Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 28/2023

Nr. 28/2023 22. maí 2023

LÖG
um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um fiskeldi og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana (heimildir til bráðabirgðaráðstafana o.fl.).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

I. KAFLI

Breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:

 1. Í stað orðanna „sbr. þó 8. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: sbr. þó 7. gr. a og 8. gr.
 2. 4. málsl. 1. mgr. fellur brott.
 3. Í stað orðsins „stofnunin“ í 3. mgr. kemur: útgefandi starfsleyfis.

 

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:

 1. Í stað orðanna „sbr. þó 8. gr.“ í 1. og 2. málsl. 1. mgr. kemur: sbr. þó 7. gr. a og 8. gr.
 2. Á eftir orðunum „sbr. 8. gr.“ í 6. mgr. kemur: framlengd starfsleyfi, bráðabirgðaheimildir fyrir starfsemi.

 

3. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein, 7. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi.

    Umhverfisstofnun er heimilt í sérstökum undantekningartilvikum, þegar brýn þörf er á að hefja eða halda áfram starfsemi sem heyrir undir lög þessi, að veita rekstraraðila bráðabirgðaheimild að hans beiðni fyrir starfseminni. Umhverfisstofnun skal eftir atvikum leita umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar og annarra aðila eftir því sem við á. Heyri starfsemin undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana er skilyrði að fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum vegna starfseminnar eða niðurstaða um matsskyldu hennar.

    Hafi leyfi fyrir framkvæmd sem fellur undir lög þessi og lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana verið fellt úr gildi sökum annmarka á umhverfismati samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana getur Umhverfisstofnun að beiðni rekstraraðila veitt bráðabirgðaheimild fyrir framkvæmdinni í samræmi við skilyrði 1. mgr. ef ríkar ástæður mæla með því. Skal heimildin háð skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021.

    Skilyrði fyrir því að unnt sé að óska eftir bráðabirgðaheimild samkvæmt grein þessari er að fullnægjandi umsókn liggi fyrir hjá útgefanda starfsleyfis. Í umsókn um bráðabirgðaheimild skal tilgreina skýrt tilgang, ástæður og fyrirhugaðar aðgerðir á gildistíma heimildarinnar.

    Bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi skal háð skilyrðum sem Umhverfisstofnun setur í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til viðkomandi starfsemi, sbr. 9. gr.

    Umsókn um bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi skal afgreidd eins fljótt og mögulegt er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að fullnægjandi umsókn berst. Frestur til að gera skriflegar athuga­semdir við veitingu bráðabirgðaheimildar skal ekki vera lengri en ein vika frá auglýsingu Umhverfis­stofnunar. Að öðru leyti gildir ákvæði 7. gr. um útgáfu bráðabirgðaheimildar.

    Bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi má veita til allt að eins árs og er heimilt að framlengja hana um allt að eitt ár að uppfylltum skilyrðum greinar þessarar.

 

4. gr.

    Við 1. tölul. 1. mgr. 53. gr. laganna bætist: og bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi, sbr. 7. gr. a.

 

II. KAFLI

Breyting á lögum um fiskeldi, nr. 71/2008.

5. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „2. mgr. 17. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000“ í 2. mgr. 4. gr. b laganna kemur: 11. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021.

 

6. gr.

 1. Í stað orðanna „lögum um mat á umhverfisáhrifum“ í 1. mgr. 5. gr. og 3. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
 2. Í stað orðanna „laga um mat á umhverfisáhrifum“ í 5. mgr. 10. gr. laganna kemur: laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

 

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:

 1. Orðin „og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu er vikið frá niðurstöðu álitsins“ í 2. málsl. falla brott.
 2. Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi Skipulagsstofnun sett skilyrði um mótvægisaðgerðir eða vöktun, sbr. 24. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, skal það koma fram í leyfinu.

 

8. gr.

    Á eftir orðinu „rekstrarleyfi“ í 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. a laganna kemur: og rekstrarleyfi til bráða­birgða.

 

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 21. gr. c laganna:

 1. 1. málsl. orðast svo: Sé rekstrarleyfi fellt úr gildi getur Matvælastofnun í sérstökum undan­tekn­ingartilvikum, enda mæli ríkar ástæður með því, gefið út rekstrarleyfi til bráða­birgða til allt að eins árs berist umsókn þess efnis frá handhafa þess leyfis sem var fellt úr gildi innan þriggja vikna frá því að leyfi var fellt úr gildi.
 2. 5. málsl. orðast svo: Berist umsókn um rekstrarleyfi til bráðabirgða skal ekki stöðva rekstur meðan umsókn er til meðferðar.
 3. Í stað orðsins „má“ í 7. málsl. kemur: skal.
 4. Í stað orðsins „ráðherra“ í 8. málsl. kemur: Matvælastofnun.
 5. Á eftir 8. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sé rekstrarleyfi fellt úr gildi vegna annmarka á umhverfismati samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana skal Matvælastofnun auk framangreindra skilyrða tryggja að rekstrarleyfi til bráðabirgða sé bundið þeim skilyrðum sem kveðið er á um í 2. mgr. 25. gr. laga um umhverfismat fram­kvæmda og áætlana, nr. 111/2021.
 6. Í stað 10. málsl. koma átta nýir málsliðir, svohljóðandi: Matvælastofnun skal vinna tillögur að rekstrarleyfum til bráðabirgða og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur Matvælastofnunar innan viku frá auglýsingu. Matvælastofnun skal tilkynna Umhverfisstofnun, umsækjanda um rekstrar­leyfi til bráðabirgða og þeim sem hafa gert athugasemdir við tillögu um afgreiðslu rekstrar­leyfis til bráðabirgða. Matvælastofnun skal auglýsa á vefsíðu sinni útgáfu og gildistöku rekstrarleyfis til bráðabirgða. Birting á vefsíðu Matvælastofnunar telst vera opinber birting. Í auglýsingunni skal tilgreina hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis er aðgengileg og tilgreina um kæruheimild og kærufrest. Ákvörðun Matvælastofnunar um veitingu rekstrarleyfis til bráðabirgða er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála innan mánaðar frá því að ákvörðun var birt opinberlega. Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um umsókn, málsmeðferð og skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi fyrir veitingu rekstrarleyfis til bráðabirgða samkvæmt þessari grein.

 

III. KAFLI

Breyting á lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021.

10. gr.

    Orðin „19. gr. eða“ í 1. málsl. 9. gr. laganna falla brott.

 

11. gr.

    Í stað orðanna „eru háðar umhverfismati skv. IV. kafla eða ákvörðun um matsskyldu skv. 19. gr.“ í 1. málsl. 10. gr. laganna kemur: falla undir málsmeðferð skv. IV. kafla.

 

12. gr.

    Í stað orðsins „hennar“ í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: áætlunarinnar.

 

13. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „21. gr.“ í d-lið 17. gr. laganna kemur: 23. gr.

 

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:

 1. Á undan 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
      Þær framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A í 1. viðauka við lög þessi skulu ávallt háðar umhverfismati. Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B í 1. viðauka við lög þessi skulu háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka. Sama á við um framkvæmdir sem eru að umfangi undir viðmiðunarmörkum í flokki B í 1. viðauka ef þær eru fyrirhugaðar á verndarsvæði, sbr. iii. lið 2. tölul. 2. viðauka.
 2. 2. mgr. fellur brott.
 3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Matsskyldar framkvæmdir.

 

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:

 1. 1. mgr. fellur brott.
 2. Í stað orðanna „skv. 1. mgr.“ í 2. mgr. kemur: í flokki B í 1. viðauka við lög þessi.
 3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Tilkynning framkvæmda í flokki B.

 

16. gr.

    Við 25. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Hafi leyfi til framkvæmdar verið fellt úr gildi sökum annmarka á umhverfismati og viðkomandi sérlöggjöf heimilar af því tilefni veitingu tímabundinnar heimildar fyrir framkvæmdinni skal slík tímabundin heimild eingöngu veitt í sérstökum undantekningartilvikum og að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

 1. unnið verði að því að bæta úr annmörkum á umhverfismatinu á gildistíma tímabundinnar heimildar fyrir framkvæmdinni,
 2. umhverfisáhrifin verði metin frá upphafi framkvæmdar.

 

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:

 1. Í stað tilvísunarinnar „18. gr.“ í 1. mgr. kemur: 20. gr.
 2. Í stað tilvísunarinnar „19. gr.“ í 2. mgr. kemur: 20. gr.

 

18. gr.

    Á eftir orðinu „matsáætlunar“ í 2. mgr. 34. gr. laganna kemur: skv. 2. mgr. 21. gr.

 

19. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „tölul. 1.09“ í tölul. 1.09 í 1. viðauka við lögin kemur: tölul. 1.08.

 

20. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2023.

 

Gjört í Reykjavík, 22. maí 2023.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Guðlaugur Þór Þórðarson.


A deild - Útgáfud.: 6. júní 2023