brottfall lagaákvæða.
    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007. Ákvæði laganna um prófkjör taka þó ekki gildi fyrr en 1. júní 2007.
    Jafnframt fellur úr gildi 1. málsl. 1. gr. laga nr. 62/1978, um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka og blaðaútgáfu erlendra sendiráða á Íslandi, og lög nr. 56/1971, um sérfræðilega aðstoð fyrir þingflokka.

VII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis.

14. gr.
    Í stað orðanna „Sveitarsjóðir greiða“ í c-lið 123. gr. laganna kemur: Ríkissjóður greiðir.

Ákvæði til bráðabirgða.
    Forsætisráðherra skal eigi síðar en 30. júní 2010 skipa nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi til að endurskoða lög þessi og framkvæmd þeirra.

Gjört í Reykjavík, 21. desember 2006.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Geir H. Haarde.

A deild - Útgáfud.: 29. desember 2006