Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 878/2009

Nr. 878/2009 6. október 2009
AUGLÝSING
um búsvæðavernd í Skerjafirði innan bæjarmarka Garðabæjar.

1. gr.

Um friðlýsinguna.

Umhverfisráðherra hefur í samræmi við Náttúruverndaráætlun 2004-2008 og með samþykki Garða­bæjar og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ákveðið að friðlýsa þann hluta Skerjafjarðar sem er innan bæjarmarka Garðabæjar með fjörum ásamt grunnsævi alls um 4,2756 km² (427,56 ha) svæði sem búsvæði, skv. 3. tl. 53. gr. og 54. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Skerja­fjarðar­svæðið er undirstaða að afar fjölbreyttu fuglalífi allan ársins hring og er svæðið mikil­vægur viðkomustaður farfugla og fargesta sem hér hafa viðdvöl á leið sinni til og frá norðlægum varp­slóðum. Fjörur og leirur svæðisins eru lífríkar, þar eru miklar þangfjörur og grunnsævi er með auðugu botndýralífi. Skerjafjarðarsvæðið í heild hefur alþjóðlegt verndargildi vegna fuglategunda, svo sem rauðbrystings og margæsar og einnig er svæðið mikilvægt vegna marhálms, en plantan hefur takmarkaða útbreiðslu hér á landi og er ein aðalfæðutegund margæsar. Fræðslugildi svæðisins er hátt með tilliti til lífríkis og aðgengi að svæðinu er gott, en strandlengjan er vinsæl til útivistar og fjörðurinn til skemmtisiglinga.

Við ákvörðun um friðlýsinguna var höfð hliðsjón af samningnum um vernd villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979) sbr. Stjórnartíðindi C 17/1993, samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó de Janeró 1992) sbr. Stjórnartíðindi C 3/1995 og samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf (Ramsar 1971) sbr. Stjórnartíðindi C 1/1978.

2. gr.

Markmið friðlýsingarinnar.

Markmiðið með friðlýsingunni er að vernda lífríki á strönd, í fjöru og grunnsævi Skerjafjarðar. Einnig er markmið með friðlýsingunni að vernda útivistar- og fræðslugildi svæðisins sem felst í auðugu lífríki og möguleikum til útivistar við ströndina.

3. gr.

Mörk verndarsvæðisins.

Verndarsvæði það sem hér er lýst er hluti af Skerjafjarðarsvæðinu en mörk verndarsvæðisins ná til strandar, fjöru, grunnsævis og sjávarbotns innan marka Garðabæjar, alls 4,2756 km² (427,56 ha). Mörk verndarsvæðisins eru sýnd á meðfylgjandi uppdrætti og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 á uppdrætti. Verndarsvæðið nær ekki til athafna- og byggðasvæða þar með talið einkalóða sem ná í sjó fram.

Skerjafjörður, búsvæðavernd

4. gr.

Umsjón með verndarsvæðinu o.fl.

Umsjón og rekstur verndarsvæðisins skal vera í höndum Garðabæjar í samræmi við samning sveitar­félagsins og Umhverfisstofnunar. Í samningnum, sem umhverfisráðherra staðfestir, skal m.a. kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila, framkvæmdir, landvörslu og fræðslu.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með gerð verndaráætlunar fyrir verndarsvæðið í samráði við Garðabæ, sbr. d-lið 6. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

5. gr.

Umferð á verndarsvæðinu.

Almenningi er heimil för um hið friðlýsta svæði, enda sé gætt góðrar umgengni. Lausaganga hunda er óheimil á svæðinu. Allur akstur vélknúinna farartækja utan vega er óheimill innan svæðisins.

Umferð vélknúinna vatnaleiktækja, s.s. sjókatta á sjó, er óheimil innan svæðisins. Almenn umferð smábáta er heimil eins og verið hefur eftir hefðbundnum siglingaleiðum.

6. gr.

Verndun gróðurs, dýralífs og jarðmyndana.

Óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf á verndarsvæðinu hvort heldur er í fjöru, í sjó eða á hafsbotni. Einnig er óheimilt að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir á verndarsvæðinu. Til að tryggja verndun líffræðilegrar fjölbreytni er óheimilt að stunda fiskeldi eða annað eldi sjávardýra innan verndarsvæðisins. Einnig er dreifing eða slepping framandi tegunda óheimil innan verndarsvæðisins.

7. gr.

Landnotkun og mannvirkjagerð.

Jarðrask á landi, í fjöru eða á hafsbotni og önnur mannvirkjagerð er háð leyfi Garðabæjar og skal vera í samræmi við staðfest skipulag. Leyfi Umhverfisstofnunar þarf til framkvæmda á verndar­svæðinu þar sem hætta er á að spillt verði friðlýstum náttúruminjum, sbr. 38. gr. laga um náttúru­vernd, nr. 44/1999.

Gert er ráð fyrir merktum og stikuðum gönguleiðum og stígum og aðstöðu til náttúruskoðunar og umhverfis­fræðslu í samræmi við staðfest skipulag og samþykkta verndaráætlun.

Áður en ráðist verður í mannvirkjagerð innan verndarsvæðisins skal deiliskipuleggja fyrirhugað fram­kvæmda­svæði.

8. gr.

Veiði og notkun skotvopna.

Notkun skotvopna er bönnuð á svæðinu nema til eyðingar á dýrum sem valda tjóni í samræmi við verndaráætlun og lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994.

Friðlýsing þessi takmarkar ekki möguleika til sjálfbærra fiskveiða á verndarsvæðinu enda valdi slíkt ekki röskun á búsvæðum eða fuglalífi.

9. gr.

Undanþágur.

Umhverfisráðherra getur, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Garðabæjar, veitt heimild til þess að vikið verði frá reglum þessum í einstökum tilfellum.

10. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 75. og 76. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

11. gr.

Gildistaka.

Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 6. október 2009.

Svandís Svavarsdóttir.

Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.

B deild - Útgáfud.: 30. október 2009