Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 475/2008

Nr. 475/2008 5. maí 2008
REGLUGERÐ
um réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga sem ferðast með flugi.

1. gr.

Markmið.

Með þessari reglugerð er kveðið á um vernd og aðstoð við fatlaða og hreyfihamlaða einstaklinga sem ferðast með flugi, bæði til að vernda þá gegn mismunun og til þess að tryggja að þeir fái aðstoð.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um fatlaða og hreyfihamlaða einstaklinga sem nota eða ætla sér að nota farþegaflug í atvinnuskyni, við brottför frá eða í gegnumferð um eða við komu á flugvöll sem staðsettur er innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Ákvæði 3., 4. og 10. gr. í fylgiskjali I við reglugerð þessa skulu einnig gilda um farþega sem leggja upp frá flugvelli í þriðja landi til flugvallar á Evrópska efnahags­svæðinu, ef starfandi flugrekandi er flugrekandi með útgefið flugrekstrarleyfi innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Reglugerð þessi skal ekki hafa áhrif á réttindi farþega samkvæmt reglugerð um gildis­töku reglugerðar EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður og um að fella úr gildi reglugerð (EBE) nr. 295/91, nr. 574/2005.

Ef ákvæði þessarar reglugerðar stangast á við ákvæði reglugerðar um flugafgreiðslu á flugvöllum skulu ákvæði reglugerðar þessarar ganga framar.

3. gr.

Framkvæmd.

Flugmálastjórn Íslands ber ábyrgð á eftirliti með framkvæmd þessarar reglugerðar í samræmi við 14. gr. í fylgiskjali I við reglugerð þessa og meðhöndlun kvartana sam­kvæmt 15. gr. í fylgiskjali I við reglugerð þessa.

4. gr.

Innleiðing gerða.

Með reglugerð þessari öðlast gildi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1107/2006 frá 5. júlí 2006 um réttindi fatlaðs og hreyfihamlaðs fólks sem ferðast með flugi, sem merkt er fylgiskjal I við reglugerð þessa, sbr. ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 122/2007 með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins og bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans.

5. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

6. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. 57. gr. d, 3. mgr. 126. gr., 4. mgr. 126. gr. b, sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum. Reglugerð þessi skal taka gildi þann 26. júlí 2008 að undanskildum ákvæðum 3. og 4. gr. í fylgiskjali I sem þegar taka gildi.

Fram að gildistíma reglugerðarinnar skal þeim aðilum sem tilgreindir eru í reglugerðinni heimilt að aðlaga starfsemi sína að þeim starfsháttum sem reglugerðin kveður á um og framkvæmdastjórn flugvalla heimilt samfara veitingu þeirra þjónustuþátta sem kveðið er á um, að leggja á notendur flugvalla þau gjöld sem kveðið er á um í reglugerðinni.

Samgönguráðuneytinu, 5. maí 2008.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 26. maí 2008