Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1140/2014

Nr. 1140/2014 8. desember 2014
SAMÞYKKT
um hænsnahald á Fljótsdalshéraði.

1. gr.

Samþykkt þessi er sett til að tryggja skipulag, stjórn og eftirlit með hænsnahaldi í þéttbýli á Fljótsdalshéraði, koma í veg fyrir ágang á lóðir íbúa og vernda gróður í sveitarfélaginu. Umhverfis- og framkvæmdanefnd fer með búfjárhaldsmál, og þar með hænsnahald, í umboði bæjarstjórnar.

2. gr.

Alifuglahald er óheimilt innan þéttbýlis á Fljótsdalshéraði. Þéttbýli er skilgreint nánar í aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028, sbr. fylgiskjal sem birt er með samþykkt þessari. Hænsnahald er þó heimilt að fengnu sérstöku leyfi sveitarfélagsins og með þeim takmörkunum sem greinir í samþykkt þessari.

3. gr.

Sá sem stunda vill hænsnahald í þéttbýli sbr. 2. gr., skal senda skriflega umsókn til sveitarfélagsins á þar til gerðu eyðublaði. Í umsókninni skal gera grein fyrir fjölda hænsna, sem halda skal, tegund hænsnfugla, hvaða húsnæði sé til umráða og öðru sem máli kann að skipta um öryggi þeirra og vörslu. Umhverfis- og framkvæmdafulltrúi tekur við og afgreiðir umsóknir um leyfi til hænsnahalds í þéttbýli. Hann hefur einnig umboð til að taka á brotum á samþykkt þessari.

4. gr.

Heimilt er hverjum leyfishafa að halda allt að 7 fugla hverju sinni. Þó eru hanar með öllu bannaðir utan lögbýla. Aðeins skal veita leyfi til hænsnahalds á heimili umsækjanda. Óheimilt er að halda alifugla inni í íbúðarhúsnæði. Aðeins er heimilt að veita eitt leyfi til hænsnahalds á hverja sérskráða íbúð með fastanúmeri.

Í sérbýli skal fylgja umsókn um leyfi til hænsnahalds skriflegt samþykki næstu nágranna.

Hænsnahald er óheimilt í fjöleignarhúsum nema fyrir liggi skriflegt leyfi annarra íbúa hússins, sem og samþykki næstu nágranna sbr. 2. mgr.

Hænsnahald er óheimilt í húsnæði í eigu sveitarfélagsins.

5. gr.

Allar lögskipaðar læknismeðferðir á hænsnfuglum skulu framkvæmdar á ábyrgð og kostnað leyfishafa.

6. gr.

Leyfishafi ber einn ábyrgð á því að hann hafi fóður fyrir hænur sínar og skal hann tryggja góða meðferð þeirra og fylgja lögum um velferð dýra nr. 55/2013 og lögum um búfjár­hald nr. 38/2013.

7. gr.

Lausaganga hænsna er bönnuð innan þéttbýlismarka Fljótsdalshéraðs (sjá meðfylgjandi uppdrætti af mörkum þéttbýlis Fljótsdalshéraðs skv. gildandi aðalskipulagi). Ennfremur geta þeir sem fyrir ágangi verða látið handsama hænsnfugla og skulu þeir tilkynna verkstjóra þjónustumiðstöðvar um það tafarlaust. Skal hann strax kanna hver er réttur eigandi að hinum handsömuðu hænsnum og tilkynna honum þegar í stað hvar hænsnin eru. Hafi umráðamaður hænsna ekki fundist eða sinnt fyrirmælum um að sækja hænsni innan tveggja sólarhringa frá tilkynningu er verkstjóra þjónustumiðstöðvarinnar heimilt að láta aflífa hænsnin.

8. gr.

Byggingarleyfi fyrir hænsnakofa er háð gildandi ákvæðum byggingarreglugerðar, með síðari breytingum.

9. gr.

Telji framkvæmda- og þjónustufulltrúi að umsækjandi uppfylli þau skilyrði sem sett eru, skal hann gefa út leyfi til hænsnahalds í þéttbýli. Leyfisveiting til hænsnahalds skuld­bindur þó Fljótsdalshérað aldrei til að útvega leyfishafa aðstöðu til hænsnahaldsins.

Leyfi til hænsnahalds er veitt til ákveðins tíma en er uppsegjanlegt með eins árs fyrirvara miðað við 15. júní ár hvert.

Leyfið er háð gildandi lögum og reglum um búfjárhald eins og þær eru á hverjum tíma og er gefið út á nafn og er ekki framseljanlegt. Sá sem fær leyfi til hænsnahalds samkvæmt samþykkt þessari skal hafa hænsnin í öruggri vörslu og ber hann að öllu leyti ábyrgð á þeim.

10. gr.

Sveitarstjórn er heimilt að innheimta áfallinn kostnað úr hendi umráðamanns samkvæmt gjaldskrá sem sveitarfélagið setur skv. 24. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra.

Í gjaldskránni skal ákveðið handsömunar- og vörslugjald vegna handsömunar hænsn­fugla í vörslu sveitarfélagsins vegna brota á samþykkt þessari.

Við ákvörðun gjalda skal tekið mið af þeim kostnaði sem leiðir af framkvæmd þessarar samþykktar.

11. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum. Með mál út af brotum skal farið samkvæmt ákvæðum laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og skv. 14. gr. laga um búfjárhald nr. 38/2013, með síðari breytingum.

12. gr.

Samþykkt þessi, sem samin er og samþykkt af bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs á fundi 3. desember 2014, staðfestist hér með samkvæmt lögum nr. 38/2013 um búfjárhald, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi og birtast til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 8. desember 2014.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Ólafur Friðriksson.

Rebekka Hilmarsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 22. desember 2014