Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 466/2022

Nr. 466/2022 15. mars 2022

REGLUR
um sérstakan húsnæðisstuðning hjá Múlaþingi.

I. Almenn ákvæði.

1. gr.

Tilgangur/Markmið.

Sérstakur húsnæðisstuðningur er ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði eða eru með íþyngjandi húsnæðiskostnað sökum lágra tekna, lítilla eigna, þungrar framfærslubyrði og annarra félagslegra erfiðleika. Aðstæður umsækjenda eru metnar út frá ákveðnum viðmiðum.

Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur til greiðslu húsaleigu í félagslegu húsnæði eða á almennum markaði umfram húsnæðisbætur.

 

2. gr.

Lagagrundvöllur.

Sérstakur húsnæðisstuðningur er veittur á grundvelli 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitar­félaga nr. 40/1991 og byggist á meginreglum þeirra laga, sbr. einkum 1. gr. og IV. kafla. Ákvörðun um sérstakan húsnæðisstuðning er því tekin á grundvelli mats, sem tekur til tekna og eigna, framfærslu­byrði og félagslegra aðstæðna, sbr. 1. gr.

Sérstakur húsnæðisstuðningur er veittur í samhengi við félagslega ráðgjöf, sbr. V. kafla laga um félags­þjónustu sveitarfélaga. Markmið ráðgjafar er að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar. Ráðgjöf í húsnæðis­málum er veitt í samvinnu við aðra þá aðila sem veita húsnæðis­stuðning, m.a. Húsnæðis- og mannvirkja­stofnun vegna húsnæðisbóta, Íbúðalánasjóð vegna stofnframlaga og hlutaðeigandi rekstrar­aðila vegna úthlutunar á húsnæðisúrræðum.

Sérstakur húsnæðisstuðningur er einnig veittur í samhengi við fjárhagsaðstoð til framfærslu, sbr. VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, að teknu tilliti til heimildargreiðslna skv. reglum Múla­þings.

 

3. gr.

Samspil við önnur stuðningsform.

Sérstakur húsnæðisstuðningur sveitarfélaga er veittur að teknu tilliti til annarra stuðningsforma. Almennt gildir að sérstakur húsnæðisstuðningur kemur til viðbótar húsnæðisbótum samkvæmt lögum nr. 75/2016. Leiði mat skv. 2. gr. til þeirrar niðurstöðu að önnur stuðningsform nægi ekki til þess að tryggja húsnæðisöryggi og sýni að umsækjandi (einstaklingur eða fjölskylda) geti ekki staðið undir húsnæðiskostnaði kemur til veitingar á sérstökum húsnæðisstuðningi.

 

4. gr.

Skilgreiningar.

Sérstakur húsnæðisstuðningur: Fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu til viðbótar húsnæðis­bótum sem veittar eru á grundvelli laga um húsnæðisbætur nr. 75/2016.

Húsnæðisbætur: Mánaðarlegar greiðslur til lækkunar á húsnæðiskostnaði efnaminni leigjenda íbúðar­húsnæðis hér á landi.

Húsnæðiskostnaður: Sá hluti fjárhæðar sem greiddur er samkvæmt samningi um leiguafnot af húsnæði. Aðrar greiðslur og kostnaðarþættir sem leigjanda ber að greiða samkvæmt samningi eða lögum, svo sem fyrir hita, vatn, rafmagn, hússjóð, viðhald o.fl., teljast ekki til húsnæðiskostnaðar.

 

II. Skilyrði og viðmiðanir.

5. gr.

Skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild.

  1. Umsækjandi skal eiga lögheimili í sveitarfélaginu þegar sótt er um.
  2. Umsækjandi skal hafa fengið samþykkta umsókn um húsnæðisbætur á grundvelli laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur.
  3. Umsækjendur skulu vera orðnir 18 ára á umsóknardegi.
  4. Umsækjandi skal mæta í viðtal við starfsmann félagsþjónustunnar til þess að umsókn hans teljist gild.
  5. Umsækjandi um sérstakan húsnæðisstuðning má ekki hafna ódýrari húsaleigukosti sem honum býðst svo framarlega sem hann geti talist viðunandi fyrir fjölskylduna að mati ráðgjafa.
  6. Samningur skal liggja fyrir um afnot af íbúðarhúsnæði sem er staðsett í sveitarfélaginu. Heimilt er að veita undanþágu frá þessu ákvæði til námsmanna í ólánshæfu námi sem eru með tíma­bundið aðsetur í öðru sveitarfélagi og leigusamning þar um. Framvísa ber stað­festingu á skóla­vist.
  7. Félagsleg staða umsækjanda og fjölskyldu hans skal metin samkvæmt matsviðmiði. Umsækjandi skal uppfylla að lágmarki 5 stig á matskvarða (sjá fylgiskjal).
  8. Samanlagðar tekjur umsækjanda og annarra heimilismanna, 18 ára og eldri, skulu vera undir efri mörkum skv. viðmiðum 7. gr. reglna þessara.
  9. Samanlagðar eignir umsækjanda og annarra heimilismanna, 18 ára og eldri, á næstliðnu ári skulu ekki vera hærri en samkvæmt viðmiðum 8. gr. reglna þessara.
  10. Hafi viðeigandi gögn ekki borist 30 dögum frá umsóknardegi fellur umsókn úr gildi.
  11. Umsækjandi fær sent skriflegt svar þar sem fram kemur hvernig umsókn hans hafi verið metin.

 

6. gr.

Fjárhæðir við útreikning.

Sérstakur húsnæðisstuðningur er reiknaður sem ákveðið hlutfall af húsnæðisbótum þannig að fyrir hverjar kr. 1.000 fær leigjandi að hámarki kr. 700 í sérstakan húsnæðisstuðning. Þó geta húsnæðis­bætur og sérstakur húsnæðisstuðningur aldrei numið hærri fjárhæð en samtals kr. 76.500 á mánuði né farið yfir 75% af leigufjárhæð.

Sérstökum húsnæðisstuðningi verður ekki beitt til að greiða niður húsaleigu umfram það viðmið að leigjandi beri kr. 50.000 í kostnað af húsaleigu.

 

7. gr.

Fjárhæðir vegna mats á áhrifum tekna.

Við útreikning sérstaks húsnæðisstuðnings skal miða við neðangreind tekjumörk miðað við fjölda heim­ilis­manna. Tekjur undir neðri tekjumörkum skerða ekki rétt til sérstaks húsnæðis­stuðnings. Sérstakur húsnæðisstuðningur fellur niður við efri tekjumörk í hverju tilfelli en skerðist hlutfallslega upp að því marki.

Fjöldi á heimili Neðri tekju­mörk á ári Efri tekjumörk
á ári
Neðri tekju­mörk á mánuði Efri tekjumörk
á mánuði
1 4.357.354 5.446.693 363.113 453.891
2 5.762.952 7.203.690 480.246 600.308
3 6.746.871 8.433.588 562.239 702.799
4 eða fleiri 7.309.109 9.136.386 609.092 761.365

 

8. gr.

Fjárhæð vegna mats á áhrifum eigna.

Við útreikning sérstaks húsnæðisstuðnings er tekið mið af eignum umsækjanda og annarra heim­ilis­manna. Samanlagðar eignir skulu ekki nema hærri fjárhæð en 6.470.556 kr. í lok næstliðins árs.

 

III. Umsóknir og málsmeðferð.

9. gr.

Auglýsingar.

Múlaþing auglýsir eftir umsóknum um sérstakan húsnæðisstuðning einu sinni á ári. Í auglýsingu skulu koma fram helstu atriði reglna sveitarfélagsins um sérstakan húsnæðisstuðning. Á öðrum tíma er þó alltaf hægt að skila inn umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning.

 

10. gr.

Umsókn og ákvörðunartaka.

Félagsþjónusta Múlaþings annast móttöku og afgreiðslu umsókna um sérstakan húsnæðis­stuðning. Heimilt er að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning einn mánuð aftur í tímann frá umsóknar­degi.

Umsækjandi og aðrir heimilismenn, 18 ára og eldri, veita félagsþjónustunni eftir þörfum heimild til að afla upplýsinga frá opinberum aðilum, svo sem Vinnumálastofnun, skattyfirvöldum, Þjóðskrá Íslands, Lána­sjóði íslenskra námsmanna og sýslumönnum. Sama gildir um heimild til að afla upplýs­inga frá öðrum aðilum, svo sem viðurkenndum menntastofnunum innan hins almenna mennta­kerfis og leigu­sölum íbúðarhúsnæðis, sem nauðsynlegar eru við afgreiðslu umsóknar. Hið sama á við um öflun nauðsyn­legra upplýsinga frá sambærilegum aðilum erlendis þegar við á.

Starfsmaður félagsþjónustunnar metur þörf fyrir sérstakan húsnæðisstuðning og skal slíkt mat fara fram innan fjögurra vikna frá því að umsókn berst. Niðurstöður mats eru lagðar fyrir meðferðar­fund félagsþjónustunnar, sem afgreiðir umsóknina í umboði fjölskylduráðs. Náist ekki sameiginleg niðurstaða um afgreiðslu máls á meðferðarfundi eða ef um álitamál er að ræða sem reglur ná ekki yfir þá skal leggja málið fyrir fjölskylduráð.

Félagsmálastjóra er alltaf heimilt að vísa ákvörðun til fjölskylduráðs til fullnaðarafgreiðslu, sérstaklega ef ætla má að aðili muni ekki vilja sæta niðurstöðu hans.

Fjölskylduráð hefur eftirlit með ákvörðunum og kallar reglulega eftir skýringum og upplýsingum um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra.

 

11. gr.

Málsmeðferð.

Meðferð máls skal vera skv. ákvæðum XVI. og XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitar­félaga nr. 40/1991 og ákvæði laga um húsnæðisbætur nr. 75/2016.

 

12. gr.

Umsóknir.

Umsóknir skulu berast skrifstofu Múlaþings á þar til gerðum eyðublöðum sem nálgast má á heimasíðu og í afgreiðslu sveitarfélagsins.

 

13. gr.

Samvinna við umsækjanda.

Öflun gagna og upplýsinga skal unnin í samvinnu við umsækjanda. Við meðferð umsóknar og ákvarð­ana­töku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eftir því sem unnt er, að öðrum kosti umboðsmann hans ef við á. Umboðsmaður skal framvísa skriflegu umboði.

 

14. gr.

Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum.

Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Hafi starfsmenn kynnst einkahögum umsækjanda eða annarra í starfi sínu er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óviðkomandi nema að fengnu samþykki viðkomandi.

Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að svo miklu leyti sem það stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum.

 

15. gr.

Niðurstaða og rökstuðningur synjunar.

Kynna skal niðurstöðu umsóknar svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan til viðeigandi ákvæða þessara reglna, ásamt skriflegum upplýsingum um rétt til áfrýjunar til fjölskylduráðs, skv. 16. gr. reglnanna. Umsækj­anda skal og kynntur málskotsréttur til úrskurðarnefndar velferðarmála skv. 17. gr. reglnanna, sé hann ósáttur við úrskurð fjölskylduráðs.

Fái umsækjandi sérstakan húsnæðisstuðning, skal gildistíma hans getið í svarbréfi, ásamt mögu­leika umsækjanda til að sækja um áframhaldandi stuðning. Auk þess skal vísað til 17. gr. reglnanna í svar­bréfum til umsækjenda um sérstakan húsnæðisstuðning.

 

16. gr.

Áfrýjun.

Telji umsækjandi á rétt sinn hallað skv. reglum þessum er honum heimilt að vísa ákvörðun um afgreiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings til fjölskylduráðs innan fjögurra vikna frá því honum barst vitneskja um ákvörðun. Fjölskylduráð skal fjalla um umsókn og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er.

 

17. gr.

Málskot.

Umsækjandi getur skotið ákvörðun fjölskylduráðs til úrskurðarnefndar velferðarmála. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun fjölskylduráðs.

 

IV. Upplýsingaskylda, endurskoðun ákvörðunar og endurnýjun umsóknar.

18. gr.

Upplýsingar um aðstæður og endurskoðun greiðslna.

Umsækjandi verður að fullnægja skilyrðum 5. gr. allt það tímabil sem líður frá umsóknardegi og á meðan á greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings stendur.

Verði breytingar á hjúskaparstöðu, tekjum eða öðrum aðstæðum, þannig að handhafi sérstaks húsnæðis­stuðnings uppfylli ekki lengur skilyrði 5. gr., ber honum að tilkynna það félagsþjónustunni. Ef skilyrðum er ekki lengur fullnægt er heimilt að stöðva greiðslur sérstaks húsnæðisstuðnings. Heimilt er að endurkrefja handhafa sérstaks húsnæðisstuðnings um greiddar bætur, komi í ljós að hann hafi leynt upplýs­ingum um framangreindar breytingar.

 

19. gr.

Breytingar á aðstæðum umsækjanda.

Umsækjandi skal upplýsa félagsþjónustuna um breytingar sem verða á aðstæðum hans og áhrif kunna að hafa á fyrirliggjandi mat á þörf á sérstökum húsnæðisstuðningi.

 

20. gr.

Leiðrétting á sérstökum húsnæðisstuðningi.

Hafi fjárhæð sérstaks húsnæðisstuðnings verið hærri en umsækjandi átti rétt til á tilteknu tíma­bili ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var.

Hafi fjárhæð sérstaks húsnæðisstuðnings verið lægri en umsækjandi átti tilkall til á tilteknu tíma­bili ber félagsþjónustunni að greiða þá fjárhæð sem vangreidd var.

 

21. gr.

Endurskoðun.

Rétt til sérstaks húsnæðisstuðnings má endurskoða hvenær sem er og endurreikna fjárhæð hans þannig að upphæð greiðslu verði í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækj­anda og/eða annarra heimilismanna.

 

22. gr.

Rangar eða villandi upplýsingar.

Sérstakur húsnæðisstuðningur sem veittur er á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hálfu umsækj­anda er endurkræfur með sama hætti og gildir um fjárhagsaðstoð, sbr. 23. gr. laga um félags­þjónustu sveitarfélaga.

Ef sannreynt er við meðferð máls að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt eru rangar eða villandi stöðvast afgreiðsla umsóknarinnar á meðan notanda er gefið tækifæri á að leiðrétta eða bæta úr annmörkum.

 

23. gr.

Endurnýjun umsóknar.

Endurnýja skal umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning að jafnaði á sex mánaða fresti en heimilt er vegna langvarandi veikinda og/eða fötlunar að stuðningur sé veittur til eins árs. Við endur­nýjun umsóknar ber að kanna hvort skilyrði og viðmið séu uppfyllt vegna áframhaldandi stuðnings.

 

24. gr.

Endurskoðun á reglum þessum.

Reglur þessar skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en árlega og uppfæra skal eigna- og tekjumörk skv. leiðbeiningum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti jafnóðum og þær berast.

 

V. Húsnæðisstuðningur til foreldra eða forsjáraðila 15-17 ára barna sem
leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum vegna náms fjarri lögheimili.

25. gr.

Almenn ákvæði og viðmið.

Húsnæðisstuðningur til foreldra eða forsjáraðila 15-17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum vegna náms fjarri lögheimili er veittur án tillits til húsnæðisbóta og án þess að fram fari mat á tekjum og eignum.

Stuðningurinn skal ekki fara yfir 50% af húsnæðiskostnaði vegna leigunnar.

Ákvæði 7. gr. þessara reglna eiga ekki við þegar um húsnæðisstuðning til foreldra eða forsjár­aðila 15-17 ára barna er að ræða.

 

26. gr.

Málsmeðferð.

  1. Umsóknir skulu berast á skrifstofu Múlaþings á þar til gerðum eyðublöðum.
  2. Skila þarf inn vottorði frá viðkomandi menntastofnun sem staðfestir nám umsækjanda og að umsækjandi leigi herbergi á heimavist eða námsgarði.
  3. Afgreiða skal umsókn eins fljótt og unnt er eftir að hún berst og skal niðurstaða kynnt umsækjanda.
  4. Sé umsókn hafnað skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan til ákvæða þessara reglna. Jafnframt skal umsækjanda kynntur réttur hans til málskots.
  5. Segi umsækjandi upp leigu eða breyting verði á leigugreiðslu ber að tilkynna það til Félags­þjónustu Múlaþings.

 

27. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar taka þegar gildi.

Samþykkt af sveitarstjórn Múlaþings 9. mars 2022.

 

Múlaþingi, 15. mars 2022.

 

Björn Ingimarsson sveitarstjóri.

 

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 26. apríl 2022